04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

86. mál, kaup á Nesstofu

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessari fsp. hv. þm. vil ég svara þannig: Ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um að nota heimildina til þess að festa kaup á Nesstofu. Hins vegar hefur málið verið rætt í ríkisstj. og í haust og í vetur hefur verið unnið að undirbúningi að kaupum töluvert mikið starf, og má segja að málið sé komið á það stig nú, að unnt sé að taka ákvörðun um, hvort keypt verði eða ekki keypt, alveg á næstunni.

Ég hef orðið var við áhuga þann, sem hv. fyrirspyrjandi lýsti hér á þessu máli, og alveg sérstaklega þær höfðinglegu gjafir, sem prófessor Jón Steffensen hefur afhent og verja skal til þess að gera við húsið eftir að ríkissjóður hefur eignast það, ef að því ráði verður horfið, sem ég vona að verði. Ég get tekið undir ummæli hv. þm. um minjagildi þessa gamla húss.