11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta var gríðarleg og að sama skapi fróðleg ræða hjá hæstv. landbrh. um heilsufar fiska. En fæst var frá eigin brjósti, sem von var til, í því efni. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni að ástæðan til þess að ég gerðist meðflm. að þessari till. var einvörðungu sú, að mér þótti tími til kominn eftir margra ára draugagang í þessu máli að hið sanna kæmi fram, ekkert annað. Mér gekk það ekki til að fá einn eða neinn dæmdan sekan í þessu máli. Í grg., sem hv. 1. landsk. samdi, kemur fram að vísu nokkur áreitni, það skal játað, byggð á þeim gögnum sem hann hefur aflað sér. En hvað kemur fram í bréfum þeim sem hæstv. ráðh. las hér upp frá þessum embættismönnum? Menn voru nefndir handbendi hér. Hann segir sjálfur að með því að biðja um hlutlausa rannsókn sé verið að kveða upp sleggjudóma fyrir fram. Hann leiðir menn hér sem vitni, hverra verk er verið að biðja um að athuguð séu, á hlutlausan hátt vitanlega, því að Alþ. mundi ekki gera það öðruvísi. Hann er að búa til úr þessu stóra sprengju og varpar slíkum áherslum á að það liggur við að menn verði andhlaupa undir.

Þótt embættismenn séu að vísu heilagar kýr, það hefur margkomið fram og það er ekki víst að núv. hæstv. stjórnvöld séu búin að bíta úr nálinni með það, þar sem fyrir liggur að menn hafi æviráðningu og geti látið borga sér laun frá þrítugu og upp í sjötugt, þá eins og ég segi geta þær ástæður legið til grundvallar að fullkomin ástæða sé til þess að Alþ. athugi málið og hann veit ekkert meira um málið, hæstv. ráðh., þótt hann fái vitnisburð þeirra manna sem eru annar aðili deilunnar, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Og ég endurtek það: ekkert annað gengur mér til og ég vænti þess að meðflm. mínum hafi ekkert annað gengið til en fá rannsókn á hinu sanna í þessu máli.

Það eru tveir deiluaðilar sem deila þarna um mjög mikilvægt málefni, — ég tek undir það með ráðh., — en það dugar ekkert þótt hann setji hér á klukkutíma ræðu sem er lestur upp úr skýrslum frá öðrum deiluaðilanum. Það dugar vitanlega ekki skapaðan hrærandi hlut. En ég hef átt hér till. um fiskrækt á undanförnum þingum sem ég tel eitt það mál sem er brýnast að unnið sé að, fiskrækt í söltu vatni, og var um það fjallað í tillögugerð sérstaklega. En ég minnist þess ekki að hæstv. landbrh., sem var í því embætti alla þá tíð, hafi haft eitt einasta orð um það að segja. Hann hefur kannske ekki einu sinni tekið eftir því. En nú, þegar er spurt hver sé embættisfærsla embættismanna sem eru sjálfsagt allir — og ég vænti þess — hinir mestu heiðursmenn, þá umhverfist hæstv. ráðh., þá loksins losnar um málbeinið svo að um munar, og beinlínis vænir menn um það að þeir séu að kveða upp sleggjudóma, þó að þeir séu að sínu leyti að afla sér gagna og fara með tilvitnanir í þau, eins og hann sjálfur gerir eftir embættismönnunum.