04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er sannarlega á ferðinni eitt af meiri háttar vandamálum í okkar starfsemi. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. sé kunnugt, að aðeins á s.l. ári var í sambandi við útgerð, eða breytingu á skipum, lagfæringar, vélaupptektir og margt annað, unnið erlendis fyrir hvorki meira né minna en yfir 600 millj. kr. á núverandi gengi. Og iðnfyrirtækin flest hér á landi eru í svo algjöru rekstrarfjársvelti, að þau geta ekki einu sinni mörg hver sem þjóna bátaflotanum, leyst núna út nauðsynlega hluti. Það vantar mörg hundruð millj. Auk þess skuldar útgerðin þessum þjónustufyrirtækjum, fyrst og fremst vélaverkstæðum og einnig sennilega yfir hálfan milljarð kr. Ef þetta verður ekki leyst á næstu dögum stöðvast margir bátar af því að fyrirtækin geta ekki haldið áfram að veita þjónustuna. Ég held að hæstv. ráðh. hljóti að vera það kunnugt um þetta.

Ég tók til máls vegna þriðja þáttar sérstaklega í fsp., sem hæstv. iðnrh. svaraði með því að lesa stefnuyfirlýsingu í samkomulagi hæstv. ríkisstj. Hvað er hratt unnið þar að lausn málanna til þess að þessi lífsnauðsynlegu þjónustufyrirtæki stöðvist ekki? Það er nákvæmlega sama við hvaða fyrirtæki maður talar í járniðnaðinum í dag. Alltaf er sagt: Ef þú borgar get ég leyst kröfuna út og unnið fyrir þig, en ég hef ekkert rekstrarfé. Ég er með yfirdrátt á hlaupareikningi og í bönkum er enga áheyrn að fá. Í morgunn átti ég tal við einn forstjórann í meiri háttar fyrirtækjunum í járniðnaði og hann sagði mér þetta sama. Ég var að leita eftir þjónustu hjá honum, en hann er gjörsamlega ráðalaus og liggur þó með vörur hér á hafnarbakkanum, sem eru lífsnauðsynlegar fyrir vissa bátastærð, og sumir bátar fara ekki frá bryggju vegna þess að hlutirnir nást ekki út, fara ekki frá bryggju og geta ekki hafið veiðar. Ég vil því vænta þess og ég trúi ekki öðru en að hæstv. iðnrh. geri nú nokkra gangskör að því að leysa bæði úr stofnfjárlánaskorti og einnig rekstrarfjárskorti fyrir iðnaðinn í landinu. Ég veit að hann hlýtur að taka höndunum til í þessu efni og bæta úr mjög alvarlegu ástandi eins og ríkir í dag og hefur ríkt undanfarna daga.