04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

86. mál, kaup á Nesstofu

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 94 ber ég fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: „Hefur ríkisstj. ákveðið að nota heimild í fjárl. til að festa kaup á Nesstofu?“

Það verður nú að segjast eins og er, að þessari fsp. hefur þegar að nokkru verið svarað í dagblöðunum, og má vera að það komi að sama gagni, ef rétt er hermt, og því óþarfi að vera að ræða þetta mál hér úr því sem komið er. Ég vek þó athygli á því, að samkv. þingsköpum ber ráðh. að svara fsp. eigi síðar en 8 dögum frá því að fsp. var leyfð. Þessi fsp mín var lögð fram í byrjun des. og var á dagskrá 10. des. og síðan nokkrum sinnum, en ávallt tekin af dagskrá.

Nokkrar ástæður voru til þess að ég spurði um þetta mál á þessum tíma, m.a. sú að heimild til þess að kaupa Nesstofu hefur öðru hverju verið í fjárl. a.m.k. allt frá árinu 1965. Heimildin var í fjárl. 1974, en ekki í fjárlagafrv. fyrir 1975. Þess vegna var fsp. borin fram á þessum tíma, í byrjun des., til þess að fá úr því skorið hvort kaupin yrðu gerð fyrir s.l. áramót. Svo varð ekki, en heimildin til kaupanna var sett í fjárlagafrv. við 3. umr. og samþ. Engu að síður er ástæða til að spyrja um þetta mál nú.

Öðru hverju hafa vaknað upp umr. um þetta mál. Það er starfandi félag áhugamanna um endurreisn Nesstofu, og mikill áhugi er meðal almennings í Seltjarnarneskaupstað og innan bæjarstjórnar þar, að þessu menningarmáli verði hrundið í framkvæmd. Það er ömurlegt að horfa upp á hús, sem hafa merka sögu að geyma, grotna niður og eyðileggjast meðan þjarkað er um verð fyrir slík menningarverðmæti. Það er vonandi ríkisstj. hvatning í þessu máli, að einstaklingur hefur gefið 2 millj. kr. til endurreisnar þessa staðar, í þeirri trú að sjálfsögðu að ríkið kaupi Nesstofu, lagfæri húsakost og komi þar upp safni og rannsóknarstofnunum. Þá ætti það einnig að hvetja til aðgerða, að bæjarstjórn Seltjarnarness hefur uppi áætlanir um ákveðnar stofnanir, sem rísa eiga í grennd við Nesstofu, þar sem um er að ræða t.d. hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð. Fer vel á því, að slíkar stofnanir rísi í grennd við fyrsta landlæknisbústaðinn.

Mér sýnist ekki þörf á lengra máli, herra forseti, með þessari fsp. minni, en vænti nú greiðra og jákvæðra svara.