14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

42. mál, farmiðagjald og söluskattur

Flm, (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, fyrir góðar undirtektir, en það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi ræða varðandi mál hans.

Í fyrsta lagi er mér ekki kunnugt um að það séu neinir milliríkjasamningar sem banna þetta gjald. Sé svo, þá hefur mér ekki tekist að afla þeirra upplýsinga. Mér er hins vegar kunnugt um að það tíðkast erlendis að leggja á svokallaðan flugvallaskatt. Var sá skattur t.d. lagður á á Kastrupflugvelli, 20 kr. danskar. En síðan var sá skattur felldur inn í farmiðagjaldið. Fyrst þetta er heimilt í þessu landi og á þessum flugvelli, þá get ég ekki ímyndað mér annað en það sé einnig heimilt hér. Eins og ég sagði tókst mér ekki að finna ákvæði sem bönnuðu slíkan skatt.

Ég get að mörgu leyti verið sammála hv. 7. landsk. þm. um að það væri æskilegt að skattbyrðin yrði mun þyngri á millilandaflugleiðum, þ.e.a.s. að við mundum þá fara út á þá braut að skattleggja hina svokölluðu lúxuseyðslu heldur en nauðsynjaeyðslu. Það vandamál kemur upp í sambandi við það að með því gætum við teflt nokkuð í hættu ferðamannastraumi til landsins því að hér er lagt til að þetta verði lagt á alla farþega í millilandaflugi, en ég reikna með að erlendir ferðamenn séu a.m.k. helmingur af þessum farþegum. Ef við ætluðum að tífalda þetta farmiðagjald, þá gæti ég því aðeins verið sammála að það legðist á þegna okkar þjóðfélags, en kæmi á engan hátt í veg fyrir nauðsynlegan ferðamannastraum til landsins. Ég er dálítið hræddur um að það geti orðið erfitt í framkvæmd að skilja hópa að svo að vel megi fara, en ég mun að sjálfsögðu verða fús til að taka það til athugunar ásamt hv. 7. landsk. þm. ef væri hægt að finna þar einhverja framkvæmdaleið.