10.02.1975
Efri deild: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til þess að samþ. þetta frv., a.m.k. ekki í þeirri mynd sem það birtist nú þessari hv. d. Alþ. Ég tel að rökstuðningurinn, sem fylgir frv. um hagsbætur sem okkur séu búnar af samningnum, sem hér er áformað að gera við erlent auðfélag, sé ekki sannfærandi. Þvert á móti virðist mér líkur benda til þess að hann kynni að valda okkur tjóni, efnahagslegu, menningarlegu og pólitísku. Auk þess fæ ég ekki betur séð en forsendur fyrir þessum samningi séu reistar á úreltu verðmætamati, bæði efnahagslegu og siðferðilegu. Raddirnar um notkun allrar raforku okkar, allrar raforkunnar frá Sigöldu, eru ekki þagnaðar og hafa aldrei þagnað. Loks þykist ég hafa ástæðu til að efast um að fyrirhugaður viðsemjandi okkar, Union Carbide Corp., sé verðugur þess trausts, að íslenska ríkið gerist félagi hans og leggi höfuð sitt í kjöltu hans með þeim hætti sem hér er ráðgert. Enn fremur tel ég áð vinnubrögð við undirbúning þessa máls séu vitaverð.

Í fylgiskjölum með lagafrv. þessu, þar sem rakinn er aðdragandi málsins, segir frá skýrslu, sem Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hafi sent iðnrh., Jóhanni Hafstein, í maí 1971, þar sem skýrt var frá viðræðum sem þá höfðu nýlega farið fram við Union Carbide og fleiri fyrirtæki um hagnýtingu og orku frá Sigöldu. Segir síðan frá því hvaða menn voru skipaðir í viðræðunefnd um þetta mál í tíð tveggja iðnrh. annarra til þess að ræða málið við Union Carbide. Af nærri 6 ára aðdraganda, þegar tali$ er frá bréfi Jóhannesar Nordals til Jóhanns Hafsteins, virðist okkur ætlað að draga þá ályktun að mál, sem hafi svo lengi verið í athugun, hljóti að hafa verið grannskoðað að bestu manna yfirsýn og hlotið jafnframt lýðræðislega meðferð. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar, að vinnubrögðin við undirbúning málsins af hálfu yfirvalda séu ekki með þeim hætti, að þau geti talist viðunandi fyrir Alþ., heldur hafi þau verið í aðra röndina ólýðræðisleg svo að stappi nærri móðgun við alþm. og þá jafnframt og ekki síður við umbjóðendur þeirra, hv. kjósendur. Í hina röndina hafa þau orðið harla grunsamleg, svo sem gjarnan vill verða þegar ekki er gætt eðlilegrar kurteisi í starfi.

Hér sveigi ég ekki að þeim mönnum, sem nafngreindir eru í fskj. frv. þessa sem ábyrgðarmenn undirbúningsmálsins, þeirra á meðal eru flokksbræður mínir, sem ég veit með vissu að vilja ekki landi sínu annað en allt hið besta. Þar eru líka pólitískir andstæðingar, sem ég hef fullkomna ástæðu til að ætla að séu vammlausir sæmdarmenn. Ég er sannfærður um að við umr. þær, sem nú fara fram hér á Alþ., og þá ítarlegu könnun, sem verður að fara fram á málavöxtum, munu koma í ljós eðlilegar skýringar á mistökum þessara manna. En þangað til þær hafa komið í ljós ætla ég að halda áfram að undrast það hvernig hópur heiðarlegra, greindra og vel menntaðra íslendinga getur komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt geti verið fyrir þjóð mína að leggja nú í það a.m.k. 10 milljarða kr. að koma upp málmblendiverðsmiðju í Hvalfirði. Seinna mun ég í þessari ræðu rökstyðja andstöðu mína gegn þessu frv. í einstökum atriðum. En ég vil nú strax í upphafi þessa máls, sérstaklega sökum þess að ljóst er skv. upplýsingum hæstv. forseta, að ég mun ekki geta lokið ræðu minni í dag, setja fram vingjarnlegustu tilgátuna sem ég á völ á um orsök þess, að góðir menn skuli reynast jafnóráðhollir og raun ber vitni í þessu stjórnarfrv. og kalla það að reisa nýjar stoðir undir efnahag og velferð þjóðar sinnar í þokkabót að reiða svo til höggs að rótum hennar sem hér er gert. Ég held að þessir ágætu menn hafi verið blekktir sumir þeirra hafi meira að segja verið menntaðir undir það að láta blekkjast í þessu máli.

Um þetta mál hafa fjallað öðrum fremur verkfræðingar, skólaðir undir reykskýjum stóriðnaðarsamfélaganna, og hagfræðingar, menntaðir undir sams konar himni. Í grófum dráttum má segja að þetta séu mennirnir, sem hafa verið að reyna að koma því inn hjá íslenskum fiskimönnum og bændum, að landbúnaðar og sjávarútvegur takmarki hagvöxt þjóðarinnar. Þessir sérfræðingar hafa numið fræði, sem ekki falla að íslenskum atvinnu- og þjóðháttum. Þegar þeir koma heim telja þeir íslenska þjóðhætti og atvinnuhætti, óhæfa, af því að þeir falla ekki að þessum reykskýjafræðum þeirra, og þess vegna þurfi að breyta íslenskum þjóðháttum til samræmis við fræðin. Þeir geta ekki sætt sig við þá tilhugsun, að e.t.v. sé það verkfræðin þeirra og hagfræðin þeirra sem séu óhæfar, vegna þess að þær falla ekki að íslenskum þjóðháttum, og væri kannske réttara að breyta fræðigreinum þeirra til samræmis við þá. Við búum ekki í iðnaðarsamfélagi, ekki í iðnaðarþjóðfélagi, og einmitt þessi missirin blasa hvarvetna við okkur aðvaranir gegn því að breyta samfélagi okkar í iðnaðarþjóðfélag. Við búum í vélvæddu hjarðmanna- og veiðimannasamfélagi, sem á sér engan líka í öllum heiminum og hefur fram að þessu veitt íslendingum framfærslu og lífsþægindi á við það sem langbest gerist í iðnaðarsamfélögum. Því aðeins að hagfræðingarnir okkar og verkfræðingarnir hafi til þess greind og nennu að sniða fræði sín að þörfum þess skrýtna samfélags, því aðeins geta þeir gert okkur gagn. Með því að beita kunnáttu sinni og valdi, sem henni fylgir, til að breyta samfélagi okkar á þá lund að það hæfi fræðigreinum þeirra þá vinna þeir okkur ógagn. Ég á sjálfsagt eftir að víkja nánar, þegar fram í sækir, að þeim annmörkum, sem eru á því að treysta blint á leiðsögn sérfræðinga í málum sem þessum. En hér kemur fleira til. Það væri t.d. freistandi að vitna í þessu sambandi í orð Guðmundar sáluga Benjamínssonar, bónda á Grund, hins vitrasta og besta manns, sem sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Það er nú svona með íslendinga, þessa góðu og göfugu þjóð, þeim er svo eiginlegt að trúa því sem þeir vita að er ósatt og treysta á skýrslu sem þeir hafa sjálfir falsað.“ Þar eiga að vísu háskólamenntaðir sérfræðingar ekki einir hlut að máli, heldur fleiri, en þeir eru ekki undanþegnir. Og það eitt er víst, að þeir eiga öðrum mönnum fremur sök á því ef við skjótum nú skollaeyrum við reynslu annarra þjóða af sams konar iðnvæðingu og þeirri, sem ráðgert er í þessu frv., og þó e.t.v. fyrst og fremst ef við skjótum skollaeyrum við reynslu sem við höfum sjálfir öðlast af sams konar iðjuverum, sem þeir hafa sjálfir talið okkur á að koma upp á þessu landi. Við höfum nefnilega talsverða reynslu í rekstri stóriðjuvera í samstarfi við erlend auðfélög, að vissu leyti býsna lærdómsríka, einmitt vegna þess að annað iðjuverið, álverið í Straumsvík, er algerlega í eigu útlendinga, en hitt, kísilgúrverksmiðjan í Mývatnssveit, er í sameign með útlendingum, að vissu leyti svipað því sem ráðgert er í frv. ríkisstj., að málmblendiverksmiðjan verði, þótt ekki sé það að öllu leyti. Með tilliti til þess arna hlýtur að vera æskilegt að gera nokkurs konar úttekt á reynslu okkar af þeim samningum, sem við gerðum við útlendinga í sambandi við þau iðjuver, reynslu okkar af rekstri þeirra og áhrifum þeirra á nánasta umhverfi sitt, dautt og lifandi, og rekstur þjóðarbúsins í heild. Þá úttekt treysti ég mér nú ekki til að gera á eigin spýtur, svo að heitið geti. Til þess að hún mætti koma að virkilegu gagni þurfa sérfræðingar að fá aðstöðu til þess að fjalla um málið á eðlilegan hátt, og sú rannsókn hlýtur að taka talsverðan tíma. Að vísu hefur sérfræðingur athugað lítillega hin vistfræðilegu og vistpólitísku áhrif þessara stóriðjufyrirtækja. Ég skal minnast á það hér á eftir með hvaða hætti aðstandendur fyrirhugaðrar málmblendiverksmiðju brugðust við þeim athugunum og bundu endi á þær. Vegna skorts á upplýsingum og gögnum verð ég sem sagt að styðjast við nokkrar alkunnar staðreyndir í þessu sambandi og reyna að draga ályktanir af þeim.

Þá víkjum við fyrst að stærra fyrirtækinu, álverinu. Það voru líka sérfræðingar á sviði hagfræði og verkfræði, sem lögðu á ráðin um samninginn við Alusuisse um stofnun ÍSALs og verksmiðjunnar miklu í Straumsvík, ekki að öllu leyti sömu verkfræðingarnir. Þó hafði forustu sami maður og nú leggur á hin hagfræðilegu ráðin varðandi málmblendiverksmiðjuna, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Hin fræðilega forusta var raunar einnig hin sama, þótt nú séu nöfn annarra einstaklinga tilgreind.

Svo að við rifjum aðeins upp rökin, sem viðhöfð voru í byrjun, þegar upp hófst róðurinn fyrir álverksmiðjunni, þá ber þessi hæst.

1. Algert skilyrði sögðu þeir fyrir því, að hægt væri að fá lán til virkjunar við Búrfell var, að við seldum verulegan hluta af orkunni fyrir fram til erlends stóriðjufyrirtækis.

2. Við urðum, sögðu þeir, að taka tilboði Alusuisse um raforkuverð, sem var langt undir kostnaðarverði og bundið til ársins 1997, vegna þess að alveg á næstu árum yrði raforka frá vatnsaflsstöðvum ekki lengur samkeppnisfær um verð við raforku frá kjarnorkuverum.

3. Vegna þess hve mikið var nú í húfi að gera þennan ágæta samning strax, áður en raforkuverðið lækkaði, urðum við að fallast á það, að álverið lyti ekki íslenskri lögsögu.

4. Því var heitið munnlega og fór víst ekki á milli mála, að þar fylgdi hugur máli, að gætt yrði fyllsta hreinlætis og fullkomnustu hollustuhátta og öllu því til kostað, sem þyrfti, að koma í veg fyrir eitrun eða mengun.

5. Ástæðulaust var að leita álits óháðra erlendra sérfræðinga á því, hvort ekki þyrfti að setja upp hreinsitæki í verksmiðjuna, því að „lægðirnar, ryksugur háloftanna hér á norðurslóð,“ eins og verkfræðingarnir okkar orðuðu það, mundu sjá um alla hreinsun.

6. Aðrar mótbárur, bæði varðandi fjárhagslega hagkvæmni samningsins, hugsanleg umhverfisspjöll og óæskileg áhrif á sviði þjóðfélagsmála, voru bara þvaður úr öfgafullum andstæðingum þessa þjóðþrifamáls, sem sennilega voru flestir kommúnistar.

Ég mun e.t.v. á óbeinan hátt bera þessi rök hér á eftir saman við þau rök, sem nú eru höfð uppi í sambandi við málmblendiverksmiðjuna. En við skulum staldra aðeins við og athuga, hversu haldgóð þessi rök verkfræðinganna hafa reynst, hversu haldgóð þau hafa verið í sambandi við rekstur verksmiðjunnar.

Þá skulum við taka fyrir fyrsta atriðið. Það var sannreynt, þegar vinstri stjórnin samdi við Alþjóðabankann um lán til Sigölduvirkjunar, að þar voru ekki sett nein skilyrði af hálfu bankans um það, að nein orka yrði seld fyrir fram til erlendrar stóriðju, heldur talið sjálfsagt að íslendingar ráðstöfuðu orkunni á þann hátt sem þeim þætti sjálfum þjóðhagslega best.

2. Staðhæfingin um raforkuverðið, 2.3 millj., sem samsvarar nú að því er mér virðist 27 aurum á kwst. en við skuldbundum okkur til að selja helminginn af allri raforkuframleiðslu landsins fyrir fram til ársins 1997 vegna hættunnar á verðfalli rafmagns, — þessi staðhæfing hefur reynst svo sönn, að nú er okkur boðið upp á það að selja rafmagn á fimmfalt hærra verði til stóriðju. Ég mun færa rök að því hér á eftir, að þetta fimmfalda verð sé eigi að síður smánarverð. Afleiðingin af þessum hagstæða orkusölusamningi er sú, að almennur neytandi á orkusölusvæði Landsvirkjunar þarf nú að greiða á 9. kr. fyrir kwst. eða 35–falt það verð, sem helmingur allrar raforku landsins er seldur fyrir til hins erlenda auðfélags í Straumsvík. Til nánari skýringar á þessu niðurgreiðslufyrirkomulagi almennings á Íslandi á raforku til stóriðju leyfi ég mér að tilgreina hér heiðarlega, en alþýðulega athugun, sem Adolf Björnsson rafveitustjóri á Sauðárkróki gerði á rafmagnsverði á Norðurlöndum fyrir hálfu öðru ári. Hann spurði að því í nokkrum bæjum í Noregi og Danmörku, hvað verkamaður fengi þar margar kwst. fyrir hverja unna klst. eða fyrir klukkustundarlaunin sín. Í Vestby í Noregi fékk verkamaður 240 kwst. fyrir hverja unna klukkustund. Kertemünde á Fjóni, þar sem raforkan er framleidd með olíu, fékk verkamaðurinn 120 kwst. fyrir unna klst., á Íslandi, í landi vatnsorkunnar, landinu sem hafði efni á því að selja helminginn af raforkuframleiðslu sinni til erlends auðfélags til framleiðslu á áli, þar fékk verkamaðurinn 50 kwst. fyrir unna klst. Til þess nú að færa þessar tölur Adolfs í skynsamlegt samhengi við síðustu og verstu tíma, þá hringdi ég til rafveitustjóranna í þessum tveimur bæjum í gær og fékk þær upplýsingar, að í Vestby, þar sem fæst raforka úr norskum fallvötnum, hefði dæmið breyst verkamanninum í vil. Norski verkamaðurinn fær nú 290 kwst. fyrir unna klst. Í Kerteminde, þar sem olíuhækkunin hefur komið til skjalanna eins og víða annars staðar, höfðu hlutföllin breyst verkamanninum í óhag. Þar fær hann nú ekki nema 67 kwst. fyrir unna klst. Í Reykjavík fær verkamaðurinn, hér í landi vatnsorkunnar, um það bil 22 kwst. fyrir klukkutímakaup. Ástæðan er að öllum útúrdúrum, talnaflækjum og blekkingum slepptum ósköp einföld. Hún er sú, að íslenskur raforkukaupandi er skuldbundinn með ríkisstjórnarsamningi til þess að borga niður raforku fyrir svissneska auðhringinn ofan í 1/35 hluta af því, sem verkamaðurinn þarf sjálfur að greiða fyrir orkuna.

Þá komum við að fyrirheitinu, sem gefið var um hreinlæti og hollustu, sem ég númeraði nr. 3 hér á undan. Í álverinu í Straumsvík vinna menn enn í dag við svo heilsuspillandi aðstæður vegna sóðaskapar og trassaskapar, að dæmalaust mun vera í gervallri Evrópu. Starfsmenn, sem kvartað hafa undan aðstæðunum, hafa hreinlega verið reknir úr starfi, ef þeir hafa kvartað nógu hraustlega. Þeir, sem leituðu læknis, sumir hverjir vegna sýkingar í öndunarfærum, hafa verið níddir opinberlega af hálfu fulltrúa ÍSALs. Sú skýring er gefin, að þeir séu sennilega kommúnistar. Eitruðum úrgangsefnum frá verksmiðjunni hefur verið komið fyrir á bersvæði í grennd við hana og síðan þrætt fyrir skaðsemi þeirra.

Fjórða atriðið, rykmökkurinn blái, sem hjúpar álverið daglega, blasir við hvers manns augum, sem leið á fram hjá, segir sína sögu um nytsemi ryksugunnar miklu í háloftunum. Umhverfi verksmiðjunnar er þegar orðið yfirmettað af flúor. Og þá loks að „sérfræðingum“ íslenskra yfirvalda, launuðum af álverinu, hélst ekki lengur uppi við tilkomu nýs iðnrh. í tíð vinstri stjórnarinnar að þræta fyrir skaðsemina af völdum flúormengunarinnar, þá hófst andófið af hálfu ÍSALs gegn því að setja upp hreinsitæki í verksmiðjuna. Þau eru ekki enn komin. Þótt þau komi einhvern tíma, verði einhvern tíma sett upp, munu þau ekki megna að gera verksmiðjuna óskaðlega umhverfi sínu.

Ég nenni ekki að ræða 5. liðinn, um öfgafullar skoðanir þeirra, sem mæltu gegn smiði álverksmiðjunnar. Ég þarf þess raunar ekki, því að flestir þeir orðaleppar eru viðhafðir þessa dagana og þessar vikurnar um þá, sem leyfa sér að láta í ljós efasemdir um nytsemi fyrirhugaðrar málmblendiverksmiðju í Hvalfirði.