06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af þeirri ræðu, sem hér var nú flutt.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson minntist talsvert á öndvert ár 1973 og hvað hann hafi sagt þá og virtist vera með einhvern ræðustúf, sem hann hafði flutt í upphafi árs 1973 og gat lesið úr. Það er því ekki ómaksins vert að minnast örlítið á það, hvað var að gerast á þessum tíma í íslenskum efnahagsmálum.

Rétt í árslokin 1972 stóðum við frammi fyrir efnahagsvanda eins og fyrri daginn. Þá komu margir af hinum alvísu mönnum og sögðu, að nú væri allt að farast, og lögðu til mikla gengislækkun. Flokkur þessa hv. þm., Jóns Baldvins Hannibalssonar, var svo sannfærður um það í des. 1972, að það yrði að lækka gengi krónunnar, að hann sagðist mundu slíta vinstra samstarfinu ef hún féllist þá ekki á gengislækkun. Hann dró ekki af sér, þessi hv. stuðningsmaður þessa flokks, á þessum tíma, enda var hann að halda þá ræðu, sem hann var að lesa hér upp úr, rétt eftir að þetta afrek var unnið, eftir að þeir höfðu knúið fram gengislækkun í árslokin 1972. Hins vegar stóðu mál þannig strax í byrjun ársins 1973, aðeins einum eða tveimur mánuðum eftir að gengislækkunin var gerð, að nálega allir viðurkenndu að gengislækkunin, sem þar var knúin fram, hafi veríð mistök og vitleysa. Þá lá það fyrir, að það hafði reynst rétt, sem ég hafði haldið fram allan tímann, að þessi gengislækkunarkrafa væri gersamlega ástæðulaus. Og það fór auðvitað þannig, að eftir örfáa mánuði eða í byrjun apríl á árinu 1973 var ráðist í að hækka gengi íslenskrar krónu og gengið var hækkað frá aprílmánuði til ársloka um 15%. Þetta var það, sem þessi hv. þm. þrástagast á að heiti vit og fyrirhyggja og hagstjórnarvísindi og allt þar ofan á, sem hann einn kann að meðhöndla, en hins vegar menn af minni tegund meta svona og svona.

Mér sýnist að þessi hagstjórnarvísindi hans, eins og þau hafa komið fram, hafi ekki reynst ýkjamerkileg. Hann hefur, eins og ég hef bent á áður, veist alveg sérstaklega að mér sem einum fulltrúa í vinstri stjórninni. Ég kom ekki auga á vegna hvers ég var alveg sérstaklega þarna tilnefndur, nema þá fyrir það sem sérstaklega mátti tengja við mig, jafnvel öðrum mönnum fremur í þessari stjórn, þ.e.a.s. um þá málaflokka, sem beint heyrðu undir mig og ég hafði mikið með að gera. Mér hefur vitanlega ekki dottið í hug — og skal nú sérstaklega hughreysta hæstv. viðskrh. og fyrrv. forsrh. í þeim efnum, — að halda neinu fram um að hann hafi ekki átt sinn góða þátt í því, að það voru keyptir togarar, alveg eins og ég, en skorast heldur ekkert undan því, þó að menn eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kenni mér sérstaklega um að það voru keyptir togarar. Að því stóð ég vissulega. Og ég er sannfærður um að hann fær ekki marga af þeim, sem hafa kynnt sér eitthvað að ráði ástandið í íslenskum efnahagsmálum í dag, til þess að óska eftir því, að við hefðum keypt færri togara. Hann veit e.t.v., að togararnir eru um það bil helmingi dýrari í dag í erlendri mynt en þeir voru þegar við vorum að kaupa þá. Það var góð fjárfesting, og hún hefur líka skilað miklu í íslenskt þjóðarbú.

Eins og ég sagði, hann getur líka nefnt mitt nafn sérstaklega í þessum efnum vegna þeirrar efnahagsstefnu, sem var rekin í tíð vinstri stjórnarinnar í sambandi við uppbygginguna í sjávarútvegi, uppbygginguna í sambandi við okkar fiskiðnað. Auðvitað þorir þessi hv. þm. ekki að halda því fram, að hann sé raunverulega á móti þessum fiskiskipakaupum eða uppbyggingunni í fiskiðnaðinum. Hann þorir ekki að halda því fram. Hann er að vísu aðeins að impra á því, að það hefði e.t.v. mátt dreifa þessu á lengri tíma. Já, skyldi ástandið á Vestfjörðum t.d. vera eitthvað betra núna, ef þeir hefðu 2–3 eða 4 skuttogurum minna en þeir hafa í dag og ættu ekki að fá þá fyrr en á næsta ári eða þar næsta? Já, ætli það væri ekki betra?

Þessi hv. þm. er einn í þeim hópi, sem getur djarft um talað, að það eigi að taka meira af t.d. íslenskum sjómönnum, þeir eigi að leggja meira fyrir, geyma meira í verðjöfnunarsjóði af því, sem þeir hafa raunverulega samið um sem sinn aflahlut. En það hefði verið gaman að vita, hvað hann hefur lagt til að hann og hans stétt legði mikið á þennan sama hátt til geymslu í hagkerfinu, einhvern hluta af sínu kaupi. Hví flytur ekki þessi hv. þm. till. um það, að skólastjórar í landinu leggi t.d. 5 eða 10% af sínu árlega kaupi í ákveðinn verðjöfnunarsjóð, sem verði geymdur í Seðlabankanum, þangað til harðnar í ári? Ætli hann hefði ekki gert kröfu til þess að fá sinn hluta útborgaðan hverju sinni? Ég á von á því. En þeir, sem hafa þessa afstöðu, geta vitanlega djarft um talað, að það, sem íslenskir sjómenn hafa fengið sé of mikið. Og auðvitað veit þessi hv. þm. hvað hann fær í staðinn. Hann fær lof í Morgunblaðinu, hann fær fyrstu einkunn hjá Morgunblaðinu fyrir slík ummæli.

Ég vil aðeins segja það í sambandi við þann vanda, sem ég hygg að sé innan þessa sérkennilega flokks, sem þessi hv. þm. er í, SF, að ég efast ekkert um að það verður erfitt fyrir hann að samræma sjónarmið manna í þeim flokki. Ég hef t.d. átt kost á að vinna hér talsvert með þeim þm., sem er í rauninni 5. þm. Vestf. og Jón Baldvin Hannibalsson kemur hér sem varamaður fyrir. Við höfum hlustað á hann tala um þessi mál hér á Alþ. Hann er sannarlega ekki á þeirri sömu skoðun sem Jón Baldvin flytur hér. Þar er greinilega um alveg andstæðar skoðanir að ræða. Og það þýðir ekkert fyrir Jón Baldvin Hannibalsson að bera á móti því. Við hérna höfum eyru og við höfum alveg skilning á við hann til þess að þýða það, hvað talað er við okkur. Þó að hann tali mjög mikið um að beita viti og vísindum, þá skiljum við mælt mál nokkurn veginn til jafns við hann.

Það var auðvitað ekki merkilegt, sem hv. þm. taldi að ég hefði haft fram að færa eða við sem hér töluðum um efnahagsmálin, borið saman við þau vísindi sem hann flutti hér. Hann var aldeilis undrandi á þessum málflutningi og við skyldum ekki gera betur grein fyrir ástandinu, eins og það er nú almennt í efnahagsmálum. Hér hafa ekki enn farið fram umr. um að skilgreina þetta ástand í einstökum greinum. Ég gerði m.a. grein fyrir því í ræðu minni, að ég hefði fengið rétt um það leyti sem ég gekk hér upp í ræðustólinn gögn frá hæstv. ríkisstj. varðandi mat sérfræðinga á ástandinu nú, ég hefði rétt verið að fá þau, þegar ég gekk upp í ræðustólinn. Hér hafa ekki farið fram umr. um það, enda hefur skilgreining hans verið harla fátækleg í sambandi við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Ég hef ekki farið út í það fyrir mitt leyti að rekja í löngu máli hvað ég tel að einkum sé nú erfitt í sambandi við t.d. rekstur íslensks sjávarútvegs. Ég viðurkenni að þar er um allmikinn vanda að ræða á mörgum sviðum, þar þarf að gera á ýmsar breytingar, en fór ekki út í að ræða þær nýju skýrslur, sem mér höfðu ekki þá borist í hendur. En af því að ég minntist lauslega á í mínu máli, að ég teldi að eins og nú stæðu sakir þyrfti að hækka fiskverð og mætti gera það, eins og ég sagði, með ýmsu móti, og það ætti að mínum dómi að lækka vexti, ég hefði verið á móti hækkun vaxtanna og benti á þá erfiðleika, sem vaxtahækkunin hefur í för með sér, þá vék hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson einmitt að þessu tvennu. Og hans hagfræðilega speki lét sannarlega ekki á sér standa, þegar hann fór að ræða um þessi atriði. Hann greip það á lofti, að ég hefði sagt að íslenska verslunin skuldaði í bönkum landsins 9000 millj. kr. og reynslan hefði alltaf sýnt að hækkun á vöxtum, t.d. hækkun í einu vetfangi um 4% á vöxtum, væri slíkt álag á verslunina, að hún væri ekki látin borga það, hún fengi að velta þessu af sér út í verðlagið. Þá komu hagstjórnarvísindi Jóns Baldvins Hannibalssonar strax til skjalanna, og þau vorn þessi: að segja, að það vær'i alveg augljóst mál að ég væri að leggja til að gefa versluninni stórar upphæðir með því að láta hana borga of lága vexti, fá niðurgreidda peninga. Sem sagt, þegar ég hafði bent á að reynslan hefði orðið sú, bæði nú og fyrr, að þegar vextirnir voru hækkaðir, þá fékk verslunin að velta af sér vaxtahækkuninni út í verðlagið og almenningur í landinu látinn borga þetta í aukinni dýrtíð, þá kemur hagspekin og segir: Sá, sem ekki er með háu vöxtunum, vill lága vexti, hann ætlar að gefa versluninni.

Nei, mér hafði ekki dottið það í hug. Ég hafði bent á það á sínum tíma, þegar var verið að ræða um vaxtahækkunina, að ef menn væru á þeirri skoðun að t.d. verslunin gæti borið þessa auknu vaxtahækkun, þá væri alveg eins hreinlegt að skera niður álagninguna hjá versluninni og draga þannig úr því sem hún hefði, ef menn væru á því að verslunin þyldi þetta. En ég var sannfærður um af reynslunni, að það mundi fara eins nú og áður, að verslunin fengi að velta þessu af sér út í verðlagið. Þannig hefur líka reyndin orðið.

Það er einmitt þetta, sem ég benti á líka í sambandi við sjávarútveginn. Það er hægt að æpa hátt um gífurleg töp og mikla erfiðleika hjá sjávarútveginum, einnig af því, þegar skuldirnar eða tapið eykst um yfir 500 millj. kr. hjá útgerðinni vegna þess að vextir voru hækkaðir. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er að tala um að ég sé talsmaður lágvaxtapólitíkur. Það má mikið gera í því að færa niður vexti frá því sem þeir eru í dag, áður en maður nálgast einhverja lágvexti. En þessi hv. þm. er sennilega ekki hissa á því að hækka þá talsvert frá því sem þeir eru nú í dag. Það mundi heita hjá honum hagstjórnarvísindi.

Jón Baldvin skildi ekki heldur, að það væri möguleiki á því að hækka fiskverð. Ég vék að því, að nú er þessu þannig háttað hjá okkur, að við höldum beinlínis niðri fiskverði með ýmsum hliðarráðstöfunum, ýmsum álögum, með því að láta útgerðina greiða í margvíslega sjóði og í suma þeirra að mínum dómi of mikið. Ég hef lengi haldið því fram, að ég álít að vátryggingasjóðskerfið sé allt of dýrt hjá okkur, það kosti allt of mikið að vátryggja skip á Íslandi, enda kostar það miklu meira hjá okkur en t.d. norðmönnum. Það stafar m.a. af því skipulagi, sem við höfum á þessum málum. Ég hef beitt mér fyrir því að reyna að fá hér breytingu á, hins vegar hefur ekki fengist um það samkomulag. En ég er á því, að það eigi ekki eins og sakir standa að auka við framlag í þetta kerfi, heldur eigi að vinna að því að þar verði sparnaður og beina þessu í staðinn út í hækkað fiskverð, því að við þurfum á því að halda.

Ég veitti því athygli, að hv. þm. varð bumbult við að heyra sín eigin orð, hvað hann hefði sagt í sambandi við það hvernig hann líti nú á þessi vandamál. Ég skrifaði upp eftir honum, og það er eflaust hægt að fá það nákvæmlega, að hann sagði í sinni fyrri ræðu að efnahagsleg óstjórn vinstri stjórnarinnar hefði nú leitt til þess og það væri staðreynd — hann talar nú aftur um staðreynd — að nú yrði um algeran niðurskurð á verklegum framkvæmdum að ræða. Þetta var dómur hans á stefnu vinstri stjórnarinnar. Hún leiddi til þess, að það þyrfti að stöðva allar verklegar framkvæmdir. Þetta voru hans eigin orð.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar. Eins og ég sagði, ég tel varla ómaksins vert að ræða hér í löngu máli við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson um þessi mál. Hann hefur þegar hlotið 1. einkunn hjá Morgunblaðinu og hann má eflaust vera ánægður með það. Hann fer svo vestur, þegar hann er búinn að vera hér inni sem varamaður, og flytur þeim fyrir vestan þennan dásamlega boðskap, sem hann hefur verið að flytja hér. Ég hefði gaman af því að frétta af því, þegar hann er búinn að flytja þennan boðskap þar. En það mætti segja mér, að það stæði eitthvað á því, að hann flytti þennan boðskap fyrir vestfirska sjómenn, þann sem hann hefur verið að flytja hér yfir okkur.