04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

306. mál, auðæfi á eða í íslenskum hafsbotni

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af fyrirspurnum Benedikts Gröndal segja eftirfarandi, sem sumpart er byggt á upplýsingum, sem ég hef aflað mér frá þeim ýmsu aðilum, sem um þessi mál hafa fjallað á vegum ríkisstj. Einkum er hér þó byggt á upplýsingum formanns landgrunnsnefndar, Vilhjálms Lúðvíkssonar, og ráðuneytisstjóra iðnrn., Árna Snævarr.

Á undanförnum árum hafa 25 erlendir aðilar a.m.k. lýst áhuga sínum og lagt fram fyrirspurnir til íslenskra stjórnvalda um leyfi til rannsókna og leitar að olíu og gasi á landgrunni Íslands. Segja má að tvö atvik hafi einkum ýtt á eftir erlendum aðilum í þessu efni. Í fyrsta lagi umr. um að reisa hér á landi olíuhreinsunarstöð og í öðru lagi frétt frá rússneskum vísindaleiðangri haustið 1973 um að setlög, er kynnu að geyma olíu, væru 160 sjómílur norðaustur af landinu. Stutt frásögn af leiðangri þessum barst í árslok 1973 til Rannsóknaráðs ríkisins, en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir af hálfu Rannsóknaráðsins hefur engin frekari grg. borist. Ekkert hefur enn komið fram í rannsóknum á landgrunni Íslands sem bendir til þess að olía eða gas finnist á þeim svæðum íslenska landgrunnsins þar sem nútímatækni leyfir nýtingu þessara auðlinda. Á þeim slóðum, þar sem rússar segjast hafa orðið varir við setlög, er dýpið 9001000 m. Enn sem komið er leyfir tæknin ekki vinnslu jarðefna á svo miklu dýpi. Eftir áratug kann hún að verða kominn á það stig að tæknilega verði unnt að vinna olíu á því dýpi sem er hér við land á þeim svæðum þar sem mestar líkur eru fyrir því að olía eða gas finnist. Fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld ekki veitt nein skuldbindandi svör við fyrirspurnum frá erlendum aðilum um þessi mál. Það hefur ekki enn verið talið tímabært.

Fyrsta fyrirspurnin um hvort íslensk stjórnvöld mundu leyfa leit að ollu og gasi á hafsbotninum á landgrunni Íslands barst í mars 1970 og sú síðasta s.l. sumar. Hér er um 25 aðila að ræða, og í stað þess að lesa nöfn þeirra eða gera grein fyrir þessum aðilum vil ég láta í té skrá yfir þá þeim þm. er þess óska. Þessar fyrirspurnir hafa ekki verið taldar þess eðlis að rétt væri á þessu stigi að þær hlytu jákvæða afgreiðslu. Ég tel þó ástæðu til að gera sérstaka grein fyrir afgreiðslu tveggja fyrirspurna.

1. des. 1970 lagði Shell International í Haag fram umsókn um vísindalega leit að olíu og gasi á hafsbotninum umhverfis Ísland. Með bréfi iðnrn. 10. febr. 1971 var fyrirtækinu heimilað að framkvæma jarðeðlisfræðilegar mælingar á landgrunni Íslands. Aðrar rannsóknir voru ekki leyfðar né heldur vinnsla. Það skilyrði var sett, að niðurstöður rannsókna yrðu sendar íslenskum stjórnvöldum og fulltrúi tilnefndur af íslenska iðnrn. yrði um borð í rannsóknarskipinu. Sérstaklega var tekið fram að rannsóknarheimildin takmarkaðist ekki við hafsvæðið út að 200 m dýptarlínu, heldur giltu íslenskar reglur á öllu nýtanlegu svæði. Rannsóknir Shell fóru fram 6.–8. sept. 1971. Voru mælingar framkvæmdar eftir 350 km langri línu, sem Shell ákvað vestur af landinu. Dr. Guðmundur Pálmason var fulltrúi Íslands um borð í rannsóknarskipinu. Niðurstaða rannsóknanna varð sú, að jarðlög þarna væru svipuð og undir landinu sjálfu og ekki talið líklegt að um olíulindir væri þar að ræða. Kom sú niðurstaða ekki á óvart.

3. jan. 1974 sendi norska fyrirtækið Geoteam Computas, sem er ráðgefandi félag og stundar einungis mælingar og rannsóknir, tilboð um olíuleit við strendur Íslands. Þykir tilboð þetta eitt það athyglisverðasta sem fram hefur komið til þessa. Afstaða hefur ekki verið tekið til þess fremur en annarra tilboða.

Íslensk stjórnvöld hafa á ýmsan hátt undirbúið endanlega stefnumörkun að því er varðar nýtingu auðlinda sem kynnu að finnast á hafsbotninum við landið. 1969 voru sett lög um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninn umhverfis landið. Í þeim dögum kemur fram ákveðin stefnumörkun, m.a. á þann veg að ráðh. getur með reglugerð sett ákvæði um framkvæmd rannsókna á auðæfum landgrunnsins og nýtingu þeirra. Í lögunum eru landgrunninu og þar með yfirráðunum sett þau mörk að þau nái svo langt út frá ströndum landsins sem unnt reynist að nýta auðæfi landgrunnsins. Lögin byggjast sem sé á reglunum um nýtingarmörk sem mótaðar voru á hafréttarráðstefnunni 1958.

Þessar reglur hafa á ýmsan hátt þótt óhagkvæmar, ekki síst vegna þess hve mörkin samkv. þeim eru óljós. Eitt af verkefnum hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir er að móta nýjar reglur í þessu efni. Náist árangur á hafréttarráðstefnunni verður lagður annar mælikvarði á yfirráðasvæðið og það ekki miðað við nýtingarmörk. Á hafréttarráðstefnunni er það stefna Íslands að millivegur verði farinn varðandi yfirráð strandríkis yfir hafsbotninum utan 200 mílna efnahagslögsögu. Stefna íslensku ríkisstj. er sú, að yfirráð okkar yfir auðlindum á hafsbotninum séu sem víðtækust. Það er margt sem bendir til þess að yfirráðin verði viðtækari, eftir að niðurstaða hefur fengist á hafréttarráðstefnunni, en jafnvel segir í landgrunnslögunum frá 1969.

1972 skipaði menntmrn. landgrunnsnefnd svonefnda eða samstarfsnefnd um landgrunnsrannsóknir. Hlutverk n. er:

1) Að skipuleggja og samræma vísindalegar rannsóknir á landgrunni Íslands.

2) Að vera ríkisstj. og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um landgrunnrannsóknir.

3) Að fylgjast með rannsóknum erlendra aðila sem leyfi fá til rannsókna á landgrunni Íslands.

Leit að olíu og jarðgasi á landgrunninu er unnt að skipta í þrjá liði:

1) Jarðeðlisfræðileg frumkönnun, þ.e. staðfesting á tilvist setlaga og könnun á útbreiðslu þeirra.

2) Jarðeðlisfræðilegar setlagarannsóknir, nákvæm skoðun á gerð setlaga og leit að setmyndunum, þar sem hugsanlega gæti safnast olía og jarðgas.

3) Boranir. Bein leit að olíu eða jarðgasi með borunum á líklegum stöðum.

Í samræmi við þetta yrði stefnumörkunin raunar einnig þríþætt miðað við stig rannsókna á hverjum tíma. Stefnumörkunin mundi skýrast koma fram í afstöðu stjórnvalda til tilboða erlendra aðila. Ljóst er, að íslendingar geta ekki einir staðið að þeim kostnaðarsömu undirbúningsrannsóknum sem nauðsynlegar eru.

Dr. Vilhjálmur Lúðvíksson hefur látið í ljós þá skoðun, að á fyrsta stigi teldi hann réttast að íslensk stjórnvöld semdu við öflugt, en óháð fyrirtæki, sérhæft í jarðeðlisfræðilegum botnrannsóknum, til að gera frumkönnun á þeim svæðum sem helst þættu líkleg til að geyma setlög, og könnuð yrði útbreiðsla þeirra, dýpt og eiginleikar í stórum dráttum. Íslenska ríkið þyrfti litlu að kosta til slíkra rannsókna ef upplýsingar yrðu seldar völdum olíufélögum, en fyrir liggur áhugi þeirra á slíkum viðskiptum án skuldbindinga fyrir íslenska ríkið. Að sjálfsögðu yrðu íslenskir sérfræðingar að starfa með slíku könnunarfyrirtæki, hljóta þjálfun í olíu- og gasleitartækni og fylgjast með túlkun og meðferð niðurstaðna. Annað stigið væri nákvæmnisleit, sem er kostnaðarsöm, og verður að fara eftir atvikum um það hvernig hún er framkvæmd. Ef líkur væru taldar góðar mætti framkvæma þær á sama hátt og fyrsta stig, en væntanlega yrðu þau olíufélög, sem borguðu slíkan kostnað, að fá fyrirheit um borunarleyfi ef slíkt leyfi yrði á annað borð veitt. Hér þyrfti því að fara fram könnum á viðkomandi fyrirtækjum og mat yfirvalda á getu þeirra til að taka á sig þær tæknilegu og fjárhagslegu kröfur sem gerðar yrðu við veitingu heimilda til borana. Á þessu stigi er ekki þörf á frekari skuldbindingum ríkisins gagnvart fyrirtækjunum. Á þriðja stigi yrði tæknileg geta til að ljúka borholum og virkja þær að liggja. fyrir. Jafnframt þyrfti að skilgreina tæknilegar kröfur til umbúnaðar borholunnar og skýra fjárhagslega ábyrgð þeirra fyrirtækja sem leyfi fengju til borana, því að slys eins og hafa orðið við stjórnlausa opnun olíulinda á hafsbotni geta valdið tjóni á sjávarlífi, strandlífi og ýmsum efnahagslegum hagsmunum svo að óbætanlegt verði. Á grundvelli slíkrar hættu kæmi að sjálfsögðu til álita hvort yfirleitt ætti nokkurn tíma að leyfa olíuboranir hér við land, þar til löng reynsla yrði fengin á vinnslu á olíu á svipuðu dýpi annars staðar í heiminum og öryggisráðstafanir í því sambandi.

Í sambandi við allan undirbúning íslenskra stjórnvalda eða stofnana hefur athygli einkum beinst til Noregs. Norðmenn hafa að mörgu leyti tekið þannig á olíumálum sínum að til fyrirmyndar er. Hafa þeir smám saman aflað sér tæknilegrar og vísindalegrar þekkingar á þann veg að þeir eru í aðstöðu til að vega og meta mest atriði í sambandi við rannsóknir og vinnslu.

Að tilhlutan iðnrn. komu hingað á s.l. vori tveir sérfræðingar á vegum norska iðnrn. til ráðgjafar um stefnumótun í olíuleitar- og vinnslumálum. Ræddu þeir við ýmsa aðila hér og skýrðu frá reynslu norðmanna. Einnig hefur verið haft samband að Íslands hálfu við Olje directöratet í Stavanger. Hefur komið í ljós að norsk stjórnvöld eru mjög velviljuð í okkar garð og fús til að veita dýrmæta aðstoð. Allt frumkvæði í þessu efni hlýtur þó að sjálfsögðu að koma héðan.

Ég vil geta þess, að í s.l. viku átti ég þess kost að ræða við norska ráðherra um þessi málefni og létu þeir í ljós fullan áhuga og vilja á því að hafa samvinnu við okkur íslendinga og veita okkur allar umbeðnar upplýsingar, taka á móti fulltrúum okkar og sömuleiðis:senda til okkar menn er gætu orðið okkur til leiðbeiningar í þessum efnum.

Öll áform um nýtingu auðlinda, sem kunna að finnast á hafsbotninum og lúta að íslenskri lögsögu, munu byggjast á því meginsjónarmiði að íslendingar hafi stjórn og eftirlit með öllum þáttum rannsókna á fyrstu stigum og vinnslu á síðari stigum, ef auðlindir finnast í kjölfar rannsóknanna. Áhugi þeirra aðila, sem að framan eru taldir, bendir til þess að þeir telji ekki tilgangslaust með öllu að leita fyrir sér á yfirráðasvæði okkar. Ríkisstj. mun beita sér fyrir því að heildarrannsókn fari fram á landgrunni Íslands, svo að gengið sé úr skugga um það með þeirri tækni, sem menn ráða nú yfir, hvaða auðlindir kunna þar að finnast og hvort þar er að finna olíu eða gas. Tækniframfarir við olíuvinnslu eru örar. Sá tími kann að koma fyrr en varir að mikið hafdýpi útiloki ekki lengur vinnslu á þeim svæðum þar sem mestar líkur kunna að vera á, að olía finnist við Ísland. Hins vegar er rétt að vara við allri bjartsýni og leggja áherslu á að varlega sé farið í þessar sakir, um leið og áhersla er enn fremur lögð á það að rannsóknum sé haldið áfram.