10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

84. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef talað hér áður við þessa umr. og mun því ekki gerast langorður að þessu sinni, en það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið í máli ræðumanna hér við umr., sem ég sé þó ástæðu til að minnast á. Ég kemst ekki hjá því heldur að vekja á því sérstaka athygli að þetta er í annað sinn hér í hv. Nd. Alþingis sem ástæða þykir til að efna til sérstaks kvöldfundar, jafnvel næturfundar, út af þessu máli. Þegar hér er efnt til kvöldfundar er ekki verið að ræða um þau miklu vandamál, sem ég hygg að menn ætlist til að fjallað sé um á Alþ. og kannske haldnir fundir um bæði nótt og dag. Það er ekki haldinn kvöldfundur til að ræða um gjaldeyrissjóðinn okkar, sem var 9 milljarðar fyrir rúmu ári, en er nú orðinn að engu, og ekki heldur til að ræða um vandamál undirstöðuatvinnuvega okkar, hvernig þeim verði haldið gangandi, en ríkisstj. og hennar talsmenn telja þó allt í tvísýnu um, og enn síður er verið að halda hér kvöldfund á Alþ., jafnvel næturfund, til að fjalla um það hvernig almennt verkafólk og aðrir lágtekjuhópar í þjóðfélaginu eigi yfirleitt að fara að því að draga fram lífið á þeim kjörum sem hæstv. ríkisstj. hefur þóknast að skammta þeim með valdboði og lögbindingu, — ekkert af þessu. En það er talin ástæða til að halda hér kvöldfund í annað sinn, jafnvel næturfund, til þess að koma fyrir kattarnef hinu hábölvaða útvarpsráði. Ef það tekst ekki í dag, þá skal það þó a.m.k. takast á morgun.

Ég veit ekki um fólk, sem lítur til Alþingis utan úr bæ eða utan af landi, hvernig þessar athafnir líta út í þess augum, hvort virðing þess fyrir Alþ. vex, ég held tæplega.

Hv. 5. þm. Vestf., Jón Baldvin Hannibalsson, flutti hér einkar athyglisverða ræðu í kvöld og ég verð að segja það, að enda þótt okkur kunni að greina á um fáein atriði, þá er ég sammála honum um flest af því sem hann sagði hér í kvöld. Hann minntist m.a. lítillega á dagblöðin okkar hér á Íslandi, þau væru háð stjórnmálaflokkunum meira en góðu hófi gegndi og ættu það öll sammerkt að vera flokksmálgögn. Það væri hægt að færa fram ýmislegt í einkennum dagblaðanna allra, sem er til marks um að þau eru reyndar líka eitthvað fleira, en samt eru þau flokksmálgögn. Og ég er hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni alveg sammála um, að þetta er út af fyrir sig ekki æskilegt ástand. Látum það vera, að flokkarnir hafi hver um sig sitt málgagn, en það væri mjög æskilegt að hér væri jafnframt fyrir hendi blað algerlega óháð flokkum, helst fleiri en eitt. En vegna þess að það er ekki, þá er þeim mun meiri nauðsyn sem ber til þess að ríkisfjölmiðlarnir komi í svo miklum mæli sem kostur er í stað slíkra óháðra málgagna.

Það kann einhver að segja sem svo að það sé undarlegt, að ég, sem er sjálfur starfandi við eitt þessara blaða, harmi að ekki skuli hafa þrifist hér óháð málgögn. Það hefur verið reynt að hleypa slíkum blöðum af stokkunum, það hefur því miður ekki tekist. En frá mínum bæjardyrum skoðað er sú afstaða, sem ég lýsti hér, fullkomlega eðlileg. Við íslenskir sósíalistar, sem störfum í þeim stjórnmálaflokki sem Alþb. heitir, stöndum frammi fyrir þeirri ákveðnu staðreynd, að yfirgnæfandi blaðastyrkur á Íslandi er í höndum okkar stjórnmálaandstæðinga. Ég ætla ekki að rekja ástæðurnar fyrir því. Það er einu sinni staðreynd. Og með tilliti til þess að málin eru þannig vaxin, þá er það að sjálfsögðu ekki neitt sem er einfalt mál, að við segjum: Þrátt fyrir þetta þurfum við ekki á flokksmálgagni að halda. Lausnin er ekki svo einföld á þessum vanda. Ég vil hins vegar að gefnu tilefni vekja á því athygli, að á liðnum árum hefur það alloft borið á góma, hvort ekki gæti komið til greina að þeir, sem teldu sig heldur vinstra megin í íslenskum stjórnmálum, stæðu jafnvel sameiginlega að einu voldugu blaði. Ég tel að slíkt gæti fyllilega komið til álíta og gæti verið æskileg þróun. Af þessu hefur ekki orðið frekar en ýmsu öðru sem íslenskum vinstri mönnum, sem svo vilja nefna síg, hefur ekki tekist að koma sér saman um.

Ég vil aðeins til viðbótar við þetta segja það, að hv. 5. þm. Vestf., Jón Baldvin Hannibalsson, sem fór um það ýmsum orðum, hversu háð dagblöðin væru sínum flokkum, og mikið af því réttilega, leit þó, að ég hygg, fram hjá því að það blað, sem að vísu er ekki nema aðeins vikublað, sem gefið er út í tengslum við þann flokk sem hann er sjálfur fulltrúi fyrir, ég hygg, að óhætt sé að segja, að það sé í öllum meginatriðum undir sömu sök selt og dagblöðin hjá stærri flokkunum í þessum efnum; Einhver kynni að vilja benda á varðandi einn ákveðinn þátt sem hv. þm. kom hér lítillega inn á, þ.e.a.s. fréttir héðan frá Alþ., þingfréttir, að Morgunblaðið gerði kannske meira að því heldur en önnur blöð að geta um málflutning andstæðinganna. Og það er ekki alveg út í loftið að benda á það. En hér er ekki spurningin bara um það, hvort nefnt sé, hvort þessi eða hinn hafi tekið til máls og kannske birt einhver setning úr hans máli, heldur er spurningin um það, hvernig frá sé sagt. Og ef menn hyggja að því, þá getur niðurstaðan að mínu viti ekki orðið önnur en sú að Morgunblaðið sé síst hlutlægara í sínum fréttaflutningi heldur en önnur blöð. Og það er rétt, að öll blöðin eru undir þá sök seld, og gildir sama um málgagn SF í þeim efnum og önnur, að þau segja meira frá málflutningi sinna fulltrúa, sinna liðsmanna á Alþ. og í öðrum stofnunum heldur en málflutningi annarra. Og það kemur til af því, að þau eru flokksmálgögn.

En eins og ég sagði áðan er þetta öðruvísi en það þyrfti að vera að mínu viti. Ég vildi mjög gjarnan sjá þá þróun, að vinstri menn á Íslandi gætu sameinast um eitt stórt dagblað, sem hér væri eðlilegt mótvægi gagnvart hinu stóra og volduga Morgunblaði. Og ég hygg að báðir aðilar gætu haft gott af því. Svo vil ég nú nefna það áður en ég hverf frá því sem ég hugðist segja hér varðandi hina ítarlegu ræðu hv. 5. þm. Vestf., að hann nefndi það réttilega að í þessum umr., sem hér hafa farið fram um breytingar á útvarpslögunum, hafi talsmenn frv. ríkisstj. engin dæmi nefnt um það, að útvarpsráð hafi misfarið með sitt vald, engin dæmi a.m.k. sem hægt væri að taka alvarlega. Þetta er alveg hárrétt. Ég er honum algerlega sammála. En ég held, að ég komist ekki hjá því — þó að ég vildi nú síst af öllu fara að kýta við hv. þm. með tilliti til þess hvað ég var honum í öllum meginatriðum innilega sammála, að benda á það að þegar hann leyfði sér að tæpa hér á því í tengslum við það mál, sem ég hafði flutt í þessari umr. fyrr, að þar hefði talað ritstjóri Þjóðviljans sem að manni skildist væri kunnur að því að beita ritskoðunaraðferðum á því blaði, þar sem minn starfsvettvangur er, þá láðist honum líka að geta nokkurra dæma um þetta. Og ég vil leyfa mér að vísa aðdróttunum í þessum efnum til föðurhúsanna í allri vinsemd.

En það eru miklu alvarlegri hlutir sem hér hafa veríð á ferðinni. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, 6. landsk. þm., flutti hér ræðu við þessa umr. í dag og hafði þar á orði að menn hefðu verið að beita hann einhverjum persónulegum ofsóknum, eins og hann komst að orði, og þetta var gert í tilefni af því, að ég hafði í fyrri ræðu minni við þessa 2. umr. rifjað upp nokkur orð, sem hann hafði sagt við 1. umr. málsins, og leyft mér að leggja svolítið út af þeim ummælum. Ég ætla ekki að endurtaka þau hér. Þau standa í Alþingistíðindunum og verða ekki máð þaðan. Ég hirði ekki heldur um að fara orðum um tal hv. 6. landsk. þm. um ástand mála í Austur-Evrópu þar sem hann kvaðst oft hafa verið á ferð og dvalið,enda efa ég ekki að hann muni vera þar langtum kunnari hnútum heldur en ég. Hann komst þannig að orði í ræðu sinni í dag, efnislega, að segja: „Þeir, sem ekki þekkja muninn á sannleik og lygi, geta ekki haft ótakmarkaðan aðgang að fjölmiðlum.“ Kannast menn enn við orðafarið? Hvaðan er þetta komið? Hverjir væru líklegastir til þess að láta falla setningar í þessum dúr? Ég þarf ekki að benda á dæmin að ég hygg. Þeir, sem ekki þekkja muninn á sannleik og lygi, geta ekki átt ótakmarkaðan aðgang að fjölmiðlum. Hvað var sagt um þann margumtalaða rithöfund Solzhenitsyn á einum stað? Það ættu þeir Morgunblaðsmenn a.m.k. að kannast við, þó að svo megi vera að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson þekki það ekki. Ég læt mér hans orð í léttu rúmi liggja.

Hins vegar þótti mér svolítið átakanlegt að hlíða hér á mál hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, 9. landsk. þm., og það var kannske vegna þess að maður fann það svo ákaflega vel að hún gekk ekki glöð til þessa leiks. Það var rifjað upp hér áðan af hv. 5. þm. Vestf., hvernig hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir komst að orði, m.a. sagði hún eitthvað á þá leið að hún harmaði að þetta frv. skyldi hafa komið fram, hún hefði í raun og veru miklu fremur kosið þá skipan sem þeir sem eru sömu skoðunar og ég telja líka að sé miklu heppilegri. En niðurstaða hennar var engu að síður sú að hún hlyti að fylgja frv. með þeim rökum, eins og hún sagði orðrétt, að „illt skal með illu út reka“. Kann að vera að þau ósköp hefðu hugsanlega getað gerst á þeim stað sem útvarpsráð er að eitthvað slíkt mætti teljast nauðsynlegt, að starfa skv. máltækinu: „Illt skal með illu út reka“. En ósköp held ég að því fari fjarri að neitt það hafi gerst hjá þessu útvarpsráði eða meiri hluta þess sem gefi tilefni til þess.

En það var athyglisvert hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, að hún lagði á það mikla áherslu að stjórnmálaflokkarnir þurfi að vanda sérstaklega val sitt á fulltrúum í útvarpsráð meðan sú skipan er á að þessir fulltrúar séu kosnir hér á Alþ., pólitískri kosningu þá óhjákvæmilega. Ég vil taka mjög undir hennar ummæli um þetta. Það er ákaflega mikil ástæða til þess að þetta val sé vandað. En ég get ekki komist hjá því með tilliti til þessara ummæla hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, sem ég efast ekki um að hafi verið í einlægni mælt, að minna hér aftur á þann, — ég vil segja óhreina hlut, sem hv. stuðningsmenn frv. hafa allir sneitt hjá í sínum ræðum hér, þ.e.a.s. tilefninu til þess að við í minni hl. menntmn. þessarar hv. d. leggjum til í okkar brtt., síðari hluta hennar, síðari málsgr., að starfsmenn erlendra sendiráða eða fjölþjóðasamtaka, starfsmenn slíkra aðila, sem njóta hér sérstakra fríðinda gagnvart íslenskum lögum, séu ekki kjörgengir í útvarpsráð. Enginn talsmanna ríkisstj. í þessu máli hefur minnst á þennan lið í okkar till. Það er ákaflega athyglisvert. Ég vil ekki trúa því að þeir séu margir, þeir hv. alþm. hér í þessari stofnun sem finnst það eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingur sem nýtur sérstakra fríðinda gagnvart íslenskum lögum, þeirra fríðinda að þurfa ekki að greiða hér neina skatta af tekjum sínum, frá aðalvinnuveitenda sínum, einstaklingur, sem er undanþeginn frá lögsókn vegna ræðu og rits, nýtur í þeim efnum forréttinda umfram alla aðra fullgilda þegna í þessu þjóðfélagi og ýmissa fleiri fríðinda, fríðinda af sama tagi og sendimenn erlendra ríkja njóta, — ég vil ekki trúa því að þeir hv. alþm. geti verið margir sem telji eðlilegt að slíkur aðili skipi sæti í æðstu stjórn Ríkisútvarpsins, kjörinn hér á hv. Alþ. Þetta segi ég algerlega burt séð frá ágæti þessa eða hins einstaklings. En staðreyndin er sú, eins og ég hef rifjað hér upp áður, að sá eini aðili, sem slíkra réttinda nýtur af íslenskum þegnum, hefur verið valinn til þess starfs að sitja í útvarpsráði fyrir Sjálfstfl. Og ég vil allra síst trúa því, að þeir sem, eins og hv. þm. frú Sigurlaug Bjarnadóttir, telja að stjórnmálaflokkarnir verði alveg sérstaklega að vanda val sitt í þessum efnum, síst vil ég trúa því að þeir hv. þm., sem eru frú Sigurlaugu Bjarnadóttur þarna sammála, telji það vera að vanda sitt val að hafa þennan háttinn á.

Ég mun ekki orðlengja þetta öllu frekar hér við þessa umr. Við eigum enn eftir að mæta hér til 3. umr. málsins. En vonandi eigum við ekki eftir að lifa það að hv. alþm. láti sig hafa það að fella þá brtt. okkar eða þann lið hennar sem ég hef gert hér að umtalsefni nú síðast.

Hins vegar kynni að koma í ljós að athæfi það, sem hér er um að ræða, reynist vera við athugun annarra aðila brot á siðareglum Atlantshafsbandalagsins. Ég held það sé ástæða til að hv. Alþ. íslendinga verði fyrra til í þessum efnum og samþykki þennan lið í brtt. okkar.