10.02.1975
Efri deild: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Orka Íslands er ein dýrmætasta auðlind þessarar þjóðar. Virkjunarmöguleikar eru miklir og aðeins lítill hluti þeirra enn nýttur. Hér er bæði um að ræða virkjanir fallvatna og virkjanir jarðhitans. Að því er virkjun fallvatna snertir, þá höfum við hina margvíslegustu möguleika, bæði um stórvirkjanir, smærri virkjanir og meðalstórar. Stundum hefur heyrst að við ættum eingöngu eða nær eingöngu að byggja á stórvirkjunum í þessu landi. Það tel ég ekki rétt vera, heldur megum við á enga lund vanrækja hinar smærri virkjanir, dreifðar um landið. Slíkar virkjanir heima í héruðum eða í grennd þeirra skapa öryggi, þegar heiða- og fjallalínur bila í ofviðrum. Auk þess eru hinar smærri virkjanir heima fyrir eðlilegt metnaðarmál og sjálfstæðismál héraðsbúa. En hinar stóru virkjanir skapa okkur að sjálfsögðu mikla möguleika í atvinnu og efnahagslífi landsins.

Þegar ráðist er í stórar virkjanir hefur hingað til þurft og þarf væntanlega um alllangan aldur að taka til þeirra erlent lánsfé. En til þess að reisa stórvirkjanir þarf einnig að tryggja um leið sölu orkunnar, því að það hefur jafnan verið svo og mun verða á næstunni, að ekki er a.m.k. fyrst um sinn nægilegur almennur markaður fyrir þá orku, sem þar verður framleidd. Þess vegna er nauðsyn í sambandi við stórar virkjanir að fá einnig iðjufyrirtæki, sem getur keypt orkuna sem þar er umfram almenningsnotkun. Slík stóriðjufyrirtæki, sem standa þannig að vissu leyti undir stofn- og rekstrarkostnaði stórvirkjana, gera það að verkum að orkan verður ódýrari til almenningsnota.

Þegar ráðist var í fyrstu virkjun Þjórsár við Búrfell kom þetta sjónarmið til greina. Niðurstaðan varð þá sú, að samið var um byggingu álversins í Straumsvík og samið við það fyrirtæki um kaup á orku frá Búrfellsvirkjun. Þegar kom að næsta áfanga á Þjórsársvæði, virkjun við Sigöldu, sem nú er í byggingu, kom þetta sama vandamál upp, hvort nægur markaður væri fyrir þá orku sem þar yrði framleidd. Flestir töldu að til þess að nýta þá orku þyrfti einnig að koma upp stóriðju. Að vísu heyrðust raddir um það, að slíkt væri óþarfi, þar sem rafhitun húsa mundi skapa nægilegan markað fyrir það afl og þá orku, sem Sigalda hefði að bjóða. En þær raddir hljóðnuðu fljótlega, og nokkru eftir stjórnarskiptin 1971 skipaði þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, viðræðunefnd um orkufrekan iðnað til þess að eiga viðræður við erlend fyrirtæki um byggingu stóriðju sem gæti verið orkukaupandi frá Sigölduvirkjuninni.

Í rauninni eru um það bil 4 ár síðan athuganir hófust á því, hvernig ætti að nýta sem best rafmagnið frá Sigöldu. Án þess að fara ítarlega út í þá sögu — hún er rakin í grg. þessa frv. — þá má taka fram, að það voru einkum tvær tegundir stóriðju, sem komu til greina: annars vegar álframleiðsla og hins vegar járnblendiframleiðsla. Niðurstaðan varð sú að mati hinna fróðustu manna, að æskilegra væri að reisa járnblendiverksmiðju í sambandi við Sigölduvirkjun heldur en nýja álverksmiðju eða stækka þá sem fyrir var. Ástæðurnar voru aðallega tvær: önnur sú að æskilegt væri að auka fjölbreytni í stóriðju en byggja ekki aðeins á álframleiðslu, heldur fá einnig aðra framleiðslutegund. Í annan stað var sú ástæða að járnblendiverksmiðja getur notað meira af afgangsorku heldur en álframleiðsla.

Sú framleiðsla, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er járnblendi eða ferrosilikon. Þau hráefni, sem notuð eru til þessarar framleiðslu, eru kvarts, brotajárn, kol, spænir og rafskaut. Járnblendi eða ferrosilikon er notað einkum við stálframleiðslu og járnsteypu. Þetta efni hefur þá þýðingu, að það hreinsar málminn, eykur viðnám og bætir ýmsa eiginleika stáls og járns. Er gert ráð fyrir framleiðslu á svokölluðu 75% járnblendi, þ.e.a.s. 75% af sílikon og 25% af járni.

Það er talinn allöruggur markaður fyrir þessa framleiðslu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Að undanförnu hefur verið mikill skortur í heiminum á þessu efni, mikil eftirspurn, og hin síðustu ár hefur verð farið hækkandi.

Sem samningsaðili við íslensku ríkisstj. var valið bandaríska fyrirtækið Union Carbide og hafa samningar staðið yfir milli íslensku ríkisstj. og fulltrúa hennar annars vegar og þessa bandaríska fyrirtækis nú í nokkur ár. Þetta fyrirtæki virtist frá byrjun hafa verulegan áhuga á þessu máli, og það er brautryðjandi á sviði slíkrar framleiðslu. Þetta er stórt fyrirtæki, sem veltir nú um eða yfir 500 milljörðum ísl. kr. á ári, eða 4–5 sinnum meira en öll þjóðarframleiðsla Íslands er nú. Þetta félag er byggt upp eins og mörg slík stórfyrirtæki, bæði í Bandaríkjunum og víðar, hluthafar eru mjög margir, en það er talið, að nú séu um 190 þús. hluthafar í þessu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki má telja sérfræðing á sviði þessarar framleiðslu, járnblendiiðnaðar. Það hefur um margra ára skeið haft með höndum ákaflega viðtækar og fjárfrekar rannsóknir og tilraunir um ýmiss konar málmblendi, og m.a. hefur það varið stórfé á undanförnum árum til mengunarvarna, rannsókna og tilrauna á því sviði. Auk þess er talið, að það hafi söluskipulag og þjónustu við kaupendur, sem sé til fyrirmyndar, og er það að sjálfsögðu mikilvægt í sambandi við slíka samninga.

Stofnkostnaður járnblendiverksmiðju er nú áætlaður 68 millj. dala. Þegar við það er bætt þeirri tækniþóknun, sem Union Carbide fær og verður í formi hlutabréfa, og vöxtum á byggingartíma, er stofnkostnaður samtals um það bil 80 millj. dala.

Að því er reksturinn snertir er gert ráð fyrir að framleiðsla og sala verksmiðjunnar verði hin fyrstu ár um það bil 29 millj. dala á ári. Fyrir þessu, bæði stofnkostnaði og rekstrarkostnaði, er gerð allítarleg grein í aths. við frv., grg. og þeim fskj. sem því fylgja. Að því er reksturinn snertir, þá er áætlun á bls. 16, í grg. frv., sem miðuð er við markaðsverð á járnblendi nú og byggð á þeim spám, sem gerðar eru af kunnáttumönnum. Samkv. því er gert ráð fyrir því, að hreinn hagnaður, eftir að allar greiðslur hafa verið inntar af hendi og m.a. skattar, ætti að verða hin fyrstu ár um 3 millj. dala, en síðan fara hækkandi upp í 4.6 millj. dala á árunum 1983–1987 og síðar upp í 6.4 millj. Þetta eru þær spár, sem nú liggja fyrir.

Varðandi fyrirkomulag þessa samstarfs er gert ráð fyrir, að hér verði um hlutafélag að ræða og að hlutaféð verði 24 millj. dala. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að Union Carbide eigi 45% í fyrirtækinu, en íslendingar 55%. 55% af þessu hlutafé eru því 13.2 millj. Bandaríkjadollara eða um það bil 1575 millj. ísl. kr., eins og getið er í 3. gr. frv. Þetta framlag af Íslands hálfu, hlutafjárframlag, hefur verið gert ráð fyrir að taka að láni. Liggur það nokkurn veginn ljóst fyrir, að slíkt lán mun fáanlegt með viðunandi kjörum. Það hefur einnig verið kannað, eftir því sem unnt er, hvort slík lántaka kynni að draga úr eðlilegum lántökumöguleikum Íslands að öðru leyti á erlendum mörkuðum, og er talið af þeim sem fróðastir eru í þeim efnum að svo muni ekki vera. Þetta fyrirtæki þykir bæði það sérstaks eðlis og það álitlegt um arðsemi, að lántaka í því skyni yrði ekki talin mundu draga úr almennum lánsfjármöguleikum Íslands á erlendum markaði.

Varðandi eignaraðild að þessu fyrirtæki koma ýmsar leiðir til greina.

Í fyrsta lagi gæti komið til greina sú leið, sem valin var þegar álverksmiðjan var reist, þannig að íslendingar séu ekki eignaraðilar, heldur eigi hið erlenda fyrirtæki verksmiðjuna. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er auðvitað fyrst og fremst sá, að með þessu tekur Ísland ekki á sínar herðar neina áhættu af þessum rekstri.

Önnur hugsanleg leið væri sú, að íslendingar ættu einir slíka verksmiðju. Á því eru ýmsir annmarkar, með þeim hætti þyrfti Ísland að leggja fram miklu stærri hlut en nú er gert ráð fyrir. Í annan stað tæki landið á sig áhættu, þar sem það bæri eitt ábyrgð og áhættu af þessum rekstri. En það, sem skiptir ekki minnstu máli í þessu sambandi er að framleiðsla eins og sú sem hér ræðir um krefst svo mikillar tækniþekkingar og reynslu, að það er ákaflega hæpið, að íslendingar gætu, nema þá á löngum tíma og fyrir of fjár, sjálfir öðlast þá reynslu og þekkingu, ef þeir yrðu einir um hituna.

Þess vegna hefur verið talið eðlilegra að velja þriðju leiðina, að íslendingar verði eignaraðilar að þessu fyrirtæki, en hið erlenda fyrirtæki, sem hefur áratugareynslu í þessu efni, yrði meðeigandi. Þátttaka þess fyrirtækis er auðvitað fyrst og fremst æskileg frá sjónarmiði Íslands, vegna þess að það fyrirtæki leggur fram tækniþekkingu, sérleyfi og sérfræðinga, sem til þarf, og ekki síst það, sem ég drap á áður, að fyrirtækið hefur yfir að ráða mjög vel skipulögðu sölukerfi, sem er ómetanlegt í þessu sambandi.

Þegar viðræður voru hafnar við Union Carbide var það skilyrði sett af hálfu íslensku ríkisstj., að Ísland ætti meiri hl., þ.e.a.s. minnst 51%, í verksmiðjunni. Í fyrstu taldi Union Carbide hæpið að ganga að þeim skilyrðum, vegna þess að í flestum, ef ekki öllum tilvikum, þar sem það fyrirtæki hafði reist verksmiðjur í öðrum löndum, hafði það sjálft átt meiri hl. Hins vegar féllst það síðar á þetta skilyrði, en tjáði þá fulltrúum ríkisstj., að ef Union Carbide ætti ekki meiri hl., þá kærðu þeir sig ekki um að eiga meira en um þriðjung. Þannig er það til komið, sem gert var ráð fyrir á s.l. vetri og vori í þeim till., sem þá lágu fyrir, að Ísland væri með 65% aðild og Union Carbide með 35%.

Eftir stjórnarskiptin, þegar þetta mál var allt tekið til meðferðar að nýju, þótti ríkisstj. ástæðulaust, að Ísland ætti meira en ríflega helming. Varð það niðurstaðan eftir allítarlegar viðræður við hið bandaríska fyrirtæki, að hlutföllin yrðu 55% eignaraðild Íslands og 45% af hálfu Union Carbide, eins og þetta frv. og samningar, sem því fylgja, byggjast á.

Sú framleiðsla, sem hér um ræðir, byggist auk þeirra hráefna, sem ég nefndi, á orku. Samningar hafa nú tekist við þetta fyrirtæki um orkuverð, sem verður að teljast vel viðunandi. Fyrir liggur álitsgerð Landsvirkjunar, sem birt er sem fskj. með frv., þar sem þetta kemur fram. Verðið er í stórum dráttum þetta, sem nú skal greina. Það er skilið milli forgangsorku og afgangsorku og að því er snertir forgangsorkuna, þá verður orkuverðið fyrstu tvö árin 9.5 bandarísk mill, en mill er þúsundasti hluti úr dollara, þ.e.a.s. fyrstu tvö árin 1.12 kr. á hverja kwst. Eftir tvö ár hækkar svo þetta verð á forgangsorkunni upp í 10 millj. eða 1.18. Að því er snertir afgangsorkuna, þá verður hún fyrstu árin 1/2 mill eða 6 aurar, en hækkar síðan í byrjun 3. árs upp í 1.4 mill eða 16.5 aura, á 5. ári í 1.8 mill eða 21 eyri og í byrjun 7. árs hækkar það í 2.4 mill eða 28 aura. Þegar tekið er meðalverð, þá er það fyrstu árin 5 mill eða 59 aurar og hækkar eftir 6 ár upp í 6.2 mill eða 73 aura.

Þá er ákvæði um það í samningsdrögunum, að orkuverðið skuli endurskoða á fjögurra ára fresti. Það skal hækkað hlutfallslega jafnt og orkuverð norsku ríkisrafveitnanna til norsks iðnaðar. Þegar orkuverðið er skoðað í samanburði við orkuverð annars staðar kemur í ljós, að forgangsorkuverðið er mun hærra en orkufrekur iðnaður greiðir nú almennt, bæði í Noregi og í Bandaríkjunum.

Að því er snertir skiptingu milli forgangsorku og afgangsorku, þá er sú skipting orðin verulega hagstæðari nú en hún var áður og verður að teljast mjög viðunandi. Að því er orkusamningana í heild varðar verður að teljast, að þeir séu okkur hagstæðir.

En þá kemur upp sú spurning, hvort nægileg orka sé þá til handa þessari verksmiðju eða hvort hætta sé á því, að orkuskortur verða til annarra nauðsynja. Niðurstaðan af könnun á því er sú, að orkan sé næg og það muni ekki skapa örðugleika, þó að samið sé um raforkusölu til þessarar verksmiðju. En orkusalan til þessarar verksmiðju mun nema frá 60 til 68 mw. á ári.

Nú kunna menn að spyrja: Hvernig má það vera, að næg orka sé til sölu til þessarar verksmiðju, þegar jafnátakanlegur orkuskortur er hér í landi víða eins og vart hefur orðið nú á þessum vetri og síðustu ár? því er til að svara, að hér á Suður- og Suðvesturlandi er ekki orkuskortur, og þegar Sigölduvirkjun tekur til starfa, sem við vonum að verði fyrir árslok 1976, þá er nægileg orka til almenningsnota, iðnaðar og húshitunar, á þessu orkuveitusvæði, þó að orka sé einnig seld til járnblendiverksmiðjunnar. Og því til viðbótar er nægileg orka handa Norðurlandi til þess að flytja norður, þegar norðurlínan er komin.

Sá orkuskortur, sem hefur þjakað okkur að undanförnu, er á Norðurlandi og Austurlandi fyrst og fremst. Það stafar af því, að þar hefur ekki verið virkjað nægilega hratt til þess að fullnægja eftirspurn. Á Norðurlandi er, eins og kunnugt er, mjög mikill orkuskortur. Úr honum verður væntanlega ekki bætt á viðunandi hátt fyrr en Kröfluvirkjun tekur til starfa eða þegar norðurlínan kemur í notkun, hvort sem verður á undan. Varðandi Kröfluvirkjun er þess að geta, að til skamms tíma var gert ráð fyrir því að hún tæki um 4 ár. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að hraða öllum undirbúningi sem mest mætti verða, og nú hafa horfur breyst mjög til batnaðar í því efni, þannig að líkur eru til þess nú, að Kröfluvirkjun geti tekið til starfa veturinn 1976–1977.

Varðandi Austurland hefur sú virkjun, sem átti að bæta úr skák, Lagarfossvirkjun, dregist úr hömlu. Hún átti að vera tilbúin á s.l. sumri, en vegna dráttar á afhendingu ýmiss útbúnaðar og tækja hefur það ekki orðið enn. Alþ. hefur nú skömmu fyrir jól samþ. lög um nýja virkjun, Bessastaðaárvirkjun, en að sjálfsögðu tekur það nokkur ár að hún komist í notkun.

Um þetta mál. hvort orka sé aflögu til járnblendiverksmiðju, eru ýmsar upplýsingar í aths. við frv., sérstaklega í þeirri grg., sem frá Landsvirkjun er birt með frv., á bls. 46–55. Þar kemur m.a. fram, að á næstu árum verði afl á Landsvirkjunarsvæðinu 534 mw., og nægir það til allrar notkunar hér, til járnblendiverksmiðjunnar og fyrir Norðurland. Þessu til viðbótar gerum við ráð fyrir, að Kröfluvirkjun geti komið í notkun fyrr en gert var ráð fyrir.

En auk þessarar spurningar, hvort orka muni verða nægileg til þessarar verksmiðju, hafa þær spurningar einnig komið fram, hvort ekki sé æskilegra að nota þessa orku ti1 annarra hluta heldur en járnblendiframleiðslu, t.d. til matvælaframleiðslu. Í því sambandi vil ég taka það fram, að við íslendingar höfum stórkostlega möguleika til margs konar matvælaframleiðslu, m.a. grænmetis, með jarðhita. Það er enginn vafi á því, að notkun þeirrar orku, jarðhitaorkunnar, er hagkvæmari en notkun raforku í því skyni. Liggja fyrir áætlanir og greinargerðir um ylrækt með notkun jarðhita og jarðgufu, og verður væntanlega tækifæri til þess áður en langt um líður að ræða þau mál nánar hér á Alþ.

Þegar ráðast skal í virkjanir, sérstaklega stórvirkjanir, og þegar stofna skal til nýrra iðnaðarframleiðslu, þarf að huga mjög að því, að slíkar framkvæmdir verði ekki til tjóns á umhverfi og íslenskri náttúru. Við íslendingar þurfum alveg sérstaklega að gefa þessu gaum vegna þess hvað íslensk náttúra er viðkvæm. Við erum líka sjálf ákaflega viðkvæm fyrir íslenskri náttúrufegurð og viljum ekki, að á nokkurn hátt sé að henni vegið. Hér kemur margt til. Við búum við hreint og tært loft, langdrægt útsýni, sem fáar aðrar þjóðir njóta. Við höfum líka í marga áratugi notið hitaveitu í höfuðborginni og sem betur fer á nokkrum stöðum annars staðar — hitaveitu sem hefur útilokað kola- og olíureyk og þar með orðið til mikillar hollustu og bættrar heilbrigði og hreinlætis fyrir það fólk sem hennar hefur notið.

Þegar við ræðum um nýja stóriðju þarf alveg sérstaklega að huga að því, að hún spilli ekki umhverfi eða náttúrufegurð landsins. En þegar athugað er, hvernig að þessum málum hefur verið staðið á undanförnum árum, þá er það ljóst að hér hefur víða verið pottur brotinn. Margar verksmiðjur og margvíslegur iðnaður hafa risið upp á síðari áratugum, þar sem hefur ekki verið gætt þessara sjónarmiða. Þar má nefna m.a. verksmiðjur á sviði sjávarútvegsins, sem mengað hafa loft og umhverfi, þótt menn hafi ekki tekið til þess, vegna þess að vitað var, hver björg í bú þessar verksmiðjur voru, og þess vegna lyktinni frá slíkum verksmiðjum valið heitið „peningalykt“. En hér þarf að vinna vel og gera sitt ýtrasta til þess að draga úr mengun og óþrifnaði hjá þeim verksmiðjum sem fyrir eru, en ekki síður gæta þess, að hreinlætis- og þrifnaðarreglum sé fylgt til hins ítrasta og komið í veg fyrir mengun og heilsuspillandi áhrif þegar ný fyrirtæki eru að rísa upp.

Í sambandi við járnblendimálið hefur verið lögð á það megináhersla, bæði af fyrrv. og núv. ríkisstj., að þetta mætti verða. Í þeim drögum að aðalsamningi, sem birtur er með frv., má sjá í 7. gr., á bls. 28 í frv., að þessu hefur verið gaumur gefinn. Í þeirri grg. segir svo um umhverfis- og öryggismál:

„Hönnun verksmiðjunnar, bygging og rekstur skulu í öllu vera í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglugerðir á Íslandi varðandi mengunarvarnir og öryggi, heilbrigði og hreinlæti á vinnustað og þá staðla, sem settir eru samkv. þessum lögum og reglugerðum.

Járnblendifélaginu ber að gera allar varúðarráðstafanir til að varna tjóni á umhverfi verksmiðjunnar af hennar völdum og að hanna mannvirki verksmiðjunnar þannig, að þau fari sem best í umhverfinu.“

Meginefni þessa samningsákvæðis er svo einnig tekið upp í 11. gr. frv.

Í sambandi við þessa verksmiðju kemur til athugunar í fyrsta lagi, hvort loftefni, ryk eða reykur kemur frá verksmiðjunni, sem skaðlegt gæti orðið, enn fremur hvort frárennsli frá verksmiðjunni geti skapað hættu, enn fremur föst úrgangsefni og ekki síst allt vinnuöryggi og vinnuvernd í verksmiðjunni. Áður fyrr hafa ýmsar málmblendiverksmiðjur verið þannig úr garði gerðar, að mikill reykur og margs konar óhollusta hefur frá þeim stafað. En hin síðari ár er það, hvort tveggja að ýmis fyrirtæki — og þar er Union Carbide í fararbroddi — hafa lagt í það mikla vinnu og mikið fé að finna ráð til þess að útiloka sem mest mætti verða mengun og önnur óholl áhrif. En einnig hefur þess gætt víða um heim og ekki síst í Bandaríkjunum, að mjög strangar reglur hafa verið upp teknar af heilbrigðiseftirliti. Hjá okkur er reglugerð um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna frá 1972. Þar er svo ákveðið, að leyfi til verksmiðjurekstrar eins og þessa, sem hér ræðir um, veiti heilbrrh, og áður en slíkt leyfi er veitt skuli leitað umsagnar Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Náttúruverndarráðs, Öryggiseftirlits ríkisins, Siglingamálastofnunar og eiturefnanefndar, eftir því sem ástæða þykir til.

Til þess að kanna þessi mál sem best hefur stóriðjunefndin aflað upplýsinga og fulltrúar frá henni farið til Bandaríkjanna til þess að kynna sér meðferð þessara mála þar. Enn fremur hafa bæði forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Baldur Johnsen yfirlæknir, og starfsmaður hans, Eyjólfur Sæmundsson verkfræðingur, báðir farið vestur um haf til að kynna sér sem best þessi mál, ekki aðeins hjá viðsemjendum okkar, heldur hjá heilbrigðisyfirvöldum, náttúruverndarráði og öðrum slíkum opinberum aðilum þar vestra.

Gerðar eru ráðstafanir til þess, að hv. iðnn. þessarar d., sem fær málið til meðferðar og væntanlega mun vinna að því með iðnn. Nd., fái ítarlega grg. frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins um þetta mál allt. Í þeirri ítarlegu grg., sem heilbrigðiseftirlitið hefur samið, eru öll þessi atriði rakin rækilega, hvaða hættur eru í sambandi við mengun og hvaða ráð séu þar til varnar. Það er of langt mál að rekja það allt í þessari framsögu, en málið verður væntanlega rætt rækilega á fundum n. Ég skal þó taka það fram varðandi loftmengun, ryk eða reyk frá verksmiðjunni, að nú hafa verið fundnar upp og notaðar með ágætum árangri sérstakar aðferðir til þess að safna þeim reyk og ryki saman með pokasíum. Árangurinn, sem þegar hefur náðst í því efni, er að 99% af þessum loftefnum nást þar og verður unnið úr þeim að nýju. Úr þeim úrgangi, sem þannig fæst, eru gerðir kögglar sem notaðir eru að einhverju leyti til framleiðslunnar að nýju. Einnig hefur komið til orða, að Sementsverksmiðja ríkisins gæti til framleiðslu sinnar nýtt köggla, sem unnir eru úr þessu ryki og reyk. Það mál er til athugunar hjá Sementsverksmiðju ríkisins.

Varðandi frárennsli frá verksmiðjunni er ekki talíð, að þar sé um neinn skaðvald að ræða, því að kælivatnið, sem notað er, er í lokuðu kerfi og fer ekki út.

Að því er snertir föst efni, þá er þar um að ræða gjall og málmgrýti og hafa ekki fundist í því háskaleg efni. En allt þetta verður að sjálfsögðu skoðað og settar um það strangar reglur. Hins vegar vil ég taka það fram, að ekki hefur þótt rétt enn — og það er í samræmi við álit Heilbrigðiseftirlits ríkisins — að sækja formlega um starfsleyfi fyrir þessa verksmiðju fyrr en Alþ. hefði ákveðið hvort hún skuli reist og stjórn verði skipuð fyrir félagið.

Í álitsgerð Baldurs Johnsens og Eyjólfs Sæmundssonar, segir svo, að heilbrigðisyfirvöld muni framfylgja íslenskum lögum og reglum til hins ítrasta til að tryggja sem best að umrædd verksmiðja spilli ekki umhverfi sínu og heilsu starfsfólks verði ekki stefnt í voða. Heilbrigðiseftirlit ríkisins mun fylgjast með byggingu verksmiðjunnar og tryggja, að stöðlun og öðrum skilyrðum, sem sett verða fyrir byggingar- og rekstrarleyfi, verði framfylgt. Að öllu þessu athuguðu mun Heilbrigðiseftirlit ríkisins ekki mæla gegn rekstrarleyfi fyrir fyrirhugaða málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, enda verði settum skilyrðum fyrir byggingu, viðhaldi og rekstri fylgt í hvívetna.

Varðandi tolla þessa fyrirtækis er gert ráð fyrir því, að verksmiðjan njóti sömu kjara og annar hliðstæður útflutningsiðnaður að því er varðar aðflutningsgjöld og söluskatt á innflutningi, bæði um stofnkostnað og rekstur. Sama gildir um útflutning. Varðandi skattlagningu verksmiðjufélagsins verður henni í meginatriðum háttað samkv. íslenskum skattalögum, eins og þau verða á hverjum tíma. Þau fáu sérákvæði, sem um er samið, er að finna í 7. og 8. gr. frv. og má segja að mikilvægast sé ákvæðið um frádráttarheimild um arðgreiðslu, sem svarar allt að 10% af nafnverði hlutafjár. Um það atriði segir undirbúningsnefndin á bls. 23 í frv., að þetta ákvæði hafi tvo kosti í för með sér. Annars vegar geri það fyrirtækinu kleift að byggja upp meiri varasjóði en ella væri og þannig gera það lánshæfara gagnvart erlendum bönkum. Hins vegar felst í þessu ákvæði, ef því verður beitt, frestun á greiðslu arðs úr landi, sem aftur hefur hagstæð áhrif á greiðslujöfnuð.

Varðandi staðarval fyrir verksmiðjuna, þá var það mál rannsakað rækilega og niðurstaða í því fengin alllöngu fyrir stjórnarskipti. Ýmsir staðir höfðu verið kannaðir og komist að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan væri best staðsett á Hvalfjarðarströnd, þ.e.a.s. í landi jarðarinnar Klafastaða í Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu. Undanfarnar víkur hefur verið rætt við eigendur jarðarinnar um kaup á landi úr jörðinni. Hefur náðst samkomulag um það, að ríkið kaupi um það bil 80 hektara lands úr jörðinni, sem nægir ríflega fyrir verksmiðju og höfn, og enn fremur að ríkið fái forkaupsrétt á jörðinni að öðru leyti. Vegna þessa samkomulags hefur verið felld niður eignarnámsheimild, sem verið hafði í frv. upphaflega. Ég fagna því, að fullt samkomulag hefur náðst við aðila um þetta mál.

Í sambandi við verksmiðjuna þarf að gera hafnarmannvirki. Aðstaða til hafnarmannvirkja er ein af ástæðunum til þess, að þessi staður var valinn, því að hafnarskilyrði eru þarna mjög góð. Hefur verið mjög um það rætt, hvernig háttað skyldi aðild að höfninni, hvort þarna skyldi verða um landshöfn að ræða, hvort verksmiðjan skyldi að einhverju leyti eiga höfnina. En sú hefur orðið niðurstaðan, að sveitarfélögin, sem þarna eiga hlut að máli, verði eigendur hafnarinnar. Hreppsfélögin eru Skilmannahreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Innri-Akraneshreppur og Leirár- og Melasveit, auk þeirra Akraneskaupstaður. Einnig kemur til athugunar, hvort Borgarfjarðarsýsla yrði aðili. Samgrh. hefur nýverið skipað nefnd til þess að athuga nánar eignaraðild að höfninni, en í stórum dráttum má segja, að gert er ráð fyrir því að sveitarfélög verði eigendur hafnarinnar og höfnin verði síðan byggð eftir hafnalögum og almennum reglum um fjárframlög, þannig að ríkissjóður leggi fram 75% kostnaðarins, en sveitarfélögin 25%.

Varðandi tekjustofna sveitarfélaga segir í 7. gr. frv., að félagið greiði árlegt landsútsvar, sem á að reiknast út eftir svipuðum reglum og aðstöðugjald, enn fremur greiði það fasteignaskatta eftir venjulegum reglum. Það mál er til athugunar, hvernig þeim tekjum, sem til sveitarfélaganna ganga, verði skipt milli þeirra. Á þessu stigi er hægt að segja, að gert er ráð fyrir því að hreppsfélögin 4, sem ég nefndi, ásamt Akraneskaupstað verði aðilar að þessum tekjustofnum. Komið hefur til orða, hvort þessi 4 hreppsfélög mundu vilja sameinast í eitt sveitarfélag. Eru hafnar nokkrar umr. milli þeirra og fulltrúa ríkisins um það efni. Úrslit þess máls velta á óskum og vilja sveitarfélaganna sjálfra.

Það er eðlilegt, að þær raddir heyrist, bæði á Alþ. og utan þess, hvort það sé heppileg þróun byggðamála að svo margar stórar verksmiðjur rísi upp hér við Faxaflóa. Hér er áburðarverksmiðjan, hér er sementsverksmiðjan, hér er álverið, og nú er gert ráð fyrir að járnblendiverksmiðja rísi við Hvalfjörð. Er eðlilegt að fólk utan þessa svæðis og fulltrúar þess verði hugsi út af slíkri stefnu. En eins og þetta mál er til komið, í beinu sambandi við Sigölduvirkjun, mun verksmiðjan þurfa að vera einhvers staðar á þessu svæði. Það mun teljast óhagkvæmt að leiða rafmagn í svo stórum stíl til stóriðjufyrirtækis t.d. fyrir norðan.

Stórframkvæmdir af þessu tagi hafa eða geta haft mjög jákvæð áhrif fyrir sitt næsta umhverfi, og inn á það mál er farið í grg., bls. 19, þar sem stóriðjunefndin segir svo: „Það er skoðun viðræðun., að bygging járnblendiverksmiðju á þessum stað, ásamt góðri höfn, muni hafa mikla þýðingu til eflingar byggðar og atvinnuþróunar í sunnanverðu Vesturlandskjördæmi. Verksmiðjustæðið er aðeins 15 km frá Akranesi, svo að verksmiðjan á að geta fengið þaðan bæði vinnuafl og þjónustu, en búast má við þéttbýlismyndun nálægt verksmiðjunni með tímanum. Ljóst er að hafnarskilyrði eru mjög góð og stækkunarmöguleikar hafnar miklir. Mikið landrými er þarna fyrir hendi og góð skilyrði fyrir myndun þéttbýliskjarna.“

Svo mælir n. um það gagn, sem þessi héruð gætu haft af verksmiðjunni, og framtíðarhorfur í því sambandi. En um leið og slík mál sem þessi eru til meðferðar á Alþ. þarf að huga að því, hvað nauðsynlegt er að gera fyrir byggðir annars staðar á landinu, fyrir aðra landsfjórðunga. Í sambandi við virkjunarmálin þarf sérstaklega að athuga hvernig megi leysa raforkuvandamál Vestfjarða. Varðandi Austurland hafa verið gerðar ráðstafanir, í fyrsta lagi með Lagarfossvirkjun og nú með fyrirætlunum um virkjun Bessastaðaár, sem lög hafa verið samþ. um. Auk þess eru athugaðir aðrir stórfelldir möguleikar á Austurlandi til rafvirkjana. Varðandi Norðurland er Kröfluvirkjun í undirbúningi, og er þess að vænta að hún verði tilbúin fyrr en ráðgert hafði verið. En vatnsvirkjunarmöguleikar á Norðurlandi eru margvíslegir og miklir. Vil ég þar nefna sérstaklega möguleika sem stærstir eru og nærtækastir: virkjun í Dettifossi, virkjun í Skjálfandafljóti, virkjun Jökulsánna í Skagafirði og virkjun Blöndu. Það þarf að hraða, eftir því sem föng eru á, undirbúningi og ákvörðun og síðan framkvæmdum við nýja vatnsaflsvirkjun á Norðurlandi. Ég tel, að virkjun Blöndu sé einhver hagkvæmasti og öruggasti virkjunarkostur sem völ er á, rannsóknir allvel á veg komnar, þó ekki nægilega til endanlegrar ákvörðunar. Mér virðist mjög æskilegt, að sem fyrst yrðu teknar ákvarðanir um stórvirkjun fyrir norðan til þess að skapa þar möguleika á auknu atvinnulífi, auknum iðnaði, — stórvirkjun sem gæti orðið lyftistöng fyrir þann landshluta eigi síður en stórvirkjanir og stóriðjuframkvæmdir fyrir Suðvesturland. Það eru óneitanlega miklar líkur til þess að Blönduvirkjun verði þar fyrir valinu, svo fremi að samningar takist um land- og vatnsréttindi við eigendur, sem að meginhluta eru upprekstrarfélög Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar.

Ég tel nauðsynlegt í sambandi við stóriðjufyrirætlanir eins og þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að huga að byggðamálunum og hvað hægt er að gera í virkjunar- og iðnaðarmálum í öðrum landshlutum.

Það var fyrir réttu ári, að viðræðun. um orkufrekan iðnað sendi þáv. ríkisstj. grg. og taldi undirbúningi að járnblendiverksmiðju svo langt komið að taka mætti endanlegar ákvarðanir í því máli. Í apríl og maímánuði mun það jafnvel hafa verið í ráði að leggja fram frv. um málið fyrir Alþ., en af sérstökum ástæðum varð ekki af því, — ástæðum sem ég skal ekki rekja að þessu sinni.

Eftir stjórnarskiptin í haust var málið tekið upp að nýju. M.a. voru það þrjú atriði, sem lögð var áhersla á að kanna nánar og fá breytingar á. Í fyrsta lagi var talið nauðsynlegt að fá mun hærra orkuverð fyrir það rafmagn, sem selt yrði til járnblendiverksmiðjunnar, en gert hafði verið ráð fyrir í samningsdrögum frá því í fyrravor. Tókst að fá þar á verulega hækkun. Þegar talin er hækkunin á sjálfu orkuverðinu, forgangsorku og afgangsorku, og einnig aðrar breytingar í því sambandi, er samkv. þessum samningum, sem hér liggja fyrir, um 43% hækkun frá því sem var í þeim drögum sem lágu fyrir frá s.l. vori. Í öðru lagi var talið rétt að fá eignarhlut Íslands lækkaðan úr 65% niður undir 51% af ástæðum sem ég greindi áður. Samkomulag varð um það, að Ísland ætti 55% í staðinn fyrir 65% eins og gert var ráð fyrir á s.l. vori. Í þriðja lagi var lögð á það megináhersla að tryggja sem best allar mengunarvarnir og hef ég rakið það mál.

Um öll þessi þrjú þýðingarmiklu atriði hefur náðst verulegur árangur.

Varðandi þá kosti, sem það hefur fyrir Ísland að ganga til þessa samstarfs og reisa þessa verksmiðju, skal ég í lok máls míns aðeins rekja nokkur meginatriði:

Það er í fyrsta lagi, að slík járnblendiverksmiðja er æskileg og í rauninni nauðsynleg vegna orkusölu frá Sigöldu, nauðsynleg til þess að selja við góðu verði þá orku, sem þar er framleidd og ekki er annar markaður fyrir um sinn. Að því leyti er þetta frv. og þessi samningur, sem það byggist á, mjög mikilvægt fyrir þessa stórvirkjun.

Í öðru lagi mundu renna með þessum hætti fleiri stoðir en nú er undir íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf. Öllum er kunnugt hversu varhugavert er að byggja svo mjög á einum atvinnuvegi, þó að hann sé okkar lífæð. Við verðum að fá fleiri stoðir. Í þá átt var stigið stórt spor með byggingu álversins og nú mundi járnblendiverksmiðjan einnig verða mikilvæg stoð.

Þá mundi slík verksmiðja auka gjaldeyristekjur okkar. Nettógjaldeyrishagnaður mundi verða verulegur af þessari verksmiðju.

Í fjórða lagi mundi verða hér atvinnuauki. Gert er ráð fyrir, að um 300 manns mundu hafa atvinnu við byggingarframkvæmdir, en síðar, þegar verksmiðjan tekur til starfa, er gert ráð fyrir 115 manns. Vitanlega verður að gæta þess hér vandlega hvernig þetta fellur að hinum almenna vinnumarkaði og að ekki stafi af þessum framkvæmdum aukin þensla. Það mál þarf að sjálfsögðu að skoðast í sambandi við framboð og eftirspurn eftir vinnuafli og efnahagsmálin í heild.

Þá mundi slík stóriðja skapa möguleika fyrir ýmiss konar aukna þjónustu, þjónustufyrirtækja, viðgerðarverkstæða, flutningsaðila o.s.frv.

Í sjötta lagi mundi Ísland fá skatttekjur af þessari verksmiðju, sem mundu verða verulegar, bæði til ríkis og sveitarfélaga, ef svo fer sem horfir.

Og í sjöunda lagi má gera ráð fyrir því, að Ísland fái töluverðan arð af þessu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki verður eftir þeim drögum, sem hér liggja fyrir, íslenskt fyrirtæki að meiri hluta og mun í öllu lúta íslenskum lögum.

Ég vil leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.