12.02.1975
Neðri deild: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

153. mál, menntunarleyfi launþega

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frv. þetta, sem Jón Baldvin Hannibalsson er aðalflutningsmaður að, fjallar um menntunarleyfi launþega.

En þar sem Jón Baldvin var hér sem varamaður og hefur nú vikið af þingi og ég er meðflm. hans mun ég segja örfá orð til skýringar þessu máli.

Á síðustu tveimur ársþingum, sem Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf, ILO, hefur haldið, hefur mikið verið fjallað um það sem nefnt er menntunarleyfi launþega á launum, og hafa verið gerðar um það till. sem vinnumálastofnunin hefur sent til stjórnvalda þátttökuríkja þar að lútandi.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um þetta mál, gerir ráð fyrir tvenns konar rétti launþega til þess að auka menntun sína og nám: annars vegar að á tveggja ára fresti eigi launþegi rétt til háls mánaðar náms án þess að missa nokkurs í launum, hins vegar eigi hann rétt til náms launalaust, en án þess að missa rétt til fríðinda er atvinnu fylgja, svo sem sumarleyfis, atvinnuleysisbóta o.s.frv. innan þeirra takmarka sem þessi rammalög setja. Ekki er hér gert ráð fyrir því, hvernig fjármagna skuli slíkt nám þannig að aðgengilegt verði fyrir sem flesta, en væntanlega verður þess ekki langt að bíða að sett verði ítarleg löggjöf um símenntun eins og kallað er nú orðið, þ.e.a.s. möguleika fullorðinna, sem lokið hafa frumskólagöngu sinni, til þess að hefja aftur nám og geta ýmist á skömmum tíma eða með frístundanámi fylgst með starfsgreinum sínum, jafnframt því sem námið verður hluti af lifi og lífsnautn almennings.

Lög, sem ganga í svipaða átt og þetta frv., hafa ýmist verið samþ. eða liggja nú fyrir löggjafarþingum ýmissa landa í Evrópu. Hvergi er þó þörfin á föstum reglum um þetta eins mikil og hér á Íslandi þar sem vinnudagur er mjög langur miðað við önnur lönd, enda er alkunna að þau óvenjulegu lífskjör, sem við höldum uppi, byggjast að verulegu leyti á aukavinnu eða margföldum störfum viðkomandi manna. Vinnutap og möguleikar eru því meiri fjötur um fót hér á landi en víðast annars staðar ef maður eða kona hafa sérstakan áhuga á eða sérstaka nauðsyn til að afla sér einhverrar viðbótarmenntunar.

Hér er að sjálfsögðu ekki aðeins um réttlætismál að ræða, heldur einnig um dálítinn áfanga að því marki að námið sé ekki forréttindi fárra sem tekið sé út á unga aldri og menn njóti síðan til æviloka, heldur verði það hluti af lífi allrar þjóðarinnar á einn eða annan hátt frá æsku til fullorðinsára. Allir eru sammála um hugsjónina um framhaldsmenntun. Allir hafa gert sér ljóst, vænti ég, sem um þessi mál hafa hugsað, að nú á dögum dugir ekki að sitja nokkur ár á skólabekk og koma svo ekki nálægt námi framar. Hver vill fara til sérfræðimenntaðs læknis sem hefur ekki litið í bók eða tímarit eða haldið námi sínu áfram á annan hátt í 10 eða 15 ár? Þetta er ýkt dæmi, en á í mismunandi ríkum mæli við ótrúlega margar stéttir.

Um leið og fram hefur komið mjög viðtækt frv. um fullorðinsfræðslu eða sínám eða hvað menn vilja nú kalla það, er eðlilegt að einnig sé fyrir því hugsað, hvernig fólk eigi að geta hagnýtt sér þau tækifæri sem væntanlega verða veitt með löggjöf hér áður en langt líður. Ljóst er að þar getur ekki eingöngu verið um að ræða frístundastarf, og einnig er ljóst að mjög mikið af því námi, sem fólk í hinum ýmsu atvinnustéttum mun leita eftir á fullorðinsárum sínum eða eftir að það hefur lokið skyldunámi og fyrsta framhaldsnámi, mun hafa verulega raunhæfa þýðingu fyrir starf þessa fólks, hvert sem það er. Þess vegna hygg ég að hugmyndin um menntunarleyfi launþega sé þess virði að menn íhugi hana vandlega. Þetta er eitt af því sem tvímælalaust mun koma.

E.t.v. kann ýmsum að finnast í fyrstu að hér sé bara verið að setja enn einn baggann á atvinnufyrirtækin og atvinnurekendur. En ég hygg að það sé of þröngur skilningur á þessu máli, því að þegar frá líður mun það koma æ betur í ljós, að starfsfólk fyrirtækja — hvers konar fyrirtæki sem það eru eða stofnanir og í hvaða starfs- og atvinnugrein sem er — muni hafa það gagn af áframhaldandi menntun, þó að það sé ekki nema tiltölulega stutt námskeið, að það geri vinnu þessa fólks stórum mun verðmætari, og að atvinnuveitendur, hverjir sem þeir eru, muni síður en svo bíða tjón við það að slíkt kerfi verði að veruleika.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til hv. félmn.