06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Á þingflokksfundi Alþb. í gærdag var ákveðið að óska eftir því, að umr. gætu farið hér fram á Alþ. í dag utan dagskrár um stöðuna í efnahagsmálum. Og þar sem hér eru nú þegar hafnar umr. utan dagskrár um þessi mál, mun ég nota tækifærið til þess að víkja nokkuð almennt að stöðunni í efnahagsmálum frá sjónarmiði okkar Alþb.-manna, en koma kannske síðar í máli mínu eitthvað svolítið inn á þá sérstöku ræðu, sem var verið að ljúka við að flytja af þeim nýja spámanni sem hefur birst á Alþ. nú nýlega.

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum manni í landinu undanfarna daga, að við allmikinn efnahagsvanda er að glíma, og sérstaklega ætla ég að þeir, sem hlusta eftir máli stjórnarherranna í landinu og þeirra stuðningsblaða, hafi ekki misst af boðskapnum um það, við hvaða vanda sé nú að glíma í íslenskum þjóðmálum. Þeir hafa heyrt frá því skýrt, að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar væri nú uppurinn með öllu og þar væri komið í algert óefni. Þeir hafa heyrt sagt frá því, að gífurlegur taprekstur væri hjá útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, sérstaklega sjávarútvegi, og í þeim efnum hafa verið nefndar hrikalega háar tölur um tapreksturinn. Þeir hafa auðvitað veitt því athygli, að þó að komið sé nokkuð fram í febr., er ekki enn búið að ákveða fiskverð fyrir komandi vetrarvertíð, sem þó á lögum samkv. að ákveða fyrir áramót eða áður en vertíð byrjar. Og svo vita allir landsmenn, að nær allir kaupgjaldssamningar í landinu eru lausir og allmikið rætt um það, að verkföll geti skollið á við sjálf aðalframleiðslustörfin. En þetta hefur sem sagt dunið á okkur nú síðustu daga, fréttir af þessu tagi, þrátt fyrir það að legið hafi fyrir á Alþ., að núv. ríkisstj. gerði tilteknar efnahagsráðstafanir rétt eftir að hún tók við völdum, — ráðstafanir sem hún hélt þá fram að ættu að vera nægjanlegar. Það var ekki annað á hæstv. ríkisstj. að heyra en að hún tryði þessu alveg fram að jólaleyfi alþm. Þá var Alþ. að fjalla um ráðstafanir í efnahagsmálum, einkum til stuðnings sjávarútveginum, og m.a. setja reglur um ráðstöfun á gengishagnaði, og þá fóru hér fram allmiklar umr. um þessi mál og kom ekkert fram frá hálfu ríkisstj. annað en það, að ef þessar aðgerðir væru staðfestar væri málunum borgið.

Síðan gerðist svo það, að ríkisstj. losaði sig við Alþ. alldrjúgan tíma, nokkuð á annan mánuð, og ekki var komið saman hér á Alþ. fyrr en 27. jan. Þá höfðu orðið allmiklar breytingar, eins og nú hefur verið skýrt frá, í ýmsum greinum. Var því fyllilega við því að búast í kjölfar allra þessara umsagna, sem ég hef minnst á, um stöðuna í efnahagsmálum, að hæstv. ríkisstj. kæmi fram með nýjar till. í efnahagsmálum. En á því hefur nú orðið dráttur og einnig varðandi eitt af þýðingarmestu atriðum þessara mála, þ.e.a.s. ákvörðun fiskverðs, svo að vetrarvertíð geti hafist með eðlilegum hætti og lögum samkv. Vitanlega er mjög alvarlegt fyrir sjómenn að ráða sig til skips, vita ekki upp á hvaða launakjör þeir eiga að ráða sig og komið er talsvert fram á vertíðina. Það er líka býsna erfitt fyrir útvegsmenn að hefja af fullum krafti útgerðarrekstur án þess að vita um verð á aflanum, að maður tali nú ekki um þá sem eiga að kaupa þennan afla til verkunar. Þeir vita enn ekkert um á hvaða grundvelli þeir eiga að starfa.

Það er því ekkert um það að villast, að eitt af því nauðsynlegasta, sem fyrir liggur, er að fá ákvörðun á fiskverði, sem hefði átt að vera komin fyrir alllöngu. En nú hefur verið frá því skýrt af þeim, sem einkum hafa með þessi mál að gera, t.d. forustumanni eða formanni í Landssambandi ísl. útvegsmanna, að hann telji og þeir, sem með þessi mál hafa að gera, að það sé ekki hægt að ákveða fiskverð eins og nú standa sakir, vegna þess að það skorti á að fá upplýsingar um hvaða ráðstafanir eigi að koma til hjálpar frá ríkisvaldinu, það sé engin aðstaða til að ganga frá fiskverðinu. Á nær sama tíma sem þessi forsvarsmaður útgerðarinnar skýrir frá þessu, kemur síðan hæstv. forsrh. og segir: Fyrst fiskverðið, síðan munum við athuga um efnahagsráðstafanir af hálfu ríkisins. — Á þessu er vitanlega ekki annað að heyra en þessi mál séu komin í hina mestu sjálfheldu.

Ég vil benda á að það hefur alltaf, að því er ég veit, verið þannig staðið að þessum málum, að fiskverðið hefur verið ákveðið í fullu samráði við stjórnvöld og venjulega á þann hátt, að stjórnvöld hafa orðið að lofa ákveðnum aðgerðum til þess að endar næðust saman í sambandi við ákvörðun á fiskverði. Þetta hefur orðið að gerast allt um sama leyti.

Ég fyrir mitt leyti vil fordæma það, hve mikill dráttur hefur orðið á því að þessu sinni að ákveða fiskverð fyrir vetrarvertíð, og benda á, að það er enginn vafi á því að þessi dráttur er þegar farinn að hafa veruleg áhrif til þess að draga úr framleiðslu þjóðarinnar. Útgerð getur ekki hafist af fullum krafti undir þessum kringumstæðum og gerir það ekki. Ég vil því fyrir mitt leyti beina því til hæstv. forsrh., að hann taki til endurskoðunar fullyrðingar sínar um að það sé ekki hægt frá hans hálfu eða ríkisstj. að segja til um, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hefur í huga, fyrr en fiskverð liggur fyrir. Það er óneitanlegt, að það er eflaust mjög erfitt, eins og nú standa sakir, að ákveða fiskverðið á raunhæfan hátt án þess að beint samstarf sé við stjórnvöld um leið og þessi ákvörðun er tekin. Ég held, að það ætti allra síst að standa á hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, því að það getur ekki verið í hennar hag að tefja það að lausn fáist á þessu þýðingarmikla atriði.

En vitanlega er einnig brýn þörf á því að teknar verði ákvarðanir hið fyrsta af ríkisstj. og Alþ. um óhjákvæmilegar aðgerðir í efnahagsmálum að því er varðar rekstrarafkomu útflutningsatvinnuveganna. Á þessu stigi málsins legg ég engan dóm á það hvernig raunverulega er háttað rekstrarafkomunni. Ég var fyrst nú í dag, rétt um það bil sem þessi fundur byrjaði, að fá þau gögn sem fyrir hafa legið frá Þjóðhagsstofnun um nýja úttekt á rekstrargrundvelli sjávarútvegsins. Þessi gögn fékk ég í hendur fyrir milligöngu hæstv. forsrh. og er þakklátur fyrir að hafa fengið þau. En við í stjórnarandstöðunni hefðum auðvitað átt að vera búnir að fá þessi gögn fyrir nokkru til þess að við hefðum haft aðstöðu til þess að glöggva okkur á því, hver þessi vandi er í raun og veru, eins og hann hefur verið settur á blað nú. Ég efast ekkert um að við allmikinn vanda er að stríða í sambandi við rekstrarmál sjávarútvegsins. En ég tek það með miklum fyrirvara, að sá vandi sé eins og látið er í veðri vaka í sambandi við þær tölur sem settar hafa verið fram.

Það hefur verið skýrt frá því, að reikna megi með að heildartaprekstur á bátaflotanum á einu ári muni nema rúmlega 2 milljörðum kr., heildartaprekstur á togaraflotanum muni nema um 1 milljarði og tapreksturinn á veiðiflotanum alls muni nema um 3 milljörðum kr. Þessar háu tölur segja ekki alla söguna. Það þarf að fá upplýsingar um það, á hvaða grundvelli þessar tölur eru fengnar, með hvaða aflamagni hefur t.d. verið reiknað og með hvaða verðlagi hefur verið reiknað, hvað er að segja um afskriftir, sem reiknaðar eru inn í þetta dæmi, að maður tali nú ekki um hin nýju vaxtaútgjöld. Í þessum efnum vil ég aðeins nefna það á þessu stigi málsins, að afskriftir fyrir sjávarútveginn, sem reiknaðar eru með í þessum nýju upplýsingum, nema 2 661 millj. kr. eða rúmlega 2.6 milljörðum, svo að mjög drjúgur hluti af því tapi, sem hér er um að ræða, eru afskriftir, og um þær má ræða út af fyrir sig. Ég vil einnig benda á að vaxtagreiðslur — og þá er talað aðeins um beinar vaxtagreiðslur, þær sem útgerðarfyrirtækin verða beint að borga, en ekki á óbeinan hátt, en á þann hátt borgar útgerðin líka mikið í vexti, — að vaxtagreiðslur útgerðarinnar eru samkv. þessum reikningum, miðað við eitt ár, rúmlega 2 milljarðar kr. og hafa hækkað við síðustu vaxtahækkun um rúmlega 500 millj. kr. Þarf engan að undra, að taptölurnar fari vaxandi hjá útgerðinni við vaxtahækkun eins og þá sem hefur verið samþ. nú í áföngum.

Ég hef látið þá skoðun í ljós og á eftir að víkja nokkuð að því síðar, að þessi vaxtahækkun hafi verið algerlega röng og aðeins til þess að auka á vandann. En svo eru til nýir spámenn, sem hér hafa nýlega talað, þeir vilja enn þá hærri vexti og boða sérstaklega vaxtahækkun og átelja m.a. vinstri stjórnina fyrir að hafa ekki hækkað vexti. En ég hygg að þeir menn eigi eftir að kynnast ýmsu varðandi þessi mál í veruleikanum, ef þeir þá lífa það nokkurn tíma að snerta veruleikann, að þeir eigi eftir að læra nokkuð af því, hvað það þýðir í raun að ætla að búa við vaxtafót sem kominn er í mjög mörgum tilfellum upp í 24%. En samkv. núgildandi reglum hafa bankar landsins rétt til þess að taka 2% á mánuði eða 24% á ári þegar um vexti af vanskilalánum er að ræða, og þetta er gert nú í mjög stórum stíl. En sem sagt, menn þykjast góðir ef þeir geta búið við það að borga 18% vexti.

Það er enginn vafi á því að mínum dómi, að það er allverulegur vandi fyrir höndum, sem þarf að leysa fyrir okkar sjávarútveg. Ég tel, að þann hátt eigi að hafa á varðandi þessi mál öll, að ríkisstj. sú, sem meiri hl. Alþ. hefur valið sér til framkvæmdastjórnar, eigi að gera grein fyrir till. sínum, leggja þær fram, gjarnan að leita eftir samráði og samstarfi við minni hl. á Alþ., og ég vil lýsa því yfir fyrir hönd okkar Alþb.-manna, að við erum reiðubúnir til samstarfs við ríkisstj. varðandi úrræði í efnahagsmálum. En við teljum, að það sé hinn eðlilegi gangur málsins að ríkisstj., sem til þess hefur verið valin af meiri hl. Alþ. að hafa forstjórn þessara mála með höndum, geri grein fyrir sínum till. og eigi síðan samstarfsviðræður við minni hl. á Alþ. um þessi mál og að sjálfsögðu einnig við þýðingarmikla aðila utan þings, sem láta sig þessi mál miklu skipta. Þetta er hinn eðlilegi gangur málsins. Það er auðvitað hægt að hugsa sér hina leiðina, sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að ríkisstj. gefi þessi mál alveg frá sér og segi við Alþingi: Við ætlum ekki að skipta okkur af þessum málum í bili, nú er best að Alþ. taki við, nú er rétt að fara að halda fundi í fjvn. á nýjan leik, jafnvel að blanda saman fjhn. Nd. og Ed. og fjvn., eins og stungið er upp á, og fara síðan að yfirheyra ráðh. og alla sérfræðinga í þjóðfélaginu og reyna að kanna hvað sé að. Auðvitað er hægt að hugsa sér allan þennan hringleik, og það færi auðvitað afskaplega vel á því að nýir spámenn, sem risið hafa upp, fengju að taka þátt í svona leik. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að þessi mál liggi þannig fyrir að við hér á Alþ. vitum allir nema þá þeir, sem hafa nýlega skotist inn í þingsalinn, — vitum í meginatriðum hver sá vandi er sem við er að glíma. Hins vegar er rétt að taka fram, að það er ekkert nýtt að nokkur ágreiningur sé meðal alþm. og á milli flokka um það, hvernig skuli leysa alvarleg og stór vandamál. Ég er t.d. alveg víss um að við eigum enga samleið saman við að leysa svona mál, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem vill hækka vextina enn meira. Ég vil lækka þá. Ég hef verið á þeirri skoðun að ég vil lækka þá. Ég veit nefnilega vel um hvernig þessir vextir koma út í okkar hagkerfi. Ég veit t.d. mætavel um það, að íslenska verslunin, svo að við tökum hana sem dæmi, skuldar í bönkum landsins rétt í kringum 9 milljarða kr., 9 000 millj. Þetta er samkv. reikningum bankakerfisins. Ég veit að þegar menn hækka vexti, t.d. að meðaltali um 4%, að ég tali nú ekki um þegar menn gera það enn betur, þá er verið varðandi þessa upphæð eina að leggja á verslunina býsna stóra fjárhæð, á milli 300 og 400 millj. kr. á ári, og ég veit af reynslunni að verslunin fær leyfi til að velta þessu af sér út í verðlagið, eins og hún hefur gert að undanförnu. Ég veit líka, að þegar menn hækka vextina við núverandi aðstæður hjá sjávarútveginum um yfir 500 millj. kr. á ári, þá hækka reikningarnir sem Kristján Ragnarsson kemur með og leggur á borðið í sambandi við ákvörðun á fiskverði og aðrir forsvarsmenn útgerðarinnar í landinu. Ég þekki líka hvernig þessir vextir koma, eins og okkar kerfi er, svo að segja sjálfkrafa út í kerfið, birtast m.a. í hærri umsetningartölum og meiri hallarekstri, þar sem hætta er á honum. Ég er sannfærður um að þetta verður ekki til að draga úr vandanum hjá okkur, heldur til að auka hann.

Ég skal ekki við þessar umr. fara út í að rekja það, hvað ég tel að fyrst og fremst eigi að gera til stuðnings okkar útflutningsatvinnuvegum, sjávarútveginum, en þó aðeins drepa á það í örfáum atriðum, hvað ég tel að þar sé brýnast.

Það er skoðun mín að þegar í stað eigi að lækka vexti í landinu. Sú ákvörðun t.d. að hækka stofnlánavexti í Fiskveiðasjóði úr 5%, sem þeir voru í tíð vinstri stjórnar, upp í 9%, sem þeir nú eru, sú ákvörðun var röng, hún bætti ekki úr neinu. Það er skoðun mín, að nú þegar eigi að ákveða fiskverð og gera þar ráð fyrir umtalsverðri fiskverðshækkun. Ég er ekki á þeirri línu, sem Jón Baldvin Hannibalsson er á, að fiskverðið hafi verið spanað upp allt of mikið, eins og hann orðaði það, á árinu 1973, það hafi gætt alveg sérstakrar ógætni á árinu 1973 í því að spana upp fiskverð. Þá hefði kaup sjómanna átt að vera allt of hátt á árinu 1973 að hans dómi og afkoma útgerðar í landinu þá líka allt of góð. Útkoman á árinu 1973 var útgerðinni hagstæð, og að því býr hún nú.

Ég er einmitt á því, að nú þurfi fiskverð að hækka, bæði til þess að mæta vandamáli útgerðarinnar og einnig til þess að við fáum fullan gang í útgerðarreksturinn, þannig að við fáum sjómenn til starfa og köllum ekki yfir okkur þá hættu, sem við stöndum frammi fyrir nú í dag, að það geti orðið sjómannaverkfall vegna óánægju sjómanna með sin kjör. En ég býst við því, að ýmsir segi að það sé lítill vandi að leggja til að fiskverð hækki, til þess þurfi peninga, það er rétt. En það eru margar leiðir til þess, ef menn vilja fara þær leiðir. Ein leiðin er sú m.a. að á tímum eins og þeim, sem nú ganga yfir, eigum við að nota Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og greiða úr honum til viðbótar við það fiskverð, sem við höfum að öðru leyti úr að spila.

Málið er ekki þannig, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson heldur, en veit sýnilega ekkert um, að á árinu 1973 höfum við verið að draga fé út úr verðjöfnunarsjóðnum. Á því ári jókst innistæðufé í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins stórkostlega. Um síðustu áramót var innistæðan í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins rúml. 2.6 milljarðar og hafði stórhækkað á árinu 1973. Nú er eðlilegt að nota þetta fé að nokkru leyti.

En fleira þarf að koma til. Ég er á þeirri skoðun, eins og ég lét koma fram í umr. um þessi mál hér síðustu dagana fyrir jól, að það hafi verið alrangt að hækka framlögin til Stofnlánasjóðs fiskiskipa úr 10% upp í 15%. Þetta álag var of mikið, og það var engin bein þörf á því. Það er rétt að gera sér grein fyrir því, að með þessu lagi var verið að reyna að halda niðri fiskverðinu. En þó að framlagið í stofnfjársjóð hafi áður ekki verið nema 10%, þá var það svo að mikill hluti af veiðiflotanum gat borgað afborganir sínar og vexti með þessum 10%. Sumir gátu það ekki, þetta nægði ekki, og þá vitanlega urðu þeir að borga sínar afborganir og vexti þar umfram.

Það var ekki höfuðvandinn í þeirri stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir að auka á innstreymi fjárins í Fiskveiðasjóð eða í stofnfjársjóðinn hjá Fiskveiðasjóði. Það var ekki höfuðvandamál. Það hefur komið fyrir áður, að það hafi nokkuð skort á að útgerðin greiddi allar afborganir sínar og vexti á viðkomandi rekstrarári, og það hefði ekki verið nein meginhætta þótt það hefði orðið nú.

Ég lét líka koma hér fram þá skoðun mína, að það var röng leið að leggja á jafnmikið gjald og gert var með lögum um ráðstafanir í þágu sjávarútvegs nú rétt fyrir jólin, með því að taka 4% og upp í 5.5% af útflutningsverði og leggja í sérstakan olíuniðurgreiðslusjóð. Það var engin von til þess, að hægt væri að leggja allan þennan skatt á útgerðina, eins og sakir stóðu, og á sjómenn. Þarna gat vitanlega komið til greina að ríkisheildin tæki að sér einhvern hluta af þessari greiðslu. Það er rétt að átta sig á því, að þessi greiðsla í olíuniðurgreiðslusjóðinn jafngildir kringum 12% af fiskverði. Það voru um 12% af fiskverði sem hurfu í þetta. Það er mín skoðun líka, að það hefði frekar átt að minnka framlagið í vátryggingarsjóð fiskiskipa, en ekki auka það, eins og gert var. Hefði svo illa farið, að vátryggingasjóðurinn hefði ekki staðið undir sínum útgjöldum á næsta ári, þá hefði annað hvort átt að myndast þar skuldahali, eins og við höfum reyndar búið við æði oft áður, eða þá að ríkið hefði þar hlaupið undir bagga. Við þurftum á því að halda nú að halda fiskverði uppi, útgerðarinnar vegna og vegna þess að við þurfum að hafa fullan þunga á með gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið.

Ég vil einnig benda á að um það hafði verið rætt og till. fluttar um það í tíð fyrrv. ríkisstj., og á þeim tíma hafði stjórnarandstaðan einnig verið með sams konar till., að það væri hægt að draga úr rekstrargjöldum ríkisins sem næmi í kringum 1500 millj. kr. á ári. Ég álít, að það hefði fyllilega verið ástæða til að reyna að fara þessa leið, eins og nú er komið, og skapa þannig svigrúm til þess að ríkið hefði getað tekið eitthvað á sig af þessum sérstaka vanda útflutningsatvinnuveganna.

Varðandi vandamál togaranna hef ég lengi haldið því fram, þótt ekki næðist um það samkomulag, að það væri einstaklega skammsýn stefna, sem gerði ráð fyrir því að taka hvorki meira né minna en 20% af aflaverðmæti togaranna til tryggingar greiðslum þeirra á afborgunum og vöxtum, og þetta rennur til Ríkisábyrgðasjóðs og Fiskveiðasjóðs. Það eru tekin 20% af aflaverðmæti skipanna við hverja löndun þeirra. Þau þeirra, sem afla sæmilega, verða að leggja fram á þennan hátt mun meira fé en sem nemur afborgunum og vöxtum. En ég er á þeirri skoðun, að í árferði eins og þessu hefði ekkert gert til þó að þessi skylda hefði verið færð niður í 12–15% jafnvel þó að í nokkrum tilfellum hefði orðið um einhvern skuldahala að ræða hjá Ríkisábyrgðasjóði, sem hefði þá þurft að bæta upp aftur síðar. Þessi krafa hins opinbera hefur verið allt of stíf og hún fær ekki staðist, enda er gefið mál, miðað við þróun, að aldrei mundi verða reynt að halda uppi þessari vitleysu nema allra fyrstu árin. Síðan mundu menn verða að lækka þessi 20%. Það er engin ástæða til að búast við því, að það þurfi að taka 20% á ári í vexti og afborganir nema menn hækki vextina alveg úr hófi fram, það þurfi að gera það af umsetningu skipanna um langan tíma fram á við.

Ég vil svo um þessi mál aðeins segja það, að ég tel að það æskilega væri að hæstv. ríkisstj. kæmi hið allra fyrsta fram með till. sínar um ráðstafanir fyrir t.d. sjávarútveginn og hún leitaði eftir samráði og samstarfi við minnihlutaflokkanna á Alþ. til þess að reyna að fá sem sterkasta samstöðu um það sem gera þarf í þessum efnum. Við Alþb.- menn erum reiðubúnir til að taka þátt í slíku samstarfi. Við hinu er svo að mínum dómi ekkert að segja, það er aðeins hinn eðlilegi gangur málsins, að því leyti til sem flokkana greinir á um leiðir hvernig á að leysa vandann, fjárhagslegan vanda, þá á það að koma skýrt og greinilega fram.

Auk þess, sem ég hef hér minnst á, er sá vandi sem oft hefur verið rætt um síðustu dagana, sá vandi sem upp hefur komið við að gjaldeyrisvarasjóðurinn er raunverulega þrotinn. Ég tel að það sé í rauninni ekki hægt fyrir ríkisstj. að bíða lengur en orðið er með ráðstafanir í þeim efnum. Það er þegar farið að taka upp gjaldeyrisskömmtun. Það er þegar byrjað á haftapólitík, hvað svo sem menn kalla það í vissum blöðum. Það er ekki lengur hægt að fara inn í bankana með lögskylda pappíra og fá gjaldeyri sinn afgreiddan samkv. þar til settum reglum. Gjaldeyrisbeiðnirnar eru allar teknar og lagðar til hliðar, og það er vitað mál að gjaldeyrisbeiðnir í sambandi við tiltekinn innflutning eru lagðar til lengri geymslu út á borðshorn og menn fá ekki afgreiðslu. Þessi skömmtun er því þegar byrjuð, vegna þess að það er enginn gjaldeyrir að ráði til í gjaldeyriskassanum.

Það er því full þörf á því að bregðast við þessum vanda og bregðast við honum strax, gera ráðstafanir til þess að hagnýta gjaldeyri betur, spara það sem hægt er að spara. Þar koma að sjálfsögðu upp ákveðnar, stórar spurningar sem menn verða að svara. Eigum við t.d. að heimila áfram, miðað við þessa stöðu, jafnhömlulausa afgreiðslu á gjaldeyri til bílainnflutnings í landið og við gerðum á s.l. ári? Á að hafa þetta nákvæmlega jafnopið og það var? Eigum við aftur að eyða yfir 3 milljörðum kr. í bílainnflutning á einu ári? Ég veit, að þeir menn eru til sem segja: Það á ekki að hreyfa við þessu, þetta á að vera óbreytt. Það má ekki leggja hér neinar hömlur á. Það á ekki að fara að taka upp höft. — Ég er á þeirri skoðun og við Alþb: menn, að það verði ekki undan því vikist, miðað við þá stöðu sem við höfum í dag, að leggja hér á nokkrar hömlur. Þær geta orðið með ýmsum hætti. Við þurfum að gera ráðstafanir til þess að nota miklum mun minna en við höfum gert af okkar gjaldeyri til bilainnflutnings á þessu nýbyrjaða ári

Líka kemur upp spurningin um það: Eigum við að eyða jafnmiklu af okkar takmarkaða gjaldeyri til ferðalaga eins og var á s.l. ári, þegar talið var að við hefðum eytt 1760 millj. kr. í beinan ferðagjaldeyri? Það er enginn vafi á því, að hægt er að draga úr þessari eyðslu. Spurningin er aðeins sú: Telja menn það óhjákvæmilegt? Vilja þeir taka þátt í því og með hvaða hætti?

Þannig mætti tilnefna miklu fleira. En ég veit, að það er grundvallarskoðanamunur á milli manna og flokka varðandi þessi mál. Þeir eru til, sem segja ósköp einfaldlega, sérstaklega þeir sem krýna sig með heitinu hagfræðingar eða einhverjir hagspekingar, — þeir segja ósköp einfaldlega: Kaupmátturinn í landinu er of mikill, færum allan kaupmáttinn jafnt niður, jafnt gagnvart bilum og brýnustu nauðsynjum. Eitt skal yfir alla ganga. Þetta verður best gert með almennri gengislækkun og þetta heitir frelsi. Ég veit, að það er hægt að fara þessa leið. Ég fyrir mitt leyti, miðað við þá aðstöðu sem við búum við í dag, er ég á móti þessari leið. Ég tel hana ranga og ég tel hana ósanngjarna. Og ég er alveg sannfærður um að hvert það heimili í landinu, sem hefði staðið frammi fyrir eitthvað svipuðum vandamálum eins og okkar þjóðarbú stendur frammi fyrir í dag, mundi taka öðruvísi á þessum málum. Þeir, sem hefðu hugsað sér að kaupa sér nýjan bíl til viðbótar við einn eða tvo, sem fyrir voru á heimilinu, hefðu frestað bílakaupum og þeir hefðu kannske frestað því líka að fara til sólarlanda og eyða þar miklum gjaldeyri. En það er ekki víst, að þeir hefðu samþykkt á þessu heimili að færa mjög mikið niður útgjöld sín í sambandi við brýnustu lífsnauðsynjar. Það er ekki víst, að þeir hefðu treyst sér til þess að draga verulega úr hitunarkostnaði húsa sinna eða úr rafmagnsnotkun til heimilisþarfa eða úr kaupum á öðrum brýnustu nauðsynjum.

Þegar við stöndum frammi fyrir vanda af þessu tagi, álít ég að hér eigi að gera nokkurn mismun á. Hins vegar er rétt að þetta má gera með mismunandi aðferðum. En að gera ekki neitt, láta þetta reka í reiðuleysi, eins og hefur verið og er nú, það er vitanlega ekki afsakanlegt. Ég get ekki skilið að hæstv. ríkisstj. treysti sér til að sitja undir þessu í marga daga enn án þess að koma með sínar till. Það er a.m.k. alveg þýðingarlaust að halda því fram, að menn láti allt bíða vegna þess að þeir séu að forðast að taka upp hömlur. Hömlurnar eru þegar teknar upp og það er þegar farið að mismuna í sambandi við gjaldeyrisafgreiðslurnar í bönkunum, hvort er verið að biðja um gjaldeyri fyrir brýnar rekstrarvörur eða fyrir ýmsar „kapítal“-vörur. Það er þegar farið að mismuna í þessum efnum.

Eins og áður er að vikið í þessum umr. hafa þegar komið hér fram hugmyndir frá Samtökum frjálslyndra og vinstri manna um tiltekin vinnubrögð í sambandi við lausn þessara mála. Ég tel þær hugmyndir ekki sérlega aðlaðandi og ekki líklegar til þess að þær leysi neitt með þeim hraða, sem þarf nú að verða á. Ég hef því verið að benda á aðrar leiðir. Mér finnst það bein skylda ríkisstj. að koma með sínar till., ekki endilega sem fullbúnar till., sem lagðar eru fyrir Alþ. Það hefur áður verið farin sú leið, að ríkisstj. komi með þær till. og ræði við flokkana á Alþ. um hugmyndir sínar og leiti eftir sem breiðastri samstöðu um úrlausnarleiðir, og ég fyrir mitt leyti mæli með því. Eins og ég hef sagt áður, erum við Alþb-menn reiðubúnir til að taka þátt í slíkum umr. við stjórnarflokkana og leita eftir sem breiðastri samstöðu.

En það er augljóst, að um leið og verður farið að vinna þannig að málunum, þá þarf auðvitað að gera sér fulla grein fyrir því, í hverju vandinn er fólginn sem við er að glíma. Ég hef alloft sagt þegar þessi mál hafa verið rædd, að ég álít að menn eigi að varast að vera að skrökva að sjálfum sér eða þjóðinni um þann vanda sem við er að glíma, hann er nægilega mikill samt. Það er t.d. reginfjarstæða, sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að nú sé þetta allt saman gersamlega komið um koll. Ég álít, að því fari víðs fjarri. Ég álit, að þó að vandinn sé býsna mikill í ýmsum greinum, höfum við mjög góða aðstöðu á margan hátt til þess að snúast við þessum vanda og leysa hann. Við höfum m.a. þá góðu aðstöðu, að við notuðum okkur góðærið á árinu 1973, þegar hann vildi fara samdráttarleiðina eins og hann lýsti hér, — við notuðum það til að byggja upp okkar undirstöðuatvinnuvegi. Við notuðum þetta góðæri til þess að eignast sérstaklega afkastamikinn og góðan fiskiskipastól, þann fiskiskipastól sem stendur upp úr í dag og er orðinn einn þýðingarmesti liðurinn í framleiðslukeðju okkar. Það er engin tilviljun, að einmitt þar sem hinir minni skuttogarar eru, þar er afkoma frystihúsanna í landinu nú langsamlega best, og þar sem eitthvað hefur tekist að ráði að þoka áfram framkvæmdum í endurbótum í frystihúsakerfinu í landinu, þar er afkoman allt önnur en hjá hinum sem búa við gamla lagið. Þeir fjármunir, sem við vörðum á þessum árum til fiskiskipakaupa og endurnýjunar á okkar fiskiskipastól, og þá ekki síst hvernig við dreifðum þessum flota til þess að hagnýta það vinnuafl, sem var ekki fullnýtt fyrir, og sömuleiðis endurbyggingin í fiskiðnaðinum, það er þetta sem gerir að verkum, að hv. þm. þarf sérstaklega að tilnefna mig, þann versta af öllum vondum í fyrri stjórn, því að á þessu ber ég auðvitað meiri ábyrgð en nokkur annar maður, það er rétt. En mér er heldur ekkert nýtt að heyra frá ýmsum aðilum, að það hafi verið voðalegt hvað við eyddum miklum peningum til kaupa á þessum tækjum, m.a. af því líklega, að þeir höfðu ekki fengið þá nægilega mikla peninga til að kaupa inn bíla eða eitthvað annað. Ég er ekki í neinum vafa um að það er einmitt á þessum ráðstöfunum sem við byggjum okkar viðnám nú við þeim vanda, sem við stöndum frammi fyrir

Það var einstaklega fróðlegt að hlusta á ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar með tilliti til þess, í hvaða flokk hann hefur skipað mér nú þessa stundina. Það hlýtur að hafa verið ákaflega skemmtilegt fyrir hv. þm. Magnús T. Ólafsson, sem er þó annar helmingurinn af þeim þingflokki, sem Jón Baldvin Hannibalsson var að tala fyrir, að hlusta á ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar, en meginhlutinn í ræðu hans var einn refsilestur um vinstri stjórnina. Það var vinstri stjórnin sem gerði allt illt, það var hún sem hleypti öllu í vanda, m.a. með því, eins og hann tilgreindi, að hemja ekki betur en raun varð á fiskverðið til sjómanna á árinu 1973 og m.a. með því að hækka ekki vexti, það skyldi dragast alla leið fram á árið 1974, að það næði fram að ganga. Og í allri upptalningunni fengum við það til viðbótar, að auðvitað hefðum við átt að semja við verkalýðshreyfinguna um að halda aftur á bak þetta ár, en ekki áfram. Hann er kannske maður til þess að ná slíkum samningum við verkalýðshreyfinguna og um það að halda niðri fiskverði og kjörum sjómanna. En fram til þessa eru störf hans ekki ýkjastór á því sviði.

Já, það átti að framkvæma, sagði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, niðurskurð á verklegum framkvæmdum, því að eins og hann segir: Nú stendur fyrir dyrum alger niðurskurður á verklegum framkvæmdum. — Það er heldur betur boðskapur sem þessi nýi spámaður hefur að flytja. Hann sem sagt kemur hingað inn á Alþingi til að segja mönnum það og berst það þá vestur í hans kjördæmi, að nú standi fyrir dyrum að skera niður allar verklegar framkvæmdir. Þetta er það sem hann vildi án efa gera. Þetta er það sem hann er að boða.

Það er auðvitað ekkert um það að villast, að það hefur sannast með þessari ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem margir vissu áður, að hann var andstæðingur vinstri stjórnarinnar allan þann tíma, sem hún starfaði, þó að hann skriði á seinustu stundu upp í þann bát, sem hann skreið upp í við framboðið síðasta, til þess kannske að fá að sleppa eina dagstund inn á Alþ. og flytja ræðu af þessu tagi. Hann hefur auðvitað verið andstæðingur þeirrar stjórnar allan tímann og mér sýnist, að hann sómi sér tiltölulega vel, t.d. í sameiginlegu liði þeirra Alþfl.-manna eða a.m.k. Gylfa Þ. Gíslasonar, — ég held ekki með öllum Alþfl., — Gylfa, enda vitnaði hann í hann sem hinn ágætasta mann í þessum efnum, og svo í hópi sjálfstæðismanna, því að þetta var boðskapur þeirra í meginatriðum. Hann talaði um tímabil vinstri stjórnarinnar sem veisluna miklu og algera efnahagslega óstjórn, sú stjórn hefði hleypt öllu í algert þrot.

Það er ekki mikil þörf á því að mínum dómi að eyða hér löngu máli í ræðu þessa hv. nýja þm., sem er hér á þingi nú, og nýja spámanns. Ég held, að hann hafi sannað það svo greinilega að ekki verður um villst, að hann á ekki heima í hópi þeirra, sem kenna sig við sósíalisma. Það var líka mjög greinilegt, að það orð fór talsvert í taugarnar á honum, og ég trúi því ekki, að hann eigi mjög langa setu á þingi fyrir þann flokk sem hann er þó fyrir nú í bili, nema þá menn hafi allar mögulegar skoðanir á öllum málefnum í þessum litla flokki og þeir geti gert það.

Að lokum vil ég svo aðeins segja það, að ég tel alveg fráleitt, að það dragist öllu lengur að ákveða fiskverð. Hins vegar tek ég undir það, að ríkisstj. verður að aðstoða við ákvörðun fiskverðs með því að skýra frá því til hvaða ráðstafana hún hyggst grípa í efnahagsmálum. Ég legg einnig áherslu á það, að ríkisstj. leggi þegar í stað fram, a.m.k. við þingflokkana hér á Alþ., till. sínar eða hugmyndir um aðgerðir varðandi gjaldeyrismálin og varðandi stuðning við atvinnuvegina. Og ég ítreka það, að við Alþb.-menn erum reiðubúnir til samstarfs í þessum efnum. Að sjálfsögðu verður þessum ráðstöfunum að fylgja það, að jafnhliða sé hugað að því að ná eðlilegu samkomulagi við verkalýðssamtökin í landinu, jöfnum höndum um sjómannakjörin og um kaup láglaunafólks í landinu og þá verðtryggingu, sem lægstu launin verða að hafa í sambandi við kaupmátt gagnvart lífsnauðsynjum. Það verður að finna lausn á því atriði um leið. Ríkisstj. getur ekki öllu lengur látið þessi mál reka í slíku reiðuleysi sem þau hafa nú verið um sinn. Hún verður að gera grein fyrir afstöðu sinni til mála.