10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

84. mál, útvarpslög

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól á ný við þessa umr. er fyrst og fremst að víkja nokkrum orðum að atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 6. landsk. þm. hér í dag, fyrst og fremst því atriði, að till. sú um þrengingu á kjörgengi til útvarpsráðs, sem ég flyt, gangi í berhögg við stefnuna um atvinnulýðræði. Ég hélt mig hafa gert grein fyrir því í ræðu minni í dag, að slíkur skilningur er alrangur og getur ekki átt við, vegna þess að útvarpsráði er markað mjög þröngt og ákveðið starfssvið í útvarpslögum. Það á að fjalla um dagskrá og tekur endanlegar ákvarðanir um dagskrárgerð. Þess vegna væri engu atvinnulýðræði fullnægt þótt svo t.d. væru sett ákvæði um að einhverjir fulltrúar starfsmanna ættu að sitja í þessari stofnun, því að hún fjallar ekki nema um afmarkaðan geira af hinu viðtæka starfssviði Ríkisútvarpsins. Hún fjallar ekki um kjör né ráðningu starfsmanna né um skipulag stofnunarinnar í heild né um fjármál hennar í heild, svo að nefndir séu nokkrir mikilsverðir þættir. Til þess að tryggja atvinnulýðræði í Ríkisútvarpi eða öðrum fyrirtækjum, verða starfsmannafulltrúar að eiga sæti í stofnunum sem geta fjallað um störf stofnunarinnar í heild, en ekki um mjög takmarkað svið eins og útvarpsráð gerir. því er það algerlega tilefnislaust hjá hv. 6. landsk. þm. að segja, að flutningur þessarar till. gangi gegn atvinnulýðræði og sé árás á það.

Hv. þm. furðaði sig á að ég skyldi ekki fordæma ákveðnar gerðir eða aðgerðarleysi útvarpsráðs. En ég kærði mig ekki um að endurtaka í máli mínu í dag það, sem ég sagði við 1. umr., að auðvitað eru einstök verk núv. útvarpsráðs eins og annarra stofnana umdeilanleg. Kannske gætu það orðið fróðleg skoðanaskipti fyrir okkur báða, hv. 6. landsk., ef við bærum saman bækurnar um það hvað okkur þykir vel fara og hvað miður í dagskrárgerð útvarpsins. En ég held, að það sé ekki ástæða til að gera slíkan samanburð frammi fyrir hv. þd. Það, sem er mergurinn málsins, er eins og hv. tveir síðustu ræðumenn hafa glögglega bent á, hvort núv. útvarpsráð hefur unnið sér svo til óhelgi að ástæða sé til að slá það af í snatri í stað þess að láta það ljúka sínum útmældu ævidögum með haustinu. Og í ákafanum að koma þessari aftöku í kring er því engu skeytt þótt höggið, sem á að ríða á hálsi meiri hl. útvarpsráðs, bitni grimmilega á þeirri stefnu sem einróma Alþ. mótaði með setningu útvarpsráðslaganna að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun og dagskrárgerð þess sé stjórnað af útvarpsráði sem kosið er til fastákveðins kjörtímabils.