14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil strax við 1. umr. þessa máls lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Við höfðum þetta frv. reyndar til meðferðar í sjútvn. þessarar hv. deildar í fyrra og það var fullkomin eining um þetta mál. En eins og hv. 1. flm. benti á var langt liðið á þing og því tókst ekki að afgr. frv. Það kom þá glögglega í ljós t.d. að þáverandi sjútvrh. lýsti sig algerlega fylgjandi þeirri skipan mála sem þarna er ráð fyrir gert. Fjölmargir aðilar, sem leitað var til, eins og hv. flm. benti einnig á, voru þessu mjög meðmæltir. Þó er eins og mig minni að við kvæðu vissar mótbárur, vissar aðvaranir frá Fiskveiðasjóði eða stjórnendum hans í þessu efni um það að þarna yrðu auknar byrðar á hann lagðar, byrðar sem hann réði e.t.v. ekki við. En þarna vantaði okkur allan samanburð við núverandi ástand og það, sem af frambúðarlausn þessari gæti leitt, því að það er ábyggilega rétt, sem tekið var fram hér áðan, að hér er um þjóðhagslega hagkvæma skipan að ræða. Ég þekki vel til erfiðleika ýmissa þeirra, sem eru að kaupa þessi eldri skip, og veit að þeir eiga til fárra að leita og engra fullkomlega öruggra leiða er þar að leita. Ég tek fyllilega undir það einnig að ég er sannfærður um að með þessari skipan mála nýtist okkar fiskiskipafloti betur, og þó að ekkert væri annað en það, þá er það ærin ástæða til þess að koma þessari skipan á.