04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

313. mál, rannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Spurt er um, hvað líði rannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn. Rannsóknum á þessu virkjunarsvæði er tiltölulega skammt á veg komið. Það, sem gert hefur verið, er m.a. þetta: Lokið er mælingum fyrir yfirlitskort af virkjunarsvæðinu, en kort hafa ekki enn verið teiknuð. Vatnsmælingar hafa verið gerðar að staðaldri í Skjálfandafljóti við Goðafoss. Jarðfræðirannsókn hefur verið gerð á yfirborði svæðisins. En á hinn bóginn er langsamlega mesta rannsóknarverkefninu enn ólokið, það eru jarðboranir og jarðvatnsrannsóknir.

Svo sem til háttar um jarðfræði svæðisins eru miklar boranir nauðsynlegar áður en endanleg hönnun virkjunar við Íshólsvatn yrði framkvæmd. Telur Orkustofnun að taka muni 2–3 sumur að ljúka slíkum rannsóknum þótt vel yrði að þeim unnið.

Þegar Orkustofnun hefur gert samanburð á virkjunarmöguleikum þeim norðanlands sem fyrir liggja, þ.e.a.s. þeim stærstu, Dettifossi, Skjálfandafljóti, Blöndu og Jökulsá í Skagafirði, hefur niðurstaðan orðið sú hjá stofnuninni, að virkjun í Skjálfandafljóti sé ekki svo hagkvæm að ástæða hafi verið til að hraða sérstaklega þeirri rannsókn.

Ég vil svo til viðbótar taka fram að við athugun á virkjunarmöguleikum Skjálfandafljóts, og ég hef reynt að kynna mér það mál nokkuð eftir að ég tók við þessu starfi, kemur m.a. í ljós að sérfræðingum ber mjög á milli um þessa möguleika og hversu álitlegir þeir séu. Það var í jan. 1973 sem Orkustofnunin gaf út skýrslu „Virkjun Skjálfandafljóts“. Það verkfræðifyrirtæki, sem hafði undirbúið þá skýrslu, komst að þeirri niðurstöðu að stofnkostnaður á orkueiningu væri mun hærri en við sambærilegar virkjanir á öðrum vatnasvæðum sem athuguð hafa verið. Virðist ekki ástæða til frekari athugunar með heildarnýtingu fljótsins í huga að sinni. Enn fremur segir sérstaklega varðandi virkjun Skjálfandafljóts við Íshólsvatn:

„Á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir liggja, verður ekki séð, að hagkvæmari virkjun verði gerð á vatnasviði Skjálfandafljóts og ekki er líklegt, að frekari gagnaöflun breyti þessum niðurstöðum.“

Það voru því neikvæðar niðurstöður, sem birtust í þessari skýrslu Orkustofnunar í jan. 1973. En í lok þessa sama árs gerðu tvö fyrirtæki, eitt íslenskt og annað erlent, sameiginlegt þjónustuboð um verkfræðistörf varðandi virkjun við Íshólsvatn, og niðurstöður þeirra við frumathugun voru á allt annan veg. Þar segir m.a.: „Athuganir þær, sem skýrsla þessi gefur til kynna, hafa sýnt, að geysimiklir möguleikar á beislun vatnsorku ern fyrir hendi á svæðinu umhverfis Íshólsvatn.“ Telja þau nauðsynlegt að framkvæma heildarhagkvæmnisathugun á svæðinu.“

Loks er þess að geta, að ein verkfræðistofa enn hefur gert könnun á Skjálfandafljóti og m.a. borið saman þessar áætlanir eða skýrslur, sem ég hef getið um og eru svo ólíkar að niðurstöðu. Þetta verkfræðifyrirtæki, sem skilaði álitsgerð í okt. s.l., kemst að þeirri niðurstöðu um virkjun Skjálfandafljóts við Íshólsvatn, að þarna séu það álitlegir virkjunarmöguleikar að nauðsynlegt sé að rannsaka þá nánar. Svo virðist sem þarna megi reisa miðlungshagkvæma virkjun, þar sem orkuverð grunnorku yrði eitthvað hærra en orkuverð frá Sigöldu.

Það er því ljóst í fyrsta lagi, að rannsóknum við Skjálfandafljót og á þeim virkjunarmöguleikum, sem þar eru fyrir hendi, er skammt á veg komið. Það er ljóst enn fremur að þeim aðilum, sem þegar hafa rannsakað málið, ber mjög á milli um niðurstöður. Ég tel brýna nauðsyn bera til þess að fá nú gagngera athugun á þessum möguleikum og ég get tekið það fram sem mína persónulegu skoðun eftir því sem ég hef getað kynnt mér þessi gögn, að í Skjálfandafljóti virðast vera mjög álitlegir virkjunarmöguleikar.