05.02.1975
Neðri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

84. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þarf raunar ekki að hafa hér mörg orð um þetta mál. N. hefur um það fjallað og ekki orðið sammála um afgreiðslu þess frekar en vænta mátti. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl., þeir hv. þm. Magnús T. Ólafsson og Kjartan Ólafsson, leggur til að frv. verði fellt, en gera þó till, um breyt. á því.

Eins og ég sagði hefur þetta mál verið svo mjög rætt að undanförnu, bæði í hv. Ed. og eins hér í d. og raunar í fjölmiðlum, að ég býst ekki við því að mikið nýtt kæmi fram þótt ég reyndi að rekja í löngu máli rök þau sem fyrir því eru að gera þessa breytingu.

Mergurinn málsins er sá, að menn virðast nú um það sammála að Alþ. eigi að kjósa útvarpsráð. Áður hafa verið uppi till. um annan hátt á kosningu útvarpsráðs, m.a. að útvarpshlustendur kysu það með einhverjum hætti, Háskólinn tilnefndi menn o.s.frv. Nú virðast menn hallast að því, að Alþ. eigi að kjósa útvarpsráð, og þá telur meiri hl. rétt að útvarpsráð sé skipað í samræmi við vilja meiri hl. Alþ. á hverjum tíma og þess vegna sé eðlilegt að útvarpsráð sé kosið að afstöðnum Alþingiskosningum. Þetta er það sem við í meiri hl. leggjum til að samþ. verði.

Að því er varðar brtt. hv. minni hl. menntmn., þá veit ég satt að segja ekki hvort á að taka þá till. alvarlega eða hvort hún er einhvers konar grínþáttur í skammdeginu. Mér finnst alveg fáránlegt að engir þeir, sem fullnægja skilyrðum til að vera í Blaðamannafélagi Íslands, megi vera í útvarpsráði. Það eru einmitt margir þeir menn, sem besta aðstöðu hafa til að fylgjast með ýmsum málum og hafa á þeim sérþekkingu. Að leggja til að þeir séu ekki kjörgengir finnst mér fráleitt og skil varla að hv. þm. meini það alvarlega að útiloka eigi þá menn frá kjörgengi. Sama vil ég segja um alla þá menn sem annast, eins og sagt er í till., „kynningarstarfsemi eða upplýsingamiðlun hjá fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum.“ Þar er um að ræða fjölmarga menn í þjóðfélaginu, sem vinna t.d. hjá ASÍ, Vinnuveitendasambandi Íslands og óteljandi opinberum stofnunum og einkastofnunum, sem auðvitað annast meiri og minni upplýsingamiðlun til almennings, en ættu ekki af þeim sökum að vera útilokaðir frá þátttöku í útvarpsráði, það finnst mér fráleitt. Auðvitað er góðra gjalda vert að reyna að komast hjá því að hagsmunaárekstrar verði, eins og um er talað í nál. þessara hv. þm., en þetta finnst mér allt of langt gengið. Það yrðu jafnvel hundruð manna útilokaðir frá þátttöku í útvarpsráði af þessum sökum og í mörgum tilfellum menn sem einmitt hafa sérþekkingu, sem mundi nýtast þeim vel í útvarpsráði, og þau sambönd mundu auðvelda þeim þar störf.

Að tala um ofríkisverk valdhafa og annað í þeim dúrnum í nál. finnst mér líka vera fyrir neðan sæmd tillögumanna. Það er auðvitað ekki um nein ofríkisverk að ræða, En útvarpshlustendur sjálfir meta það hvernig núverandi meiri hl. útvarpsráðs hefur þar haldið á málum. Ég ætla ekki að leggja á það dóm. Það gerir hver og einn sem hefur fylgst með störfum útvarps og sjónvarps síðustu árin. En ég held að sæmd Alþ. væri mest að afgr. nú þetta mál sem allra fyrst og ræða það ekki öllu meira, því að varla kemur margt nýtt nýtilegt fram, þótt umr. séu enn dregnar á langinn.