11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Þessar umr. hafa þróast út í það að fjalla ekki fyrst og fremst um deilumál Skúla á Laxalóni og embættismanna, heldur e.t.v. fyrst og fremst um stöðu einstaklingsins í þjóðfélaginu gagnvart kerfinu. Auðvitað er okkur öllum ljóst að embættismannakerfið eins og önnur kerfi í þjóðfélaginu er byggt upp til þess að þjóna hagsmunum fjöldans, þjóna einstaklingum, sem þjóðina mynda, og þjóðarheildinni. Hins vegar er hættan að sjálfsögðu sú að kerfið fari að stjórna sér sjálft, setja sig á háan hest gagnvart almenningi, einstaklingum og jafnvel Alþ. sjálfu, eins og ég tel að hér hafi komið fram að nokkru leyti. Alþekktir eru erfiðleikarnir þegar einstaklingar eða hópar komast upp á kant við þetta svokallaða kerfi. Og einmitt til þess að reyna að vernda rétt einstaklingsins í þjóðfélaginu gagnvart m.a. embættismannakerfinu hefur sá háttur verið upp tekinn í mörgum nágrannalöndum okkar að búa til sérstakt embætti umboðsmanns þjóðþinga til þess að gæta réttar almennings gagnvart embættisstofnunum. Það er mjög tímabært að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp hér á Íslandi og ég tek eindregið undir till. hæstv. utanrrh. um það að rykið sé dustað af gömlu till. hans og fleiri um umboðsmann Alþ. En ég vil vekja athygli á því að þarna er rætt um umboðsmann Alþ. sem eigi að hafa því hlutverki að gegna að vernda hagsmuni borgaranna gagnvart embættismannavaldinu, gagnvart kerfinu. Ef umboðsmaður Alþ. á að hafa þessi völd, ef umboðsmaður Alþ. á að hafa þetta hlutverk, þá leiðir það af sjálfu sér að Alþ. hlýtur að hafa það einnig. Það leiðir af sjálfu sér að ef umboðsmaður Alþ. á að gæta réttar borgaranna gagnvart kerfinu, þá hlýtur Alþ. sjálft ekki síður að eiga þeim skyldum að gegna. Og það er gersamlega fráleitt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að það sé eitthvert stórmál, það sé eitthvert stefnubreytandi mál ef Alþ. tekur að sér að gæta réttar borgara gagnvart kerfinu. Það er eitt af hlutverkum Alþ. að veita framkvæmdavaldinu í landinu aðhald. Alþ. hefur ekki gert nógu mikið að þessu, það hefur ekki gert nógu mikið að því að veita framkvæmdavaldinu í landinu aðhald. Það er kominn tími til þess að Alþ. taki þann háttinn upp og mér finnst eðlilegt að þegar einstaklingur eða lítill hópur þjóðfélagsþegna finna sig standa vanmegna gagnvart kerfinu, þá snúi sá hópur sér til kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og biðji þá um að reyna að leiðrétta sitt mál. Það er þess vegna alger fjarstæða að halda því fram að með því að taka upp þá rannsókn sem þáltill. sú, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, sé Alþ. að fara út á vafasama braut. Þeir, sem telja rétt og eðlilegt að stofnað sé embætti umboðsmanns Alþ. til þess að vernda einstaklinginn gagnvart kerfinu, hljóta einnig að telja eðlilegt að Alþ. taki það verk að sér, svo fremi sem þetta embætti hafi ekki verið stofnað og jafnvel eftir að það hefur verið gert.

Ég vil aðeins í lokin á þessum fáu orðum mínum vitna til þess að mér virtist af lestri hæstv. ráðh. hér áðan að Alþ. fái ákaflega áþekk svör frá sérfræðingunum eins og Skúli Pálsson á Laxalóni. Hæstv. ráðh. talaði um það, að ef þessi till. yrði samþ. væri í henni fólgin árás á embættismannastéttina, á þá embættismenn í landinu sem um er að ræða. En hvernig svara þessir ágætu embættismenn Alþ.? Þeir svara okkur alþm. með því að segja okkur það í fyrsta lagi að við höfum ekkert vit á þessu máli. Við eigum ekki að taka upp neina rannsókn á þessu máli vegna þess að við séum ekki sérfræðingar í fisksjúkdómum og við höfum ekkert vit á þessu máli. Við séum kennarar, húsmóðir, útgerðarmaður, blaðamaður o.s.frv., við höfum ekkert vit á þessu, okkur komi þetta raunverulega ekkert við, við skulum bara láta sérfræðingana fást við þetta. Ef þetta er ekki sérfræðingahroki, þá veit ég ekki hvernig slíkt væri. Hvað mundu alþm. segja t.d. ef Þjóðhagsstofnunin sendi Alþ. svipuð skilaboð um efnahagsmál, að alþm. hefðu ekkert vit á efnahagsmálum og ættu því ekkert að vera að fjalla um þau, það ætti að lofa sérfræðingunum eð útkljá þetta í tómi með ríkisstj.? Þetta er eitt af þeim svörum sem sérfræðingarnir, sem hér er verið að ræða um, gefa Alþ. Þeir tala einnig um að ákveðnir alþm. séu handbendi Skúla Pálssonar á Laxalóni af því að þeir leyfa sér að taka upp mál hans hér í sölum Alþ., taka upp mál þar sem borgari telur rétt á sér brotinn af embættismannakerfinu. En ég vil spyrja: Ef það er rétt að þeir þm. hv., sem standa að þessum tillöguflutningi, séu handbendi Skúla Pálssonar á Laxalóni, telja þá ekki embættismennirnir með sömu rökum að hæstv. ráðh., sem var að flytja sitt mál hér áðan, sé þeirra handbendi? Ég heyrði ekki betur en að hann styddi sjónarmið embættismannanna í þessu máli sem hér er til umr. Telja þeir þá, þessir ágætu embættismenn, að hæstv. ráðh. sé þeirra handbendi? Þeir hljóta að telja það ef þeir telja með sömu röksemdafærslu að þeir þm., sem tekið hafa mál þetta upp hér á Alþ., séu handbendi Skúla Pálssonar á Laxalóni.

Ég vil að lokum taka fram að mér finnst það ekki heldur þjóna neinum tilgangi og ekki til þess fallið að auka traust alþm. á þeirri málsmeðferð sem þetta mál hefur fengið hjá embættismönnum þeim sem hér er verið að ræða um, þegar þeir svara Alþ. einnig á þann hátt eins og kom fram af lestri hæstv. ráðh. hér áðan og segja raunverulega við Alþ.: Ef þið ætlið eitthvað að fara að skipta ykkur af þessu máli þá skuluð þið bara breyta lögunum. Ef þið ætlið að fara að kákla við okkar mál, þá skuluð þið bara hirða þessi lög, sem þið settuð sjálfir, og breyta þeim eins og þið viljið.

Þetta eru svör í svipuðum anda og Skúli Pálsson á Laxalóni hefur fengið frá þessum embættismönnum, og ég tel það enga goðgá að Alþ. fari út á þá braut sem ráð er fyrir gert með þessari till., að það taki að sér rannsókn á máli eins og þessu. Og svör embættismannanna, sem hér hafa verið kynnt, eru ekki til þess fallin að fá mig ofan af þeirri skoðun.