11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég hefði ætlað það fyrir fram að hæstv. landbrh, gæfi sér tíma, þó að mikið sé að gera núna við að bjarga þjóðarbúinu frá algerri kollsteypu, að lesa till. En það var ekki einu sinni að hann gæfi sér tíma til að hlusta á það sem ég sagði hér í upphafi máls míns: „Alþingi ályktar að kjósa n. 5 manna, er rannsaki orsakir deilna þeirra sem risið hafa vegna starfsemi fiskeldisstöðvarinnar á Laxalóni.“ Þetta er 1. mgr. Og ég lauk orðum mínum með því að segja að ég vænti þess að það mætti setja þessa deilu niður með sóma af hendi beggja aðila. Ég las upp úr bréfum frá báðum aðilum og ég tók það greinilega fram í upphafi ræðu minnar hvers vegna þetta mál hefði komið hér inn aftur, það var vegna bréfs .til landbn. beggja d. Síðan atvikaðist svo að Þór Guðjónsson veiðimálastjóri kom á fund hjá okkur í Ed. og hann lofaði að senda til okkar frekari gögn. Þá var einn nm., Björn Fr. Björnsson sýslumaður, og enginn vænir hann um hlutdrægni í starfi á einn eða annan veg, en hann sagði, ég held orðrétt, a.m.k. efnislega þetta: „Er ekki æskilegt, Þór, að málið sé til lykta leitt og það liggi ljóst fyrir ?“

Ég spyr: Er það ekki æskilegt fyrir alla aðila, fyrir deiluaðila, fyrir hæstv. landbrh. sem ég þakkaði í ræðu minni fyrir að hafa gert gangskör að því að rannsóknin kæmist af stað, sem var nauðsynlegt og hefði átt að eiga sér stað fyrir löngu, og fyrir framtíðina? En það, sem er ámælisvert við þessa ágætu embættismenn, er það, að þeir virða ekki þennan mann svars í bréfum eins og ég tók skýrt fram áðan. Hann er ekki virtur svars. Það er óþolandi að við fáum það hér inn til okkar, þm. og aðrir, í bréfi eftir bréfi, að einn æðsti embættismaður þjóðarinnar virði ekki borgarana svars, þótt þeir séu ekki sammála. Og ef hæstv. landbrh. styður þessa stefnu hjá einum æðsta embættismanni þjóðarinnar, þá vil ég að það liggi á hreinu að hann telji það viðeigandi að æðstu embættismenn þjóðarinnar virði borgarana ekki svars við mikilvægum fsp. En þá er það önnur skoðun sem upp skýtur í mínum huga gagnvart hæstv. landbrh. en ég hef haft hingað til, því að ég hef talið að hann vildi manna helst hafa alla hluti á hreinu í þeim, efnum og veit ekki um neitt í embættisfærslu hans með öðrum hætti.

Við flm. viljum, að þetta mál sé til lykta leitt, og drögum ekki taum eins eða neins. Ég tók það fram að það gæti vel veríð þar sem miklu meiri gögn hafa komið fram frá öðrum aðilanum, að mönnum fyndist sem svo að við værum að túlka fremur málstað hans, en það er alls ekki svo. Ég las upp úr bréfi frá yfirdýralækni og fleiri aðilum til þess að sýna hvert væri þeirra viðhorf og dró ekkert undan í því efni, alls ekki neitt. En þó leyfir yfirdýralæknir sér að halda því fram að einhverjir þm. séu handbendi ákveðins manns, þessa manns, og bliknar hvorki né blánar við það og landbrh. ekki heldur að lesa það hér orðrétt upp.

Við leggjum til að Alþ. álykti að kjósa 5 manna n. Ég lagði til að allshn. fengi málið í hendur og kannaði orsakir þessara deilna, kannaði gögn og ræddi við aðila, og ef hún kemst að því, hvað um er að ræða, þá ályktar hún auðvitað um málið. Það eru eðlileg þingleg vinnubrögð, en ekki verið dæma það fyrir fram að þetta sé alveg vonlaust og tóm vitleysa allt saman, eins og mér finnst koma fram í ræðu hæstv. ráðh.

En nú vildi ég bara spyrja hann í leiðinni og koma því áleiðis til Þórs Guðjónssonar með milligöngu hans: Mættum við fá að vita hvers vegna jafnvel hundruð þúsunda seiða eru blind í stöðinni? Hver á að rannsaka það eða skýra frá því opinberlega og hvers vegna? Kannske er rétt að þegja yfir því, segja ekki eitt einasta orð? Ef hann ber þessa beiðni áleiðis til veiðimálastjóra, þá veit hann við hvað ég á.

Einnig þóttu mér það merkileg tíðindi sem koma fram í skýrslu Guðmundar Péturssonar. Ég á bók sem mætti kalla Uppeldi fiska í hálfa öld í Danmörku og kom út á 50 ára afmæli samtaka þeirra fyrir 4–5 árum, held ég. Í þeirri bók er rakin saga þessara mála, mistök og árangur, eins og kom fram reyndar í skýrslu Guðmundar Péturssonar. En bókin skýrði þó frá því að í Danmörku hafi verið, a.m.k. þegar hún kemur út, yfir 1000 býli sem fást við silungsuppeldi eða fiskuppeldi, en í skýrslu Guðmundar kemur fram að um 500 eldisstöðvar sé að ræða, svo að mikið hrun hefur nú átt sér stað ef þetta hefur skeð á 3–4 síðustu árum.

Annað er einnig athyglisvert. Ég hef fengið hér ljósrit frá Skúla Pálssyni, — en hann er ekkert sínkur á það að senda nm. gögn og væri betur að fleiri væru sama sinnis, — en hér er danskur bóndi, fiskræktarbóndi, sem býðst til að kaupa allan stofn Skúla og flytja hann úr landi með húð og hári, þar sem rannsóknir sýni að hann sé laus við alla sjúkdóma. Ég vona að til slíks komi alls ekki. Ég vona að þetta verði ekki flutt út úr landinu.

Ég tel þetta hneisu og ég trúi því ekki að hæstv. landbrh. láti málin þróast á þann veg. Ég trúi því ekki því að hann hefur að mínu mati viljað þessum málum allt hið besta og sem fjmrh. féllst hana á það að þessum umdeilda manni, Skúla Pálssyni, væri veitt ríkisábyrgð í fjárl., ef ég man rétt 15 millj., vegna fyrirhugaðrar eldisstöðvar austur í Ölfusi.

Við erum ekki að gera okkur neinar grillur hér fyrir fram. Við erum ekki að vantreysta, hvorki einum embættismanni né einum eða neinum. Við erum að fara fram á að hlutlaus rannsókn fari fram, að það sé talað við mennina sem hér eru að deila sitt á hvals eða sameiginlega og sé reynt að setja málið niður, eins og hann orðaði það, með sóma og það sé út úr heiminum, menn hætti að þræta um þetta og stefni að því að efla fiskræktarmálin í landinu á heilbrigðan og eðlilegan hátt.

Ég verð að segja það alveg hreinskilningslega að ég var'ð fyrir vonbrigðum með bréf veiðimálastjóra. Í bréfi hans, sem upp var lesið a.m.k., kom fram um fjárhagslega aðstoð ríkisvaldsins eða einhverra við Skúla Pálsson. Það kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við og ég orðaði það ekki á einn eða annan hátt. En einhvern veginn hefur viðkomandi aðili fundið hvöt hjá sér til þess að blanda þessu inn í sem kemur málinu ekkert við, kannske til þess að friðþægja okkur, vegna þess að mjög mikið fjármagn er komið í Kollafjarðarstöðina og árangur miklu minni en maður gæti dregið fram gögn um að átti að vera á sínum tíma, þegar Alþ. byrjaði með fjárveitingu til þessa verkefnis. En það er nú ekki vist að það yrði plús framan við þær tölur sem þar standa ef menn fara að bera saman.

En málið er ekki þannig vaxið. Við viljum að málið fái hlutlausa og eðlilega athugun. Það er eðlilegt að þessir embættismenn fari varlega. Og það er grundvallaratriði að litið sé á þetta mál þrátt fyrir það að hæstv. ráðh. hafi séð sig tilknúinn fjórum sinnum að undirstrika það sérstaklega að hér væri um ekkert smámál að ræða. Auðvitað er hér um ekkert smámál að ræða ef þetta þróast upp í það að enginn regnbogasilungur verði lengur til á Íslandi innan skamms vegna þess að málin megi ekki fá heilbrigða og eðlilega athugun. Þá er málið ekkert smámál. En ég trúi því ekki að það sé vilji hæstv. ráðh. Ég hef miklu meira álit á honum en það. Ég held að hann vilji fremur efla þessa starfsemi heldur en láta hana hverfa út úr landinu.