04.02.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

122. mál, skipan opinberra framkvæmda

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 173 höfum við hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, leyft okkur að flytja till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða rækilega núgildandi lög um skipan opinberra framkvæmda. Sérstakt samráð skal haft við Samband ísl. sveitarfélaga um endurskoðun þessa. Ríkisstj. skal síðan á næsta Alþ. leggja fram lagafrv. um þetta efni í samræmi við þær niðurstöður sem endurskoðunin leiðir í ljós.“

Eins og fram er tekið þegar í grg., er till. þessi ekki fram borin að tilefnislausu. Í fersku minni eru öllum mikil blaðaskrif og umr. út af lögum þeim sem lagt er til að hér verði tekin til endurskoðunar. Hér var um að ræða afar einfalda og smáa framkvæmd á okkar mælikvarða, byggingu læknamóttöku á Breiðdalsvík, en framkvæmd sem hafði þó ómetanlega þýðingu fyrir umrætt byggðarlag. Var þar hjartans mál íbúanna og eðlileg viðbrögð þeirra og sárindi út af þeirri meðferð málsins eru skiljanleg okkur sem til þekkjum. Þessi lög og framkvæmd þeirra komust þar svo sannarlega í sviðsljósið, og þótt ég vilji þar ekki gerast neinn dómari, þá má a.m.k. fullyrða að hjá mér og án efa miklu fleirum hafa vaknað ærið miklar efasemdir um réttmæti ákveðinna lagaákvæða, að ekki sé talað um einstrengingslega framkvæmd þeirra. Jafnhliða því er rétt að taka skýrt fram að þörf lagaákvæða um svo mikilvæg málefni er jafnsjálfsögð engu að síður. En þau ákvæði og framkvæmdin sjálf mega hins vegar ekki stangast á við eðlilegt réttlæti eða skynsemi.

Áður hafði hér á Alþ. verið rifjuð upp grátbrosleg saga um lagaframkvæmd þessa og túlkun kerfisins á lögunum varðandi læknabústað á Hólmavík, — saga sem svipar meira til sagna Münchausens en raunverulegrar staðreyndar í dag. Er dæmi koma upp eins og þessi á Hólmavík og Breiðdalsvik, hljóta að vakna ýmsar spurningar um lagaframkvæmd yfirleitt, þátt Alþingis í þeim, reglugerðarþátt rn. og síðast, en ekki síst, þátt hins margumtalaða kerfis í framkvæmdum okkar og vald ýmissa embættismanna til hliðar við eða ofar valdi sjálfs Alþ. Þessi mál öll ná vitanlega langt út fyrir þessi sérstöku lög og eru svo sannarlega umhugsunarverð í hvívetna, ekki síst fyrir okkur sem eigum að heita löggjafaraðilinn og eigum þar að bera fulla og óskoraða ábyrgð, einnig á allri framkvæmdinni.

Þær raddir gerast æ háværari, einkum úti á landsbyggðinni, að Alþ. sé að verða æ meiri afgreiðslustofnun, ekki fyrir þá ríkisstj. sem situr á hverjum tíma, svo sem oft er þó í raun, heldur fyrir embættismennina, ráðuneytisstjórana og hina ýmsu forstöðumenn einstakra stofnana. Dæmi eins og þau, sem ég nefndi hér í upphafi, styrkja þessa skoðun í hvívetna, og ef grannt er skoðað felst í þessum ásökunum viss sannleikur. Um þetta eru reglugerðirnar hvað skýrast dæmi og um leið alvarlegast, þó svo aldrei nema ráðh. skrifi undir þær í nafni löggjafaraðilans.

Fá eru þau lög, sem sett eru hér á Alþ., öðruvísi en í þeim sé að finna setningu eins og þessa: Nánari ákvæði skulu sett í reglugerð. Reglugerðirnar túlka svo þessi sömu lög oft á allt aðra lund en raunverulegur andi laganna, markmið og meining öll segja til um. Ég átti sæti í n. sem samdi frv. til l. um jöfnun námskostnaðar. Ýmis ákvæði þeirra voru þess eðlis að talið var að nánari skýringar þyrftu að koma í reglugerð. Sum atriði voru felld út úr l. sjálfum, þ.e. nánari ákvörðun um túlkun. N. hafði uppi ákveðnar till. um sumt af því og ég treysti því að reglugerðin mundi þá geyma þær till., en sú varð ekki raunin nema að mjög litlu leyti.

Oft er deilt hér á Alþ. um anda og efni laga, mismunandi skilding sem menn leggja í hin einstöku ákvæði. Um mörg þessara atriða sker úr sú reglugerð sem alls ekki þarf að vera í neinu samræmi við meirihlutavilja eða jafnvel einróma skilning alþm. Það hlýtur því að fara að verða knýjandi nauðsyn að a.m.k. nefndir viðkomandi þingmála eða laga fjalli um og samþykki þær reglugerðir, sem settar eru um hin einstöku lög, eða séu hafðar með í ráðum við setningu reglugerðanna. Nýleg dæmi er að finna varðandi mismunandi skilning á greiðslu olíustyrksins til þeirra sem híta upp með rafmagni, þar sem olíuverð hefur ótvírætt hækkunaráhrif. Um þetta heyrðum við glögglega nokkuð mismunandi túlkun núv. og fyrrv. viðskrh. í umr. í haust, og mér er til efs að enn sé hér að fullu kominn úrskurður. Væntanlega eru það þó embættismennirnir sem þar leggja þá línu sem fylgja á ef ráðh. tekur ekki beint í taumana.

Ég skal ekki eyða lengri tíma í þetta mál. En þó er enginn vafi á því að hér þarf að spyrna við fótum og Alþ. þarf á einhvern hátt að verða virkari aðili að framkvæmd þeirra laga sem það setur. Um hana má aldrei ríkja alræðisvald embættismanna sem geta jafnvel stundað túlkun þeirra að eigin geðþótta, ef þeim þykir það henta.

Þessi lög um skipan opinberra framkvæmda snerta önnur lög sérstaklega sem við setjum ár hvert og eiga að verða vilji Alþ. um framlög til hinna einstöku framkvæmda í landinu í skólamálum, heilbrigðismálum og samgöngumálum, svo að eitthvað sé nefnt, þ.e. sjálf fjárl. Það er að vonum að mönnum þyki ákveðin fjárupphæð á fjárl. hverju sinni lítils virði, ef einhvers staðar í kerfinu okkar, rn. eða stofnunum, er mögulegt með alls kyns brögðum að gera þessar tölur að engu í raun, svo sem um eru dæmi. Þetta eru þó þær tölur sem leggja á til grundvallar fyrst og fremst. Öll viðmiðun við þær á vitanlega að vera réttur mælikvarði á framkvæmdavilja Alþ. Þegar svo þar við bætist að viðkomandi stofnun eða rn. gerir ákveðnar till. til þingsins um fjárveitingar, oft svo seint að fjvn., hvað þá þm. einstakra kjördæma, gefst alls ekki tóm til nógu vandlegrar og rækilegrar íhugunar og breytinga, svo sem við höfum gleggst dæmi frá síðustu fjárlagaafgreiðslu, þá verður enn brýnni nauðsyn á því að tölur fjárl. fái þó að standa óhreyfðar af þessum sömu stofnunum eða embættismannavaldinu í heild.

Svo að ég snúi mér beint að till. sjálfri, þá fer hún í sjálfu sér ekki fram á annað en rækilega endurskoðun laga um opinberar framkvæmdir, endurskoðun sem hlýtur að teljast eðlileg krafa þegar upp hafa komið alvarleg mál varðandi lagatúlkun og framkvæmd og ekki síður í ljósi þeirra staðreynda sem í heild liggja fyrir um löggjöfina sjálfa, vankanta hennar sjálfrar eða nauðsyn nýrra og skýrari ákvæða sem fyrirbyggi ónauðsynlega árekstra og einstrengingshátt í allri framkvæmd. Við flm. erum síður en svo að draga úr eða efa gildi löggjafar sem þessarar í mörgum greinum. Það hef ég áður tekið fram. Í grg. er bent á hverjar voru helstu röksemdirnar fyrir setningu hennar á sínum tíma. Og þær röksemdir eiga fyllsta rétt á sér og eru ekki síður framkvæmdaaðilanum heima fyrir mikilvægar, því að eflaust hefur oft skort á það að undirbúningur allur hafi verið nægilega tryggður í hvívetna. Hins vegar liggur sú staðreynd ljós fyrir, að í verðbólguþjóðfélagi okkar fer því fjarri að nokkrar fjármögnunaráætlanir, hversu vel sem þær hafa verið undirbúnar í byrjun, standist í raunveruleikanum, og aldrei verið fjær því en nú í dag.

En góður undirbúningur verka á ekkert skylt við ýmislegt bað smásmygli, sem mál geta strandað á í kerfinu svo að víkum og mánuðum skipti, þó að ekki sé nú horfið alla leið til Hólmavíkur. Löggjöfin má sem sagt í engu verka sem óeðlilegur hemill á nauðsynlegar framkvæmdir, því síður að ómerkja þær fjárhæðir til framkvæmda sem eru samkv. fjárl. hvers árs og gilda eiga og ráða öllum framkvæmdahraða. Verst er ef þessum einstrengingshætti er beitt gegn minni sveitarfélögunum sem hafa í flestu lakasta aðstöðu til þess að heimta leiðréttingu sinna mála, — ef þau eru beinlínis notuð til að greiða veg einnar framkvæmdar, en hindra aðra, þannig að fjármagni sé ráðstafað meira í eina framkvæmd en ráð var fyrir gert í fjárl. með því að tef ja fyrir og hindra framgang annarra. Ekki er ég að fullyrða að hægt sé að benda á bein dæmi hér um. En um þetta hefur heyrst hörð gagnrýni, m.a. frá sveitarstjórnarmönnum á landsbyggðinni, sem hafa í mörgu slæma sögu að segja í þessum efnum og vilja einmitt fá fram endurskoðun og vissar breytingar á þessum lögum nú. Þannig ályktuðu landshlutasamtök vestra, nyrðra og eystra a.m.k. um þessi mál í haust, að fyllsta ástæða væri til að kanna rækilega hvað er hæft í gagnrýninni og hverju á að breyta í réttlætis- og skynsemisátt. Eigin reynsla af máli þeirra á Breiðdalsvík bendir svo sannarlega til að meira sé hæft í gagnrýni þessari en þeir vilja vera láta sem með mál þessi fara.

Nú er rétt að undirstrika að vissulega á Alþ. hér beina aðild að með þátttöku í n. þeirri sem fer með lagaframkvæmdina, þ.e. form. fjvn. er einn nm. En það breytir engu um skyldu Alþ. að kanna öll þessi mál rækilega og hafa sérstakt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um endurskoðun alla. Þar er um að ræða þann sameiginlega aðila, þ.e. fulltrúa þeirra sem harðast hafa gagnrýnt þessi lög, og mótrök og leiðréttingar ættu þá að koma skýrt fram og síðan yrði að vega það og meta að hve miklu leyti yrði tekið tillit til þess.

Ég hygg að framsögu þessa þurfi ekki að hafa öllu lengri. Löggjöf okkar þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Ný löggjöf þarf sinn tíma til að sannreyna gildi sitt og galla, og nær 5 ár ættu að vera hæfilegur mælikvarði. Því leggjum við nú einmitt til í ljósi hinnar hörðu gagnrýni að löggjöf þessi sé endurskoðuð og á næsta Alþ. verði nýtt endurskoðað lagafrv. lagt fram í þessu efni.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til allshn.