10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

84. mál, útvarpslög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. landsk., Magnúsar T. Ólafssonar, fyrrum menntmrh., vil ég lýsa undrun minni yfir því að hann, jafnsiðprúður og ágætur maður sem hann er, skuli ekki hafa neitt t.d. við dagskrá stúdenta í Ríkisútvarpinu 1. des. að athuga, eða þegar ráðist var að útvegsmönnum á mjög ósæmilegan hátt í barnatíma útvarpsins á sínum tíma, svo að dæmi séu nefnd. Var það ekki skylda útvarpsráðs að láta þessi mál til sín taka og gera viðeigandi ráðstafanir til að fyrirbyggja, að slíkur málflutningur og árásir væru gerðar á hópa manna, sem urðu fyrir barðinu á því öfgafólki sem hér var á ferðinni. Ég álit að sú stjórn, sem lætur ekki slíkt til sín taka með viðeigandi hætti, hafi brugðist skyldu sinni í þágu meiri hl. þjóðarinnar. Það er svo aftur annað mál, hvernig menn vilja túlka það og hvernig menn vilja líta á það, eftir því á hvern er ráðist.

Ég vil einnig víkja örlítið að öðru atriði í ræðu hv. 3. landsk., þar sem ég tók ekki eftir því fyrr en áðan, þegar hann flutti sína ræðu, að hann er því miður aðili að minnihlutaáliti menntmn. Ég get tekið það strax fram, að það þarf engin lög á Alþ. til að segja mér sem fyrrverandi starfsmanni hjá stórfyrirtæki í kynningu fyrirtækja í ákveðinni atvinnugrein, að mér dytti ekki í hug að taka sæti í útvarpsráði með slíkum störfum sem ég innti af hendi þar. Enn þá er þó til það siðferði væntanlega hjá þjóðinni, að það þurfi ekki að setja lög til að banna mönnum að gera hvað sem er.

Mér finnst hörmulegt og sorglegt, að það skuli eiga að útiloka að t.d. fastir starfsmenn Ríkisútvarpsins komi til greina að vera kjörgengir í útvarpsráði. Þetta finnst mér bera vott um — ég veit ekki hvaða orð ég á að hafa yfir það eiginlega brot á almennum mannréttindum gagnvart þessu starfsfólki, fyrir utan það að eitt meginatriði í stefnu frjálsrar verkalýðshreyfingar er að berjast fyrir því að starfsmenn fái aðild að stjórnum og ráðum stórfyrirtækja, ekki hvað síst stórra opinberra fyrirtækja. Ég minnist þess, að hv. fyrrv. iðnrh. mun hafa skýrt frá því á sínum tíma og verið stoltur af að nú væru komnir starfsmenn í stjórn eða í ráðgefendastarf hjá Sementsverksmiðju ríkisins eða Áburðarverksmiðjunni. Hann leiðréttir mig ef þetta er rangminni hjá mér. Ég taldi þetta mikið og gott spor í rétta átt. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að þarna skuli eiga að taka upp þann hátt að útiloka starfsmenn Ríkisútvarpsins. Og ég vona, að a.m.k. hluti þm. Alþb. hér á þingi sé ekki sammála áliti minni hl. um þetta.

Ég vildi spyrja hv. 3. landsk. að því, þegar hann talaði um að umræddir aðilar, sem tilteknir eru í áliti minni hl. menntmn., gætu lent í hagsmunaárekstrum með setu sinni í útvarpsráði, — ég vil spyrja hv. 3. landsk.: Gætu ekki einnig aðrir opinberir starfsmenn lent í hagsmunaárekstrum með setu sinni í útvarpsráði, eða yfirleitt hver sem er, eftir því hvernig maður vill skilgreina stöðu og áhrif manna í þjóðfélaginu? Hvað segðu menn t.d. um það, ef form. Vinnuveitendasambandsins tæki sæti í útvarpsráði eða forseti ASÍ, svo að nokkuð sé nefnt? Það má örugglega teygja þetta á alla vegu og finna þá út reglu, sem útilokar miklu stærri hóp manna en minnihlutatill. gerir ráð fyrir.

Fyrr í þessari umr. hef ég lýst stuðningi við þá lagabreytingu um kjör útvarpsráðs sem hér er til umr. Um er að ræða að kosið skuli útvarpsráð eftir hverjar alþingiskosningar, svo sem tíðkast hafði í áratugi eða þar til sú breyt. var gerð á útvarpslögunum í ársbyrjun 1971, að útvarpsráð skyldi kosið til fjögurra ára í senn, óháð því hvort alþingiskosningar hefðu farið fram eða eigi. Tilgangur Alþ. með þessari breytingu mun hafa verið sá að gera útvarpsráð óháðara stjórnmálaflokkunum, sjálfstætt, eins og það hefur verið orðað. Samt sem áður skyldi það kosið af Alþ. í réttu hlutfalli við styrkleika stjórnmálaflokkanna á þingi. Virðist það ekki bera vott um einlægan vilja til að gera útvarpsráð sem óháðast stjórnmálaflokkunum, því að þá hefði örugglega annar háttur verið á hafður um kjör og val manna í útvarpsráð en raun her vitni um, en ég vík að því síðar. Þó má segja, að af hálfu Alþ. hafi þetta verið virðingarverð viðleitni, en því miður verður það að segjast eins og er í ljósi fenginnar reynslu, að þessi tilraun í þá átt að gera ríkisfjölmiðlana sem óháðasta pólitískum áhrifum hefur gersamlega mistekist, og það sem verra er, að í ljós hefur komið að ákveðinn hópur manna hefur leitast við að hagnýta sér þessa fjölmiðla undir hinu nýja fyrirkomulagi sjálfum sér og sínum öfgafullu skoðunum til framdráttar á skipulegan, en oft á tíðum mjög lævísan hátt. Er það mat sumra, að jaðrað hafi við misnotkun í þessum efnum.

Viðbrögð hv. 5. landsk., Kjartans Ólafssonar ritstjóra Þjóðviljans, og framkoma Þjóðviljamanna í þessu máli virðast renna sterkum stoðum undir þetta álit. Allt frá því frá því að nýkjörnir þm., þ. á m. ég, leyfðum okkur að láta í ljós þá skoðun skömmu eftir alþingiskosningarnar s.l. sumar, að breyta bæri ákvæðum l. varðandi kosningu útvarpsráðs hefur persónulegum árásum á okkur ekki linnt á síðum Þjóðviljans og nú síðast í umr. hér á Alþ. Sýnir það nokkuð virðingu þessara manna fyrir tjáningarfrelsi og skoðunum annarra yfirleitt. Þegar rök þrýtur eru menn svívirtir og gefið í skyn, ef ekki beinlínis sagt, að þeir séu fasistar eða nasistar og aðhyllist vinnubrögð þeirra. Það dugir sem sagt ekki minna en líkja mönnum við verstu böðla mannkynsins. Það er ljótt til þess að vita, að ég og mínir líkar skulum hafa verið í forustu íslenskrar verkalýðshreyfingar í fjölda ára og á stundum setið til borðs með verkalýðsleiðtogum úr röðum Alþb-manna. Það mun ekki vera að skapi jafneinlægra lýðræðissinna og hv. 5. landsk., Kjartans Ólafssonar, sem vill hafa hreint borð að austrænum síð. Þar eru nefnilega aðeins hreinræktaðir kommúnistar í forustu verkalýðsfélaganna, og þar fá aðeins meðlimir kommúnistaflokkanna að skrifa í dagblöð og tímarit eða tjá sig yfirleitt í útvarpi og sjónvarpi. Í þessum ríkjum, t.d. í Sovétríkjunum, munu innan við 5% þjóðarinnar vera í Kommúnistaflokknum. Það mun víst vera þess konar lýðræði, sem hv. 5. landsk., Kjartan Ólafsson, vill innleiða á Íslandi. Leiðarar blaðs hans, Þjóðviljans, bera þess oftlega vott, hvert stefna skuli.

En hvers vegna eru Alþb.- menn, menntamennirnir, sem nýverið hafa tekið öll völdin í flokknum, svona hatrammir og ofsafengnir í þessu máli? Hvað er eiginlega hér á ferðinni? Það er eins og það eigi að fara að afnema útvarpsráð og útiloka skoðanir manna, en svo illt er það nú aldeilis ekki. Eina breytingin, sem gera á, er sú, að það á aðeins að kjósa eftir hverjar alþingiskosningar í útvarpsráð, nákvæmlega á sama hátt og áður hafði verið gert í áratugi. Það á ekki að kjósa pólitíska varðhunda, alla vega ekki af hálfu lýðræðisflokkanna. Hvað öfgaarmur Alþb. hyggst gera, þ.e.a.s. sá hluti þess flokks sem aðhyllist sérkennilegar hugmyndir hv. 5. landsk., veit ég ekki um, en einkennilegt er hve oft honum verður tíðrætt um varðhunda og það á svæði Reykjavíkur, þar sem hundahald er ekki leyft. Hins vegar er því ekki að leyna að þeir, sem tíðum sækja heim Austur-Evrópuríkin, alþýðulýðveldin, komast ekki hjá því, þegar þeir fara yfir landamæri austurs og vesturs að sjá mikinn fjölda stórra og grimmra varðhunda á landamærunum, en að vísu eru þeir allir austanmegin, í alþýðulýðveldunum. Þetta er einkennileg tilviljun, þegar haft er í huga hve mikið dálæti menntamenn Alþb. og hv. 5. landsk. hafa á umræddum ríkjum og því þjóðskipulagi sem þar er.

Í umr. um þetta mál hef ég m.a. látið í ljós þá skoðun, að segja mætti að af hálfu ákveðinna aðila, sem hafa ráðið miklu um val efnis íslensku ríkisfjölmiðlanna undanfarin ár, hafi gætt ákveðinnar misnotkunar og þar hafi verið reynt að þrengja upp á íslendinga lífsskoðunum, sem væru meiri hluta þjóðarinnar ógeðfelldar. Í sjónvarpsviðtali s.l. haust leyfði ég mér að vekja athygli á, að það hefði færst mikið í aukana á árunum 1971–73, að íslenskum sjónvarpsnotendum væru sýndar austur-evrópskar kvikmyndir, er flyttu sósíalrealistaískan boðskap. Leyfði ég mér að halda því fram, að slíkar áróðursmyndir ættu lítið erindi til íslendinga almennt. Hið mikla magn þessara kvikmynda í dagskrá ríkisfjölmiðlanna væri fjarri því að vera í réttu hlutfalli við óskir meginþorra not enda þessara fjölmiðla. Blað hv. 5. landsk. brást einkennilega illa við þessum ummælum. Helstu „skríbentar“ blaðsins voru gerðir út af örkinni, reynt var að drepa málin á dreif með málalengingum, útúrsnúningi o.s.frv. og reynt að sannfæra lesendur að hugtakið sósíalrealismi hefði enga umtalsverða merkingu og þá alls ekki varðandi hugmyndafræði eða listina í kommúnistaríkjunum í Austur-Evrópu, þar sem umræddar kvikmyndir og fræðslumyndir voru framleiddar. Hér var verið að reyna að draga dul yfir það, að öll slík framleiðsla í umræddum ríkjum hefur ákveðinn boðskap að flytja, boðskapinn um hið kommúníska þjóðskipulag, sem Alþb.- menn flestir segja að sé best og vilja koma á hérlendis. Ég geri varla ráð fyrir að hv. 5. landsk. afneiti því. Það vill svo til, að sumir okkar hafa oftsinnis ferðast um og dvalið í alþýðulýðveldunum í Austur-Evrópu, þar sem umræddar kvikmyndir eru framleiddar. Við vitum vel, enda ekki farið dult með það þar austur frá, að listin í þessum ríkjum á að þjóna því þjóðskipulagi sem þar ríkir. Sú list, sósíalrealismi, ef hægt er að tala um list í sumum tilvíkum, á að glæða með fólki í alþýðulýðveldunum aukna trú á hugsjónum og framkvæmd hins vísindalega sósíalisma, kommúnisma í anda Marx og Lenins. Þetta hefur útvarpið gert með ýmsum hætti. Skal ekki farið nánar út í það hér, en aðeins vakin athygli á því, að í þessum ríkjum er varla framleidd svo ómerkileg mynd, hvort sem það er fyrir sjónvarp eða sýningar annars staðar, að ekki sé einhvers staðar eða á einhvern hátt annaðhvort vegið að borgaralegu þjóðfélagi og lífsvenjum þess eða gert lítið úr hvoru tveggja, á sama tíma sem allt sem lifir og hrærist í anda sósíalismans er hafið til skýjanna. Gengur þetta jafnvel svo langt að það er látið koma beint og óbeint fram í verkum eldri tíma höfunda, þegar verk þeirra eru endursamin í kvikmyndahandritum.

Hvers vegna er verið að þreyta þingheim með umr. um kommúnisma, alþýðulýðveldi, sósíalrealisma o.s.frv.? Á Íslandi gerist slíks varla þörf. Blessað Alþb. er eiginlega sósíaldemókrataískt. Kommúnisminn er dauður á Íslandi, eða allavega þykir mörgum í þeim flokki best að tala sem minnst um hann. En svo er því miður ekki. Hv. 5. landsk., Kjartan Ólafsson, hefur minnt óþyrmilega á það, að innan vébanda Alþb. eru harðlínumenn sem svífast einskis. Það kann að vera að hv. eldri þm. taki þennan hv. þm. ekki alvarlega og e.t.v. sé það rétt. En við skulum minnast þess, að hv. 5. landsk. er ekki einn um þá hörku, sem sýnd er af hálfu Alþb.- manna út af þessu máli sem hér er til umr. Hann og hans líkar hafa tekið völdin í Alþb. og á Þjóðviljanum, málgagni flokksins. Hinir hægfara og prúðari menn þessa flokks, sem fyrst og fremst hafa viljað starfa fyrir alþýðu manna eins og sönnum íslendingum sæmir, hafa orðið að þoka fyrir hinni nýju stétt.

Til þess að undirstrika enn frekar, að það er ástæðulaust að vera að hafa hina austrænu list í sérstökum hávegum á Íslandi, þar sem meginþorri þjóðarinnar er borgaralega sinnaður, þótt hins vegar sé vitað að ákveðinn hópur ætli að læða sósíalrealistaískum áhrifum inn á hana gegnum sjónvarp og útvarp með sérstöku tilliti til áhrifanna á börn og unglinga og ómótað fólk, skal vitnað í skáldið góða Stein Steinarr, sem kynntist þessum málum af eigin raun, en Steinn ferðaðist til Sovétríkjanna sumarið 1956. Eftir heimkomuna átti Alþýðublaðið viðtal við skáldið um listina austur þar. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp úr viðtalinu: Blaðamaðurinn spyr skáldið: „Hvað finnst þér um skáldskap og listir í Rússlandi?“ Steinn Steinarr, skáldið íslenska, svarar: „Það, sem við köllum skáldskap og listir, á mjög örðugt uppdráttar í Sovétríkjunum. Flokkurinn ákveður hvernig mála skuli mynd, skrifa skáldsögu og yrkja kvæði. Þetta kalla þeir sósíalrealisma og þykjast góðir. Sömu lögmálum lýtur byggingarlistin. Það er erfitt að hugsa sér auvirðilegri hégómaskap og andlausara tildur en sumar nýbyggingar í Moskvu, t.d. háskólanú, Metro o.fl. slíkt. Fyrst í stað heldur maður kannske að verið sé að skopast að Viktoríutímabilinu eða jafnvel Thorvaldsen gamla, en svo kemur upp úr kafinu að þetta er rammasta alvara. Listsmekkur sósíalismans, gerið þið svo vel. Það er víst þetta, sem við köllum hlægilegt og aumkunarvert í senn.“

Það var þetta, sem ég átti við í fyrri ræðu minni, þegar ég sagði m.a. að þjóðin hefði verið óvarin fyrir ýmiss konar sósíalísku efni, sem meiri hluti útvarpsráðs tróð og lét troða inn á íslensku þjóðina í krafti meiri hlutans. Vona ég, að hv. 5. landsk. skilji nú við hvað var átt.

Vegna rangfærslna og útúrsnúnings hv. 5. landsk. út af fyrri ummælum mínum vil ég endurtaka þau nú að hluta, með leyfi hæstv. forseta, þar sem ég ræði um hlutleysi núv. útvarpsráðs í umr. hér á Alþ. fyrir jól. Ég tel rétt að endurtaka það, svo að hið sanna komi fram í málinu en ekki sú blekking og útúrsnúningur, sem hv. 5. landsk. lét út úr sér hér í umr. fyrir nokkrum dögum. Í umr. 18. des. sagði ég m.a.:

„Nei, því miður kom í ljós, að tilraunin með hið óháða og sjálfstæða útvarpsráð, sem farið var á stað með 1971, hefur gersamlega mistekist. Núv. útvarpsráð hefur verið hlutdrægt, mjög hlutdrægt, því miður. Meiri hl. var ákveðinn í upphafi síns ferils að boða landsmönnum ákveðna stefnu í menningar- og þjóðfélagsmálum, og það hefur ekki farið fram hjá þeim sem hafa hlustað á útvarpið og horft á sjónvarpið að staðaldri. Sú stefna byggist ekki á trú íslendinga á því þjóðskipulagi eða þeirri menningu, sem íslenskt þjóðfélag hefur byggst á. Leitað var í ríkum mæli í aðrar áttir eftir efni, sem hafði ákveðinn boðskap að flytja, boðskap sósíalismans. En það er boðskapur, sem er íslensku þjóðinni mjög ógeðfelldur, og gagnvart honum var þjóðin óvarin.

Þetta er sannleikurinn, — og þetta er sannleikurinn sem ekki má segja samkv. kennisetningum hv. 5. landsk. þm., án þess að á menn sé ráðist og sagt að hér sé um Morgunblaðsofstæki að ræða. En í síðustu alþingiskosningum tók þjóðin sjálf af skarið. Hún hristi af sér þetta ok með eindregnum kosninganiðurstöðum, og Alþb.- menn verða að þola það að þjóðin óskaði ekki eftir þeim boðskap sem þeir hafa verið að reyna að flytja okkur í gegnum sjónvarp og útvarp undanfarin ár.“

Varðandi ummæli mín um, að meiri hl. núv. útvarpsráðs hafi stuðlað að ofstæki, vil ég segja þetta:

Útvarpsráð sem lætur undir höfuð leggjast að gera athugasemdir við og koma í veg fyrir að ráðist sé að ákveðnum einstaklingum, stéttum eða því þjóðskipulagi, sem meiri hl. þjóðarinnar vill búa við, hefur brugðist skyldu sinni gagnvart meiri hl. þjóðarinnar. Slíkt útvarpsráð þjónar þá einhverjum öðrum sjónarmiðum og vill greinilega ekki breyta í samræmi við grundvallarsiðgæðisreglur íslensku þjóðarinnar. Í þessu sambandi má ekki blanda saman þeirri meginstefnu að ríkja skuli tjáningarfrelsi til handa meiri og minni hl. Varðandi það tók ég skýrt fram, að það eigi ekki að nota útvarpsráð þannig, að þeir menn, sem skipa útvarpsráð, séu eins og pólitískir varðhundar flokkanna og að minni hl. hafi ekki fullan rétt á við meiri hl. í því að tjá sig í útvarpi eða sjónvarpi. En það hlýtur að vera með tjáningarfrelsið eins og allt annað í samskiptum manna, að notkun þess má ekki valda öðrum þjáningu eða skaða. Sá eða þeir, sem ekki þekkja takmörk sín í samskiptum við menn og málefni, sem skortir lágmarksháttvísi eða þekkja ekki muninn á sannleika eða lygi, geta ekki haft ótakmarkaðan aðgang að sameiginlegum fjölmiðlum þjóðarinnar. Ég vona að allir hv. þm. geti verið sammála um það.

Hv. 5. landsk., sem virðist vera aðaltalsmaður Alþb. í þessu máli, verður að sætta sig við þessar lágmarkskröfur. Hvort hann og félagar hans fá útrás í ákveðnu dagblaði, tímaritum eða með öðrum hætti með árásum sínum á íslenskt þjóðfélag, einstakar stéttir eða einstaklinga, er annað mál. Það er viðkomandi frjálst. En ríkisfjölmiðlana er ekki hægt að nota til þessarar iðju.

Ég vík þá nokkuð að meginefni málsins í frv., þ.e.a.s. kosningu í útvarpsráð. Í sjálfu sér er það ekkert stórmál. Eðli málsins samkv. breytist lítið við það nú á þessu herrans ári hvort kosið er í ráðið nú eða í haust hvað starfstíma núv. útvarpsráðs áhrærir, enda voru engar ofsóknir á hendur útvarpsráðsmönnum sem slíkum hér á ferðinni. Hins vegar er hér um að ræða „prinsip“-skoðanaágreining um það, hvort kosið skuli til 4 ára óháð alþingiskosningum eða ekki. Eins og þessum málum er háttað hérlendis tel ég eðlilegt, að kosið sé eftir hverjar alþingiskosningar, og ég leyfi mér að halda því fram, og tel mig hafa frelsi til að halda þessari skoðun fram, án þess að ráðist sé á mig með því ofstæki sem gert hefur verið.

Því fer víðs fjarri, að það sé aðeins á Íslandi sem ríkisfjölmiðlar og stjórnir þeirra séu til umr. Á síðustu mánuðum hafa verið mikil umbrot í þessum málum í Vestur-Evrópu. Þar eru menn ekki vændir um einræði eða þess háttar, þótt þeir leyfi sér að óska eftir skipulagsbreytingum á ríkisfjölmiðlunum. Sannleikurinn er sá, að þessir fjölmiðlar, útvarp og sjónvarp, eru svo öflug áróðurstæki, að almenningur og almannavaldið, þing og ríkisstj., þurfa stöðugt að hafa vakandi auga með ríkisfjölmiðlunum. Sé það ekki gert getur annað tveggja átt sér stað, að óvandaðir aðilar misnoti þessa fjölmiðla eða að þeir staðni og fullnægi þar með ekki þeirri kröfu eða þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar.

Í Frakklandi var t.d. sú skipulagsbreyting nýverið gerð á ríkisfjölmiðlum, að í stað hins gamla, miðstjórnarfyrirkomulags, þar sem öllu er stjórnað af einu ráði og fáum mönnum, þar var ríkisfjölmiðlunum skipt í 7 ný útvarps- og sjónvarpsfyrirtæki. Skiptast þau í 3 sjónvarpsfyrirtæki, þ.e.a.s. 3 sjálfstæðar útsendingarrásir, 1 útvarpsfyrirtæki og 3 fyrirtæki sem annast framleiðslu og tækniþjónustu. Hvernig lítist mönnum á það, að við innleiddum það frelsi t.d. hér á Íslandi, að leyfð væri sjálfstæð sjónvarpsstöð í eigu einstaklinga, almenningshlutafélag? Skyldi það vera að skapi hv. Alþb.- manna að veita þjóðinni eða mönnum það frelsi? Ég varpa því fram. Þá er það nýjung í sambandi við franska fyrirkomulagið eða þá breytingu, sem gerð var þar, að fulltrúar stjórnvalda skipa aðeins 1/3 hluta stjórnenda viðkomandi fyrirtækja. Afgangurinn, þ.e.a.s. 2/3 hlutar, kom úr röðum vinnuveitenda og launþega. Það er víst ekki lýðræði sem fellur í kramið hjá ákveðnum mönnum í þessum sal.

Þá hafa nýverið verið gerðar miklar breytingar á skipulagi og rekstri fjölmiðla á Ítalíu, Austurríki og víðar og allt í frjálslyndisátt, allt frá því að þessir fjölmiðlar séu algjörlega undir stjórn og valdi kjörinna manna stjórnmálaflokka á þingum viðkomandi ríkja. Þetta er lýðræði. Hitt fyrirkomulagið er ekki jafnfrjálst og óþvingað, sem hv. 5. landsk. og hans líkar vilja viðhalda. Væri ekki nær, að hv. þm. Alþb. ræddu um, að íslensku ríkisfjölmiðlarnir fengju meira frelsi en í annarri útfærslu, og væri ekki nær að þessir hv. þm. væru jákvæðari í því hvað gera skal í þessu efni, t.d. í þá átt að gera stjórn útvarps og sjónvarps enn lýðræðislegri og frjálslyndari, eins og t.d. tíðkast nú í Frakklandi í sambandi við kjör útvarpsráða eða stjórna þeirra fyrirtækja, sem ég lýsti hér áðan, þar sem fulltrúar launþega og vinnuveitenda eiga sæti í viðkomandi stjórnum? Væri það ekki nær heldur en að koma með þá ólýðræðislegu stefnu gagnvart starfsmönnum þessara fjölmiðla, eins og birtist í till. minni hl., þar sem útiloka skal starfsmenn sjónvarps og útvarps frá því að hafa nokkurn tíma möguleika á að taka sæti í útvarpsráði?

Ég ítreka það hér, að þessi hluti till. minni hl. er í algjöri andstöðu við yfirlýsta stefnu verkalýðssamtaka Vestur-Evrópu varðandi atvinnulýðræði. En sú stefna felur í sér, eins og ég gat um áðan, aukna kröfu um þátttöku fólksins í stjórnum og ráðum stórra fyrirtækja og þá sérstaklega ríkisfyrirtækja. Satt að segja hlýtur maður að vorkenna mönnum, sem daginn út og daginn inn eru með það á vörunum að þeir einir séu vinir verkalýðsins og að í baráttunni fyrir hagsmunum verkalýðsins sé þeim einum treystandi, mönnum sem koma með slíka till. um skerðingu almennra mannréttinda og það þvert gegn stefnu verkalýðshreyfingarinnar í Vestur-Evrópu, þar sem lýðræðið er hvað mest. Það hefði verið nær, að þeir hefðu gert till. um, að starfsmenn ríkisfjölmiðlanna ættu fulltrúa í útvarpsráði, og finnst mér það koma mjög vel til greina og ber að athuga gaumgæfilega.

Ég vil að lokum endurtaka skoðun mína varðandi starfsmenn þessara fjölmiðla. Ég sagði í minni fyrri ræðu að ég legði mikla áherslu á að þeir geti starfað sjálfstætt og sem óháðastir útvarpsráði og þeim stjórnmálamönnum, sem kunna að vera kosnir í útvarpsráð á hverjum tíma, svo sem tíðkast hefur í áratugi í hvoru fyrirkomulaginu sem er, því sem nú gildir og hinu gamla. Ég lagði megináherslu á það, að starfsmenn skyldu vera sem óháðastir og frjálsastir fyrir þeim áhrifum sem kynnu að geta komið frá pólitíkusunum. Ég sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta, og vil hafa það sem mín lokaorð enn einu sinni:

„Ég treysti því, að Alþ. geti eftir hverjar kosningar kosið útvarpsráð í samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Ég treysti því, að þannig kjörið útvarpsráð geti frekar en það útvarpsráð, sem kjörið var á grundvelli gildandi laga, gætt fyllsta hlutleysis og verndað einstaklinga og stéttir manna frá árásum öfgafólks, sem hefur misnotað þessa fjölmiðla herfilega og sært þjóðernislegar tilfinningar meginþorra þjóðarinnar. Ég treysti því, að útvarpsráð, kjörið eftir hverjar alþingiskosningar, geri starfsmönnum útvarps og sjónvarps kleift að vinna sjálfstætt og óháð að þeim mikilvægu verkefnum, sem þetta fólk innir af hendi, ekki fyrir stjórnmálamennina eða stjórnmálaflokkana, heldur fyrir íslensku þjóðina í heild.“