11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að fagna því, að þessi till. á þskj. 81 skuli koma fram og tel hana tímabæra. Um árabil hefur fiskeldisstöðin að Laxalóni staðið í deilum við opinbera aðila og mikið verið um þau mál skrifað. Ég hef að vísu ekki kynnt mér þetta mál mikið, en hef þó fylgst með þeim blaðagreinum sem ég hef rekið augun í og furðað mig á þeirri deilu, bæði frá hálfu fiskeldisstöðvarinnar og eins frá hálfu opinberra aðila, þeirra embættismanna sem hæstv. ráðh. mælti nú litið með í tilvitnunum sínum. Eins og síðasti ræðumaður tók fram, leyfir hann sér, sá ágæti embættismaður, yfirdýralæknirinn, í bréfi til ráðh. að tala um Skúla, eiganda laxeldisstöðvarinnar eða handbendi hans. Ég tel mig ekki handbendi eins eða neins þótt ég taki afstöðu í máli, og ég vil segja að slíkur embættismannahroki eins og þarna kemur fram segir mér ekkert annað en það, að það er fyllilega ástæða til þess að athuga hvort þessir menn eru hæfir til þess að standa í embættum sínum. Það kemur einnig fram hjá hv. 1. flm. þessarar till. að eftir að hafa kvatt á fund nefndarinnar veiðimálastjóra hafi veiðimálastjóri farið af fundi með þeim orðum að hann muni skrifa n. bréf sem hann gerir svo ekki. Halda þessir menn að þeir séu alveg „stikkfrí“ í kerfinu eða hvað? Það er ekki í fyrsta skipti, hvorki hér á Alþ., í ríkiskerfinu né í borgarapparatinu sem embættismenn halda að þeir séu einráðir. Það er fyllilega ástæða til að fara að taka þessi mál föstum tökum.

Þessi deila er búin að standa nokkuð lengi og það er ekki nokkur vafi á því að hún hefur orðið ekki aðeins eigandanum að fiskeldisstöðinni að Laxalóni til stórtjóns, heldur líka íslenska ríkinu og þeirri útflutningsatvinnugrein sem hér er verið að byggja upp. Það fer ekkert á milli mála að hér er um stóran og verðmikinn atvinnurekstur að ræða ef hann fær að þróast á eðlilegan hátt, en það hefur hann ekki fengíð að gera og það er kominn fyllilega tími til þess að athuga hver orsökin er. Þessi þáltill. hljóðar um að láta fara fram, hvort það er gert af 6 manna n. eða einhverjum öðrum, hlutlausri n. þá, rannsókn á því, hvers vegna þessi deila er, hvernig hún hófst og af hverju hún heldur áfram. Á meðan hún stendur yfir, er stöðvun á útflutningi á þessari ágætu vöru sem Skúli á Laxalóni framleiðir og þýðir stórtjón, ekki aðeins fyrir hann peningalega, heldur gjaldeyristekjurnar í landinu. Það fer ekkert á milli mála að það er hægt að rækta fisk á Íslandi og flytja hann út eins og annars staðar. En við erum ekki að flytja inn, við erum að flytja út.

Ég verð að segja það að ég er ekki nógu vel inn í þessu máli til þess að vita af hverju þessi deila stendur. Við erum að flytja út. Við erum ekki að flytja inn eitthvað sem gæti skilið eftir sjúkdóma í landinu. Það getur verið að það sé vanþekking mín sem kemur mér til þess að varpa þessu fram. En ég tel að hér sé um að ræða einstakling í baráttu við þessa ófreskju sem í hugum fólksins er kerfið. Hérna er duglegur hugsjónamaður sem hefur reynt að brjótast áfram, hvernig sem honum hefur verið tekið, og alls ekki fengið að starfa óáreittur, af hverju sem það er. Við skulum fá það fram með athugun af hverju það er sem þessi duglegi maður, sem er kominn á efri ár, er að eyða sínum síðustu kröftum á sama hátt og hann byrjaði: að reyna að koma í gegnum kerfið möguleika á því að rækta hér góða vöru og selja á erlendum mörkuðum sem eru miklu stærri en við höfum efni á - sérstaklega miðað við okkar efnahagskerfi eins og það er í dag — að halda áfram að vanrækja. Hvort það er embættismönnum að kenna eða einhverjum öðrum, það vitum við ekkert. Við skulum í augnablikinu halda að embættismennirnir hafi alveg á réttu að standa. En hér eru þingkjörnir menn sem taka til greina erindi einstaklings sem telur sig hafa orðið fyrir miklum rangindum um langan tíma og Alþ. ber skylda til að standa við hliðina á þeim manni svo lengi sem það er stætt á því að standa við hliðina á honum og byggja upp þessa útflutningsatvinnugrein. Ef aftur á móti embættismennirnir hafa á réttu að standa og þessi deila er þess eðlis að í ljós kemur að þeir hafi á réttu að standa — þetta er ekki persónulegt eins og væri næst að halda miðað við þau blaðaskrif sem ég hef lesið — þá skulum við standa með þeim. En við skulum ekki koma í veg fyrir að eðlileg og hlutlaus rannsókn eigi sér stað.

Ég vil ítreka það, að þegar menn vinna góð störf eins og þessi maður hefur gert, góð brautryðjandastörf, þá eyði þeir ekki allri ævinni í það, þeir fái þá að njóta afrakstursins að einhverju leyti og að atvinnugreinin detti ekki alveg niður með fráfalli þessa manns sem aldurinn færist yfir eins og okkur öll.

Ég lýsi stuðningi mínum við þetta mál. Ég tel mig ekki vera að ganga á rétt embættismanna. Ég tel mig ekki vera að vanmeta þeirra störf og tel mig ekki vera að sýna þeim neitt vantraust, en þarna er gamalt deilumál sem ég tel að sé nauðsynlegt að fá leyst. Ég held að það hljóti að koma að því að við flytjum út regnbogasilung, hvort sem það er gert á vegum þessarar fiskræktarstöðvar eða einhverra annarra í framtíðinni, og líklega verður ekki langt að bíða að lax- eða eldisstöðvar ríkisins sjálfs stefni að því að flytja út þessa vöru.

Ég skal taka undir það með ráðh. að veiðimálastjóri og yfirdýralæknir eru merkir embættismenn. En ég get ekki undir neinum kringumstæðum þolað það — og það er þess vegna sem ég stend hér upp — að veiðimálastjóri eða nokkur annar embættismaður ríkisins standi ekki við það sem hann lofar þingkjörinni nefnd: að skila áliti, að skila bréfi. Og ég get ekki heldur þolað það að þeir, sem standa hér upp og taka afstöðu í málum, hvort sem það er með eða á móti embættismönnum, séu taldir handbendi eins eða annars. Það getur hæstv. ráðh. alls ekki flutt inn á Alþ. Og að ætla að fara að binda okkur í afstöðu með þeim ummælum sem hann viðhafði í lok ræðu sinnar, það hreinlega skil ég ekki. Ég veit ekki betur en þótt við berum mikla virðingu fyrir niðurstöðum af skýrslu Guðmundar Péturssonar — sem ég efast ekkert um að er hinn færasti maður — þá eru líka til skýrslur frá þeim dönsku sérfræðingum sem ekki finna neitt að, eftir því sem komið hefur hér fram í ræðum ráðh. að mig minnir og alla vega 1. flm. Þeir finna ekkert af þessum veirum, sem við erum að tala um, í regnbogasilungi frá lageldisstöðinni á Laxalóni svo að þarna stangast þá á. Annars vegar er mikil varfærni frá okkar mönnum. Það getur vel verið að það sé réttlætanlegt, en látum það þá koma fram í athugun og berum þá skýrslu hlutlausra sérfræðinga saman við þær skýrslur sem okkar sérfræðingar gera. Ég skal ekki leggja neitt mat á það, hvort þeir eru betri eða verri embættismenn eða vísindamenn, okker menn en þeir erlendu, sem rannsakað hafa hrogn frá eldisstöðinni á Laxalóni. En ég vil ítreka það, að ég tel að hér eigi einstaklingur í höggi við kerfið. Hann hefur leitað til Alþ. um leiðréttingu á málum sínum í mjög stóru máli. Það er stórt mál hvort sem við tölum um hugsanlega sjúkdóma, sem geta falist í regnbogasilungnum, eða við erum að koma í veg fyrir eðlilega þróun á mikilvægri atvinnugrein, á dýru hráefni sem markaður er fyrir víðs vegar um lönd.

Ég ítreka það að ég tel ekki síður skyldu Alþ. að standa vörð um rétt einstaklingsins til að þróa slíka atvinnugrein en að standa vörð um þau álit sem embættismenn geta lagt fyrir okkur; ef þau eru á annað borð þess eðlis að þau séu trúverðug. En meðan ágreiningur hjá sérfróðum mönnum er á báða bóga, — ég tel Skúla á Lagalóni sérfróðan í sinni grein annars vegar og þá sérfræðinga sem hann hefur leitað til og hins vegar okkar sérfræðinga sem ráðh. leitar til meðan er ágreiningur þarna, þá skulum við fá hlutlausa menn til að dæma um, hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér.