14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir og stuðning þeirra tveggja hv. þm. sem hafa rætt um þetta mál. Mér kom það ekki á óvart að þeir væru fullir skilnings á þessu máli og okkur greinir ekkert á um það.

Það er að sjálfsögðu rétt, sem hv. 1. landsk. þm. sagði, að Fiskveiðasjóður er nú í meiri vanda en nokkru sinni fyrr. Ég hygg að okkur öllum sé kunnugt um þetta, ekki siður hæstv. sjútvrh. en öðrum. Hv. þm. taldi að það væri gott að fyrir lægju tölulegar upplýsingar um fjárþörf Fiskveiðasjóðs og um það er ég hinum sammála. Hann benti sjálfur á þá eðlilegu leið að hv. sjútvn. gerði ráðstafanir til þess að fá þær upplýsingar. Ég vil taka fram að þó að það séu svona miklir fjárhagserfiðleikar hjá Fiskveiðasjóði við að fullnægja eftirspurn og þörf fyrir lán út á ný skip, þá á ekki, þó að það mál verði óleyst, að mínu viti að láta það tefja framgang þessa frv. vegna þess að á vissan hátt er það jafnþýðingarmikið og Fiskveiðasjóður svari þeim þörfum að veita lán til eldri skipa eins og nýrra skipa. Auðvitað er, að ég hygg, hverfandi fjárhæð sem þarf til lána út á gömul skip eða eldri skip miðað við það sem þarf út á ný skip.

Þetta vildi ég aðeins taka fram. Ég vona að við séum ekki ósammála um þetta og við getum sameinast um það að standa að framgangi þessa frv., þótt ekki verði á næstu mánuðum búið að leysa allan fjárhagsvanda Fiskveiðasjóðs. Það er mál sem við ættum líka að vera og erum líka, vænti ég, sammála um að þarf að leysa, og það er eitt af þeim málum sem núv. hæstv. ríkisstj. er að vinna að.