14.11.1974
Neðri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég get því miður ekki sagt það sama og síðasti ræðumaður að ég hafi nógan tíma til þess að ræða þetta mál nú á þessum degi vegna þess að ég hef bundið mig að mæta í fjölmiðli og átti eiginlega að vera mættur um hálffjögur, og mér er ekki grunlaust um að þessi hv. þm. hafi átt að mæta þar líka, svo að það er nú eins og annað í hans ræðu að hann segir allt satt. Ég verð að biðja í upphafi hæstv. forseta að afsaka það að ég kem ekki til með að geta lokið ræðu minni. (LJós: Það er nú ekki fyrr en á morgun, sem við eigum að koma.) Nei, það er í dag, en það er aftur sent út á morgun, það er sá munurinn. (LJós: Við eigum að mæta á morgun líka.) Nei mæta í dag, ég lofaði því í dag.

Þessi hv. þm. er búinn að tala hér nokkuð á annan tíma og mér duttu í hug þau orð sem Soffía frænka hefur um Bastian bæjarfógeta í Kardimommubænum: En sá ruglukollur. — Ég held að ég hafi ekki í mörg ár hlustað á aðra eins þvælu og þessa ræðu þessa manns sem er nýkominn úr embætti sjútvrh. Hann snýr yfirleitt öllu við, og það verður ekki sagt um manninn að hann sé ekki lipur að fara í kringum sjálfan sig því að það er hann búinn að gera hvað eftir annað í þessari ræðu. Hún er alveg með endemum, enda þarf 3–4 tíma til að leiðrétta allar þessar rangfærslur, það er algert lágmark. Og allt, sem er á bak við hjá þessum hv. þm., er það að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir sjómönnum og á kostnað útgerðarmanna. Hann er búinn að láta að því liggja að það séu eiginlega allt saman menn sem ekkert mark sé á takandi, óalandi og óferjandi. Samviskan segir þó til sín öðru hverju í ræðunni þegar hann segir að að vísu séu vandamál hér og þar sem þyrfti að athuga nánar. En annars er þetta allt í þessu besta lagi og hefur eiginlega aldrei verið betra.

Það, sem ég gerði hér að umræðuefni og hann eyddi 20 mínútum í, voru spár Þjóðhagsstofnunarinnar sem ég lýsti hér þegar umr. um þetta mál hófst. Þá sagði ég frá því, sem Þjóðhagsstofnunin lagði fyrir, það er samanburður á rekstrarskilyrðum einstakra greina í sjávarútvegi, hann verði sambærilegur, gengið út frá markaðsforsendum í júlí og gert hefur verið í nýjustu áætlunum eftir gengisbreytinguna og hliðarráðstafanir. Helstu breytingar á markaðsforsendum frá upprunalegum útreikningum í júlí eru að reiknað er með 5% hækkun frystiafurða í erlendri mynt, reiknað með 5% lækkun afurða söltunar og herslu í erlendri mynt og í þriðja lagi er reiknað með 30% hækkun fiskmjöls og loðnumjöls í erlendri mynt. Þegar tekið er mið af framangreindu telur Þjóðhagsstofnunin rekstrarhalla veiða á ársgrundvelli um 1380 millj. kr. Og af þessari upphæð er rekstrarhalli togaranna einna á ársgrundvelli áætlaður 920 millj. kr. Og svo er sagt: Þetta eru bara spár. Hitt er allt annað.

Hvað er það í reynd? Hvað hefur skeð, eftir að ég kom í sæti sjútvrh.? Þá hefur komið sendinefnd eftir sendinefnd frá útgerðinni sem hafa kvartað undan hvernig ástandið er í útgerðinni eftir að Lúðvík Jósepsson hafði verið sjútvrh. í 3 ár. Fundir útgerðarmanna á Suðurnesjum sanna það best hvernig ástandið er. Þetta er ekki neinn leikaraskapur, þeir miklu erfiðleikar sem hér er við að stríða. Og það kemur seinna til með að liggja fyrir. Eftir þá könnun, sem fer nú fram á fjárhagsstöðu allra greiná og einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi, mun koma í ljós hvernig þessi staða hefur þá verið í raun og veru.

Fyrrv. sjútvrh. segir að útgerðarmenn hafi samið um fiskverð um síðustu áramót á þeim grundvelli sem þá var um útgerðina, síðan hafi eiginlega lítið breyst. Hann kemur ekki inn á kjarasamningana sem áttu sér stað í byrjun þessa árs. Hvað kom út úr þeim? Það þýðir hækkun á viðhaldskostnaði útgerðar, 50–53% frá jan. til aprílloka. Þetta er staðreynd sem liggur fyrir og þýðir ekki fyrir þennan hv. þm. að mæla á móti. En hann hleypur alveg yfir það. Hvaða forsendur voru fyrir fiskverðsákvörðuninni í jan. 1974 miðað við einingarverð á erlendum mörkuðum? Ef við lítum á vegið meðaltal verðjöfnunarafurða til Bandaríkjanna, þá eru forsendurnar 69.51 cent í jan., en í júlíbyrjun 60.61 cent og í okt. er það aðeins lægra eða 60.23. Þorskflök: forsenda fiskverðsákvörðunar 92 cent, en eru nú bæði í júlí og okt. 87 cent. Forsendur að þorskblokkarverði voru 84 cent við fiskverðsákvörðunina 1. jan., en í júlíbyrjun ern þau 60 cent og í októberlok 60 cent. Þetta tel ég að hafi mjög mikið að segja og skipti höfuðmáli. Við skulum líka líta á forsendurnar fyrir hráefnisverðsákvörðuninni í jan. 1974 hvað snertir fiskmjöl, loðnumjöl og loðnulýsi. Þær voru hvað fiskmjöl snertir 10.20 á próteineiningu miðað við Bandaríkjadollar, en hafa verið í okt. 4.50–5 dollarar. Þetta er ekki lítið hrun sem þarna hefur átt sér stað. Á loðnumjöli var forsenda hráefnisákvörðunar 9.50, líka miðað við Bandaríkjadollar, en við októberlok 4.50 og í júlímánuði meira að segja enn lægra eða 4.15. Lýsið hefur aftur heldur hækkað. Það var, miðað við forsendur hráefnisverðsákvörðunar í jan. 1974, 427 dollarar á tonn, en er nú 500–540 dollarar á tonn. — Þetta hefur sennilega ekkert að segja í sambandi við útgerð og í sambandi við vinnslu sjávarafurða hjá fyrrv. hæstv. sjútvrh. Það er skiljanlegt þegar svona er að hann geti aldrei orðið ráðh. lengur en í 3 ár því að þá er allt komið á þann veg í þeirri atvinnugrein, sem honum er trúað fyrir, að hann verður að fara, enda er komin fyrir löngu skýring á því að þessi hv. þm. ætlaði sér aldrei inn í nýja vinstri stjórn. Það var ekki af áhuga fyrir laxveiðum að hann stundaði laxveiðar á meðan þær umr. fóru fram, heldur af því að hann vissi hvernig ástandið var og nú þurfti hann að leika hlutverk skunksins og þess vegna vildi hann aldrei í nýja vinstri stjórn fara. Þetta vita bæði guð og menn.

Svo segir þessi hv. þm: Gengisbreytingin er gerð að kröfu útgerðarmanna. — Þvílík ósannindi og þvættingur. Gengisbreyting er ekki framkvæmd fyrir kröfu neinnar atvinnugreinar eða neinna ákveðinna manna í þjóðfélaginu. Gengisbreyting, þegar hún hefur verið gerð á Íslandi, þá hefur hún verið gerð vegna þess að það hefur verið játað staðreyndum, verðgildi íslensku krónunnar hefur verið fallið, og þá hafa stjórnvöld á hverjum tíma orðið að játa staðreyndir. Það var gert hvað þetta snertir og það var einn af ávöxtunum sem við var tekið þegar hæstv. fyrrv. sjútvrh. yfirgaf stólinn sinn.

Hann kom inn á Stofnfjársjóðinn. Framlög til Stofnfjársjóðs öll þessi 3 ár, sem hann hefur verið ráðh., hafa verið 20% af humar og síld og 10% af öðrum útfluttum afurðum. Hann hefur aldrei séð ástæðu til þess að gera neina breyt. þar á, enda hefur þessi hv. þm. talað allt annarri tungu við útgerðarmenn heldur en hann var að tala núna hér í ræðustólnum, því að þessi maður hefur tungur tvær og talar sitt með hvorri. Það vita allir menn, um það verður ekki deilt.

Þá held ég að kenningar hans um afskriftirnar séu alveg stórkostlegar. Afskriftir, það er algert aukaatriði, það er bara bókhaldsatriði, segir hann alltaf, og hann er búinn að flytja margar ræður um afskriftirnar. Nú las hann upp úr skýrslu Þjóðhagsstofnunarinnar, en hann stoppar alltaf á ákveðnum stað, hann segir aldrei allan sannleikann, því passar hann sig alltaf á. Afskriftir eiga auðvitað að vera til þess að geta endurnýjað atvinnutæki, geta staðið undir afborgunum lána, en hann tekur ekki með í reikninginn, að í skýrslu Þjóðhagsstofnunarinnar er ekki minnst á allar þær miklu lausaskuldir sem hvíla á þessari atvinnugrein og skipta hundruðum millj. kr. Það þarf líka að borga lausaskuldir. Ég hef líka orðið var við menn sem hafa komið úr hinum ýmsu þjónustugreinum og kvartað undan, hvað þeir og þeirra fyrirtæki ættu mikið inni hjá útgerðinni sem gæti ekkert borgað. Og einmitt ef reiknað er með afskriftum og fyrirtæki geta afskrifað þá eignast þau um leið peninga til þess að standa undir afborgunum lána og greiða upp sín vanskilalán ef ekki er farið yfir í nýjar fjárfestingar. Þetta held ég að hver sæmilega gefinn maður skilji og ég held að þessi gamli leikþáttur þessa hv. þm. sér orðinn svo úreltur að hann fari ekki lengur að eiga marga áhorfendur eða áheyrendur. Ég held að menn haldi miklu lengur áfram að sækja leikinn „Fló á skinni“ heldur en að hlusta á þennan leikþátt.

Hann kom inn á Aflatryggingasjóðinn. Víst er Aflatryggingasjóður stórkostlegt atriði þegar aflarýrnun verður og hann hefur verið byggður upp á undanförnum áratugum. Úr Aflatryggingasjóði hafa verið greiddar fyrir útgerðarmenn vegna minnkandi afla um 194 millj. kr. að mig minnir á fyrstu 8 mánuðum þessa árs. En að mig minnir hafa verið greiddar af þessari upphæð um 124 millj. kr. á svæði frá Akranesi til Vestmannaeyja. En langstærstu upphæðirnar eru til stærstu verstöðvanna á Suðurnesjum.

Mér ofbauð málflutningur þessa hv. þm., þegar hann ræddi um olíusjóðinn, hvað við værum nú slæmir menn og þessi sjútvrh., sem hefði tekið við af honum, hvað hann væri ógurlegur maður. Hann ætlar að láta sjómennina borga alla olíuhækkunina fyrir útgerðarmenn. — En hvað er verið hér að framkvæma? Það var sjútvrh. áður, sem hv. 2. þm. Austf. e.t.v. man eftir þótt þeir ræði kannske ekki oft saman nú, en hann hét Lúðvík Jósepsson. Mig langar til þess að biðja hv. 2. þm. Austf. að reyna að ná nú sambandi við þennan fyrrv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, og spyrja hann hvernig hann hafi mætt olíuvandamálinu um síðustu áramót, hvort hann hafi ekki lagt þetta á í almennum sköttum eða hvort hann hafi ekki lagt þetta bara á verksmiðjur, en ekkert á sjómenn eða útgerðarmenn. Það var lagt 5% gjald á útfluttar loðnuafurðir, á aðeins eina grein, sem átti að standa undir niðurgreiðslunum á olíunni fram til vors og auðvitað átti að halda áfram í sumar, og það var ákveðið með brbl. fyrri ríkisstj. að það yrði til 1. sept. Á þennan hátt átti að greiða þetta niður. Að vísu hrundi loðnuverðið, tekjuáætlun sú, sem byggt var á, hrundi. Það, sem verið er hér að gera, er að taka skatt af útfluttum sjávarafurðum, öllum útfluttum sjávarafurðum til þess að leggja í olíusjóð sem greiðir niður olíuna úr 14.30 kr. í 5.80 kr. Allir þættir sjávarútvegsins taka þátt í að greiða niður þessa olíu. Það hefði mátt skilja að þessar niðurgreiðslur eða 230 millj. kr. tekjur, sem brbl. gera ráð fyrir að sjóðurinn gefi, séu teknar algerlega af fiskverðinu, eins og maðurinn talaði hér áðan. En þá líti dæmið öðruvísi út. Það er verið að taka þetta af verðmætisaukningunni sem verður á hverju stigi. Þess vegna er það tekið af fob-verði útfluttrar vöru og það skiptir ansi miklu máli. Þegar menn tala um það að margur sjáfarafli fjórfaldist í verði, þá borga þó sjómenn og útgerðarmenn aldrei nema af því verði sem þeir fá fyrir aflann. Síðan koma aðrar greinar, síðan koma verkamenn og verkakonur í landi, hraðfrystihúsin eða aðrar vinnslustöðvar og allur kostnaður sem er í kringum verkun vörunnar.

Það er verið að gera nákvæmlega sama og þessi hæstv. fyrrv. sjútvrh. gerði um síðustu áramót að öðru leyti en því að nú kemur það á allar útfluttar sjávarafurðir, en það átti aðeins að taka það af loðnuafurðunum einum. Sá er munurinn. Má því segja að það hafi verið heldur betur fært út. En það er gaman þegar stjórnarandstaðan kyrjar sinn söng hérna.

Þm. Alþfl., sem talaði hér fyrir nokkrum dögum við þessa sömu umr., kvartaði sáran yfir því, hv. 8. landsk. þm., að það væri verið að íþyngja saltfiskinum miklu meira en öðrum greinum því að það er lagt 5.5% gjald á saltfisk í staðinn fyrir 4% gjald á aðrar greinar útfluttra sjávarafurða vegna þess að saltfiskverkunin hefur fram að þessu staðið miklu sterkari stoðum á þessu ári. Það er rétt, eitt af því fáa sem var rétt í ræðu hv. 2. þm. Austf. En þm. Alþfl. var nú ekki betur að sér en þetta. Hann hefur farið í smiðju og hitt einhvern góðan saltfiskskóng, sem hefur heldur betur snúið á karl, og hann kemur síðan hér til þess að kvarta og kveina undan álögum á þá grein útflutningsins sem best stendur. Ég held að þeir ættu að æfa kórinn betur, þessir stjórnarandstæðingar, ef þeir vilja að eitthvert mark sé tekið á þeim. Þeir ættu að halda fundi og flytja þessar ræður hver fyrir annan áður en þeir koma hérna inn í hv. þd.

Fyrrv. sjútvrh. sagði að sjálfstæðismenn hefðu sagt að hann yrði nú ekki lengi, hann Lúðvík, að éta Verðjöfnunarsjóðinn. Það er alveg satt, það sögðu sjálfstæðismenn, og Lúðvík hefði ekki verið lengi að éta upp Verðjöfnunarsjóðinn. En það gerðist annað. Það urðu stórfelldar hækkanir á erlendum mörkuðum sem björguðu til allrar lukku Verðjöfnunarsjóðnum því að annars hefði Lúðvík klárað hann á nokkrum mánuðum því að hann er haldinn þeim kvilla að mega helst aldrei vita af nokkrum peningi í sjóði. En verðhækkanirnar voru svo örar og ofboðslega miklar á erlendum mörkuðum að ekki einu sinni hann hafði undan.

Eitt af því, sem hann segist vera sammála í þessu frv., eru greinarnar um Verðjöfnunarsjóðinn. Það er nú það sem ég vil segja að núv. ríkisstj. gangi einna lengst í og sé langhæpnast því að við teflum á tæpasta vað hvað snertir greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins vegna hraðfrystiiðnaðarins. Og ef ég hefði fengið gagnrýni frá honum eða öðrum fyrir það að við hefðum gengið fulllangt í þessum efnum, þá væri það gagnrýni sem á fullan rétt á sér. En þá kom hjá honum: Nei, þetta er það eina, sem ég er sammála, af því að þarna er teflt á tæpasta vað.

Hvernig stendur á þessu um mann, sem er nýkominn úr embætti sjútvrh., mann, sem hefur staðið að því að gefa út brbl. sem kveða á um það að almennt fiskverð megi ekki hækka, annað en verð á skarkola, humri og rækju, eftir að almennar hækkanir urðu í byrjun þessa árs? Fiskverð var ákveðið 1. jan. 1974, síðan komu þessar ofboðslegu hækkanir, síðan gefur fyrrv. ríkisstj. út þessi brbl. um óbreytt fiskverð, svo gefur núv. ríkisstj. út brbl. um það að fiskverð hækki um 11% því að við þurfum, eins og ástandið er og þá ekki síst í sjávarútvegi, að gæta mjög hófs í þessum efnum þó að allt annað væri æskilegt. Nú ætla ég ekki að deila á fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. sjútvrh. fyrir það að hafa gripið til þess að fiskverð væri ákveðið óbreytt 21. maí í vor þó að það sé auðvitað ádeiluvert. Ég ætla að segja honum það að eins og ástandið var orðið í þessu landi, óðaverðbólgan tröllreið öllu, þá átti sú ríkisstj., sem sat þá enn að völdum, lítils annars úrkosta en að beita þessu ákvæði, svo ranglátt og sárt sem það er. En núv. ríkisstj. tekur sig til og leiðréttir fiskverðið með löggjöf um 11% hækkun og það er alveg sérstakt árásarefni frá hendi hv. 2. þm. Austf., sérstaklega á mig og ríkisstj. Ég tek því eins og öllu öðru með jafnaðargeði og ég vil aldrei hryggja þennan ágæta vin minn. En ég verð að segja honum það að mér hefur ekkert líðið illa undanfarna daga, hef verið við hestaheilsu og hef það ágætt. Átti eitthvað að vera á bak við þau niðurlagsorð, sem hann lét falla? En það er svo margt þokukennt hjá þessum hv. þm. Og hann hefur sennilega komið upp með eitthvað af Austfjarðaþokunni hingað með sér og hún er ekki búin enn.

Ég sagði hér í upphafi að það tæki langan tíma að leiðrétta missagnir og rangtúlkun þessa hv. þm. En þetta er nú aðeins 1. umr. málsins svo að það gefst tækifæri til að tala kannske til hans betur við 2. eða jafnvel 3. umr. því að hann hefur talað sig dauðan við 1. umr. og getur því ekki tekið aftur upp þráðinn á ný fyrr en n. hefur skilað áliti um frv. Þá fæ ég tækifæri aftur til þess að tala við hann. Ég kannske segi ekki að mér þyki sérstaklega gaman að tala við menn sem beita slíkum málflutningi, en maður tekur með ákveðnum störfum á síg ákveðnar skyldur þótt þær séu ekki allar jafnskemmtilegar.