10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

84. mál, útvarpslög

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég tel, að eitt hið athyglisverðasta, sem komið hefur í ljós í þeim löngu og ítarlegu umr., sem orðið hafa um frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, sé það hversu mjög stuðningsmenn þessa máls hafa orðið tvísaga um tilgang þess og eðli. Þar skiptir svo gersamlega í tvö horn, að athygli hlýtur að vekja. FIm. frv. og helsti talsmaður, hæstv. menntmrh., skýrir svo frá í allmörgum ræðum, bæði í þessari d. og hv. Ed., að einhvern tíma eftir 1971, þegar hann ásamt öllum þáv. þingheimi greiddi atkv. gildandi útvarpslögum og ekki síst hinu nýja ákvæði um kjörtímabil útvarpsráðs, sem þar hafði sérstaklega verið vakin athygli á í framsöguræðum, — einhvern tíma eftir að þetta gerðist kveðst hæstv. ráðh. hafa orðið mjög hugsi út af því, hvaða afstöðu hann tók þarna, ásamt þingheimi öllum. Ekki er það nákvæmlega tímasett, hvenær vomur komu á hæstv. ráðh. um afleiðingar þessa verks, en heilabrotin urðu það ströng, að hann kveðst ekki hafa getað varið það fyrir samvisku sinni að láta við svo búið standa, að kjörtímabil útvarpsráðs væri ákveðið klippt og skorið 4 ár, og því kveðst hæstv. ráðh. hafa beitt sér fyrir flutningi þessa máls til þess að færa kjörtímabil útvarpsráðs í fyrra horf, hafa það óákveðið, svo að það falli saman við setu Alþ., sem, eins og hæstv. þm. ætti að vera best kunnugt, getur verið mjög mismunandi.

Nú er því ekki að leyna, að einstöku hv. þm. hafa gerst til þess að draga í efa, að hæstv. ráðh. segði þarna allan sannleikann. Eitthvað fleira virtist þeim að hlyti að búa undir þessum málatilbúnaði en fræðilegar vangaveltur hans um hvort heppilegra sé fastákveðið kjörtímabil útvarpsráðs eða óvíst. En hæstv. ráðh. hefur vísað öllum slíkum bollaleggingum á bug og kvað svo að orði við umr. í hv. Ed., með leyfi hæstv. forseta, að ef menn væru að halda slíku fram, þá væru þeir að „búa sér sjálfir til þann sannleika sem þeir vildu hafa“.

Málflutningur framsögumanna, stuðningsmanna þessa frv., í báðum d. hefur verið mjög á sömu lund og hæstv. ráðh., frekar stutt mál í báðum tilvikum og aðeins vikið að hvílík þörf sé á að fella saman kjörtímabil útvarpsráðs og Alþ. Nú hefur verið sýnt fram á það með — að ég hygg — ærnum rökum að þessi breyt. ein torveldar mjög framkvæmd þeirrar stefnu, sem mörkuð var með útvarpslögunum 1971 um sjálfstæði þeirrar ríkisstofnunar, og hefur ekki verið borið á móti því, að miklu torveldara er fyrir útvarpsráð, sem á allt í óvissu um starfstíma sinn, að marka stefnu og starfa heldur en það ráð sem á vísa 4 ára setu.

En þegar þetta mál kom til 1. umr. hér í hv. d., kvað nokkuð við annan tón en hjá hæstv. ráðh. í máli nokkurra stuðningsmanna breytingarinnar á útvarpslögum. Einna skorinorðastur mun hafa verið hv. 9. landsk, þm., sem sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Við skulum tala alveg tæpitungulaust um það“ — þ.e.a.s. um það, hvers vegna verið er að gera þessa breyt. á starfstíma útvarpsráðs — „vegna þess að það er gert að gefnu tilefni. Núv. meiri hl. útvarpsráðs hefur brugðist trausti almennings.“ Mjög á sömu lund féllu orð fleiri hv. þm. T.d. skýrði hv. 6. landsk. þm. frá því, að það væri nauðsynlegt, að hreinlega að víkja eða reka núv. meiri hl. útvarpsráðs frá starfi vegna þess m.a., að hann hefði unnið gegn borgaralegu siðgæði og framið önnur óþurftarverk, sem hv. þm. tíundaði. Enn fremur kvað hv. 11. þm. Reykv. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur engum manni dottið í hug að breyta skipan útvarpsráðs frekar en öðrum stjórnum opinberra stofnana fyrr en lög segja til um, nema af því að útvarpsráð sjálft hefur kallað á þessa breytingu.“ Þarna skiptir svo gjörsamlega í tvö horn um rökin sem annars vegar hæstv. ráðh. færir þessu máli til stuðnings og hins vegar þær skýringar sem áköfustu stuðningsmenn hans í málinu gefa á sinni afstöðu. Og sé þessi málflutningur skoðaður, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, að hv. þm., sem ég vitnaði til, hafi í rauninni meira til síns máls en hæstv. ráðh. um það, hvað knýr á eftir að bera þetta mál fram og reyna eftir föngum að hraða því í gegnum þingið.

Frv. er efnislega aðeins ein grein og bráðabirgðaákvæði. Fyrri gr. fjallar um það, eins og allir hv. dm. vita, að útvarpsráðsmenn skuli ásamt varamönnum kosnir hlutfallskosningu á Alþ. eftir hverjar alþingiskosningar. Með þessari gr. er algjörlega fullnægt þeirri niðurstöðu, sem hæstv. menntmrh. segist hafa komist að eftir heilabrot sín og umþenkingar og þar af leiðandi sinnaskipti frá því að hann tók afstöðu til sama máls 1971. En í frv. er ekki látið við það sitja að fullnægja þessum tilgangi. Frv. hefur einnig inni að halda ákvæði til bráðabirgða, þar sem það er tekið fram, að útvarpsráð skal kjörið þegar er lög þessi hafa tekið gildi, og fellur samtímis niður umboð núv. útvarpsráðs. Hefði tilgangurinn aðeins verið sá, sem hæstv. ráðh. lýsir, var þetta ákvæði gjörsamlega óþarft. En það er ómissandi ef fullnægja á þeim tilgangi, sem stuðningsmenn hæstv. ráðh. gerðu svo rækilega grein fyrir hér í d. við 1. umr. málsins, þeim tilgangi að svipta núv. útvarpsráð umboði sínu tæpu ári áður en kjörtímabil þess rennur út. Og svo mikið kapp er lagt á að fullnægja þessum tilgangi, að ekki er í það horft þó að brotið sé í bága við skýrt markaða stefnu í útvarpslögunum og þó að tvímælalaust sé hverju því útvarpsráði, sem starfa skal samkv. ákvæðunum svo breyttum, gert mun erfiðara fyrir að gegna störfum sínum en væri ef fast kjörtímabil gilti áfram. Ég tel sem sagt engum vafa undirorpið, eftir það sem fram hefur komið við umr. og eins og málið er úr garði gert af hálfu hæstv. ráðh., að hér sé fyrst og fremst verið að fullnægja þeim vilja að víkja úr starfi nokkru fyrr en ella mundi þeim meiri hl. sem mótað hefur starf og stefnu útvarpsráðs á yfirstandandi kjörtímabili.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að hér á hinu háa Alþ. hafa tveir menn með langa setu í útvarpsráði og mikla reynslu af starfi útvarpsins látið til sín heyra um þetta mál, sinn í hvorri deild. Í hv. Ed. tók hv. 3. þm. Vestf. til máls þegar við 1. umr. og færði að því rök, að stefnan frá 1971 um aukið sjálfstæði Ríkisútvarpsins og fast kjörtímabil útvarpsráðs í því skyni að tryggja þetta sjálfstæði sem best, hún væri ef ekki fortakslaust rétt, þá það lítt reynd að óráðlegt væri að hverfa frá henni að svo komnu máli. Varaði hann eindregið við afleiðingunum, væri þetta gert, og benti m.a. á, að sömu rök mætti færa fyrir því að skipta ætti um útvarpsráð hvenær sem stjórnarskipti yrðu í landinu. Einnig benti hv. 3. þm. Vestf. rækilega á það, að óbreytt er sú skylda útvarpsráðs að sjá um að gætt sé fyllstu óhlutdrægni í útvarpi og sjónvarpi, og taldi það veikja aðstöðu ráðsins til að gegna þessari skyldu að vera að skerða hið fasta kjörtímabil sem lögfest var fyrir fáum árum. Nákvæmlega á sömu lund hnigu orð hv. 2, landsk. þm. við 1. umr. í þessari hv. d. Hann færði að því í ítarlegu máli sterk rök, að sú breyt., sem lagt er til að gera á útvarpslögum með frv. á þskj. 92, væri ekki líkleg til þess að hafa heillavænleg áhrif á starf Ríkisútvarpsins í heild og útvarpsráðs sér í lagi, — það liggur alveg ljóst fyrir að mínum dómi og þessara hv. þm., og þar vil ég einnig nefna til mann úr öðrum stjórnarflokknum, flokki hæstv. menntmrh., hv. 1. þm. Norðurl. e., sem við þessa umr. lýsti skoðun sinni á málinu og kvaðst ekki geta stutt fram komið frv., einmitt vegna þess að þar sé verið að brjóta í bága við þá stefnu, sem mörkuð var af einróma Alþ. 1971.

Frsm. menntmn. í þessari hv. d., hv. 4. þm. Norðurl. v., komst svo að orði í ræðu sinni, að hann teldi okkur í minni hl. n. ekki sæmandi að viðhafa það orð í okkar nál., að flutningur þessa máls„ eins og það er til komið, væri ofríkisverk. Ég get ekki viðurkennt, að það sé á nokkurn hátt ofmælt að kalla það ofríkisverk, þegar í því skyni að bægja frá störfum í nokkra mánuði mönnum, sem til þeirra eru kjörnir, er haggað starfsgrundvelli jafnþýðingarmikillar stofnunar í þjóðfélaginu og Ríkisútvarpið er. Ég tel þvert á móti, að það beri vott um ofríki að ætla sér að standa að breyt. á mannavali í útvarpsráði á þennan hátt. Einnig komst hv.

4. þm, Norðurl. v. svo að orði um breytt., sem við í minni hl. menntmn. flytjum, að hann teldi hana fáránlega, því að þar væri um það að ræða að þrengja svo kjörgengi í útvarpsráð, að þar með væru að hans áliti útilokuð hundruð manna og þ. á m. ýmsir þeir sem hann kvaðst telja einna hæfasta til að gegna störfum útvarpsráðsmanna. Nú er það í sjálfu sér rétt, að í þeim hópi, sem brtt. fjallar um að ekki séu kjörgengir í útvarpsráð, þ.e.a.s. fastir starfsmenn Ríkisútvarpsins, þeir sem vegna starfa við aðra fjölmiðla fullnægja inntökuskilyrðum Blaðamannafélags Íslands og þeir sem hafa atvinnu af kynningarstarfsemi og útbreiðslustarfsemi fyrir ýmis konar aðila, þeir eru tvímælalaust margir vel hæfir til að gegna störfum í útvarpsráði. Með þessum tillöguflutningi um að þrengja kjörgengi í útvarpsráð er siður en svo tilgangurinn að draga í efa hæfni nokkurs ákveðins hóps eða kasta rýrð á ákveðna menn. Till. byggist á því sjónarmiði, að ekki sé rétt að í þessari stofnun, útvarpsráði, sitji menn sem vegna annarra starfa geta lent í hagsmunaárekstrum ef þeir eiga að gegna þeim skyldum sem útvarpsráðsmönnum eru lagðar á herðar.

Ég held að enginn hv. alþm. geti gengið þess dulinn, að hér fyrr á árum, þegar hyllst var til þess af hálfu margra flokka að velja t.a.m. ritstjóra flokksblaðanna til setu í útvarpsráði, þá vakti það verulega gagnrýni meðal almennings. Og ég held að við umhugsun hljóti menn að sjá, að útvarpsráð með sinn sérstaka starfsgrundvöll, þ.e.a.s. mótun dagskrárstefnu og endanlegt ákvörðunarvald um dagskrárefni, er ekki réttur vettvangur fyrir fasta útvarpsstarfsmenn til að starfa, því að þar með væru þeir að stjórna eigin störfum í öðru umboði en því sem þeir fá með ráðningu sinni til útvarpsstarfa, og ráðning sú er eftir núgildandi lögum í höndum útvarpsstjóra. Allt annað mál er hitt, að mjög kemur til greina að við Ríkisútvarpið starfi starfsmannaráð, eins og við margar aðrar stofnanir, ríkisstofnanir og einkafyrirtæki. En útvarpsráð hefur mjög afmörkuðu verkefni að gegna samkv. lögum, og það verkefni er þannig vaxið, að ég fæ ekki séð að starfsmenn útvarpsins gætu þar leyst störfin af hendi án þess að eiga á hættu að lenda einhvern tíma í þeim hagsmunaárekstrum sem ég gat um, Þar að auki eru í brtt. nefndir starfsmenn erlendra aðila, og býst ég við að hv. alþm. geti a.m.k. verið sammála um það, að þeir íslendingar, sem kunna að ráðast til starfa við upplýsingastarfsemi eða áróðursstarfsemi fyrir erlend ríki eða ríkjabandalög, eigi ekki erindi í það ráð, sem stjórna skal dagskrárgerð og dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins íslenska.

Það fer ekki milli mála, að átt hefur sér stað á liðnum árum, að upp hafa komið atvik sem ég a.m.k. tel að beri vott um að óttinn við hagsmunaárekstra sé ekki ástæðulaus. Ég skal aðeins nefna það, sem máske er farið að dofna yfir í hugum ýmissa, þegar stjórnandi vinsæls tónlistarþáttar var látinn víkja frá stjórn hans — og líklega mun hann hafa verið fyrsti stjórnandi hans, raunar stofnandi þess þáttar — var látinn víkja frá þáttarstjórninni og átti þangað ekki afturkvæmt, vegna þess að honum hafði orðið það á að lesa í einum þættinum aðsent bréf þar sem gagnrýnd var framkoma afgreiðslu eins dagblaðsins við vistmenn í tiltekinni stofnun. Ég nefni þetta gamla og hálfkátlega dæmi aðeins til þess að benda á hvað getur gerst ef í slíkt starf sem hér er um að ræða eru settir menn, sem geta í vissum tilvikum lent í þeirri klípu, sem svo er orðuð í fornri bók, að enginn kunni tveim herrum að þjóna.

Ég tel mig hafa sýnt fram á, að það er síður en svo af löngun til þess að iðka fáránleika eða sýna hótfyndni að sú till. er flutt, sem ég stend að um að þrengja kjörgengi í útvarpsráð eins og þar er lagt til, og ég tel mig einnig hafa sýnt fram á það, að skipulagsbreyting á kjörtímabili útvarpsráðs og ákvæði um að skipta tafarlaust um menn í ráðinu eru alveg sitt hvað, svo að þær yfirlýsingar hæstv. menntmrh., að þetta frv. sé aðeins ávöxtur af hugleiðingum hans um, hversu kjörtímabili útvarpsráðs skuli skipað, fá alls ekki staðist.