06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tel þá grg. eða samþykkt SF, sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson las hér upp, mjög athyglisverða fyrir margra hluta sakir. Þá á ég sérstaklega við það, sem fram kemur á bls. 1 og aftur á miðja bls. 2. þ.e.a.s. mat SF á vandanum í efnahagsmálum. Ég held að sú viðurkenning, sem felst í þessu, og það mat, sem þar liggur fyrir, sé í algeru samræmi við mat ríkisstj. á þessum vanda, e.t.v. aðeins málað með eilítið dekkri litum en ríkisstj. þó hefur gert. Ég held líka, að þetta sé í algeru samræmi við þann vanda, sem ég lýsti á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur fyrir nokkru og nokkuð hefur borið hér á góma, nema ég hef kannske ekki miklað þar vandann fyrir mér sjálfum eða öðrum alveg eins mikið og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. En að sjálfsögðu er mjög mikilvægt, að það liggi fyrir sama mat af hálfu stjórnarandstöðu og af hálfu ríkisstj. um þann vanda, sem við er að glíma. Þá verður síður deilt um það hjá þjóðinni, að þetta sé svo í raun og veru, að þetta sé staðreynd sem ekki verður vefengd.

Það er ákaflega mikilsvert, að þjóðin viti sannleikann og viti allan sannleikann í þessu efni. Þess vegna er það sérstaklega þakkarvert af hv. þm. að hafa lesið upp þessa grg. hér, birt hana þingheimi, og ég efast ekki um, að hennar muni verða að verðleikum einnig getið í fjölmiðlum og hún muni berast út til þjóðarinnar og þjóðin muni fá vitneskju um hvernig stjórnarandstaðan er þannig í einu og öllu að kalla samdóma ríkisstj. um þann vanda sem við er að glíma. Þetta er þeim mun mikilsverðara sem ég veit af kynnum mínum við annan hv. þm. þessa þingflokks, hv. þm. Magnús T. Ólafsson, og þeirri ábyrgðartilfinningu sem hann hefur jafnan sýnt, að það er öruggt að þingflokkur SF er ekki klofinn í þessu máli. (Gripið fram í.) Nei, nei, við skulum vera bjartsýnir og vona að það haldi áfram. Batnandi mönnum er best að lifa.

Þá er hitt ekki síður mikilsvert að mínum dómi og þakkarvert, að það kemur fram í bréfi frá þingflokki SF, að hann vill leggja sitt af mörkum til að stuðla að sem mestri samstöðu stjórnmálaflokka, hagsmunahópa og alls almennings í landinu um það, hvernig skynsamlegast verði við brugðið, sem sagt vill bjóða fram samstarf um lausn vandans. Ég tel alveg sjálfsagt að taka í þessa framréttu hönd.

Þetta er auðvitað höfuðatriðið. Ég leiði að miklu leyti hjá mér þau gagnrýnisorð, sem falla í garð hæstv. ríkisstj. í þessari samþykkt, og enn fremur leiði ég að sjálfsögðu hjá mér að langmestu leyti a.m.k. þá skemmtilegu, en annars dálítið skólameistaralegu ræðu, sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson flutti yfir okkur þm. hér áðan. En það er þó enn þá gleðilegra, að aðrir hv. stjórnarandstæðingar hafa tekið undir þetta að meginstefnu til, að vísu með svolítið mismunandi blæ.

Það hefur borið hér á góma og reyndar strax í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar sjónvarpsþátt, sem nýlega var fluttur, og er það að vonum að hann hafi hreyft honum, þar sem hann hefur fengið mjög góðan vitnisburð fyrir frammistöðu sina á þeim vettvangi. En í þessum sama sjónvarpsþætti var hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sem fékk reyndar næstbesta einkunn fyrir frammistöðu sína í sjónvarpsþættinum. Hann lét þau orð falla, að hann efaðist ekki um að ég hefði sagt allt satt og rétt um efnahagsvandann, sem ég hefði sagt á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur. Hv. formaður Alþfl. Benedikt Gröndal, tók mjög undir þetta áðan. Að vísu sagði hann það ekki beint um það, sem ég hefði sagt á fundinum, en hann lét þess getið að hann viðurkenndi fullkomlega, að um alvarlegan efnahagsvanda væri að tefla, þó að hann þyrfti ekki alveg að binda sig um það, sem ekki var heldur eðlilegt, hversu mikill hann væri í einstökum atriðum, þar sem hann hefði ekki haft aðstöðu til að kanna það. Ég gat ekki betur skilið orð hans en hans flokkur væri einnig reiðubúinn til þess að taka þátt í samstarfi um að leysa þann vanda sem við væri að glíma, þó að hann tæki að sjálfsögðu fram, að hann mundi reynast trúr því hlutverki, sem stjórnarandstöðuflokkur ætti að hafa, að veita stjórninni hæfilegt aðhald. Og hv. þm. Lúðvík Jósepsson viðurkenndi alveg hreinlega, að hér væri um efnahagsvanda að tefla. Hann var að vísu með meiri efasemdir en þeir djarfmæltu menn, hinir sem ég hef nefnt og sérstaklega hv. 5. þm. Vestf., um að vandinn væri eins mikill og af væri látið. Samt sem áður fólst í máli hans fullkomin viðurkenning, eins og eðlilegt var, á því að hér væri um mikinn vanda að tefla.

Það er því engum blöðum um það að fletta, að viðurkennt er af bæði ríkisstj. og stjórnarandstöðu, að hér sé um alvarlegan efnahagsvanda að ræða. Og eins og ég sagði áðan, er mjög mikilvægt að það komi fram gagnvart þjóðinni, að menn eru sammála um þetta, vegna þess að aðstæðurnar hafa verið þannig í þessu þjóðfélagi á undanförnu ári, að þjóðinni hefur kannske af eðlilegum ástæðum gengið illa að skilja að það gæti verið um slíka efnahagserfiðleika að ræða, vegna þess að það er sannleikur, sem ekki þýðir að dylja, að þjóðfélagið sem heild hefur lifað um efni fram. Þar með er langt frá því, að ég sé að segja, að allir í þessu þjóðfélagi hafi lifað um efni fram. Mér er það fyllilega ljóst, að mörgum í þessu þjóðfélagi er naumt skammtað. En sem heild höfum við ekki sniðið okkur stakk eftir vexti og þess vegna er komið sem komið er. Þetta er sá beiski sannleikur, sem þjóðin verður að átta sig á, og það er fyrsta skilyrðið fyrir því, að hægt sé að gera sér vonir um skilning þjóðarinnar á því og stuðning við það, sem til þarf að koma, að slík vitneskja og sannfæring sé fyrir hendi hjá þjóðinni. Þess vegna eru þessar umr., sem hér fara fram, vissulega þýðingarmiklar og gegna sínu hlutverki.

Ég hef ekki farið leynt með það, að ég tel við mjög mikla efnahagsörðugleika að etja. Ég hef ekki heldur farið dult með það, í hverju ég álít þá efnahagsörðugleika aðallega fólgna. Ég tel þá fólgna í afstöðu þjóðarinnar út á við.

Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að fara langt út í að rekja það, af hverju þessi þáttur efnahagsvandans stafar, en hann stafar auðvitað fyrst og fremst af stórkostlega versnandi viðskiptakjörum. Það eru ýmsar fleiri ástæður, en þetta er höfuðástæðan, sem ekki þýðir fyrir nokkurn mann að ætla að neita. Það er líka sannleikur, sem ekki þýðir að mótmæla, að þessi viðskiptakjör hafa farið snögglega versnandi allra síðustu mánuði fyrra árs og því miður enn það sem af er þessu ári. En þetta hafa menn ekki tekið með í reikninginn. Kaupgeta sumra manna, skulum við segja, ég held að væri óhætt að segja mikils hluta þjóðarinnar, hefur verið meiri en svarað hefur til þess, sem við höfum haft efni á að eyða, með tilliti til þess sem við áttum inni í reikningum okkar erlendis, sem við áttum inni á okkar viðskiptareikningi. Við höfum ekki aðeins stofnað til enn meiri úttektar á þeim viðskiptareikningi af þeim sökum, heldur hefur líka lánaþensla verið mjög mikil og miklu meiri en ákveðið var af fyrrv. stjórn í samráði við Seðlabankann á sínum tíma á s.l. ári. Það hefur skapað falska kaupgetu einnig. Þess vegna hefur þetta getað átt sér stað. En eins og ég drap á áðan, komu auðvitað margir aðrir þættir þarna inn í líka, en þetta sá stóri „faktor“, sem er mikilvægastur og þetta er sá vandi, sem í mínum augum er langstærstur, þó að við höfum annars sannarlega fangið fullt af vandamálum í sambandi við þessi mál hér innanlands.

Ég tel drengilegt hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni að segja það alveg skýrt og skorinort, eins og hann sagði, að auðvitað er ekki hægt að mæta þessu með öðrum hætti en að lífskjörin hljóta að rýrna. Það er alveg ómögulegt öðruvísi. Þetta á að segja þjóðinni. En þar með er ekki sagt, að það sé sama hverjir menn taka á sig eða þurfa að taka á sig lífskjaraskerðingu. Það er yfirlýst stefna stjórnarinnar að reyna að halda þannig á þessum málum, og ég efast ekki um að hv. stjórnarandstaða verður fús til samvinnu á því sviði, að þetta komi sem minnst eða ekki við þá, sem eru þannig settir varðandi launakjör og aðbúð í þjóðfélaginu, að þeir geta ekki tekið á sig kjararýrnun. Þetta er það mark, sem keppa á að. Ég vona, að með skilningi og atbeina stjórnarandstöðunnar takist ríkisstj. að ná einmitt þessu marki, að láta kjararýrnunina koma fram í jöfnun lífskjara, því að það er það sem um er að ræða. Ég held, að þjóðin fari að skilja þetta, og ég held, að það sé ekki hægt að blekkja hana, jafnvel þótt einhverjir vildu reyna. Ég held að hún hljóti að fara að skilja, að hún verður að horfast um sinn í augu við þessar staðreyndir. En eins og ég sagði áðan, er svo aftur á hinn bóginn ekki ástæða til þess að mikla þessa erfiðleika of mikið fyrir sér. Íslendingar hafa oft komist í krappari sjó en þennan og siglt sínu fleyi heilu í höfn. Ég efast ekki um, að þeir geri það enn, vegna þess að þótt lífskjörin þurfi eitthvað að rýrna, þá er ekki þar með sagt að þurfi að vera neitt bágborin lífskjör, vegna þess að þegar við tölum um lífskjör, þá miðum við alltaf við þau lífskjör sem við höfum haft síðast, og þau hafa sannarlega ekki verið neitt bágborin síðustu árin hér á Íslandi, almennt talað. Og þó að það þyrfti í bili eitthvað örlítið að þrengja að, t.d. eins og hv. þm. Lúðvík Jósepason minntist á, að menn yrðu að neita sér um að flytja inn jafnmarga bila og verið hefur að undanförnu eða fara jafnmikið í ferðalög til útlanda, þá get ég ekki séð að neinn skaði væri skeður. Ég held, að allir mundu lífa það af og gætu lifað það notalega af.

Það er svo auðvitað eins og hæstv. forsrh. hefur drepið á og gert grein fyrir og hefur reyndar komið fram í máli annarra þm., að það er samkv. okkar þingræðislegu reglum og venjum, að þá hvílir sú skylda á ríkisstj. að hafa frumkvæði í þessu efni. Undan því frumkvæði mun hún ekki skorast og mun vinna að tillögugerð um þessi efni. En ég tel sjálfsagt eins og hann að hafa allt það samráð við stjórnarandstöðuna sem unnt er að koma við. Ég tel hins vegar, að það sé mjög vafasamt að sá háttur eigi við, sem stungið er upp á í bréfi eða grg. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, en það er algert aukaatriði. Ég álít að rökréttast sé í framhaldi af því bréfi, sem þeir hafa skrifað forsrh., að fylgja því eftir á þann hátt, að þeir ræði það mál við hæstv. forsrh., hvernig þessu samstarfi verði fyrir komið, og menn leiti að leiðum til að koma þessu samstarfi fyrir á sem haganlegastan hátt. Það er auðvitað aðalatriðið, en ekki formið á því, hvernig þetta er gert.

Ég er á alveg sama máli og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og reyndar aðrir þeir hv. þm., sem hér töluðu, að nauðsynlegt sé að það ríki ekki nein óeðlileg leynd yfir þessum málum, að þjóðinni sé sagt sem best og skilmerkilegast frá þeim, eftir því sem unnt er, og að upplýsingamiðlun í þessu efni sé mjög þýðingarmikil. En þá þykir mér verst, að hv. 9. þm. Reykv. er hér ekki viðstaddur, af því að mig langar til að bera fram við hann fyrirspurn í sambandi við margumtalaðan sjónvarpsþátt. Hv. 9. þm. Reykv. lét þess nefnilega getið, áður en hann var búinn að komast að þeirri niðurstöðu að ég hefði sagt allt satt og rétt um þann vanda, sem við væri að glíma, að ræðan, sem ég hefði flutt á fundi Framsóknarfélagsins í Reykjavík, hefði verið afskaplega óheppileg. Og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var sömu skoðunar, hann taldi hana óheppilega. Ég held, að ég setji nú spurninguna fram, þó að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sé ekki við. Ég veit, að hv. formaður flokksins mun flytja honum hana, og e.t.v. er gott fyrir bann að fá svolítinn umhugsunartími, en ég veit að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson mun geta svarað spurningunni hér á stundinni. Spurningin er ákaflega einföld. Hún er þessi: Hvenær er heppilegt að stjórnmálamenn segi satt og hvenær ekki?

Ég hef talið mér skylt að veita mínum umbjóðendum og flokksmönnum fræðslu um staðreyndir. Það gerði ég á þessum margumtalaða fundi. Ég leyfði mér líka að benda á nokkur úrræði og tók skýrt fram, að það væru mínar persónulegu hugmyndir, vegna þess að sá þáttur málanna hefði ekki verið ræddur innan ríkisstj. til neinnar hlítar. Og það er einmitt rétt að undirstrika það, að jafnsjálfsagt sem það er að hafa opnar umr.um og kynna vandann sem við er að glíma, getur verið nauðsynlegt að menn varpi ekki fram till. alveg hiklaust og umhugsunarlaust. Ég held að það geti oft staðið þannig á, að það sé óhjákvæmilegt að það hvíli einhver leynd, ef menn vilja kalla það svo, yfir undirbúningi og gerð úrræða í efnahagsmálum.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson staðhæfði það, og ég held, að hv. þm. Benedikt Gröndal hafi tekið undir það, að vegna þeirrar ræðu, sem ég flutti á sínum tíma á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, hefði gjaldeyrissjóðurinn tæmst. Þetta er rangt. Til þess að sanna þetta þarf hv. þm. að leggja fram skýrslu um sölu á gjaldeyri fyrir og eftir að þessi ræða var flutt. Og ég leyfi mér að staðhæfa, að gjaldeyrissalan hafi ekki verið meiri, heldur minni eftir þann tíma sem þessi ræða var flutt. Það stafar sumpart að sjálfsögðu af því, að samkv. bréfi frá mér og að höfðu samráði við Seðlabankann, eins og lög gera ráð fyrir, var tekinn upp nýr háttur á afgreiðslu gjaldeyrisleyfa og farið að meta það af gjaldeyrisdeildunum, hver innflutningur væri nauðsynlegastur, en hver aftur væri þess háttar að minna gerði til þó að það drægist nokkuð að taka afstöðu til þeirra beiðna. Ég álít, að þessi skipan hafi ekki valdið neinum vandkvæðum enn. Hins vegar er hún auðvitað út af fyrir sig ekkert frambúðarskipulag. Það verður að koma fastari skipan á þessi mál með einhverjum hætti.

Að því leyti til sem gjaldeyrisstaðan hefur versnað á þessu tímabili, þá er það ekki af því að gjaldeyrissalan hafi verið meiri, heldur af hinu, að skilin á innkomnum gjaldeyri hafa verið enn lakari jafnvel en áður fyrr, og það er það sem stendur á. Það er hinn mikli vandi, sem við höfum átt við að glíma. Það er ekki aðeins hið mikla verðfall, sem verið hefur á okkar afurðum, heldur líka sölutregðan, sem hefur verið um að tefla. Það má nefna aðeins örlítið dæmi, sem getur e.t.v. gefið hv. þm. hugmynd um það vandamál, sem um er að ræða. Einmitt í dag var verið að undirrita í Moskvu samninga um sölu á fiskafurðum, að mínu áliti eftir atvikum mjög mikilvæga og hagstæða samninga miðað við útlitið annars, — samninga sem munu gefa um 4 milljarða ísl. kr. En þetta gerir ekki, miðað við olíukaup frá Sovétríkjunum á síðasta ári, nema vega upp á móti 2/3 af olíunni frá Sovétríkjunum. Þá þurfa menn ekki að vera hissa á því, að það sé úr vöndu að ráða, þegar olíuverðið hefur breyst svona.

Ég tel mig ekki þurfa neitt að vera að svara til saka frekar fyrir það að hafa flutt þá ræðu, sem ég flutti á sínum tíma, en vil þó aðeins geta þess til viðbótar, að þá þegar hafði verið birt hér skýrsla Efnahags- og framfarastofnunar í París, þar sem lágu fyrir skýrar niðurstöður um þann efnahagsvanda, sem við væri að etja, og tekið skýrt fram líka, hverjar orsakir væru aðallega til hans. Þeir, sem lesa þá skýrslu, þurfa ekki að vera í neinum vafa um, hvernig þeir sérfræðingar líta á, hvaða atriði það eru sem fyrst og fremst valda þeim vanda í þessum efnum sem íslendingar eiga nú við að etja.

Ég gæti nú sjálfsagt látið máli mínu lokið. En nokkuð var vikið að stjórninni, sem við mig hefur verið kennd og er mér af eðlilegum ástæðum nokkuð kær. Ég sagði, að ég gæti látið máli mínu lokið, af því að ég held að sú stjórn þurfi í raun og veru ekki á málsvörn að halda. Verk hennar munu tala og tala hennar máli. En samt sem áður vil ég segja nokkur orð út af þeim orðum, sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lét falla sérstaklega um árið 1973, og um þá kenningu, sem hann setti líka fram í margrómuðum sjónvarpsþætti, að það hefði ekki verið tekið frá á góðárunum og sparað til hinna lélegu. Nú kom þetta skýrast fram, að það var 1973 sem átti að spara, þá átti að leggja til hliðar og geyma. Ég held nú í fyrsta lagi, að hv. þm. hafi gleymt einum býsna þýðingarmiklum atburði í annál ársins 1973, þ.e.a.s. eldgosinu í Vestmannaeyjum.a.m.k. er þess vert, þegar menn líta yfir árið 1973, að tíunda það og reyna að gera sér grein fyrir því, hver áhrif þess hafi orðið. Og enn er fyrir hendi fjárhagslegur vandi, sem þarf að leysa vegna þess. En strax var brugðið við og lagt til hliðar til þess að mæta þeim vanda á árinn 1973.

Já, hún er ekki ný þessi hagspeki, að það eigi að leggja til hliðar á góðu árunum. Við könnumst öll við söguna af Faró, sem dreymdi draumana um feitu kýrnar, sem risu upp fyrst, og svo mögru kýrnar 7, sem komu og átu þær feitu og kornöxin o.s.frv. Faraó gat ekki ráðið þessa drauma og sendi þess vegna eftir Jósep, sem sat í myrkrastofu, því að hann hafði ekki viljað þiggja gott boð og þýðast konu Pótifars. Og Jósep réð draumana auðvitað réttilega, að það mundu koma 7 góð ár og síðan 7 slæm. Ráðið, sem Jósep gaf, var það ráð, sem sjálfsagt og viðurkennt af hagfræðingum allra alda síðan, að leggja til hliðar, Faraó skyldi setja í lög, að egyptar skyldu leggja fram fimmtung afraksturs framleiðslu sinnar á næstu 7 árum, og svo bjargaðist þetta allt vel. En það voru ekki til neinir gjaldeyrisvarasjóðir þá og ekki sjóðir, það var ekki safnað í sjóði peningum. Það, sem safnað var, voru kornbirgðir, og allar kornhlöður voru fylltar.

Þá kem ég að því, sem ég er hjartanlega sammála hv. þm. Lúðvík Jósepssyni um, að einmitt á þessum góðu árum að undanförnu hefur verið safnað. Það hefur verið safnað með hliðstæðum hætti eins og þeim að safna í kornhlöður. Þetta hefur verið undirbúið á þann hátt, að við höfum endurnýjað okkar skipastól. Og það er alveg hárrétt, sem hann sagði, enda veit hann það manna best, Lúðvík Jósepsson, að einmitt það eru þessi skip, minni stærðin af togurum, sem standa núna upp úr, og staðirnir, sem hafa aflað þeirra, sem standa líka upp úr. Ég tala nú ekki um ef saman hefur farið, að endurnýjaðar hafa verið eða byggðar upp fiskvinnslustöðvar á þessum stöðum. Það er þessi staðreynd, sem gerir það að verkum, að fólkið í þessum byggðum er miklu betur undir það búið en annars hefði verið að mæta erfiðleikum.

Þess vegna er það, að það er mark þessarar ríkisstj., og það veit ég líka að stjórnarandstaðan muni taka undir og fylgja fram, að reka atvinnuleysisvofuna frá dyrum þessarar þjóðar, og ef hægt verður að halda hér fullri atvinnu, þá vorkenni ég engum þó að eitthvað verði að breyta til í lifnaðarháttum frá því sem verið hefur allra síðustu árin.

Það er með þessum hætti, sem einmitt góðu árin voru notuð til þess að safna kornbirgðum, sem við nú njótum góðs af. En það var ekki bara með þessum hætti. Það var líka gert með öðrum hætti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gleymdi því, að á árinu 1973 var gerð gengishækkun sem hafði ekki orðið hér á landi í 50 ár. Hvað var það annað en í raun og veru að safna óbeint til þess að vera betur viðbúinn þegar harðnaði aftur? Vissulega hefði mátt gera þetta í öðru formi og safna í sjóði í staðinn, en þessi háttur var hafður á. Þessu er alveg óþarft að gleyma, og þessu gleymi ég auðvitað ekki þegar ég held áfram að tíunda góðverk vinstri stjórnarinnar.

Ég vil hins vegar ómögulega láta hv. þm. Lúðvík Jósepsson eigna sér einum alla skuttogarana, sem keyptir voru til landsins. Ég held, að öll stjórnin eigi þar jafnan hlut að, þó ég dragi ekki annars í efa hans mikla áhuga á því efni, eins og á sjávarútvegi yfirleitt.

En hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gleymdi því líka, að það var á árinu 1973 raunverulega safnað í sjóði. Við áttum í ársbyrjun 1974 9 milljarða með núv. gengi í gjaldeyrisvarasjóði. Það er hann, sem við m.a. höfum lifað á og haldið uppi þeim miklu og góðu lífskjörum, sem við höfum búið við á þessu þjóðhátíðarári. Það má líka nefna það, að lagt var til hliðar og hefur verið lagt til hliðar í verðjöfnunarsjóði, var gert á góðu árunum, en ekki nægilega mikið að mínu mati. En það eru sérstakir aðilar sem um það fjalla, og það er þeirra fé, sem þar er um að tefla. Það má sjálfsagt segja nú, að það hefði verið skynsamlegra af þeim að leggja meira til hliðar, en um það þýðir ekki að fást. En það var lagt til hliðar. Þess vegna held ég, að hv. þm. Jón Hannibalsson verði að endurskoða sína ræðu, ágæta að öðru leyti, áður en hann flytur hana næst, að því er varðar árið 1973.

Hann gerði lítið úr því frv. um viðnám í efnahagsmálum, sem fyrrv. ríkisstj. flutti á síðasta Alþ.. En ég held, að það sé alveg ástæðulaust. Það er að vísu rétt, að fyrrv. ríkisstj. setti brbl. um víss atriði úr því frv., sem gerðu mögulegt að fleyta þessu öllu áfram yfir það umbrotaskeið, sem var hér á s.l. sumri og menn kannast við. En það var ekki talíð fært vegna aðstöðunnar að taka upp í þau brbl. ýmis þau veigamiklu atriði, sem voru í frv. um viðnám gegn verðbólgu og hefðu gert gæfumuninn að mínu viti, ef þau hefðu verið lögleidd, og gert vandann minni nú. Það varð m.a. alger stefnubreyting að því leyti, að með því frv. var stefnt að jöfnun lífskjara. Það var ákvæði þar um það, að hækkun umfram 20% á kaupi skyldi frestað út árið á launum yfir 36 þús. kr. á mánuði. Þar með var í raun og veru stigið a.m.k. hænufet í þá átt, sem Samtök frjálslyndra og vinstri manna réttilega hafa talið — ekki allir, en margir í þeim samtökum hafa talið það rétta leið, sem sagt niðurfærsluleið, verðstöðvunarleið. Og það var líka í þessu frv., sem auðvitað var ekki hægt að setja í brbl., lögbundið að vissar peningastofnanir skyldu leggja fram til ráðstöfunar, ekki 10% eða 20%, sem hafa fengist með samningum við þá, heldur 35%. Það mundu vera dálítið annað við að eiga núna, ef við hefðum fengið þann sjóð til ráðstöfunar og hefðum hann til ráðstöfunar. Það var líka í því frv., sem ekki var talið fært að taka upp í brbl., ákvæði um að þeir tekjuhærri í þjóðfélaginu skyldu leggja til hliðar, að vísu ekki nema örlítinn hluta, allt of lítinn hluta af tekjum sínum í skyldusparnað. Með því bæði að festa þannig mjög rifleg framlög úr þessum sjóðum og afla þannig skyldusparnaðarfjár, hefði verið fé dregið frá einkaneyslu og til samneyslu, og jafnframt hefði verið takmarkað það svigrúm, sem peningastofnanir höfðu á s.l. ári til þess að lána út.