04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að taka undir þær áhyggjur sem komu fram í þessari fsp. um að stofnanir til aðstoðar iðnaðinum séu orðvar of margar og þar sé hver silkihúfan upp af annarri. Það kann að vera rétt, að ekki sé hægt að losa stórfé iðnaðinum til ábata við þetta, en kostnaðurinn: hleðst þó upp með hverri nýrri stofnum sem sett er á fót. Það þekkjum við vel og munar um allt.

Annars vil ég varpa fram þeirri spurningu, hvort við gerum ekki nú orðið allt of mikinn mun á útflutningsiðnaði og iðnaði fyrir innlendan markað. Áður fyrr var reginmunur á því, hvort verksmiðja gat aflað erlends gjaldeyris eða ekki. Við þurfum enn á gjaldeyri að halda, en nú hafa orðið þær stórbreytingar á viðskiptaháttum, þ. á m. hér, að tollar hafa lækkað og við höfum haft það fyrir augunum hvernig iðnaðarvörur af svo að segja öllum gerðum hafa streymt inn í landið. Þetta þýðir að mótstöðuafl þess iðnaðar, sem framleiðir fyrst og fremst fyrir innlendan markað, fer að hafa allt að því sömu gjaldeyrisþýðingu og gjaldeyrisöflun beins útflutningsiðnaðar. Hvaða gagn er í því að koma upp góðum iðnaði, sem flytur út vörur og vinnur inn gjaldeyri í þjóðarbúið, ef þeim gjaldeyri er síðan eytt í að kaupa erlendar iðnaðarvörur sem fluttar eru inn og drepa annan iðnað sem fyrir var í landinu. Ég held að það verði að skoða þetta sem eina samhangandi heild. Og ég vil mjög taka undir þau ummæli, sem hafa komið fram hjá ýmsum stjórnmálamönnum á opinberum vettvangi, að sjaldan hefur verið eins mikilvægt fyrir íslendinga að hugsa um þessi mál og kaupa og nota innlendar iðnaðarvörur, en reyna að spara gjaldeyri, ekki aðeins með því að flytja út, heldur líka í sambandi við innflutning á erlendri iðnaðarvöru í samkeppni við iðnað okkar.