04.02.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

80. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Till. þessi var einnig flutt á þinginu 1973–1974 og þá af okkur hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, og hæstv. núv. menntmrh. Ráðh. er af eðlilegum ástæðum ekki flm. nú, en í hans stað kemur hv. 3. þm. Norðurl. v., Páli Pétursson. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að komið verði á fót stofnlánasjóði sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum:`

Í framsöguræðu fyrir máli þessu í fyrra rakti ég helstu ástæðurnar fyrir flutningi till. af þessu tagi. Ég lét þess þá getið, að hún væri fram komin fyrst og fremst vegna eindreginna óska ýmissa þeirra aðila úti á landsbyggðinni, sem átt hefðu í miklum erfiðleikum með að afla fjármagns til kaupa á þessum dýru atvinnutækjum, — atvinnutækjum sem þó verða að teljast nauðsynleg í mörgu tilliti og sum ómissandi varðandi t.d. samgöngur einstakra landshluta. Á það var þá bent, að öll þessi atvinnutæki verða fullkomnari og þar með dýrari með ári hverju og erfiðleikarnir því sífellt meiri að komast yfir þau nema fyrir fjársterka aðila sem sjaldgæfir eru í þeim landshlutum sem við flm. þekkjum til í. Fjármagnið er nær eingöngu fengið með skammtíma víxillánum eða erlendum lánum og er hvort tveggja jafnóaðgengilegt og óhægt að byggja á einvörðungu, auk þá eigin fjár þeirra sem kaupa.

Einhverra úrræða verður að leita til aðstoðar þessum aðilum. Annars verða þessi annars ágætu atvinnutæki eingöngu í eigu stórfyrirtækja og voldugra verktaka, en það yrði ekki hagstætt fyrir þróun þeirra mála sem þessi atvinnutæki snerta. Allra verst yrði þó landsbyggðin úti í þeim efnum. Fólks- og vöruflutningar á landi teljast til hinnar nauðsynlegustu þjónustu í landinu, og stórvirkar vinnuvélar ryðja sér æ viðar til rúms við hvers kyns framkvæmdir. Atvinnurekstur eins og þessi hlýtur að eiga einhvern rétt til ákveðinna stofnlána. Að sjálfsögðu eiga allir okkar höfuðatvinnuvegir aðgang að stofnlánasjóðum, og ekki hefur okkur til hugar komið að varðandi þennan atvinnurekstur gæti komið til fyrirgreiðsla í öllu hliðstæð því sem þeir höfuðatvinnuvegir okkar njóta. Stofnlánasjóður eins og sá, sem hér er verið að fitja upp á, yrði í fyrstu veikur, þótt sérstök fyrirgreiðsla Framkvæmdasjóðs eða annarra aðila kæmi til, og því vart að búast við stórum hlut í byrjun. En svo kunnugur er ég fjárhagsvandræðum margra þeirra sem eiga hlut að máli, að 25–30% lánsfyrirgreiðsla úr stofnlánasjóði með tiltölulega hagstæðum kjörum til langs tíma mundi gerbreyta allri þeirra aðstöðu, þótt auðvitað væri brýn nauðsyn að geta a.m.k. komið til móts við þá í ríkara mæli eða jafnvel allt að helmingi kostnaðar.

Þessi fjárhagsvandræði, sérstaklega manna úti á landsbyggðinni, hafa haft þau áhrif að mjög hefur verið á Byggðasjóð sóttumlánsfyrirgreiðslu og hefur sjóðurinn séð sig til knúinn að koma í sumu til móts við lánsþörf nokkurra þessara aðila, og eigendur stórvirkra vinnuvéla hafa átt þar kost vissrar fyrirgreiðslu, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, m.a. meðmælum sveitarfélaga eða þá ræktunarsambanda. Við flm. teljum, að Byggðasjóður eigi hér aðeins að taka þátt í að hluta og þá sérstaklega þar sem um sérstaka örðugleika er að ræða í rekstri og aðstöðu allri, komi sem sagt inn í dæmið sem hreinn viðbótaraðili til þeirra úti á landsbyggðinni sem örðugast eiga uppdráttar. Að öðru leyti viljum við létta þessu verkefni af Byggðasjóði, sem þrátt fyrir nokkra fjármagnsaukningu hefur nóg önnur verkefni við að glíma.

Sú mótbára hefur heyrst gegn þessari till. og er um margt eðlileg, að nóg sé til af sjóðum á landi hér og lítil ástæða við að bæta. En erfitt mun þó að finna þann sjóð, sem gæti tekið þetta viðbótarverkefni að sér með nokkrum rétti, nema þá Byggðasjóður að óverulegu leyti. Við flm. teljum hins vegar sjálfsagt, að í þessu efni verði sem flestar leiðir kannaðar, t.d. að stofnlánadeild, sem leysti þennan vanda, yrði komið á laggirnar hjá Framkvæmdasjóði ríkisins, — reyndar hef ég heyrt nú síðustu dagana, að þess væri jafnvel að vænta að einhverri slíkri stofnlánadeild yrði þar komið upp og Framkvæmdasjóður kæmi til móts við þarfir þessara aðila, — eða þá að einhverjum ríkisbankanum, sem einnig kemur til greina, yrði falið að sinna þessu viðfangsefni. En okkur sýnist hins vegar engan veginn vansalaust, að eðlileg stofnlán skuli ekki fást til heilbrigðrar og sjálfsagðrar fjárfestingar í þessum tækjum, sem skipta millj. kr. að verðmæti, sérstaklega þegar þess er gætt að þetta eru mikilvæg þjónustutæki mörg hver í þágu almennings.

Fróðir menn um þessi mál hafa bent mér á það, að í raun þyrfti að breyta um leið veðlögum, þannig að atvinnutæki sem þessi yrðu veðhæf að fullu. Það sýnist raunar sjálfsagt sanngirnismál og yrði þá vitanlega breytt, ef af samþykkt till. yrði og henni hrundið eftir einhverjum leiðum í framkvæmd.

Ekki skal, eins og áður er að vikið, nein dul á það dregin, að efst í huga okkar flm. eru þau skilyrði og sú aðstaða, sem fjölmargir aðilar á landsbyggðinni búa við varðandi kaup þessara tækja, og ekkert úr því dregið, að í flestum tilfellum eru lánamöguleikar þeirra í bankakerfinu minni en hér munu vera á höfuðborgarsvæðinu, og gildir það raunar um fleira eða flest.

Ég tek fólksflutningafyrirtækin alveg sérstaklega fyrir. Þýðing þeirra og þjónustustarfsemi er hafin yfir efa í landshlutum okkar flm. Þessi atvinnurekstur er of víða í hættu af þeirri ástæðu að endurnýjun tækjakosts hefur dregist úr hömlu og hann því viða alls ófullnægjandi. Að vísu má segja, að ónógu og slæmu skipulagi þessara mála sé að nokkru um að kenna.

Ég man það held ég rétt, að á þingi 1972 hafi verið samþ. hér á Alþ. till. frá hv. 5. þm. Vesturl., Skúla Alexanderssyni, um bætt skipulag þessa þjónustuþáttar. En um framkvæmd í anda þeirrar till. veit ég ekki og hygg raunar að framkvæmdin sé í algeru lágmarki, svo að ekki sé meira sagt. Skipulag þessara mála í þjónustu fólksins er ekkert smámál og ég hygg að eftir till. Skúla hefðu þau komist í sæmilega framkvæmd. Eftir þeim leiðum, sem hún vísaði til, hefði verið kleift að koma þessum áætlunarferðum í hagfelldara, þægilegra og notadrýgra form fyrir almenning en oft er nú. En til þess þarf tækjakosturinn líka að vera til staðar og hann sem bestur. Þar þarf til að koma einhver sú leið til aðstoðar, sem hér er farið fram á. Ég hef orðið þess var, að sumir líta svo á og óttast það mjög, að stofnun sjóðs sem þessa gæti haft það í för með sér, að stórir verktakar og stór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu mundu óðar gleypa sjóð þennan að mestu, svo sem lengi var t.d. með Iðnlánasjóð að því mér er tjáð. Reyndin gæti því orðíð sú, að þeir, sem við helst bærum fyrir brjósti, sætu eftir með sama vandann, sama lánsfjárskortinn. Þessi hætta kann að vera fyrir hendi, en hún ætti ekki að vera meiri en hjá öðrum slíkum sjóðum. Eins hljótum við að treysta því, að höfuðtilgangurinn verði ekki fyrir borð borinn, en þannig um hnútana búið að þeir, sem örðugasta aðstöðu kunna að hafa, sætu einmitt fyrir þeirri fyrirgreiðslu sem sjóðurinn veitti. Hins vegar er ekki hægt í þáltill. sem þessari að taka ákveðið upp neina algilda úthlutunaraðferð, en því treyst að hún yrði sem réttlátust. Á það skal einnig bent, að ég hygg að þessir umræddu stóru verktakar með sínar stóru bifreiðar og stórvirku vinnuvélar hafi ekki átt við neinn óviðráðanlegan lánsfjárskort að etja, enda verið með fleira í takinu, og ég hygg, að bankadyrnar standi þeim opnar en einhverjum smákörlum úti á landsbyggðinni. Það er því fjarri okkur að ætla að leysa þeirra mál sérstaklega, þvert á móti.

Við flm. leggjum á það áherslu, að vel þurfi að athuga og finna hér heppilega leið til lausnar Við leggjum ekki til neina sérstaka fjáröflun, ákveðna eða skilyrðislausa, en bendum á tvennt sem hvort tveggja hlýtur að koma til skoðunar: annars vegar að Framkvæmdasjóður leggi til ákveðið lánsfé, svo og að til komi gjald frá eigendum þessara atvinnutækja, sem þeir skiluðu til sjóðsins eftir ákveðnum reglum. Verði Framkvæmdasjóði falin þessi aðstoð, þá fellur fyrri leiðin að sjálfsögðu þar inn í. Hitt hlýtur svo að teljast sjálfsagt, enda fetuð þar sama slóð og aðrir stofnlánasjóðir hafa farið. Einnig hefur það verið nefnt við okkur, að eðlilegt gæti talist að ríkissjóður veitti árlegt framlag á fjárl. til þessa sjóðs. En við treystum okkur ekki til að fara fram á það, þótt fordæmi séu fyrir hendi sem auðvelt er á að benda. Um lánaprósentu gerum við engar till. heldur, enda fullsnemmt að taka nokkra ákveðna stefnu þar. Hins vegar ítreka ég enn þá skoðun okkar flm., að ef af stofnun sjóðs sem þessa verður, þá verði hann sem færastur gerður til þess að létta þeim aðstöðuna sem hafa hana erfiðasta, jafnt til kaupa atvinnutækjanna sem til rekstrarins, því að vissulega þyrftu til að koma eðlileg rekstrarlán til þeirra, sem t.d. leysa alvarleg vandamál samgangna og vöruflutninga í einangrun ýmissa afskekktra byggðarlaga. Þjónustuþátturinn í þessum rekstri er okkur fyrir mestu og hann þarf að rækja sem best. Við teljum þetta eina leið að því marki og hana býsna mikilvæga.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn.