06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessar umr. hófust með því að rætt var um ýmis formsatriði varðandi meðferð efnahagsmála hjá hæstv. ríkisstj, og hér á Alþ. Síðan hafa þær orðið að eins konar innbyrðis uppgjöri milli tveggja af þeim aðilum, sem stóðu að síðustu ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, og skal ég síst af öllu hafa nein afskipti af þeim skemmtilega sjónarleik. En að lokum hafa þær orðið almennar efnisumr. um ástand og horfur í efnahagsmálum. Það er ekki beinlínis góður vitnisburður um starfshætti á Alþ., þegar fyrstu eldhúsumr. um efnahagsmál ber þannig að, að þær koma svo að segja óvænt og utan dagskrár.

Stjórnaranastöðuflokkarnir hafa undanfarið óskað eftir upplýsingum frá Þjóðhagsstofnuninni um það, hvernig sú stofnun telur að málum sé komið í efnahagslífinu, og fengum við fyrstu sendingu af þeim upplýsingum nú í byrjun þessa fundar, eins og hv. síðasti ræðumaður skýrði frá. Erum við að sjálfsögðu þakklátir fyrir. En það hefur komið í ljós í þessum umr., að sumir aðilar þurfa ekki á neinum slíkum skýrslum að halda, heldur geta hellt sér út í umr. um efnahagsmálin og hafa fyrir fram ákveðnar skoðanir á þeim. Ég skil því ekki, hvers vegna þeir eru að biðja um skýrslurnar þegar þeir þurfa ekki á þeim að halda. Það er svo fróðlegt að heyra, að þessir sömu aðilar, t.d. síðasti ræðumaður, fordæma hástöfum ástand og aðgerðir, sem þeir létu viðgangast og blómgast í sinni eigin ráðherratíð, þegar hann var viðskrh. og gjaldeyrismálaráðherra þjóðarinnar. En það er hans mál.

Alþfl. hefur undanfarið reynt að afla sér margvíslegra upplýsinga um þessi mál og leitað þar víða til fanga, þ. á m. haft náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og frétt af þeim umr. og upplýsingum sem hún hefur fengið í viðræðum við atvinnurekendur og ríkisvald. Engu að síður óskum við eftir að fá að athuga þær upplýsingar, sem nú loks hafa verið lagðar fyrir stjórnarandstöðuflokkana, og láta frá okkur heyra um þær skýrslur þegar okkur hefur gefist tóm til að athuga þær og ræða. Það teljum við vera eðlileg vinnubrögð.

Hitt er að sjálfsögðu ljóst, að í grundvallaratriðum hefur Alþfl. ákveðna stefnu í þessum málum, þegar lítið er á heildina. Ég vil þar í fyrsta lagi geta þess, að við höfum viðurkennt að við mjög mikinn og alvarlegan vanda í efnahagsmálum er að stríða. Það þýðir ekki að streitast við og reyna að draga óþarflega úr því, þó að sjálfsagt sé rétt að athuga af gagnrýni skýrslur, sem hagfræðingar eða stofnanir gera, og þá ekki síst þær skýrslur, sem atvinnurekendur flytja sjálfir um afkomu fyrirtækja sinna. Í framhaldi af þessu viðurkennum við, að það muni vera óhjákvæmilegt að gerðar verði áhrifaríkar efnahagsaðgerðir. En við erum þeirrar skoðunar, að þær geti ekki dregist lengi. Í þriðja lagi styðjum við varnarbaráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir hönd láglaunafólks, ellilífeyrisþega og annarra sem við verst kjör búa við þær aðstæður sem nú eru í efnahagskerfinu. Það er viðurkennt af forustumönnum alþýðusamtakanna sjálfum, að eins og sakir standa í dag geti varla verið um meira en varnarbaráttu að ræða, baráttu til að reyna að halda því, sem náðist fyrir skömmu.

Alþfl. vill að sjálfsögðu sem grundvallaratriði og sem stjórnarandstöðuflokkur leitast við að veita bæði ríkisstj. og atvinnurekendum ýtrasta aðhald, til þess að þær álögur, sem virðast óhjákvæmilegar, verði ekki þyngri en hægt er framast að komast af með. Og loks erum við ávallt reiðubúnir til samstarfs og viðræðna við aðra aðila um ábyrga lausn á vandamálum eins og efnahagsmálunum og þá helst lausnir sem gætu orðið til einhverrar frambúðar.

Þegar Alþ. kom saman fyrir tæplega tveim vikum, eftir alllangt starfshlé, var ljóst að þjóðin stendur nú frammi fyrir hrikalegum efnahagsvanda og það miklum mun alvarlegri vanda en þjóðinni var sagt þegar fjárl. voru afgreidd og þingstörfum lauk fyrir jól. Það verður að teljast í hæsta máta grunsamlegt, að efnahagsstofnanir og sérfræðinga þjóðarinnar hafi um miðjan des. ekki verið farið að gruna hvert stefndi eða hvert komið væri efnahagsvanda þjóðarinnar. Það er alveg útilokað, að Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og aðrar slíkar stofnanir hafi ekki getað lesið það úr þróun talna og öðrum upplýsingum, sem þeir hafa, hvað var að gerast og hvað var fram undan á næsta leiti. Með tilliti til þessa verður að fordæma það, að Alþ. skyldi undir forustu ríkisstj. starfa í des., afgreiða efnahagsfrv. og sérstaklega fjárl., rétt eins og allt væri í lagi eftir þær takmörkuðu ráðstafanir, sem gerðar voru í fyrrasumar. Og það er rétt að gera sér grein fyrir, hversu stórbrotið met það er, að fjárlög upp á 45 milljarða skuli vera orðin svo úrelt 6–7 vikna gömul að það verði að byrja algerlega upp á nýtt og gerbreyta þeim. Það hygg ég að hafi aldrei komið fyrir í sögu okkar, og hefur þó ýmislegt gerst hjá okkur á þessu sviði.

Öll þjóðin veit nú í stórum dráttum, hvernig komið er í efnahagsmálum. Blöð og útvarp hafa gert skyldu sina og flutt allar þær upplýsingar sem fáanlegar hafa verið. Sérfræðingar hafa verið látnir gefa samninganefndum launþega og atvinnurekenda svo og samtökum útgerðarmanna skýrslur um þessi mál, líklega sömu skýrslurnar sem alþm. fá sumir hverjir á borð sín í dag. Og það gerðist meira að segja þegar hæstv. forsrh. var fjarverandi, að fyrrv. forsrh. reis upp, kvaddi sér hljóðs og lýsti ekki aðeins vandanum, heldur dró upp úr pússi sínu næstum því ársgamlar till., sem hann taldi að enn mundu duga. Ég skal ekkert um till. segja, hvorki hvort þær duga nú eða dygðu fyrir ári, þó að ég dragi það raunar í efa. En það er gömul saga hér á Alþ., að þingflokkum, þegar þeir eru í andstöðu, hefur þótt það vera harla furðuleg vinnubrögð, að ráðh. stæðu upp á fundum í flokkum sínum úti í bæ til þess að skýra frá því hvernig komið væri í efnahagsmálum þjóðarinnar og til hvaða úrræða eigi að grípa. Ég man eftir mörgum atvikum, þegar framsóknarmenn sjálfir hneyksluðust mjög — og það með réttu — yfir því, að fyrstu upplýsingar um stöðu í efnahagsmálum komu fram á fundum í Heimdalli. Þannig er almælt, hvernig ástandið er, e.t.v. ofmælt, því að það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að t.d. ræða hæstv. dómsmrh. varð til þess að þeir, sem einhver peningaráð hafa enn, menn og fyrirtæki, gerðu áhlaup á gjaldeyrisbankana, — áhlaup, sem ég hygg að bankayfirvöld hafi haft meiri áhyggjur af heldur en þau þorðu að láta uppí. Það er virðingarvert að taka til máls og skýra frá því, hvernig hlutirnir eru, en það þarf að gæta þess, hvar það er gert, hvenær og hvernig, til þess að upplýsingar og tillögur vafalaust gefnar af góðum vilja, hafi ekki þveröfug áhrif og verði jafnvel til tjóns.

En á meðan allt þetta gerist út um bæ, gerist ekkert í efnahagsmálum hér á Alþ. Í tæplega 2 vikur hefur þingið að vísu starfað, en fundir hafa verið stuttir og stundum jafnvel fallið niður, enda rætt um ýmis mál sem eru næsta lítilvæg í samanburði við efnahagsvandann og snerta hann yfirleitt ekki, þó að þau geti verið merk hvert fyrir sig á sínu sviði.

Það er því von, að nýr þm. og raunar þjóðin öll varpi fram þeirri spurningu, af hverju Alþ. sitji aðgerðarlaust. Til hvers er Alþ., ef það fjallar ekki um slíkan vanda?

Svarið við þessum spurningum þekkjum við, og það er þetta: Í þingræðislandi með þingbundinni ríkisstj. er það skylda ríkisstj. að hafa forustu um þingstörfin. Hún hefur sérfræðinga og starfslið og hún á að gera till. um úrræði til lausnar á vandamálum, ekki síst þeim, sem nú blasa við íslendingum. Einstakir þm. eða stjórnarandstöðuflokkar geta ekki haft frumkvæði í slíkum málum í heild, þótt þeir geti gert einstakar till., það er tæknilega algerlega útilokað. Þetta hafa allir flokkar einhvern tíma viðurkennt, þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu.

Meiri hl. hér á Alþ. og sú ríkisstj., sem hann hefur valið sér, mega ekki bregðast þeirri skyldu að hafa slíka forustu þegar mikinn vanda ber að höndum. Alþfl. lýsir því þeirri sök á hendur ríkisstj., að hún bregðist nú þessu forustuhlutverki. Þess sjást engin merki, að ríkisstj. hafi myndað sér stefnu í efnahagsmálum, en það hefði hún átt að gera áður en þing kom saman og leggja málin þá þegar fyrir þingið tíð eðlilegrar rannsóknar og afgreiðslu.

Það er oft rætt um hlutskipti sérfræðinga og þeir hafnir til skýjanna. Sagt er, að þeir segi stjórn og þingi hvað þessir aðilar eigi að gera. En þetta er á misskilningi byggt. Hlutverk sérfræðinganna, sem ég hygg að þeir gegni af samviskusemi, er að rannsaka málin og leggja fyrir hin pólitísku yfirvöld, stjórn og þing, þær mismunandi leiðir sem talið er að hægt sé að fara. Síðan geta stjórn og þing athugað forsendurnar, vefengt þær eða breytt þeim, ef ástæða er til, og valíð um það, hvaða leið er talin hagstæðust. Það er ekki hægt að leysa öll efnahagsmál á tölulegum grundvelli. Það verður líka að leysa þau á mannlegum grundvelli, sem einnig mætti orða „á pólitískum grundvelli.“

Venjan er sú, að ríkisstj. ræðir slík vandamál og till. um lausn þeirra fyrst við sína eigin þingflokka, en veitir stjórnarandstöðuflokkunum fljótlega upplýsingar um málin. Þau hafa því verið nokkuð rædd þegar frv. eru flutt og opinber umr. fer fram. En þetta er eitt af þeim atriðum, sem algengast er að fólk í landinu misskilji, vegna þess að þessar fyrstu og oft þýðingarmestu umr. um efnahagsmál og raunar flest meiri háttar þingmál fara fram í þingflokkunum fyrir luktum dyrum. Að því búnu koma frv. Fram og hefst þá opinber umr. um málin. Eftir það taka þn. við og geta kallað fyrir menn, óskað upplýsinga, farið með mál eins og þær vilja, ef ríkisstj. beitir þá ekki hörðu til þess að hraða afgreiðslu, sem því miður kemur mjög oft fyrir.

Hv. 5. þm. Vestf. hefur þegar á fyrstu þingsetudögum sínum komið auga á veikasta þáttinn í störfum Alþ., en það eru óneitanlega nefndirnar, sem eru allt of margar, starfa allt of lítið, hafa sjaldan eða aldrei frumkvæði og eru allt of slakur þáttur í rannsókn Alþ. á málum sem fyrir það eru lögð. Það er í rauninni ekkert því til fyrirstöðu, að þn. geti samþ. að taka tiltekin mál eins og efnahagsmálin til rannsóknar, kalla fyrir sig sérfræðinga og safna gögnum. En þó verða menn að gæta þess að rugla ekki saman í þessum efnum hlutverki þings og þingnefnda, þar sem þingþundin ríkisstj. situr við völd, og í öðrum kerfum, þar sem alls ekki er þingbundin stjórn, heldur er framkvæmdavaldíð aðskilið frá löggjafarvaldinu. Þá getur með frumkvæði þings samhliða frumkvæði framkvæmdavalds komið til erfiðra árekstra, eins og einmitt þessa dagana eru að gerast vestur í Bandaríkjunum. Engu að síður er innan okkar kerfis mikið rúm til þess að n. geti látið meira að sér kveða og unnið betur og skipulegar en þær hafa gert.

Önnur leið hefur þó verið algengara að fara hér á landi, en sú er að skipa sénstakar n. til þess að vera tengiliður milli stjórnar og stjórnarandstöðu í stórmálum. Þetta er t.d. gert í landhelgismálinu og þykir öllum sjálfsagt. Og í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að gera hið sama í efnahagsmálum, þegar þau eru komin í slíkan hnút sem nú ber raun vitni.

Ef núv. ríkisstj. væri ekki ráðalaus og hikandi að því er best verður séð, ef hún veitti þá forustu, sem ríkisstj. ber að veita á slíkum tímum, væri Alþ. þegar búið að fá till. stjórnarinnar ásamt öllum þeim upplýsingum, sem þörf væri á. Þá mundi ekki standa á þm. og þingflokkum að leggja sig fram og vinna áð hverri þeirri lausn vandamálanna, sem líklegust reynst og farsælust fyrir þjóðina að skoðun meiri hl. í hverju atriði.

Herra forseti. Ég ítreka, að Alþfl. krefst þess að ríkisstj. stjórni landinu í eðlilegu samráði við Alþ. og leggi þegar fram till. og gögn varðandi ráðstafanir til að bægja frá þeirri hættu, sem augljóslega steðjar að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.