04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Gunnar J. Friðriksson:

Herra forseti. Mig langar til í sambandi við þá fsp., sem hér liggur fyrir til hæstv. iðnrh. að benda á að það út af fyrir sig mundi ekki leysa vandamál iðnaðarins þó að þessum sjóðum yrði slegið saman. Hér er fyrst og fremst um tvo sjóði að ræða auk viðskiptabankanna. Þar sem hv. fyrirspyrjandi nefndi Iðnaðarbankann, vil ég benda á að hann er aðeins einn af viðskiptabönkum iðnaðarins og alls ekki sá stærsti. Landsbankinn mun vera stærsti iðnaðarbankinn í landinu. Iðnþróunarsjóður lánar fyrst og fremst til samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar, og því miður er það svo, að það hefur ekki verið það mikið af hæfum lánsumsóknum til hans að fé hans nýtist að fullu enn þá. Um Iðnlánasjóð er það að segja, að auk þess að sjá framleiðsluiðnaðinum fyrir lánum hefur hann allan þjónustuiðnaðinn á sinni könnu, sem óhætt er að segja að sé nær óseðjandi þegar höfð er í huga sú gífurlega aukning á allri þjónustu vegna samgöngutækja og ýmissa annarra tækja í sambandi við þá tækniþróun sem hefur átt sér stað.

Það er ekki heldur hægt að draga iðnaðinn í dilka sem útflutningsiðnað og heimamarkaðsiðnað. En eins og fram kom í svari hæstv. iðnrh. er það svo að fyrirtæki, sem eru í útflutningi, framleiða jafnframt fyrir heimamarkað, og með brottfalli aðflutningstolla eða verndartolla er raunverulega ekki hægt að greina á milli.

En svo um þann þriðja sjóð sem hér var nefndur, Iðnrekstrarsjóð, get ég verið sammála fyrirspyrjanda um það, að þar mætti kannske athuga um endurskipulagningu hans, til þess að hann fari ekki inn á starfssvið hinna sjóðanna. En hlutverk hans er mjög sérstætt. M.a. er ætlast til þess að hann veiti styrki og jafnvel gerist eignaraðili að fyrirtækjum. Þess vegna er starfssvið hans svo ólikt hinum, að það væri ákaflega erfitt að setja þá starfsemi undir stjórn hinna sjóðanna. Um útflutningslánasjóðinn er það að segja, að hann er undir beinni stjórn viðskiptabankanna sem fjármagna útflutninginn, þannig að þar er ekki um tvíverknað að ræða, þar er full samvinna við viðskiptabankana um fjármögnun fyrirtækjanna.