04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

314. mál, virkjunarrannsóknir á Dettifosssvæðinu

Fyrirspyrjandi (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. til viðbótar þeirri fsp., sem ég mælti fyrir áðan um virkjunarmöguleika í Skjálfandafljóti, hef ég leyft mér á þskj. 95 að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hversu lengi hafa rannsóknir á virkjunarmöguleikum við Dettifoss staðið, hversu miklu fé hefur verið varið til þessara rannsókna og hverjar eru niðurstöður þeirra?“

Á undanförnum árum hefur verið varið miklu fé til rannsókna á virkjunarmöguleikum vatnsafls á Íslandi. Eitt það landssvæði, sem rannsakað hefur verið, er við Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Rannsóknir þessar hafa staðið árum saman. Oft hefur þess heyrst getið, bæði í ræðu og riti, að við Dettifoss væru ákjósanlegir möguleikar til stórvirkjunar.

Eins og öllum er kunnugt eru allar stórar vatnsaflsvirkjanir á landinu staðsettar á því sunnanverðu. Á suðvestanverðu landinu eru einnig öll þau stóriðjuver sem nýta mikið magn raforku. Sú uppbygging, sem á undanförnum árum hefur átt sér stað og er fyrirhuguð á næstunni í byggingu orkuvera og orkufrekra iðnaðarvera, er einn þáttur í byggðamótun, beinir fólki og fjármagni til þéttbýlisins á ákveðnum landshlutum. Þess vegna líta margir á það sem mikilvægt byggðamál, að hinum stærri orkuverum verði dreift um landið og nýtingu orkunnar til iðnaðar og annarra þarfa verði hagað þannig, að til jöfnunar horfi í byggðaþróun landsins.

Hér er ekki staður né stund til að ræða þá möguleika sem stórvirkjun við Dettifoss býður til eflingar atvinnulífi á Norðurlandi. En menn þar fyrir norðan eru sumir orðnir langeygðir eftir framkvæmdum, þykir sem langvarandi rannsóknir án frekari athafna séu sem dúsa upp í óvært barn. Þess vegna er hér spurt um niðurstöður þessara rannsókna.

Vel má drepa á það hér, að þarfir fyrir orkunotkun eru margvíslegar. Ekki er síst ástæða til þess að hyggja að upphitun húsa og hugsanlegri raforkunotkun sem kæmi á móti orkuþörfinni til upphitunar. Í sambandi við það er ástæða til að minna á hversu dreifikerfi rafmagns er vanmegnugt þess að flytja þá raforku um byggðir landsins sem fullnægir þörfum í nútíð og næstu framtíð. Eitt af þeim vandamálum, sem leysa þarf í sambandi við orkumálin, er endurbygging dreifiveitnanna að meira eða minna leyti og til þess þarf miklu meira fjármagn en það sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa yfir að ráða. Þessi fsp. um það, hversu langt sé komið orkurannsóknum eða virkjunarrannsóknum við Dettifoss er fyrst og fremst fram komin til þess að fá almennan fróðleik um það, hvernig að þessum málum hefur verið staðið á undanförnum árum.