10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

84. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði þegar ég gerði grein fyrir álíti meiri hl. hv. menntmn., tel ég tilgangslítið að þjarka öllu meira um það mál, sem hér er á dagskrá, en þegar er orðið. Það væri eðlilegra að ljúka umr. og ganga til atkv.

Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að taka hér aftur til máls, en vegna málflutnings hv. síðasta ræðumanns, bæði nú áðan, en þó einkum og sér í lagi ræðu hans síðast þegar málið var hér til umr., s.l. fimmtudag, hygg ég að það hafi verið, verður ekki hjá því komist að víkja nokkuð að því. Það var raunar talsvert annar hv. þm., Kjartan Ólafsson sem þá talaði, en hinn sem hér ræddi áðan. Hann var tiltölulega stilltur nú áðan og hafði áhyggjur af einu og öðru, m.a. af Atlantshafsbandalaginu, skyldist mér. Þá var það dálítið annar maður, sem talaði hér um daginn, og mun ég víkja að því örfáum orðum á eftir.

Ég kemst ekki hjá því að víkja einnig nokkuð að skemmtilegri ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar hér áðan þegar hann sérstaklega fjallaði um dagblöðin. Margt var skemmtilegt í hans ræðu og margt sem ég get að sjálfsögðu tekið undir. Þó hafði ég á tilfinningunni að ræðumanni fyndist hann hafa höndlað allan sannleika og talaði út frá því. Ég held, að svo sé nú ekki og ýmislegt var a.m.k. ekki með öllu rétt í ræðu hans, eins og t.d. það að helstu dagblöð landsins væru í eigu stjórnmálaflokka. Svo er ekki um tvö dagblöðin og einmitt ekki um þau stærstu. Þau eru í eigu félaga, og það hélt ég að allir vissu.

Ræðumaður sagði að dagblöðin íslensku tækju ekki mál til hlutlægrar meðferðar á liðandi stund. Á þessu er að vísu mikill misbrestur, það skal ég játa. En ekkert held ég að við frekar hefðum viljað þau 15 ár sem ég var ritstjóri Morgunblaðsins, en að geta haft starfskraft einmitt til þess að taka mál til hlutlægrar yfirvegunar í miklu ríkara mæli en gert er. Það er svo í störfum blaðamanna, að þeir eru á hlaupum daginn út og daginn inn að safna fréttum og hafa ekki mikinn tíma til þess að verja kannske dögum og vikum til þess að kanna mál niður í kjölinn, það er rétt. En hjá þessu málgagni a.m.k. er það ekki af viljaleysi sem of lítið er að þessu gert. Það vil ég leyfa mér að fullyrða.

Út af fyrir sig er rétt að leiðarar dagblaðanna eru pólitískir, en hvaða blað er ekki pólitískt. Blað á að hafa erindi. New York Times og Washington Post eru pólitísk blöð sem betur fer. Einmitt þess vegna gátu þau afrekað það sem þau gerðu að fletta ofan af Watergate-hneykslinu og koma Nixon frá. Ég vil ekki halda því fram að neitt af dagblöðunum hér sé í líkingu við þessi stórblöð að gæðum, enda væri slíkt með ólíkindum. En ég held því hiklaust fram að stefnt hafi verið í þá átt, a.m.k. hjá stærsta dagblaði landsins, allan þann tíma sem ég hef þar þekkt til og starfað þar, að gera blaðið frjálsara og hafa meira af almennum umræðum innan blaðsins, hafa það opið fyrir öllum heilbrigðum röddum. Ég sagði heilbrigðum, við erum ekki opnir fyrir kommúnisma, nasisma eða anarkisma. Það er rétt og það má gjarnan upplýsa það, að hvenær sem blaðamenn voru að leita eftir starfi á Morgunblaðinu voru þeir aðeins spurðir um þetta eitt varðandi stjórnmál. Við sögðum viðkomandi, að kommúnista, fasista og anarkista ráðum við ekki. Hvaða aðra stjórnmálaskoðun sem var mátti viðkomandi maður hafa. Og það er opinbert leyndarmál, að þm. Sjálfstfl. og forustumenn eru ekki alltaf sammála því, sem í Morgunblaðinu stendur, eða ánægðir með allt, sem þar er gert. Ritstjórar þess blaðs bera einir ábyrgð á því, sem þar birtist, og það er ekki skrifað á ábyrgð neins stjórnmálaflokks. Þetta vildi ég upplýsa Jón Baldvin Hannibalsson um, vegna þess að ég veit að hann vill hafa það sem sannara reynist.

Lítið dæmi um að ég a.m.k. tek þessa stefnu dálítið alvarlega er það, að nú þegar ég var orðinn kjörinn þm. taldi ég það ekki samrýmast þingmennsku minni að vera áfram ritstjóri og sagði starfinu lausu. Þetta er mjög gott starf og sérstaklega skemmtilegt og ég sé mikið eftir því. Ég vona að þetta sé þó einhver vitnisburður um að þetta er ekki tómt mál að tala um. Það er alvara, sem því fylgir. Og ég vona svo sannarlega, að íslensk dagblöð eigi eftir að þróast áfram í þessa átt, til meira frjálsræðis og að þau verði óháðari stjórnmálaflokkunum en þau eru. Ræðumaðurinn gat um það að blöðin hefðu ekki skýrt rækilega frá umr. hér utan dagskrár um daginn er hann hóf máls utan dagskrár. Ég hygg að ég muni það rétt að í Morgunblaðinu — og ber ég þó ekki ábyrgð á því lengur — hafi verið mest sagt frá ræðu hans, kannske af því að hún var lengst, en þó eru langar ræður ekki alltaf þær bestu. Þetta var ágæt ræða, ég meina það ekki á þann veg að hún hafi verið slæm, síður en svo, en ég hygg að frá hans máli hafi verið skýrt meira en frá máli sjálfs forsrh.

Þá er það umtal hans um flokksklíkur, að flokksklíkur ráði dagblöðunum, þá neita ég því að svo sé um Morgunblaðið. Þar veit ég að ég fer með rétt mál, þar ræður engin flokksklíka. Það er alveg óhætt að fullyrða. En Jón Baldvin Hannibalsson, hv. þm., talaði um að hér á Íslandi mundi geta þróast fyrirmyndarsamfélag. Ég hygg raunar að það sé að mörgu leyti fyrirmyndarsamfélag hér og ég er innilega sammála honum um að við búum í landi, besta landi heims, það er ég sannfærður um, langbesta landi heims, og við höfum betri aðstöðu til þess en nokkrir aðrir að þróa þetta fyrirmyndarsamfélag. Og það veit ég að við Jón Baldvin Hannibalsson, ef við báðir lifum talsvert lengi, munum reyna að sameinast um, þó að við verðum ekki sammála um hvert einasta atriði, því að það er rétt sem hann segir, að eitt hið mikilvægasta er hið opna samfélag. Það er auðvitað fámennið, sem gerir það að verkum m.a. að hér verður að vera opið samfélag. Það er ekki svo þægilegt að halda hlutunum leyndum. Fólkið sér í gegnum þá sem betur fer, og það borgar sig sjaldnast að vera að reyna að halda hlutum leyndum, vegna þess einfaldlega að menn gera sér venjulega ljóst, ef þeir eru eitthvað gruggugir, að upp koma svik um síðir. Það ættu menn að vita og þekkja og ég hygg að fjölmiðlar mættu þess vegna gjarnan vera talsvert opnari en þeir nú eru.

En að því er varðar þessa margumtöluðu brtt., sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson vék að hér áðan, þá er það auðvitað mjög mikið álitamál til hvaða manna þetta ákvæði mundi taka. Ég sagði við umr. um daginn að það væri vafalaust hundruð manna. Það má skýra þessa till. bæði þröngt og rúmt, en mergurinn málsins er sá að það er Alþ. sjálft sem velur mennina. Það tekur um það ákvörðun hverja það vill styðja þegar þar að kemur. Þess vegna þarf út af fyrir sig ekki neinar reglur um það hverjir séu kjörgengir og hverjir ekki, jafnvel þótt ætti að útiloka einhverja hópa manna, t.d. vegna þess að þeir störfuðu hjá alþjóðlegri stofnun, eins og Magnús Þórðarson gerir, en hann virðist eiga að útiloka frá störfum sérstaklega vegna þess að hann njóti skattfríðinda. Ég held að það séu fleiri menn í þessu þjóðfélagi sem kannske mætti segja að hefðu ýmiss konar fríðindi. Á að útiloka þá þess vegna? Sumir halda því fram að við þm. höfum ýmiss konar fríðindi og ef við samþ. það ættu þá allir þm. að vera útilokaðir frá störfum í útvarpsráði. Ég held að þetta sé allt saman nokkuð langsótt.

Raunar held ég að fá dæmi séu um það úr þingsögunni nú í seinni tíð a.m.k., að þm. leyfi sér að ráðast að fjarstöddum einstaklingi með þeim hætti sem hv. þm. Kjartan Ólafsson gerði sérstaklega hér s.l. fimmtudag. Það er stundum deilt hart hérna innan þingsalanna og um það er ekkert nema gott eitt að segja. Hér hafa menn tækifæri til þess að svara fyrir sig. En þegar farið er að ráðast á menn sem ekki geta hér í sölunum borið hönd fyrir höfuð sér, þá tekur í hnúkana og ég get ekki hjá því komist að gagnrýna það harðlega. En hitt er annað mál að ég gat svo sem vel ætlað hv. þm. Kjartani Ólafssyni þessa framkomu. Hitt kom mér mjög á óvart að hv. þm. Magnús T. Ólafsson vildi láta bendla sig við þennan tillöguflutning, og ég hygg að hann mundi ekki hafa gert það ef hann hefði áður verið búinn að hlusta á ræðuna og vitað hvernig átti að nota þetta til árása á þennan einstakling. Ég trúi því ekki að þá hefði hann staðið að þessum tillöguflutningi og gefið honum stimpil með þessum hv. þm. En Kjartan Ólafsson ræddi einnig um það að sú breyting, sem lagt er til að verði gerð á útvarpslögunum með þessu frv. miðaði að því að það yrðu settir, eins og hann orðaði það, pólitískir varðhundar við útvarpið. Ég segi það nú eins og er, að þessi hv. þm. veit sjálfur hvað pólitískir varðhundar eru og hvert þeirra hlutverk er í þeim ríkjum sem aðhyllast það stjórnarfar sem hann hefur dyggilega stutt og hans blað. Hann veit hvað hann er að tala um, og virði þeir mér það til verri vegar, þeir þm. sem heyra mál mitt, ef þeir vilja, að ég tel engan einstakling — ég þekki engan einstakling sem ég teldi líklegri til að vilja taka að sér hlutverk þessa pólitíska varðhunds en einmitt þennan hv. þm. Ég þekki engan sem ég fremur mundi ætla líklegan til þess. Hann spurði einnig orðrétt: „Minnir þetta tal ekki á óhugnanlega atburði í öðrum löndum?“ Og þar með brigslaði hann hæstv. menntmrh. og öðum stuðningsmönnum þessa frv. um athafnir á borð við þær sem eru ær og kýr þeirra stjórnarherra sem þessi sami hv. þm, og blað hans hafa lofsungið ár og síð. Og hann talaði um ofstæki, en sjálfur var hann í þessari ræðu s.l. fimmtudag froðufellandi hér í þessu ræðupúlti. (Gripið fram í.) Já, hann var froðufellandi í bókstaflegri merkingu, og það munu þm. aldrei áður hafa séð í þessu púlti. Það sá hver einasti þm., ofstækið var svo ofboðslegt og heiftin að froðan féll úr báðum munnvikum.

Það mál sem hér er til umr. er ofureinfalt. Þm. geta gert upp hug sinn, hvort þeir vilja styðja þessa breytingu eða ekki, Ég ítreka þá skoðun mína að það væri sæmd fyrir Alþ. að fara nú að greiða atkv. um málið og mér finnst að útvarpshlustendur og landsmenn allir eigi rétt á því að fá að vita um afstöðu hvers einasta þm. Þess vegna væri eðlilegast að nafnakall færi fram við afgreiðslu málsins.