12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Lúðvík Jósepsson:

Hv. forseti. Þá hefur hæstv. ríkisstj. enn einu sinni gripið til gengislækkunar og þó eru aðeins 5 mánuðir og 10 dagar síðan gengi krónunnar var formlega lækkað um 17%. Frá 1. jan. 1974 og þar til nú var hætt að skrá gengi krónunnar þá hefur verðgildi ísl. krónu lækkað gagnvart dollar um 41%, og nú þegar þessi gengislækkun verður komin til viðbótar er gengislækkunin orðin á rétt rúmu ári milli 60 og 70%. Gengi ísl. kr. var skráð 1. jan. 1974 84.50 í dollar, en nú er gert ráð fyrir að skráningin nemi 149.20. Þessi verðsveifla nemur því, þegar allt er lagt saman, 76.5% á rúmlega einu ári.

Ég vil vekja athygli á því að með þessari gengislækkun hefur núv. ríkisstj. slegið fyrra met gömlu viðreisnarstj. í gengislækkunarhraða. Viðreisnarstj. gamla lækkaði gengið með 11 mánaða millíbili. Það var mesti hraði sem hún náði. En þessi ríkisstj. lækkar gengið með millíbili sem nemur 5 mánuðum og 10 dögum. Ekki þætti mér ólíklegt að margur byggist við því að næsta gengislækkun yrði eftir jafnvel enn styttri tíma, sérstaklega þegar þess er gætt hversu trúaðir núv. stjórnarherrar virðast vera á mátt gengislækkunar. Það er engu líkara, eftir því sem þeir segja en að þeir haldi að gengislækkun út af fyrir sig sé allra meina bót. Já, jafnvel er talað þannig við þjóðina, að vegna þess að viðskiptakjör okkar við umheiminn hafi farið versnandi, sem að sjálfsögðu skapa okkur erfiðleika, þá þurfum við að fara í gengislækkun.

Auðvitað breytir gengislækkun engu um okkar viðskiptakjör. Viðskiptakjörin standa eftir sem áður. Við getum ekki hreyft við þeim bara með því að hreyfa okkar gengi. En versnandi viðskiptakjör valda okkur að sjálfsögðu erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Það er annað mál, og við þurfum að bregðast við þeim vanda á skynsamlegan hátt.

Ég vil taka það fram strax í upphafi máls míns að við í Alþb. erum algjörlega andvígir þessari gengislækkun. Við teljum hana rangláta og við teljum að ríkisstj. hafi borið skylda til að reyna að fara allar aðrar leiðir fyrst, áður en gripið yrði til gengislækkunar, og síðan að hafa gengislækkunina eins litla og tök voru á ef aðrar ráðstafanir hefðu ekki dugað.

Ég vil minna á það í þessu sambandi að þegar efnahagsmálin vorn hér til umr. á Alþ. fyrir nokkrum dögum buðum við í Alþb. og reyndar stjórnarandstaðan öll hér á Alþ. ríkisstj. samstarf um ráðstafanir gegn þeim vanda sem við er að fást í okkar efnahagslífi. Hæstv. forsrh. fagnaði þessu tilboði, og það var á honum að skilja að ríkisstj. vildi hafa samstarf við minnihlutaflokkana á Alþ. varðandi afgreiðslu þessara mála. En það verður að segja það eins og það er, að fram til þessa hefur ekki verið um neitt samráð við stjórnarandstöðuna að ræða. Við höfum haft aðeins örstuttan fund þar sem bent var á niðurstöður þær, sem fyrir liggja í gögnum frá Þjóðhagsstofnun um stöðu sjávarútvegsins sem okkur höfðu borist, en umr. voru þar örstuttar, fundurinn mjög stuttur og engar sérstakar till. af hálfu ríkisstj. voru þarna ræddar.

Það næsta, sem við heyrum af þessu samstarfi, er það að ríkisstj. sé búin að taka þá ákvörðun að stöðva gengisskráningu í landinu og ákveða að það skuli fara gengislækkunarleið. Ég tel að þetta hafi verið óskynsamleg vinnubrögð af hálfu ríkisstj., óheppileg bæði gagnvart stjórnarandstöðunni á Alþ. og auðvitað á sama hátt gagnvart þýðingarmiklum hagsmunasamtökum í þjóðfélaginu.

Hæstv. forsrh. sagði, þegar hann vék að þeim erfiðleikum sem við væri að fást í okkar efnahagsmálum, að hann teldi vandamálið fyrst og fremst vera tvíþætt: annars vegar þann vanda sem við væri að glíma varðandi gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og hins vegar þann halla sem fyrirsjáanlegur væri í okkar útflutningsatvinnuvegum og þá fyrst og fremst hjá sjávarútveginum. Ég vil bæta við þetta því, að ég tel að sá vandi, sem nú er við að eiga, sé fyrst og fremst þríþættur. Ég viðurkenni þetta hvort tveggja sem hæstv. forsrh. nefndi. Þar er við allmikinn vanda að fást. En það má ekki gleyma þriðja þætti þessara mála sem snertir hin almennu kjaramál launafólks í landinu, en þarna er vissulega einnig við stórkostlegt vandamál að glíma. Mig langar til þess í sambandi við þessar umr. að víkja með nokkrum orðum að hverju þessu vandamáli fyrir sig og benda á þær leiðir sem við Alþb.- menn teljum að þar komi til greina að meira eða minna leyti.

Ég vík þá fyrst að gjaldeyrisvandamálinu. Það leikur ekki neinn vafi á því að okkar gjaldeyrisvarasjóður er búinn. Að vísu er staðan ekki alveg jafnslæm í þeim efnum og af hefur verið látið, þegar þess er gætt að það hafa safnast fyrir hjá okkur allmiklar útflutningsvörubirgðir. Við eigum meira af framleiddri útflutningsvöru nú en við höfum átt áður og af þeim ástæðum er gjaldeyrisstaðan nokkru verri. Það er ekki hægt að segja að þær gjaldeyrisvörur, sem safnast hafa í landinu, séu ekki seljanlegar. Vissulega eru þær seljanlegar. Við höfum allan tímann getað selt þessar vörur. Við höfum hins vegar ekki verið ánægðir með það verð sem í boði hefur verið og því hefur orðið nokkur dráttur á sölunni. Ég tel að eins og þessi mál standa í dag, þá standi salan á þessum vörum tiltölulega vel miðað við það sem verið hefur. Nokkuð fast verðlag liggur fyrir og stórar sölur hafa verið gerðar, og ég býst því við, að það gangi frekar á birgðirnar en hitt á næstu mánuðum. En eigi að síður er staðan í gjaldeyrismálum mjög alvarleg. Við höfum notað gjaldeyri á nýliðnu ári í ríkara mæli en nokkru sinni áður á einu ári. Og þó að gjaldeyristekjur okkar á s.l. ári hafi verið einar þær mestu sem við höfum haft á einu almanaksári, fóru útgjöldin eigi að síður fram úr gjaldeyristekjunum. Í þessum efnum vil ég undirstrika það sem ég var að segja: Það er ekki þannig, eins og maður gæti helst skilið á þeim sem tala um þessi mál, að s.l. ár, árið 1974, hafi verið okkur óhagstætt ár, að heildartekjur okkar hafi fallið á því ári. Það er alrangt. Þær fóru mjög vaxandi, framleiðslan og heildartekjurnar, hvernig svo sem þær eru mældar, þó að við mælum þær beint í erlendum gjaldeyri. En eyðslan var meiri en nokkru sinni fyrr. Þar í lá vandinn.

Þá er spurningin hvort gengislækkun af þeirri gerð, sem nú hefur verið ákveðin, muni leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir með okkar gjaldeyrisvarasjóð. Ég tel engar líkur til þess, eins og nú standa sakir, að sú breyting á skráningu ísl. krónu, sem nú er ákveðin, leysi þennan vanda. Það er enginn vafi á að á meðan ástandið er þannig að fjöldamargar vörutegundir hækka í verði erlendis og innflytjendur okkar vita að þær eru hækkandi í verði, þá munu þeir sækja fast á um að fá gjaldeyri og hraða sínum innflutningi. Og þeir vilja ekki aðeins hafa úr að spila hinum almenna kaupmætti sem til fellur af tekjum. Þeir munu þrýsta á bankakerfið, eins og þeir hafa gert, til að ná sér í víðbótarfé. Og þeir munu gjarnan fara í þær innistæður í bönkum landsins, sem eru þeim meira og minna frjálsar, ná í þær og beina þeim í aukinn innflutning. Og talsverður markaður mun verða áfram í landinu a.m.k. meðan full atvinna verður. Ég tel því mjög litlar líkur til þess að sú gengislækkun, sem nú á að ganga yfir, leysi þennan vanda, auk þess sem gengislækkunin miðar við það að verðhækkanir, sem af henni leiðir og ættu að draga úr innflutningi og gera það vissulega að einhverju marki, eigi að ganga jafnt yfir allar vörutegundir, jafnt yfir brýnustu lífsnauðsynjar og óþarfa innflutning eða lítið þarfan.

Það er staðreynd að á s.l. ári notuðum við rúmlega 3 milljarða kr. í beinum gjaldeyri vegna bílainnflutnings til landsins og höfðum aldrei notað jafnmikið áður. Það er mín skoðun að það eigi beinlínis, eins og nú er komið, að stöðva gjaldeyrisafhendingu til bílainnflutnings um nokkra hríð, t.d. 3 mánuði eða 6 mánuði, á meðan við erum að sjá nokkuð til hvað gerðist, eða þá að setja á aðrar hömlur sem drægju verulega úr því að gjaldeyrir færi í frekari bílainnflutning en orðið er nú í bráð. Svipað tel ég að þurfi að gera með ýmiss konar annan innflutning, sem er okkur ekki nauðsynlegur eins og sakir standa. Við flytjum nú inn fyrir okkar dýrmæta gjaldeyri margvíslegar vörutegundir sem við framleiðum auðveldlega hér í landinu, og gætum við því sparað okkur verulegan gjaldeyri. Það á að leggja hömlur á að ráðstafa gjaldeyri í slíkar vörur eins og nú er komið, a.m.k. til bráðabirgða. Við Alþb.-menn bendum á að það eigi að fara þessa leið að meira eða minna leyti, m.a. vegna þess að gengislækkunarleiðin til þess að leysa gjaldeyrisvandann nái ekki tilgangi sínum og sé í eðli sínu óréttlát. Það er óréttlátt að hækka jafnmikið í verði brýnustu lífsnauðsynjar, sem fluttar eru til landsins, og hreinan óþarfavarning. en það felst í gengislækkunarleiðinni. Það kemur líka til mála eins og ýmsar þjóðir hafa gert að leggja sérstakt innflutningsgjald, tímabundið, á ákveðna vöruflokka, sem ekki teljast til brýnna nauðsynja, og nota þær fjárhæðir, sem fást með því gjaldi, til almennra dýrtíðarráðstafana, til þess að halda niðri verði á brýnum nauðsynjum og leysa þannig þýðingarmikinn vanda í kjaramálunum um leið. Vissulega kemur það einnig til greina, sem reynt var á s.l. ári, að setja reglur um að innflytjendur verði að binda tiltekið fjármagn í sambandi við innflutning á ákveðnum vörutegundum, ef þeir flytja inn tilteknar vörutegundir, þá verði þeir að binda viðbótarfé við gjaldeyrisverðmætið í Seðlabanka landsins, og stefna á þann hátt að því að hamla gegn of miklum innflutningi. Sem sagt, niðurstaða mín er að sú leið, sem ríkisstj. hefur valið varðandi gengislækkunina, leysi ekki þennan meginþátt vandans, gjaldeyrisstöðuna, þar hefði átt að fara aðrar leiðir. Við í Alþb. höfum bent á þessar leiðir, teljum að það hefði átt að reyna að skapa samstöðu og velja eitthvað af þessum leiðum, sem ég hef hér minnst á, og fara ekki gengislækkunarleiðina til að leysa þennan vanda fyrr en í síðustu lög.

Ég vil þá minnast nokkuð á þann vanda sem við er að fást í sambandi við hallarekstur sjávarútvegsins. Ég hef áður sagt að sá vandi, sem þar er við að glíma, sé býsna mikill. En hann er engan veginn sá, sem oft er látið að liggja í umr. um þessi mál. Mér sýnist satt að segja að þeir, sem mest hafa um þessi mál rætt, hafi ekki einu sinni lagt það á sig að lesa þær skýrslur sem Þjóðhagsstofnunin hefur lagt fyrir okkur varðandi stöðuna hjá sjávarútveginum. Hitt skil ég mætavel, að mat manna á því hvað langt eigi að ganga í stuðningi við einstakar atvinnugreinar verður alltaf mismunandi. Þær skýrslur, sem fyrir okkur liggja og eru aðalskýrslurnar frá Þjóáhagsstofnuninni, en ekki merktar með því sérstaka merki af hennar hálfu að þær séu kallaðar „dekkri myndin“, eins og sagt er, þar sem verið er að spá því sem er öllu lakara, — ég held mér við þá útreikninga sem flokkast í þessari skýrslu undir A1 og A2, bæði varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu, sem sagt aðalskýrslurnar, — þær eru ekki bjartar, síður en svo, og mikið væri ég óánægður ef það reyndist ekki betra í útkomunni en þarna er reiknað með. Ég tek það fram fyrir mitt leyti að ég hef mikinn fyrirvara á gagnvart tölum sem koma fram í skýrslunni. En hvað um það fyrst skulum við athuga hvað í skýrslunum stendur. Séu þessar skýrslur teknar þá er í samandregnu máli þetta niðurstaðan: Séu allar greinar fiskveiðanna teknar, þ.e.a.s. jafnt bátar, loðnuskip, togarar af minni og stærri gerð, sem sagt allar tegundir veiðiflotans, og síðan allar aðalgreinar fiskvinnslunnar, sé þetta allt tekið saman, eins og gert er í skýrslunni, og litið á tvær niðurstöðutölur þarna, annars vegar hver er útkoman samkv. þessum skýrslum áður en svonefnd fyrning er uppfærð? Hver er þá niðurstaðan? Áður en fyrning er uppfærð er niðurstaðan sú, að allar þessar greinar veiða og vinnslu hafa þá 969 millj. kr. afgangs umfram beinan rekstur upp í afskriftir. Þessi tala er fundin þannig, að þá er Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins kominn inn í þetta dæmi á þann hátt, að það er búið að taka úr Verðjöfnunarsjóðnum fjárhæð yfir árið sem nemur 968 millj. samtals, en í sjóðnum voru í ársbyrjun rúmlega 2600 millj. kr. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að ganga á innistæðurnar í Verðjöfnunarsjóði upp á tæpan helming, og þá verður þessi niðurstaðan. En þegar búið er að setja inn í þetta dæmi einnig afskriftirnar, þær afskriftir sem reiknað var með á öllum tegundum fiskiflotans og á öllum verkunarstöðvunum, þegar búið er að færa upp afskriftirnar líka, þá er orðið tap sem nemur 1721 millj., vegna þess að afskriftirnar eru 2 690 millj. kr. Nú hef ég bent á það nokkrum sinnum, að það er mikið álitamál hvað á að gera ráð fyrir miklum afskriftum. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. nú — sem að vísu kemur ekki algjörlega heim við þær upplýsingar sem ég hef haft frá Þjóðhagsstofnun áður, en það skiptir ekki höfuðmáli, það er ekki stór skekkja — að það mætti færa þessa upphæð í afskriftum niður um 700–800 millj. kr. ef menn vildu láta sér nægja að hafa afskriftirnar jafnháar og umsamdar afborganir af flotanum og of verkunarstöðvunum eru. Ég segi alveg eins og er, að það er mín skoðun að miðað við núv. kringumstæður sé ekki ástæða til þess að reikna útgerðinni sem heild, — ég segi: miðað við núv. kringumstæður, — meira en helminginn af þeim afskriftum sem reiknað er með í þeim skýrslum sem hér liggja fyrir. Afskriftirnar þyrftu því ekki að vera nema 1 345 millj. í stað fyrir 2 690 millj. Ég segi ekki að í miklu góðæri vilji ég ekki gjarnan fallast á að afskriftirnar gætu verið nokkru meiri, en ég tel, að þetta miklar afskriftir séu fullsæmilegar fyrir þennan atvinnurekstur miðað við núv. ástand.

Þá eru þessar skýrslur, sem hér liggja fyrir, ekki verri en það, að útgerðin á 969 millj. upp í afskriftir sem þá væru kringum 1300 millj. Það vantar sem sagt nokkuð upp á, en tiltölulega lítið. Ég sé enga ástæðu til þess — og á þó eins mikið undir því og hver annar alþm. hér í sambandi við góða afkomu hjá útgerð — að mála skrattann þannig á vegginn í sambandi við þann vanda sem við eigum við að glíma varðandi rekstur útgerðarinnar, að telja þennan vanda meiri en sem þessu nemur miðað við þær skýrslur sem hér liggja fyrir. Mér er alveg ljóst, að þessi vandi getur í veruleikanum orðið meiri ef afli verður lélegur eða eitthvað annað steðjar að sem til óhappa verður að teljast. En afkoman getur líka orðið miklu betri. Og ég fyrir mitt leyti er ekki ánægður með það ef afkoman verður ekki miklum mun betri en hér er reiknað með, því að það er verið að gera ráð fyrir því, einkum í sambandi við fiskverkunina, að það sé staðið illa að henni.

Nú hef ég sagt áður að ég tel að það þurfi ekki aðeins að leysa þennan vanda sem ég hef hér verið að gera grein fyrir, heldur þurfi að leysa enn meira. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi bráðnauðsynlega að hækka fiskverð frá því sem nú er og auðvitað þyrfti að hækka fiskverðið miklum mun meira ef gengislækkun á að koma. En þó að engin gengislækkun kæmi þarf að hækka fiskverðið, bæði vegna afkomu útgerðarinnar almennt séð og eins vegna tekjumöguleika sjómannastéttarinnar. Það er bráðnauðsynlegt. Það er auðvitað lengi hægt að halda uppi ágreiningi um hvað þessi fiskverðshækkun ætli að verða mikil. Mín skoðun er sú að hún þyrfti að vera a.m.k. 12–14%, miðað við það að ekki yrði gengislækkun, en meiri ef það verður gengislækkun.

Þá kemur spurningin um það hvernig eigi að reyna að leysa þennan vanda og það á þann hátt að ekki verði gripið til gengislækkunar. Ég skal minnast hér á nokkrar leiðir.

Í fyrsta lagi segi ég nú eins og áður: það á að lækka vextina frá því sem þeir eru nú. Þeir eru eintóm vitleysa og það fær enginn eðlilegur rekstur á Íslandi staðist með því að halda uppi þessum vöxtum. Menn geta verið í þessum leik á eftir skottinu á sér allan tímann ef þeir ætla að halda hér uppi vöxtum sem eru frá 24 upp í 28%. Nú er svo komið að bankarnir eru farnir að reikna mönnum í mjög ríkum mæli 2% vexti á mánuði af öllu því sem þeir kalla vanskilaskuldir, en það eru ekki aðeins 24% á ári, það munu vera eitthvað í kringum 27–28% vextir á ári af því að vextirnir koma ofan á vextina út allt árið. Þetta fær ekki staðist. Viðskiptabankarnir vita líka að þetta fær ekki staðist. En þeir afsaka sig með því, að þeir séu komnir í yfirdrátt hjá Seðlabankanum og Seðlabankinn reikni þeim 24% og þeir verði að reyna að velta þessu yfir á aðra. Ég hef bent á það að ef vextirnir, þessir óstjórnlegu vextir, sem eru hér ríkjandi hjá okkur, væru færðir niður um 3–4%, þá mætti létta af útgerðinni í landinu í kringum 500 millj. kr. á ári. Það á að gera þetta, og þá fylgdi ýmislegt fleira á eftir. Um leið og vextirnir væru lækkaðir er líka verið að létta útgjöldum af versluninni í landinu sem hún hefur fengið að velta af sér út í verðlagið. Það á að lækka verðlagið, það á að lækka álagninguna strax til þess að þessi lækkun fái að skila sér út í verðlagið.

Í öðru lagi bendi ég á að það á að minnka fyrirhugaðar greiðslur í hið svonefnda vátryggingakerfi fiskiskipaflotans, en ekki auka það eins og er verið að leggja til. Það á að minnka það. Og þar vil ég ekki leggja til allt of snögga breytingu, en það á að minnka framlagið í þennan sjóð sem nemur 2–3% í fiskverði. Ætli það séu ekki a.m.k. 12–13% í fiskverði nú, það sem rennur í þennan allsherjarvátryggingasjóð? Og það á að auka ábyrgðina hjá þeim sem vátryggja sin skip, það á að hækka eigin ábyrgð, þannig að þeir verði að standa meira en þeir gera nú undir smátjónum sínum. Og ríkissjóður á að standa bakábyrgur fyrir þessu vátryggingakerfi. Ef útgjöldin reynast meiri á árinu í bótagreiðslum en iðgjöldin nema þá verður ríkissjóður að standa undir þeim vanda, eða þá að ríkið taki að sér þessa vátryggingu eða byði hana út.

Í þriðja lagi tel ég að það sé óhjákvæmilegt, eins og sakir standa að minnka greiðslu útgerðarinnar í hinn svonefnda olíuniðurgreiðslusjóð. Nú nemur greiðsla útgerðarinnar í olíuniðurgreiðslusjóð í kringum 12% af fiskverði. Þetta er allt of há greiðsla, og ég vil færa hana niður sem nemur u. þ. b. 4–5% í fiskverði. Það á jöfnum höndum að spara verulega í olíunotkun með því að allur togaraflotinn taki upp svartolíunotkun. Þannig er tvímælalaust hægt að spara, þó að ég geri ekki ráð fyrir að hægt verði að koma við öllum þeim sparnaði sem sérstök n., sem með þessi mál hefur haft að gera, telur að sé hægt með þessari breyt. Á þennan hátt á að rýma fyrir því að hægt sé að hækka fiskverðið, en minnka greiðslurnar í olíuniðurgreiðslusjóð. Áður hef ég einnig bent á það, að ég tel fyllilega koma til greina að ríkisheildin, að ríkissjóður, sem auðvitað verður að skapa möguleika til þess, leggi í þennan olíuniðurgreiðslusjóð einhverja fjárhæð, 300–400 millj. kr. Og ég tek að sjálfsögðu fram, að þá ætlast ég til þess að allur útflutningsiðnaður okkar, ekki bara sjávarútvegurinn, heldur einnig aðrir sem eru í útflutningi, geti orðið aðnjótandi sams konar kerfis og sjávarútvegurinn í þessum tilfellum. Með þessu vil ég skapa möguleika til þess að hækka fiskverðið eftir þessari leið um 4–5%.

Í fjórða lagi legg ég til að tekin verði aftur sú ráðstöfun sem samþ. var hér á Alþ. síðustu dagana fyrir jól, þegar ákveðið var að hækka greiðslur af fiskiskipaflotanum í Stofufjársjóð úr 10% í 15%. Þar fóru 5% í fiskverðið, sem ég tel ekki vera beina þörf á, og miðað við núv. kringumstæður tel ég það heldur ekkert vandamál þó að jafnvel svo færi að eitthvað af skipunum í landinu stæði ekki alveg að fullu í skilum með greiðslur sínar samkv. þessu kerfi í gegnum Stofnfjársjóð. Yrði þá að mæta þeim vanda eftir öðrum leiðum, eins og áður var og hefur verið nú um margra ára skeið. En þarna er líka um að ræða möguleika á 5% fiskverðshækkun.

Ég hef nú verið að benda á leiðir til þess að hægt væri að hækka fiskverðið með vissum tilfærslum um 12–14%. Ég tel að það sé brýn þörf á að reyna að fara slíka leið sem þessa til þess að forðast gengislækkun því að ein gengislækkun mun leiða af sér aðra eins og reynslan hefur sannað. Þá legg ég einnig til að það yrði gert verulegt átak í því, að beinum stuðningi frá ríkisvaldinu, að koma á verulegri hagræðingu í fiskvinnslunni í landinu. Það hefur stundum verið rætt um það að ríkið legði t.d. fram kostnaðinn af því að ráðnir yrðu 4–5 menn, sérfræðingar í þessari grein, til þess a ferðast á milli fiskvinnslustöðvanna í landinu og benda mönnum á hvað þeir gætu gert betur í rekstrinum og reyna að koma rekstrinum á hagkvæmari grundvöll. Þarna eru gífurlega miklir möguleikar sem best sannast á því, að ef við tökum nokkur bestu frystihúsin í landinu, þá er gífurlegur munur á afkomu þeirra og meðalfrystihússins. Í þessum efnum hefur m.a. verið bent á það — og ég vil aðeins minnast á það hér — að á árinu 1973 hækkaði fiskblokkin á Bandaríkjamarkaði gífurlega mikið í verði allt árið, alveg til ársloka, þegar fiskblokkin náði þar hámarksverði. Þetta leiddi að sjálfsögðu til þess að á því ári fór mjög vaxandi það magn sem menn framleiddu í frystihúsunum af fiskblokkum, og þá nam fiskblokkin í kringum 55% af heildarmagninu sem fór í frystingu. Á s.l. ári, 1974, þegar fiskblokkin ýmist seldist ekki, fór ekki úr landi af því að við vildum ekki sætta okkur við jafnmikla verðlækkun á henni og raun varð á, eða þá að þar var um að ræða verðlækkun sem menn urðu að taka á sig, þá hefur reynslan sýnt að sumir aðilar í landinu hafa haldið áfram að framleiða fiskblokk eins og ekkert hafi í skorist og í álíka háu hlutfalli við aðra framleiðslu og áður, þó að allar aðrar hraðfrystar fisktegundir hafi haldið sínu fulla verði og þó að t.d. aukning í saltfiskverkun hefði verið mjög hagstæð af því að saltfiskurinn stórhækkaði í verði. Ýmis frystihús hafa breytt rekstri sínum þannig að þau fyrsta nú tiltölulega mjög lítið af fiskblokk, eru komin í 10–12% miðað við sína heildarframleiðslu. Afkoma þeirra er auðvitað öll önnur. Hér grípur ýmislegt inn í sem ég skal ekki fara út í en auðvitað er hægt að gera í þessum efnum miklu meira og betra en gert hefur verið. Það þarf að koma á hagræðingu, það þarf að aðstoða menn við að leysa þennan vanda, en ekki framlengja frá ári til árs sömu vitleysuna og segja alltaf: meiri gengislækkun, meiri gengislækkun. Við þurfum að komast út úr erfiðleikum eins og þessum á réttan hátt en ekki steypa okkur kollhnís eins og gert hefur verið.

Auk þessa legg ég svo til fyrir mitt leyti að Verðjöfnunarsjóðurinn, sem safnað hefur verið í á undanförnum árum, verið notaður við lausn á þessum vanda, og er í öllum till. gert ráð fyrir því. Ég tel það sé engin goðgá þótt við notum okkar verðjöfnunarsjóð, sem kominn var upp í 2 600 millj. á þessu ári að helmingi, og ég tel hreint ekki mikið að nota rúmar 900 millj. af 2 600 millj.

Áður hef ég minnst á að það á að gera ráð fyrir því í þessari lausn að afskriftirnar verði ekki nema helmingur þess, sem reiknað er með í þessum útreikningum og það verði útgerðin að sætta sig við, m.a. vegna þess að það er um nokkru erfiðara árferði að ræða en áður, og hafandi í huga að árið þar á undan, árið 1973 höfðu menn ekki aðeins þessar afskriftir, heldur enn þá meira.

Til viðbótar við þetta vil ég svo bæta því við, að ég tel einnig sjálfsagt að af hálfu ríkisins verði lögð fram sérstök fjárhæð, 200–400 millj. kr., í því skyni að leysa vandamál útgerðarrekstrar þar sem er um alveg sérstök vandamál að ræða sem ekki geta talist til hins almenna. Þau koma alltaf upp. Við höfum að vísu býsna öflugt sjóðakerfi nú til þess að leysa slíkan vanda, eins og Almannatryggingasjóð, Byggðasjóð o.fl. En ég held að það kæmi fyllilega til mála að í þeim almennu efnahagsráðstöfunum, sem þarf að gera, væri tekin frá okkur fjárhæð af almannafé, 200–400 millj. kr., til að leysa slíkan vanda.

Við þetta get ég svo bætt því, að ég tel út af fyrir sig ekkert við því að segja, ef endar eru ekki af fullri sanngirni taldir ná saman eftir þessum leiðum, þó að þá sé farið í eitthvað gengissig eða einhverja minni háttar gengislækkun sem þá verður látin ganga yfir með venjulegum hætti, án þess að þar sé um beina kaupskerðingu til manna að ræða, til þess að brúa bilið að fullu.

Varðandi svo þriðja þátt þess vanda sem við stöndum hér frammi fyrir, hin almennu kjaramál er hinn mesti blindingjaháttur að mínum dómi að líta fram hjá þeim. Hæstv. ríkisstj. veit það að launþegasamtökin í landinu eru öll með lausa kaupgjaldssamninga. Þau hafa haft fulltrúa sína til viðtals við ríkisstj. nú um nokkra hríð, vegna þess að þau hafa talið alveg óhjákvæmilegt að fá hér fram ýmsar ráðstafanir launþegum til hagsbóta. Þessi samtök geta ekki tekið við slíku höggi eins og ný, stórfelld gengislækkun er þegjandi og hljóðalaust. Það dugar lítið, þótt hæstv. ríkisstj. segi eins og hæstv. forsrh. sagði hér: Við viljum taka láglaunabæturnar til endurskoðunar. Við viljum taka til endurskoðunar reglur um það hvernig eigi að mæta vandamálum gamalla og öryrkja. Við viljum taka vísitölukerfið til endurskoðunar og allt þess háttar. — Þetta sögðu menn strax þegar þeir fóru í gengislækkun í sept. í sumar. Þá var þetta sagt. Menn lífa ekki lengi á því að þetta skuli tekið til endurskoðunar. Þegar fallhamarinn er látinn falla með gengislækkun, sem þýðir það að öll innflutt vara, jafnt brýnustu nauðsynjar sem annað, hækkar strax í verði um 25%, þá er enginn vafi á því að hér er talsverð hætta á ferðum. Ég tel að nú hefði þurft að gera þær ráðstafanir í kjaramálum að reyna að ná samkomulagi við launþegasamtökin um að verðlagi yrði haldið niðri á brýnustu lífsnauðsynjum og að verð á ýmsum slíkum vörutegundum yrði beinlínis lækkað, þó að verðlag á öðrum varningi hækkaði samtímis. Það hefði t.d. verið mjög þýðingarmikið að létta söluskatti af öllum matvörum, söluskatturinn þar er orðinn 19%, eða a.m.k. að taka þar allflestar vörur út úr og létta söluskatti af þeim. Það hefði verið hægt að sjá um að ríkið hefði haft jafnmiklar tekjur af aukaskatti á innfluttar vörur af öðrum tegundum, sem ekki eru jafnbrýnar nauðsynjavörur. Ég álít að ráðstafanir af þessu tagi hefðu skapað möguleika til þess að ná samkomulagi um kyrrð á vinnumarkaðinum. Það hefði líka, eins og ég benti á áður, mátt lækka verslunarálagningu sem næmi afleiðingum af lækkun á vöxtum, því að hinir háu vextir hvíla með miklum þunga á versluninni í landinu. Ég benti á það hér áður að verslunin í landinu skuldar samkv. opinberum reikningum í bönkum landsins 9 þús. millj. kr. Ég vil biðja fréttamann Morgunblaðsins að skrifa nú rétta tölu því að hann hefur ekki trúað þessu þegar ég sagði það síðast, hann skrifaði bara 900 millj. kr. En honum er alveg óhætt að trúa því að verslunin í landinu skuldar samkv. skýrslum bankanna, í ríkisbönkunum 9 þús. millj. kr. Og ég er ekki fyrst og fremst að segja þetta vegna þess að ég óskapaðist yfir tölunni en vil benda á það að veruleg hækkun á vöxtum bitnar með miklum þunga á versluninni og verslunin hefur fengið leyfi til þess að velta slíkri vaxtabyrði af sér út í verðlagið. Því á óneitanlega að skila aftur í lækkuðu verðlagi ef vextirnir verða lækkaðir.

Ég tel líka að við núv. kringumstæður eigi að framkvæma það, sem fyrrv. ríkisstj. lagði til í sínu frv. en náði ekki fram, og reyndar sú stjórnarandstaða, sem þá var og nú er komin til valda í landinu að verulegu leyti, Sjálfstfl., talaði um sem sína stefnu, að nú eigi að taka upp að færa niður hin háu ríkisútgjöld, t.d. um 1500 eða 2000 millj., og þá tek ég fram að ég álít að þessi niðurfærsla þurfi að vera á öðrum en beinum nauðsynlegum framkvæmdum. (Gripið fram í.) Rekstrarkostnaðurinn hækkaði gífurlega, eins og hv. þm. hlýtur að muna frá afgreiðslu fjárlaga þegar rekstrarútgjöldin hækkuðu um 67% hjá ríkinu á milli ára. En ef ríkið tæki á þennan hátt þátt í sparnaði væri vitanlega hægt að nota þessa fjármuni í almennar dýrtíðarráðstafanir.

En það er auðvitað ekkert nýtt, það gerðist bæði þegar ég var í ríkisstj. og gerist ábyggilega nú, að það verða til ýmsir menn sem styðja ríkisstj. sem sjá ekki mikla möguleika á því að færa niður útgjöldin hjá ríkinu, þótt þeir sjái alltaf leiðir til þess að færa niður útgjöld hjá mörgum öðrum. En ég er eigi að síður á þeirri skoðun að þetta sé hægt og það þurfi að gera þetta og það sé engin von til þess að menn nái fram þessum sparnaði hjá almenningi í landinu ef ríkið leggur ekki þarna almyndarlaga upphæð fram. Það má svo einnig athuga um það í versta tilfelli, ef menn eru hræddir um afkomu ríkissjóðs, að það eru til ýmsar aðrar leiðir til þess að drýgja tekjur ríkisins heldur en að ríkið byggi á þeim tekjum sem það byggir á í dag. Það er enginn vafi á því að það fer talsvert af hinum háa söluskatti fram hjá ríkissjóði, skilast aldrei þangað. Það ætti að efla eftirlit og drýgja söluskattstekjurnar, sem koma beint í ríkissjóð, með skarpara eftirliti. Að mínum dómi mætti einnig hækka tekjuskatt af hæstu tekjum í landinu frá því sem nú er, a.m.k. tímabundið á meðan við glímum við þá erfiðleika sem við er að glíma nú. Og það er auðvitað gefið mál að allur samkomulagsgrundvöllur við launþegasamtökin í landinu verður að hvíla á því, að um það sé samið að halda uppi fullri atvinnu og alveg fullri nýtingu þeirra framleiðslutækja sem við eigum. En þá verður líka að vera full alvara á bak við það að standa við slíkt, því að menn eru orðnir býsna þreyttir á almennum yfirlýsingum, sem nú koma t.d. frá þessari hæstv. ríkisstj. í sífellu, um það að hún ætli að sjá um að byrðunum verði réttlátlega skipt og allt sé þetta miðað við fulla atvinnu o.s.frv. En það er auðvitað enginn vafi á því, eins og þessar till. allar birtast, að þessum byrðum er ekki réttlátlega skipt, þó að menn tali um það, og það eru engar líkur til þess að þessar till. tryggi að það verði full atvinna hér um allt land.

Ég vil aðeins bæta því við það sem ég sagði áður, til vonar og vara, að ég efast ekkert um að ég fæ að heyra það nú eins og stundum áður að ég vilji ekki horfast í augu við þann vanda sem við sé að glíma hjá atvinnuvegum okkar, hjá sjávarútveginum, ég sé of smátækur í því hvernig eigi að leysa þann vanda. Aðrir geta að sjálfsögðu státað af því að þeir leggi fram hærri fjárhæðir, það er rétt. En ég er sannfærður um það, að ef þetta væri framkvæmt sem ég hef bent hér á, þá kæmi það útgerðarrekstrinum í landinu að meira gagni en gengislækkunarkollsteypa sem er búin eftir örfáa mánuði.

Hvernig skyldi standa á því að útgerðin skuli ekki búa við ágætan hag í dag að hún skuli bera sig eins og hún gerir, eins og hún segir í sínum skýrslum, sem ég tek með miklum fyrirvara nú eins og áður? Hvernig skyldi standa á því eftir allar þær gengisbreytingar sem ég hef minnst hér á og er staðreynd að hafa átt sér stað? Það er vegna þess að gengislækkanirnar éta sig upp sjálfar á tiltölulega skömmum tíma. Hér þarf að leita annarra ráða.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt, að m.a. vegna stórversnandi viðskiptakjara þjóðarinnar, — það er staðreynd að margar innfluttar vörur til landsins hafa hækkað gífurlega í verði og veldur okkur auðvitað stórkostlega auknum útgjöldum, — ég get tekið undir það með mönnum að það á að reyna að gera ráðstafanir til þess að við spörum notkun á þessum vörum eins og mögulegt er. Ég vil t.d. styðja allar till. sem væru í þá átt að við, sem munum vera ein allra mesta sykurneysluþjóð í heiminum, minnkuðum svolítið sykurátið eftir að sykurinn hefur hækkað jafngífurlega í verði og raun er á. Ég tel líka að við getum komið fram sparnaði í brennsluolíunotkun, bensínnotkun og olíunotkun og það á að gera ráðstafanir í þessa átt. Og það er ábyggilega hægt að skapa allbreiða samstöðu um það. En ég dreg mjög í efa að það verði mikill árangur af gengislækkunarleiðinni í þessum efnum. Auðvitað á bensínlítrinn, sem er kominn upp í 51 kr. að hækka um 5–6 kr. Þegar þessi gengislækkun er gengin yfir. En þegar allar aðrar innfluttar vörur hækka um 25%, hvað margir draga þá við sig notkun á þessari vöru? Ég held að gengislækkunarleiðin sé ekki sú leið sem við eigum að fara fyrr en í síðustu lög.

Svo vil ég aðeins bæta þessu við: Ég tel að það sé á því mikil nauðsyn, að allir hv. alþm. og sem allra flestir í þjóðfélaginu leggi það á sig að kynna sér vel þær skýrslur sem fyrir liggja, m.a. frá Þjóðhagsstofnuninni, án þess þó að taka þegjandi við öllu því sem þar stendur, að þeir reyni að skapa sér eðlilega skoðun á því, sem fyrir liggur hafandi í huga að þessi stofnun, sem hefur á að skipa ágætum starfsmönnum á margan hátt, hefur hvað eftir annað lagt fyrir okkur skýrslur með stuttu millibili og orðið að játa að fyrri skýrslur fengju ekki staðist. Og það er rangt, sem hér hefur verið sagt, að það hafi gerst einhver snögg breyting nú nýlega, bæði í innflutningsverði og útflutningsverði. Þannig er þessu ekki varið. Það er rétt að sá vandi, sem menn áttu að vita um og vissu um að meira eða minna leyti að lá fyrir í septembermánuði, hefur verið að koma enn betur í dagsljósíð nú en áður, og svo hefur það verið að sannast í reyndinni að gengislækkunin, sem ákveðin var 2. sept., hefur komið að harla litlum notum. Sem sagt, skýrslurnar sem við fengum í sept., þegar átti að leysa allt með gengislækkun, voru rangar. Skýrslurnar, sem við fengum dagana fyrir jólin, þegar við vorum að afgr. fjárlögin, reyndust rangar. Því er sanngjarnt að við tökum þær skýrslur, sem nú eru lagðar fyrir, og skoðum þær og fellum okkar eigin dóm yfir þeim eftir að við höfum athugað þær í kyrrð og næði. Ég a.m.k. áskil mér alveg fyllilega rétt til þess að hafa mínar skoðanir á þessum málum, hvað svo sem sett verður í þessar skýrslur.

Að lokum vildi ég segja það, að við í Alþb. viðurkennum að það er við margvísleg vandamál að glíma í efnahagsmálum okkar. Það er alvarlegt ástand sem við stöndum frammi fyrir varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn. Þar þarf að beita hömlum sem duga. Við þurfum að tryggja að framleiðslutæki okkar verði öll notuð og nýtt til fulls, og útflutningsatvinnugreinar okkar verða að bera sig og geta staðið undir sæmilegum lífskjörum þeirra sem við framleiðsluna vinna. við viljum taka þátt í að reyna að leysa þennan vanda og halda hér uppi fullri atvinnu. En við viljum leita allra ráða annarra en gengislækkunar og teljum það hið mesta óvit að ætla að æða út í eina gengislækkunina af annarri og það jafnvel án þess að huga að því alvarlega ástandi sem er nú á okkar vinnumarkaði í sambandi við stöðuna í kjaramálum. Það þarf ekki mikið að koma þar við til þess að þar verði alvarleg stöðvun. En slíkri stöðvun fylgir auðvitað stórminnkandi framleiðsla í þjóðarbúinu.

Ég ítreka það svo að við Alþb.- menn erum andvígir þessari gengislækkun, en erum enn sem fyrr reiðubúnir til samstarfs við stjórnvöld um að leita annarra ráða til þess að ná þeim meginmarkmiðum sem ég hef verið að lýsa.