12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég satt að segja ætlaði ekki að koma hér upp í ræðustól í kvöld til að halda uppi vörn fyrir hæstv. ríkisstj., heldur frekar til að finna að við hana. En þar sem fyrri ræðumenn hér í kvöld hafa nokkuð haft á orði fyrri ríkisstj. og að mér finnst heldur ódrengilega vegið að núv. ríkisstj., þá get ég ekki varist því að hafa nokkur orð þar um.

Það mátti að sjálfsögðu heyra á hv. síðasta ræðumanni að hann hefur, eins og ég á framundan; verið til lækninga að undanförnu og bítur fast saman tönnum, þótt gleymst hafi að setja í hann hljóðkútinn eins og við óskuðum eftir hér í þingdeild, En skrýtið er það þegar þessi þm., sem var einn aðal- og snarpasti stuðningsmaður fyrri ríkisstj., fer að tala um að skvetta olíu á eld og bera saman tvær gengislækkanir. Fyrri gengislækkunin, sem núv. ríkisstj. hefur staðið að, var til þess að betrumbæta það ástand sem þá hafði skapast, m.a. vegna aðgerða þessa hv. þm. Það, sem nú er verið að gera, er að koma á móti hinu stórversnandi viðskiptaástandi sem Ísland á í við aðrar þjóðir, minnkandi afla, lækkandi verðlagi og öðru þess háttar, sem ég þykist ekki þurfa að hafa frekari orð um við jafnskynsaman bolvíking og þann sem hér talaði áðan. Hitt skal viðumkennt, að ég hef til skamms tíma talið að leið þessi, gengislækkunarleiðin, væri hin versta leið sem farin væri. Það var ekki fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, að lagðar voru fyrir okkur þm. staðreyndir þessa alvarlega máls og ég gat ekki annað en viðurkennt að við verðum að fara, a.m.k. að hluta, þessa leið. En ég er hins vegar ekki enn sammála ríkisstj. um það að við þurfum að stíga svona stórt spor, heldur eigum við þrátt fyrir þau orð, sem hv. form. þingfl. Alþfl. lét hér falla í kvöld, að fara blandaða leið, og reyndar mun það vera skoðun hv. form. Alþb. líka, eftir því hvernig skilja má hann hverju sinni sem hann talar. Hann er einn þeirra manna sem geta talað með tungum tveim hvenær sem hann kemur hér upp í ræðustól. En þar á ég að sjálfsögðu við hv. þm. Lúðvík Jósepsson, og hefur þó líklega sjaldan verið skynsamlegri ræða af honum flutt en einmitt nú í kvöld. Hann bent á hin mörgu stóru vandamál sem sjávarútvegurinn á við að stríða um þessar mundir og reyndar fleiri aðilar.

Það sem bæði ég og aðrir, sem hér hafa talað í kvöld, verða að benda á í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir, um leið og nauðsyn aðgerða er viðurkennd, er sú staðreynd að ekki liggur enn þá fyrir neitt um það hvað á að koma til hliðar með þessu frv. Hvernig á að koma á móti fátæka fólkinu í landinu? Hvernig á að koma á móti hinum sjúku, öldruðu og öryrkjum? Hvernig eigum við að koma einu sinni enn á móti þeim mönnum, sem mest hefur verið gengið á, sjómannastéttinni? Það hefur ekkert legið fyrir um það nú í dag í sambandi við þetta frv. Á að vega enn í sama knérunn og gert var í haust? Ég segi nei, það mun aldrei ganga. Og þegar talað er um að ná samstöðu og samningum við íslenska launþegahreyfingu, þá er það fyrsta stigið til þess að það muni ekki nást, ef svo verður gert. Hins vegar segi ég ekki að ef hæstv. ríkisstj. býður upp á samninga við sjómannastéttina um þetta mjög erfiða atriði, sem er þeirra helgi réttur, sem er samningurinn við gagnaðilann, þótt gagnaðilinn; útgerðarmennirnir vilji hverju sinni komast fram hjá þessu samningsatriði sínu þegar þeir geta og þá með hjálp löggjafans, að ef hægt verður að semja um þetta, þá tel ég vel farið. En það kostar líka samninga, það kostar tilboð og það verða engir samningar gerðir nema tilboð liggi fyrir. Það þekkja allir sem til samninga ganga. Auk þess, um leið og þeir verða e.t.v. að gefa eitthvað eftir, þá hlýtur það að verða grundvallarkrafa þeirra að það verði einhverjir aðrir sem gefa eftir líka og kannske þá fyrst og fremst þeir sem hafa alltaf sífelldan hagnað af því að gengisfelling er framkvæmd. Er það tryggt í væntanlegum ráðstöfunum ríkisstj? Ég spyr.

Við lásum í blöðum í gær að landbúnaðurinn kvartar nú yfir því að áburðarverð hækki um á annan milljarð. Við vitum að það mun koma inn í búvöruverð. Ef við ættum að leysa þann vanda er þeir kvarta um, að þeir fái ekki fé til niðurgreiðslu, ef við ættum að leysa þann vanda á sama hátt og lagt hefur verið til og gert við sjómenn á undanförnum árum, þá ættu bændur sjálfir að leggja saman og borga þetta niður. Það er hin rétta leið fyrir þá. Auðvitað geta launþegar ekki og munu ekki þola að hún fari óbreytt út í búvöruverð, sú verðlagshækkun sem nú mun dynja yfir ásamt öðrum verðhækkunum eða enn ein óðaverðbólguholskeflan. Það er það, sem ég hef haft á móti í sambandi við gengisfellingu. En við þetta verðum við að horfast í augu, og það kemur auðvitað fyrst og fremst niður á launþegum þessa lands.

Hitt er líka rétt, sem fram hefur komið hjá málsvörum ríkisstj., að gengisfellingin mun fyrst ná tilgangi sínum í því að við munum fá áfram afgreiðslu á bensíni og olíu erlendis og neysluvörum til þjóðarinnar, en eins og er verðum við að telja okkur gjaldþrota. Það er ekki eingöngu vegna versnandi viðskiptakjara á síðustu 5 mánuðum heldur þeirrar þróunar sem skapaðist í tíð fyrrv. ríkisstj. Það verður hv. bolvíkingur að viðurkenna líka.

Það er auðvitað hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að það er ekki nóg að tala um það að við náum flotanum frá bryggju, sem ég þó efast að náist, miðað við núverandi aðstæður, nema samningum verði náð við sjómenn og reyndar fleiri aðila og þá kannske fiskverkunarfólk um leið. Við verðum að fá hreinar og skýrar yfirlýsingar um að það kerfi, sem nú gildir fyrir flotann, verði skorið upp, vátryggingakerfið, þar sem sterkur grunur leikur á um að viðgerðir og viðhald að þó nokkuð miklu leyti falli undir, í stað hreinna trygginga við slys og annað þess háttar, það sé borgað þar í gegnum. Þetta kerfi verður að breytast. Sjálfsábyrgð útgerðarmanna verður að vera miklu meiri en er í dag. Sama gildir auðvitað um olíukostnaðinn, þegar útgerðarmaður eða skipstjóri þarf að borga tæpar 6 kr. fyrir olíulítrann; sem á raunverulega að kosta nær 17 kr., getur kannske sparað 3–4 lítra á því að spara sér of mikla keyrslu á síðustu einni til tveim mílunum. Það verður að veita þeim nokkurt aðhald í því að þeir misnoti þetta ekki.

Svona er auðvitað um allar opinberar greiðslur og uppbætur sem við búum við, að við eigum alltaf von á misnotkun á þessu sviði og við verðum að veita mönnunum sjálfum meira aðhald en nú er í sambandi við a.m.k. þessi tvö atriði og reyndar mörg fleiri. Þetta kannske stangast á hjá mér í sambandi við tryggingarnar á skipunum sjálfum, vegna þess að ég hef oft gert ítrekaðar kröfur til þess að tryggingar verði borgaðar hins vegar úr sameiginlegum sjóði eða af hinu opinbera þegar mannslíf eru annars vegar, og ég tel það síst þýðingarminna en þegar skipsskrokkurinn á í hlut. Þess vegna held ég mig enn þá við þá skoðun mína.

Síðustu ræðumenn hafa mörg orð haft um það að þessi ríkisstj. hafi nú aftur gripið til gengislækkunar. Og ég segi: því miður hefur hún gripið til þess. Ég hef tekið það fram líka, að ég tel þó skömminni skárra að fara þá leið en þá sem lá fyrir í þeim till. sem þingflokkarnir fengu að sjá áður en þessi leið var valin, þótt ég hins vegar haldi að ráðh. hafi jafnvel verið búnir að velja þessa leið áður en til þess kom að við fengum þar um að fjalla. Samt sem áður vil ég beina því til núv. hæstv. ríkisstj. að hún athugi vel sinn gang í sambandi við álagningu beinna skatta á þjóðina samfara þessum ósköpum sem nú er verið að gera. Og jafnvel þótt við yrðum að byggja eitt frystihús og aðra verksmiðju í Neskaupstað, þá skulum við ekki vera að leggja á varanlegan skatt.

Hví má ekki ríkisstj. hlusta á till., sem kom fram í síðustu ríkisstj. frá þáv. hæstv. forsrh., að taka upp skyldusparnað? Hví var ekki hægt á síðasta hausti að verja þá kaup almennings með því að leggja á skyldusparnað? Það átti ekki að taka hann af öllum aðilum þjóðfélagsins. Það mátti byrja nokkru fyrir ofan láglaunauppbætur og taka svo hlutfallslega vaxandi upp í hæstu tekjur. Þá hef ég grun um að við hefðum ekki lent í því kaupæði sem við lentum í á síðustu mánuðum. Og ég bendi enn á þessa leið til þess að losna við beina skatta. Við erum þá ekki að leggja skatt á fólkið, en það lánar þjóðfélaginu í heild þessa peninga meðan við erum að komast út úr ríkjandi örðugleikum. Ef við trúum ekki á að við komumst út úr þessum örðugleikum á næstu missirum, þá skulum við undirbúa það að við fellum gengið að nýju eftir 9–11 mánuði. En ég hef þá trú að fiskverðið muni hækka á erlendum markaði á næstu missirum þótt engin batavon sé í dag, en þangað til það verður skulum við helst skulda þjóðinni. Mín till. til hæstv, forsrh. var fyrir nokkrum dögum að við gerðum það á þann hátt að við lánuðum verðjöfnunarsjóðum: sjávarútvegsins þetta fé og þá auðvitað með litlum vöxtum, en hins vegar gæti ríkissjóður þá hlaupið undir að nokkru leyti, en þegar svo verðhækkun yrði erlendis byrjuðu verðjöfnunarsjóðirnir að borga almenningi þessa fjárhæð. Ég sé ekkert að því að fara þessa leið í stað beinnar skattheimtu, og ég tel hana ólíkt geðslegri leið en að fara í stórfellda gengisfellingu sem þýðir almenna verðhækkun, óðaverðbólgu í þjóðfélaginu, nema þar verði komið mjög hart á móti, sem við eigum eftir að sjá í till. ríkisstj.

Ég hef fyrir hönd þeirra samtaka, sem ég starfa í utan þings, sjómannasamtaka, sent ríkisstj. ákveðna till., án þess að við höfum nokkuð vikið til baka um þær kröfur sem sjómannasamtökin hafa gert, og ég veit að þau standa við það boð, sem þau hafa líka látið þar fram koma um að reyna að leita efnislegrar lausnar á þeim vanda sem við búum við, um leið og þau bentu á ákveðnar leiðir. Ég skal fúslega viðurkenna að þær ábendingar koma ekki nema að litlu leyti á móti þeim vanda, sem síðar hefur komið í ljós að er fyrir hendi. En hæstv. forsrh. hefur boðið það að hann vilji heils hugar rétta fram höndina á móti þeim atvinnustéttum, sem nú búa við það að vera með lausa samninga og verða þyngst fyrir barðinu á þeim aðgerðum, sem nú er verið að gera, og hafa orðið. Og vegna þess að þeir tveir ráðh., sem ég hef mesta trú á, hafa með þetta gera, hann og sjútvrh., þá vænti ég þess að við fáum að sjá innan skamms eitthvað af þessum till. þeirra og reyndar annarra ráðh. líka, sem eiga að fjalla um vandamálið í heild og koma með till. til lausnar hinum ýmiss konar vanda sem skapast af gengisfellingunni sjálfri. Það eru ekki aðeins þessir tveir ráðh., heldur og öll ríkisstj. sem auðvitað verður að vera sammála þar um.

Ég sagði það í byrjun að ég harmaði að þessi leið hefði verið farin, þótt ég viðurkenni að það hefði þurft að fara hana að nokkru. En ég segi enn: við skulum ekki fara svona djúpt í þetta, við skulum reyna að leysa þetta með samhliða aðgerðum,. Við skulum reyna að taka þetta inn með sparnaði þjóðarinnar, með öðrum aðgerðum og með því, sem ég tel mikilverðast og hér var bent á af hv. þm. Austf., Lúðvík Jósepssyni, að skera á hjá útgerðinni, því að útgerðarmenn eru ekki heilagar kýr í þessu þjóðfélagi frekar en íslensk bændastétt, — og hafðu það, Sverrir Hermannsson!