12.02.1975
Efri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég sagði við hv. þm. Stefán Jónsson, minn ágæta vin, eftir fyrri hluta ræðu hans á mánudaginn að ég hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ég sagði honum að sá leikaraskapur, sem hann hafði þar í frammi, hæfði honum illa, hann ætti ekki að hafa þar eftir lærimeistara sínum. Ég verð að segja það, að ræða hans í dag var að ýmsu leyti skárri, og ég hef séð mig tilneyddan til að standa upp og svara nokkrum orðum því sem til mín hefur verið beint, en ég mun þó reyna að stytta mál mitt.

Þetta mál fær ítarlega meðferð í n. og í þeirri n. á hv. þm. Stefán Jónsson sæti. Hann mun fá þar tækifæri til að fjalla um þessi mál mjög ítarlega. Út af því að líta djúpt í augun, þá vil ég t.d. geta þess að við hv. þm. höfum iðulega rætt um hugsjónir okkar, m.a. hefur hann stundum lýst þeirri hugsjón sinni að við íslendingar værum betur settir í torfbæjum og með trillu til útgerðar og ég hef ekki þurft að horfa djúpt í augu hans til að gera mér grein fyrir því að hann hefur meint það sem hann hefur þar sagt. Hitt er svo annað mál, að við höfum aldrei náð endum saman í þessari umr., þó að ég sé að mörgu leyti sammála ýmsu sem þar hefur komið fram, því að eins og hinn frægi ameríski hagfræðingur Gilbeys gerði, hef ég alltaf strandað á því, hver á að snúa þessu hjóli og koma í veg fyrir þá sjúkdóma, þá örbirgð sem þeir bjuggu við sem þannig bjuggu. Ég held nefnilega að við þurfum að renna fleiri stoðum undir okkar efnahagslíf, svo að ég noti það orð, til þess að gera okkur kleift að njóta hinna grænu grunda. Ég held að þeir, sem þannig bjuggu, hafi ekki notið eins og við njótum í dag t.d. laxveiðiánna, og margt fleira mætti nefna. Það er rétt sem hv. þm. segir, við trúum eflaust nokkuð á aðra guði, þó að þar sé e.t.v. ekki mjög langt á milli.

En ræða hv. þm. beinist ekki síst og raunar fyrst og fremst að sérfræðingum hvers konar, bæði verkfræðingum, hagfræðingum og vísindamönnum. Ég hef haft mikið saman við slíka menn að sælda og ég kann ákaflega illa þeim áburði sem kom fram í garð þessara manna. Ég hef reynt langflesta, ef ekki alla vísindamenn að því að leggja heiður sinn að veði fyrir því að það, sem þeir segja, sé rétt og það hefur ekki breytt neinu hvort þeir eru starfsmenn Union Carbide eð einhvers annars. Ég hef staðið þá að því að segja það sem þeir þekkja best. Ég vil mótmæla því að íslenskir verkfræðingar og sérfræðingar séu aldir upp til þess að láta blekkjast. Þetta er rangt. Ég mun kalla á fund iðnn. sérfræðinga sem við þekkjum báðir, og ég vil biðja hv. þm. að hafa þessi ummæli þá aftur í frammi.

Hv. þm. ræddi m.a. töluvert um álbræðsluna og kísiliðjuna o.m.fl., og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. En það vil ég þó segja, að ekkert hefur komið í ljós í álbræðslunni sem ekki var vitað þegar hún var sett á fót. Það var ávallt vitað, m.a. frá þeim sérfræðingum, bæði innlendum og erlendum, sem við var rætt, að frá álbræðslunni mundi stafa flúormengun. Það var m.a. rætt við opinbera norska aðila um þetta mál. Það lá alveg á ljósu. Hins vegar var andrúmsloftið eða tíðarandinn allt annar þá en hann er nú og sérfræðingar, m.a. innlendir og ekki sérfræðingar, menn eins og hv. þm. o.fl., töldu ekki þá hættu frá álbræðslunni og frá þeirri flúormengun sem ástæða væri til að óttast. Ég skal að vísu taka það fram, kannske mér til hróss, að ég taldi eðlilegra að hreinsunartæki yrðu sett í þá verksmiðju, en ég var kveðinn í kútinn m.a. af sérfræðingum erlendum og sérfræðingum ekki, mönnum eins og t.d. Rökskaderådet í Noregi sem taldi ekki að hætta stafaði hér af þessu. Þessir menn hafa nú breytt um skoðun og nú er leitað að hverri minnstu hættu, og ég fagna því. Svo ber að vinna þó að vel megi vera hins vegar að við skjótum stundum yfir markið í þessum málum og kannske göngum út í öfgar. Og ég er ekki frá því að það sé rétt sem sumir segja að það er erfitt að meta hvort lífríki innan við einhvern vog, sem vegur er lagður yfir, er verra í fersku vatni heldur en söltu eins og það var áður, en við göngum kannske þarna dálítið langt. En ég vil leggja áherslu á það að þessir hlutir séu skoðaðir til hins ítrasta. Ég mótmæli því því harðlega að sérfræðingar, sem við var rætt um álbræðsluna, hafi gefið nokkrar rangar upplýsingar.

Ég hafði ákaflega lítið með kísiliðjuna að gera, en ég harma það að þar var þetta ryk látið fara út í loftið. Það lá alltaf ljóst fyrir og ég held að því hafi aldrei verið mótmælt, að það verður vitanlega að vinda bráðan bug að hreinsun þess, annað kemur ekki til mála.

Ég held að það mikilvægasta í þessu máli sé vitanlega það að við lærum af reynslunni, því að vítin eru til að varast þau, eins og hv. þm. sagði. Og ég tel það einn af kostum þessa máls að hér hefur verið lært af reynslunni og lögð rík áhersla á það. Við höfum gert okkar stóru glappaskot í sjávarútvegi og fiskiðnaði, en við leggjum ekki sjávarútveg og fiskiðnað niður, við reynum að bæta og við reynum að læra, og eins verður að gera í okkar iðnaðarþróun, það er þar enginn reginmunur á. Í þessu tilfelli erum við að nýta orkulind sem er til staðar í þessu landi, auðæfi alveg eins og við erum að nýta auðæfi sjávarins í öðru tilfelli.

Ég verð að leiðrétta smávegis misskilning sem hv. ræðumaður hafði eftir mér. Þótt það sé efnislega ákaflega lítið, þá vil ég ekki þola það. Hann þóttist hafa það orðrétt úr grein sem ég skrifaði í Tímann og margnefnd er að „því miður óttast ég“ — held ég hann hafi sagt — „að sjónamið höfundar mótist af öðrum sjónarmiðum.“ Þetta er svo ljótt orðalag að ég trúi því ekki að hv. góður íslenskumaður vilji leggja mér þetta í munn. Ég sagði: „Því miður óttast ég að afstaða höfunda ráðist af öðrum sjónarmiðum.“ Þetta er lítið, en það hljómar þó, finnst mér betur og ég vil ekki þola hitt. (Gripið fram í: Meiningin er sú sama.) Já, en það er andstyggilegt að maður, sem kallar sig fræðimann, skuli fara með þær blekkingar sem ég hef dregið hér fram.

Hæstv. ræðumaður fjallaði einnig um það sem ég segi í þessari grein um kvikasilfursský. Ætlar hv. þm. að mótmæla því að hann sagði við mig í tröppum þessa húss, að hann hefði sönnun fyrir því að yfir slíkum verksmiðjum héngi kvikasilfursský? Ætlar hann að mótmæla því? Ég segi það hvergi í þessari grein að það hafi verið sagt opinberlega. Ég segi það hvergi Ég skal lesa þetta fyrir hv. þm.: „Einn andstæðingur málsins á þingi kveðst hafa það eftir sérfræðingi að yfir slíkum verksmiðjum hangi kvikasilfursský.“ — Hvaða sérfræðingur ætli það hafi verið? Svona voru mín orð. Ef hv. þm. vill mátmæla því, þá geri hann það.

Ég vil einnig fá að heyra hvaða sérfræðingur, fá að heyra orðrétt hver sagði að þungir málmar gufi ekki upp. Ég hef aldrei heyrt slíka firru. Þungir málmar gufa upp við ákveðið hitastig. (Grípið fram í: Þú sagðir þetta úr ræðustól í Sþ.) Vill ekki hv. þm. fletta upp í þeirri ræðu og lesa upp það sem ég sagði þar, — ekki fara með svona staðlausa vitleysu.

Mikið hefur verið rætt um mengun og Náttúruverndarráði eðlilega blandað í þau mál. Eins og hv. þm. los upp sjálfur var Náttúruverndarráð á því stigi málsins aðeins spurst um staðarval. Það var spurt að því hvort þarna væri meiri hætta á áhrifum slíkrar verksmiðju á lífríki en kannske einhvers staðar annars, hvorn þarna væru einhverjir viðkvæmir þættir. Það var ekki spurt um annað. Hv. þm. las þetta upp. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að Náttúruverndarráð skv. lögum muni fjalla um þetta mál í fullu samráði við heilbrigðisyfirvöld. Við gátum alls ekki vænst þess að Náttúruverndarráð gæti svarað svo margslungnum spurningum á því stigi. Það bjóst enginn við því. Hinn mótmæli ég harðlega, að Náttúruverndarráð hafi ekki fengið aðgang að öllum þeim skjölum og gögnum sem við höfum fengið. Og ég mótmæli því í þessu sambandi alveg sérstaklega sem hvað eftir annað kom fram hjá hv. þm., að við höfum ekki litið í augun á öðrum en sérfræðingum Union Garbide. Þarna á borðinu hjá mér liggja 3 stórir doðrantar sem eru skrifaðir allir um málmblendiiðnaðinn af sérfræðingum Environmental Protection Agency í Bandaríkjunum eða Umhverfisverndarráði Bandaríkjanna. Þessi skjöl hefur m.a. sá maður í Náttúruverndarráði, sem fyrst og fremst kynnti sér þessi mál, dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, sem hv. þm. þekkir eins og ég, lesið og farið yfir. Það hefur engu verið haldið leyndu, ekki einum einasta staf. Náttúruverndarráð hefur einnig fengið eintök af þeim skýrslum um ferðir mínar sem ég hef skrifað, og engu verið haldið leyndu. Ég hef átt viðræður við form. Náttúruverndarráðs og framkvæmdastjóra. Mér er vel kunnugt um efni þeirra bréfa sem hafa verið skrifuð, og þeir munu báðir — ég hef gert ráðstafanir til þess — mæta á fundum iðnn. og þá getur hv. þm. spurt þá að því sem hann vill. Ég held að þarna sé fullkomlega skotið yfir markið, og það mun sannast. Ég vil einnig spyrja að því, hver hefur sagt að það sé fullkomið og algert skaðleysi frá slíkri verksmiðju — skrifað orðrétt niður eftir hv. þm.

Getur hv. þm. bent á nokkra framkvæmd sem er fullkomlega skaðlaus? Erum við ekki alltaf að trufla lífríkið? Ég hef aldrei heyrt slíkar fullyrðingar. Þær eru hin mesta firra.

Hv. þm, ræddi töluvert um rykkornin — það er mikið rætt um þau í þessum ritum þarna, — og hann ræddi um það hvernig þau safnast. Hér er opinber tafla, sem tekin er þarna úr, um þessi rykkorn. Þar er sagt — hún er ekki frá Union Garbide, hún er frá Umhverfisverndarráði Bandaríkjanna - þar segir: „Rykkorn af stærðinni 0–0.3 míkron safnast í 99.4%.“ Síðan eru 0.3–0.2 98.1%,0.6–1 97.8%, 1–1.5 97.7% og þar yfir 99.6%. Þetta liggur einnig allt fyrir. Þetta lá einnig fyrir í grein prófessors Friedlanders sem umhverfisfræðingurinn Einar Valur vitnaði í, en sleppum því.

Hv. þm. segir að ekki hafi verið leitað álits sérfæðinga. Ég hef getið þess að við höfum rætt við sérfræðinga. Ég mun einnig leggja fram bréfaskriftir frá þeim út af sérstökum atriðum sem ég óskaði eftir skriflegri staðfestingu á, m.a. varðandi ýmis atriði sem hv. þm. hefur hér drepið á. Það hefur einnig verið rætt við heilbrigðisyfirvöld Bandaríkjanna og það hefur einnig veríð rætt við heiðbrigðisyfirvöld verkalýðsfélaganna amerísku. Þetta mun allt saman verða lagt fram og frá þessum aðilum liggja fyrir skýrslur.

Það hefur einnig komið fram að við réðum sérstaka erlenda sérfræðinga í upphafi þessa máls til þess að fjalla um marga þætti sem við töldum nauðsynlegt að bera undir slíka nefnd. Þetta mun einnig verða lagt fram,

Hv. þm. minntist sérstaklega á skeyti sem hann vill ekki — hv. þm., sem ekki á sæti í þessari d., þegi á meðan ég flyt ræðu mína — hv. þm. minntist einnig á skeyti sem barst frá London, en hann sleppti nokkrum hluta þess. Það segir nefnilega í upphafi þessa skeytis: „Vinsamlegast komið eftirfarandi skilaboðum hið skjótasta til skrifstofu Alþ. samkv. beiðni viðræðunefndar um orkufrekan iðnað.“ Skilaboðin eru frá Einari Val Ingimarssyni sem segir að þessi n. Alþ. hafi beðið sig nm að senda upplýsingarnar símleiðis. Nú hefur hv. þm. upplýst að þessar upplýsingar komi að hans ósk. Hvers vegna fer þessi fræðimaður svona rangt með? Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hefur ekki beðið Einar Val um þessar upplýsingar. Hvers vegna fer hann svona rangt með? Og hvers vegna segir hann, þegar hann kemur til sendiráðsins, að þetta eigi að senda til fjölmiðla? Getur verið að þetta séu þau vinnubrögð sem tíðkast í þessum herbúðum, því miður?

Í þessu skeyti er fjallað um krabbamein. Það er margt sem veldur krabbameini. Hefur hv. þm. nokkurn tíma hugleitt það, hvað tóbaksreykurinn, sem hann púar allar stundir þegar hann fær heimild til, getur valdið miklu krabbameini? Hefur hv. þm. nokkurn tíma hugleitt það, að útblásturinn frá bifreiðum okkar veldur krabbameini? Því miður eru svo ákaflega margir þættir, sem við leyfum okkur, sem valda skaða, mjög margir. Og ég hygg að við getum þannig endalaust talið. Staðreyndin er sú að frá þessari verksmiðju, sem hér er um að ræða, er að mati mínu, ég hef sannfærst um það, minni hætta af slíku en frá öðrum iðnaði sambærilegum.

Hv. þm. ræddi töluvert um raforkuna og vitnaði í ágæta skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens sem er mjög merkilegt innlegg í það mál og var lögð fram hér á hv. Alþ. vorið 1974, var unnin að beiðni þáv. iðnrh. En hv. þm. virðist trúa sumu, sem þar stendur, en öðru ekki. Hann t.d. getur þess ekki, að í þessari skýrslu segir Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens að hún telji ekki unnt að koma raforku til upphitunar nema til 80% landsmanna fyrir árslok 1981 og skýrir það m.a. með því að þetta muni kosta 4 000 millj. og það sé bæði mikið fjármagn og ekki til sá sérhæfði vinnukraftur í þessu landi sem þurfi til að vinna það verk. Ég hygg að þarna sé satt að segja vægt á tekið. Þetta er gífurlegt mál, og ég vil ekki ætla að umbjóðendur hv. þm. eða hv. þm. Helga F. Seljans á Austfjörðum öllu fremur, þaðan sem fréttir hafa borist daglega um bilaðar rafmagnslínur, treysti á upphitun frá því kerfi sem nú er þar til dreifingar raforku. En þetta verk er gífurlegt. Hins vegar voru allir sammála um það á síðasta reglulegu þingi að þetta verkefni ætti að ganga fyrir. Og til að gera mál mitt styttra vil ég vísa í þá grein sem hv. þm. hefur lesið eftir mig í Tímanum s.l. laugardag og ég vil biðja hann að vefengja það sem ég set þar fram um orkuframboð og orkuþörf. Ég hef sett það þar fram af bestu vitund og skoðað allt það sem að gagni hefur komið, en fyrst og fremst er sú tafla byggð á niðurstöðum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Ég hef lítið svo á að með þeirri ákvörðun að virkja Kröflu hafi verið tekin jafnframt sú ákvörðun að koma í veg fyrir orkuskort þótt málmblendiverksmiðjan verði reist.

Ég ætla ekki að fara hér út í langar umr. um raforkuna og nýtingu hennar og verð, en ég treysti því að hv. þm. geri sér grein fyrir því að það er æðimikill munur á verði raforku eftir nýtingartíma raforkunnar. Til húshitunar nýtist raforkan í um það bil 4 500 stundir á ári. Ég vona, að hv. þm. geri sér jafnframt grein fyrir því að rekstrarkostnaður vatnsaflsvirkjana er um það bil 88% fastur kostnaður sem greiðist hvort sem vélarnar snúast eða snúast ekki. Því er það ákaflega mikils virði fyrir vatnsaflsorkuver að vélarnar fái að snúast í 8000 tíma eða sem sagt allt árið. Þetta ræður ákaflega miklu í raforkuverðinu.

Ég tek undir það með hv. þm., að það er sannarlega mikið áhyggjuefni að raforkuverð hér borið saman við Noreg skuli skakka svo miklu sem hann nefndi, og ég get raunar nefnt, held ég, öruggari tölur en hann var með. Raforkuverð í Þrándheimi, ef ég man þá tölu rétt, var sem svarar 2.60 ísl. kr. til almennrar notkunar, en raforkuverð hjá Rafmagnsveitum ríkisins er yfir 12 kr. Þetta er sannarlega mjög mikið áhyggjuefni. En frá sölu raforku til málmblendiverksmiðjunnar fær Landsvirkjun á ári um 250 millj. kr. tekjur. Ef þær tekjur verða ekki til þess að lækka aðrar nauðsynlegar tekjur Landsvirkjunar, þá tek ég undir með hv. þm. að við það er eitthvað bogið. Ég held að þessar auknu tekjur fyrir raforku, sem annars yrði ekki seld, hljóti að verða til þess að lækka hið almenna raforkuverð. Hitt er svo annað mál að það þarf sannarlega að skoða þetta háa raforkuverð. Ég hygg að það felist ekki síst í ákaflega háum dreifingarkostnaði hjá okkur, óheyrilega háum. Og ég vil benda hv. þm. á að það eru einnig innlend fyrirtæki sem fá raforku á lágu verði með svipuðum kjörum, t.d. Áburðarverksmiðjan hf., sem er alinnlent fyrirtæki sem fær raforkuna á sama verði og álbræðslan. Og ég tel alveg skilyrðislaust að þeir, sem geta tekið raforku á 8 000 stunda nýtingartíma og við þá spennu sem þarna er til staðar, hljóti skilyrðislaust að fá raforkuna á sama verði og hér er reiknað með. Ég ætla ekki að fara út í þá kostnaðarútreikninga sem hv. þm. var með hér áðan, það tæki of langan tíma. En á þetta atriði vildi ég leggja áherslu í sambandi við raforkuna.

Ég get nú farið að stytta mál mitt, en þó vildi ég segja þetta um vond fyrirtæki: Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er margt vont í þessum heimi okkar og líklega öll þessi stóru fyrirtæki síður en svo góð. En við lifum nú einu sinni í slíkum heimi. Við seljum fisk til bandaríkjamanna sem henda sínum sprengjum á Víetnam — og ég er ekki að fagna, ég fordæmi það. Við seljum einnig fisk til rússa og skuldum þeim þúsundir millj. Þeir gætu eflaust sett á okkur þumalskrúfuna einnig. Þeir drápu einnig þúsundir manna í Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi. Og viðar mætti leita. En ég held að við verðum að gera það besta úr þeim heim sem við lífum í, og ég lít á það sem hér er verið að gera, þar sem íslenskt fyrirtæki að meiri hluta gerir viðskiptasamning við erlendan auðhring, ákaflega svipaðan og þá viðskiptasamninga sem við erum að gera við þessar þjóðir og fleiri sem ég hef nefnt (Gripið fram í.) Við erum komnir í nokkuð náinn félagsskap þegar við skuldum rússum eins mikið og við gerum.

Ég verð að segja það, að í mínum huga er það ríkast í þessu að hér hefur verið gerbreytt um stefnu frá því sem áður var og einnig, vona ég, dreginn lærdómur af reynslu. Ég legg á það ríka áherslu að hér er að meiri hl. íslenskt félag. Ég legg á það ríka áherslu að raforkuverðið er hér ekki fest, það er á kostnaðarverði, ég er sannfærður um það, og það hækkar með árunum.

Það er raunar þrennt í þessum samningi sem gerir það að verkum að raforkan er ekki föst. Í fyrsta lagi hækkar hún sjálfkrafa á tveggja ára fresti. Í öðru lagi er hún bundin við raforkuverð hjá norskum rafveitum til svipaðs iðnaðar. Það má geta þess í því sambandi, að það raforkuverð er nú um 68 aurar ísl. kwst. þannig að það er mjög lágt. Og að lokum hafa báðir aðilar, m.a. stjórn þessarar verksmiðju sem er að meiri hl. íslenskir aðilar og einnig stjórn Landsvirkjunar, heimild til að segja upp þessum samningi ef grundvöllurinn skerðist. Hér er því um allt aðra raforkusamninga að ræða en áður hafa verið gerðir. Ég legg einnig ríka áherslu á það að hér hefur ekkert verið til sparað að tryggja þau fullkomnustu tæki, m.a. að mati umhverfisverndarráðsins ameríska, sem þekkt eru, til að koma í veg fyrir mengun. Þetta tel ég einnig ákaflega mikið atriði, Ég tel það einnig mjög mikið atriði og skiptir kannske sköpum að þetta fyrirtæki fellur að öllu leyti undir íslensk lög og undir íslenska dómstóla. Hér er enginn gerðardómur sem fjalla mun um þetta fyrirtæki.

Hv. þm. Helgi F. Seljan beindi nokkrum spurningum til mín og hæstv. iðnrh. Ég veit að hann trúir mér þegar ég segi að blaðið Vísir er ekki mitt málgagn. Ég vil hins vegar benda honum á það sem stóð í því málgagni sem ég hallast meira að, þ.e. dagblaðinu Tímanum, þar sem í leiðara hefur verið fjallað um þessi mál og hann fór með og ég get að öllu leyti tekið undir það. Ég álít ekki að við eigum að leggja hér í neina stóriðjuáætlun. Ég álít að stóriðja eigi að vera aukaatriði í okkar virkjunum. Ég álít hins vegar að hún komi til greina við sérstakar aðstæður og með sérstökum samningum, með þeim kjörum sem ég var að rekja áðan, þegar um stærri virkjanir er að ræða. Ég tel að hún geti rennt viðbótarstoðum undir okkar efnahagslíf.

Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því að á síðasta flokksþingi Framsfl. var gerð samþykkt þar sem tekið var af skarið með það, að Framsfl. telur alls ekki og aldrei koma til greina að erlendir aðilar taki þátt í virkjunarrannsóknum okkar eða virkjunum. Og ég get sagt hv. þm. að ég átti mjög ríkan þátt í samþykkt þeirrar ályktunar sem var samþ. shlj., þar fer ekkert á milli mála.

Með Reyðarfjörðinn, af því að hann beindi því til mín, þá verð ég að segja að það gleður mig í fyrsta lagi að hann hafi sofið rótt yfir jólin, að mér skilst. Ég veit ekki, hvort mér tekst að svæfa hann aftur, en ég vil segja það að að því leyti sem mér er kunnugt hafa ekki nokkur minnstu loforð eða vilyrði verið gefin um stóriðju á Reyðarfirði. Hins vegar er það staðreynd sem hann veit eins vel og ég að það eru fjölmargir erlendir aðilar sem leitað hafa hingað með fsp. um hugsanlega stóriðju í sambandi við virkjanir, og það fer ekkert á milli mála að upplýsingar um Austurlandsvirkjun liggja á lausu og menn hafa gjarnan spurt um ráðstöfun þeirrar orku. Og það er alveg rétt að sumir þessara aðila, eins og Norsk Hydro, hafa sérstaklega vakið athygli á Reyðarfirði í því sambandi. En hæstv. iðnrh. mun að sjálfsögðu svara þessu ítarlega. Ég vil aðeins segja það, að í þeirri n., sem ég sit í, hafa ekki nokkur minnstu vilyrði verið gefin um slíkt, og ég tek undir það með honum, að þegar þetta verður athugað, því að ég álít að það beri að svara þessum aðilum einhvern tíma, þá á að gera það í fullu samráði við heimamenn. Það er að mínu viti frumskilyrði til réttrar meðferðar þessa máls. — Annars langar mig til að beina því til hv. þm. hvort hann hafi nokkurn tíma hugleitt hvort nokkur mengun stafi af loðnubræðslunni hjá þeim á Reyðarfirði. Ég er nefnilega hræddur um að þau séu mörg brotajárnin hjá okkur á mengunarsviðinu.

Ég segi svo það sem ég reyndar sagði áðan og tek undir það, að ég mun í fyrsta lagi leggja ríka áherslu á það sem formaður iðnn. þessarar d. að þar verði leiddar fram þær upplýsingar sem tök eru á og þar fáist góður umræðugrundvöllur um þetta mál. Ég er fylgjandi þessu máli eftir að ég hef skoðað það, að ég tel mjög ítarlega, og ég held að þetta renni fleiri stoðum undir okkar efnahagslíf og geri okkur e.t.v. kleift að flytja út matvæli til hinna mörgu fátæku þjóða sem því miður geta ekki greitt þau því verði sem við verðum að fá fyrir þau. En mér skilst að það sé mikið hugsjónamál, sem von er, og gott hugsjónamál hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni.