10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

142. mál, sameiginlegur lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Flm. (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Að undanförnu hefur lífeyrissjóðskerfi landsmanna verið nokkuð til umr. hér á Alþ. og ekki síður utan þings. Hefur komið fram, að 90–95% launþega 20 ára og eldri eru innan lífeyrissjóðakerfisins, í 90–100 mismunandi lífeyrissjóðum. Það, sem hefur komið af stað umr. um þessi mál, er sá vandi sem margbrotnar og mismunandi reglugerðir þeirra hafa að bjóða, en þó fyrst og fremst sá mismunur sem felst í því, að sumir lífeyrissjóðir eru verðtryggðir, aðrir ekki.

Í verðtryggðum lífeyrissjóði njóta lífeyrisþegar bóta sem eru ákveðið hlutfall atvinnutekna eins og þær eru á hverjum tíma. Í óverðtryggðum lífeyrissjóði aftur á móti breytast greiðslur úr sjóðnum aldrei, hvernig sem atvinnutekjur breytast, og með áframhaldandi verðbólgu geta þessir sjóðir ekki gegnt hlutverki sínu og réttindin verða gagnslaus að mestu. Þetta hlýtur öllum að vera ljóst, sem hafa fylgst með þróun kaupgjalds og verðlags á síðustu árum.

Nú á að fara fram endurskoðun á löggjöf um almannatryggingar og ég tel æskilegt, að við þá endurskoðun verði alvarlega athugað hvort ekki sé hægt að sameina alla lífeyrissjóði landsmanna innan þess kerfis 5 einni reglugerð, sem væri eins fyrir alla, með sömu réttindum og skyldum.

Ég hef aðeins minnst á að lífeyrissjóðir gegni hlutverki sínu mjög misjafnlega. Lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna eru verðtryggðir af ríkinu, bæjarstarfsmanna af viðkomandi bæjum og bankamanna af viðkomandi bönkum. Einnig er reglugerð þeirra að öðru leyti á þann veg, að þeir gegna hlutverki sínu mjög vel eins og vera ber.

Mig langar til að taka dæmi af tveim mönnum, öðrum í verðtryggðum lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, en hinum í óverðtryggðum lífeyrissjóði verkalýðsfélaga. Þeir væru báðir búnir að vinna sér inn 30 ára réttindi og hættu að vinna á sömu launum, 40 þús. kr. á mánuði, sem eru sem næst dagvinnutekjum verkamanna 4. taxta Dagsbrúnar. Þá fær sá, sem í verðtryggða sjóðnum er, 60% af þeim launum sem hann hættir á, sem mundu vera í þessu tilfelli 24 þús. kr. á mánuði, hinn, sem er í óverðtryggða sjóðnum, fær 56% af meðaltali launa sinna síðustu 5 ára, sem yrðu 11 810 kr. á mánuði. Ég vil geta þess, að þetta var reiknað út fyrir mig á skrifstofu þeirri sem hefur með lífeyrissjóði verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar að gera. Lífeyrir þess, sem er í óverðtryggða sjóðnum, breytist aldrei, hvernig sem verðlag og kaupgjald verður í landinu.

Kaup verkafólks hefur nær þrefaldast á síðustu 5 árum. Laun annarra stétta hafa hækkað enn meira, svo að 40 þús. kr., sem nú væru mánaðarkaup, yrðu með sama áframhaldi nálægt 120 þús. kr. eftir 5 ár. Í reglugerð lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna stendur að lífeyrir skuli greiðast sem ákveðin prósenta af launum, eins og þau eru á hverjum tíma í því starfi, sem viðkomandi hættir að vinna á. Þannig mundi hann fá 60% af 120 þús., sem mundu verða 72 þús. á mánuði, en hinn yrði áfram með 11800 kr. á mánuði. Eftir 5 ár yrði orðinn rúmlega 60 þús. kr. munur á mánuði á lífeyri þessara tveggja manna sem enduðu starfsdag sinn á sömu launum.

Ríkið verðtryggir lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, svo að þessi mismunur verður tekinn af almannafé. Á fjárl. fyrir árið 1975 nema þessar uppbætur 395 millj. kr.

Ég held, að ég hafi með þessu dæmi sýnt fram á þann hrikalega mismun sem hér er um að ræða, og þó getur þessi mismunur orðið enn þá meiri, því að sumir geta veríð í fleiri en einum verðtryggðum lífeyrissjóði, svo að eftirlaun þeirra geta orðið hærri en atvinnutekjur þeirra voru.

Eitt dæmi vil ég enn benda á. Það er misrétti kynjanna. Í lífeyrissjóði verkafólks eru ekki greiddar ekklabætur. Ekklar fá ekki bætur. Þó að kona væri búin að vinna sér inn full réttindi þegar hún létist, fengi eftirlifandi eiginmaður hennar enga greiðslu úr sjóðnum, nema hann væri öryrki eða hinn látni sjóðfélagi teldist hafa verið aðalfyrirvinna heimilisins.

Margir líta á lífeyrissjóðina sem lánastofnanir, en gleyma hinum upprunalega tilgangi þeirra. Þetta á helst við um ungt fólk sem vantar lánsfé til þess að eignast íbúð. Fólk vill gjarnan gleyma því, meðan allt leikur í lyndi, að lífið er áhættusamt og að á vegi okkar verða ýmsar hættur, svo sem slys og sjúkdómar, og enginn veit hvenær hann missir starfsorku sína til tekjuöflunar langan eða skamman tíma.

Elli fylgir nær alltaf lækkun vinnutekna eða alger missir þeirra. Þá er fráfall fyrirvinnu fjárhagslegt áfall fyrir þá, sem notið hafa framfærslu hennar. Það á að vera hlutverk lífeyrissjóðanna að bæta sjóðfélögum, mökum þeirra og börnum upp þennan tekjumissi. Þess vegna varðar það öllu, að lífeyrir, sem fólk er búið að leggja til hliðar af launum sínum, verði ekki brenndur upp á verðbólgubáli.

Ég gat þess, að fólk liti á lífeyrissjóðinn sem lánastofnun. Það er í rauninni ekki óeðlilegt meðan það ástand ríkir, að allir eru í kapphlaupi við verðbólgu og þeir einir komast í mark sem á hlaupunum hafa náð í sem mesta peninga til þess að fjárfesta og þá helst í steinsteypu. Að eignast íbúð er það jarðsamband sem allir, viljugir og óviljugir, eru látnir keppa að — og því ekki að nota sína eigin sjóði til þess? En til þess að fá lán úr lífeyrissjóði þarf að hafa veð í fasteign. Þeir, sem hafa lægst laun og eru verst staddir, hafa oft ekkert veð, svo að þeir hafa enga möguleika á að nota sér lífeyrissjóðina á þennan hátt.

Það kemur líka í ljós mismunur á þessum tveimur sjóðum, sem ég hef tekið til samanburðar, þegar litið er á lánakjörin. Í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna eru vextir 14%, en hjá verkalýðsfélögum almennt 17%. Í lífeyríssjóði ríkisstarfsmanna þurfa sjóðfélagar ekkert að huga að verðbólgu gagnvart sjóðnum, því að ríkissjóður sér um verðtrygginguna.

Ég vona að enginn taki orð mín svo, að ég sé að ráðast á kjör ríkisstarfsmanna. Þvert á móti. Ég er aðeins að benda á þennan mismun til að vekja menn til umhugsunar um ranglætið. Á síðasta ári vorn atvinnutekjur landsmanna áætlaðar 78 milljarðar kr. Greiðslur af atvinnutekjum til lífeyrissjóða voru 4,2 milljarðar og á þessu ári eru þær áætlaðar 5.4 milljarðar. Í sjóðum launafólks mun því vera saman kominn stærsti hluti af sparnaðarfé þjóðarinnar. Það fólk, sem vinnur við undirstöðuatvinnuvegina, stendur undir nær allri gjaldeyrisöflun sem allt veltur á, svo að efnalegt sjálfstæði þjóðarinnar sé tryggt. Það fólk, sem með greiðslu af launum sínum, oft mjög lágum, svo lágum að það munar um að leggja þetta fé í lífeyrissjóði, það stendur einnig undir uppbyggingu þjóðarinnar með þessu sparnaðarfé. Hluti af þessu fé er í bönkum, fjárfestingarlánasjóðum, þar sem það er óverðtryggt, nema með þeim innlánsvöxtum sem gilda á hverjum tíma. Ég held að flestir viti að það er ekki fólkið í lægstlaunuðu störfunum sem hefur greiðastan aðgang að bönkum og öðrum lánastofnunum. Það fólk uppfyllir í sumum tilfellum ekki einu sinni lágmarkskröfur til lántöku í sínum eigin sjóðum, af því að það á ekkert, svo það verða aðrir sem hagnast á því sparnaðarfé sem verður af lífeyrisgreiðslum þessa fólks.

Launafólk á þessa sjóði. Það hefur samið um þá við atvinnurekendur. Verkafólk hefur oftast orðið að sækja rétt sinn með harðri baráttu á hendur atvinnurekendum og óvinveittum valdhöfum. Það hefur ávallt orðið að slá af kröfum sínum í samningum, og eru lífeyrissjóðirnir eitt dæmi um það. Þeir eru óverðtryggðir og gerð þeirra fullnægir ekki kröfum um upprunalegan tilgang.

En þá komum við að spurningunni: Hver á að greiða verðtryggingu þessara sjóða? Atvinnurekendur, ríkissjóður eða sjóðirnir sjálfir með eigin fé, með engri sjóðmyndun heldur noti þeir fé sitt jafnóðum til greiðslu lífeyris. Ég ætla ekki á þessu stigi máls að fjölyrða um það, hvaða leið yrði líklegust til lausnar. En hitt vil ég fullyrða, að þeim mun lengur sem þetta er látið viðgangast, þeim mun erfiðara verður það úrlausnar.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt til með þessari till., að ríkisstj. verði falið að bæta úr í þessum efnum. Réttlætiskrafan er lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, lífeyrisgreiðslur verði verðtryggðar og allir njóti sömu réttinda án tillits til kyns eða atvinnustéttar.

Ég legg til, að þessu máli verði vísað til hæstv. heilbr.- og trn. Alþ.