12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vek athygli þingheims á því að sá maður, sem lauk hér máli sínu með þeim orðum: „Og hafðu það, Sverrir Hermannsson,“ — sá maður sem lýsti ástandinu þannig, að hann teldi þjóðina nú gjaldþrota eftir setu núv. ríkisstj., — sá maður sem sagði: „Ég veit ekki meir,“ — sá maður sem spurði: ,,Hvað um verkalýðshreyfinguna?“ — sá maður sem sagði: „Hvaða ósköp eru að gerast?“ — sá maður sem sagðist mótmæla þeim fyrirætlunum ríkisstj. að leggja á nýja skatta, — sá maður sem sagði: „Afleiðingarnar af þeim aðgerðum, sem nú er verið að tilkynna, eru óðaverðbólga í þjóðfélaginu,“ — þessi maður, hv. 8. þm. Reykv., er þm. kjörinn hingað á Alþ. af Sjálfstæðisfl. Þetta er dæmi um þá upplausn sem nú ríkir í stjórnarherbúðunum. Þetta er dæmi um það ósamkomulag sem nú ríkir milli stjórnarflokkanna. Þetta er dæmi um það að jafnvel stuðningsmenn ríkisstj., sem fylgja verkalýðshreyfingunni að málum, gera sér nú ljóst hvað er að gerast. Þetta er dæmi um skoðanir Péturs Sigurðssonar, „og hafðu það, Sverrir Hermannsson.“

Þetta er í annað skiptið á tæpum 5 mánuðum sem núv. ríkisstj. leggur til alvarlegrar atlögu við lífskjör almennings í þessu landi. Þetta er í annað skiptið á innan við hálfu ári sem til gengisfellingar er gripið. Og hvaða tími er valinn til þess að grípa til þessara ráðstafana? Það er valinn sá tími þegar verkalýðshreyfingin stendur í samningaviðræðum við hæstv. ríkisstj. til þess að reyna að rétta hlut sinn frá síðustu árásum hæstv. ríkisstj. á almenning og launþega í þessu landi. Við eigum að baki ár með 50% verðbólgu. Við eigum að baki ár með 36% kjaraskerðingu. Verkalýðshreyfingin hefur komið að máli við ríkisstj. og viljað semja við hana um einhverjar bætur fyrir þessa árás ríkisstj. Verkalýðshreyfingin hefur boðið hæstv. ríkisstj. samstöðu, hún hefur boðið henni samkomulag, hún hefur rétt fram hönd sína á móti hæstv. ríkisstj. til þess að reyna að ná einhverju samkomulagi við hana um aðgerðir. Stjórnarandstaðan hefur gert það líka. Fyrir tveimur dögum var tilkynnt hér á Alþ., að stjórnarandstaðan væri reiðubúin til samningaviðræðna við ríkisstj. um hvernig eigi að leysa málið. En hvert er það svar sem hæstv. ríkisstj. gefur í kvöld? Það er hnefahögg í andlit verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Það er hnefahögg í andlit stjórnarandstöðunnar. Það er tilkynning um enn eina nýja árás á lífskjör almennings í þessu landi. Hún hefur tilboð stjórnarandstöðunnar að engu. Hún hefur tilboð verkalýðshreyfingarinnar að engu. Hún svarar með hnefahöggi í garð almennings í landinu. Það er hennar svar við tilboði verkalýðshreyfingarinnar, við tilboði stjórnarandstöðunnar um að reyna að taka þessi mál til sameiginlegrar úrlausnar með hæstv. ríkisstj.

Allt frá því, að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð hafa ráðh. hennar og aðrir málsvarar haft þungar áhyggjur af afkomu atvinnuveganna í þessu landi, afkomu forstjóranna, afkomu fyrirtækjanna. En það hefur verið minni áhyggjur að merkja á hæstv. ríkisstj. og málsvörum hennar fyrir afkomu heimila launþega í landinu. Morgunblaðið hefur ekki talað um það, Morgunblaðið hefur ekki haft áhyggjur af afkomu launþegafjörskyldnanna, Morgunblaðið hefur ekki haft áhyggjur af afkomu verkafólks, sjómanna og annarra launþegafjölskyldna. Nei, það hefur rætt um afkomu atvinnuveganna, um vanda fyrirtækjanna, um vandamál forstjóranna.

ríkisstj. í þessu landi hefur hafið til valda nýja stétt, stétt forstjóranna, stétt fjármagnseigendanna. Þar ná Framsfl. og Sjálfstfl. saman. En þeir hafa gleymt annarri stétt manna. Þeir hafa gleymt öldruðum, þeir hafa gleymt öryrkjum, þeir hafa gleymt sjúkum, þeir hafa gleymt láglaunafólki, á sama tíma og þeir hafa staðið að yfir 50% verðbólgu á einu ári, yfir 36% kjararýrnun á einu ári. Þegar verkalýðshreyfingin réttir fram hönd sína og býður samstarf um að leita að lausn vandans, þá svarar ríkisstj. tveimur dögum síðar með nýrri áskorun, með nýrri ögrun, með nýrri árás á þessar stéttir.

Það hefur verið tekið hér fram, m.a. af hv. 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, sem kjörinn var á Alþ. fyrir Sjálfstfl. í síðustu kosningum, að þessi ríkisstj. hafi enga heildarstefnu mótað. Hún hefur starfað meira en hálft ár, en allan þann tíma hafa aðgerðir hennar einkennst af smáskammtalækningum. Hæstv. ráðh. sem hér sitja — og er bara einn eftir nú — eru skottulæknar í íslenskum efnahagsmálum.

Það er mikið rætt um það af hæstv. ríkisstj. að atvinnureksturinn á Íslandi, fyrirtækin, forstjórarnir, þeir séu sjúkir. Hæstv. ríkisstj. lítur á sig sem einkahjúkrunarkonu þessara forréttindastétta. Og hvernig á að koma sjúklingnum til heilsu? Það á að beita bíldnum, beita skurðarhnífnum á blóðæðar almennings í landinu. Það er búið að gera það í hálft ár og það er verið að gera það enn. Það á að taka almenningi blóð til þess að veita því blóði inn í sjúkar æðar atvinnurekstrarins í landinu sem ríkisstj. segir nú að hangi á heljarþröminni. Bíldurinn skal brýndur, kutinn skal skerptur, almenningur skal skorinn. Það er ekki furða þó að Morgunblaðið æpi daglega: skera, skera, niður, niður, hausa, eins og slátrari á blóðvelli, Og hverja á að skera, skera? Hverjir skulu niður, niður? Hverja skal hausa, hausa? Það er almenningur í landinu. Það eru launþegarnir. Þetta er hróp Morgunblaðsins.

Það á að skera af launþegum í landinu allar þær kjarabætur sem þeir hafa unnið sér á umliðnum árum. Það á að skera sjúkrasjóðina, það á að skera atvinnuleysistryggingarnar, það á að skera af launþegum í landinu allar félagslegar réttarbætur sem þeir hafa unnið sér á umliðnum árum. Sá er boðskapur Morgunblaðsins.

Það er von að hæstv. ríkisstj. hvessi nú bíldinn einu sinni enn. Þeir hæstv. ráðh., sem í dag hafa tekið ákvörðun um að gera enn nýja atlögu að almenningi í landinu, gera sér það e.t.v. ekki ljóst, — og hlusta þú nú, Sverrir Hermannsson, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði hér áðan, — að láglaunafólkið í landinu hefur 34 þús. kr. í laun fyrir dagvinnu. Samkv. útreikningum um hvað venjuleg meðalfjölskylda á Íslandi þarf að hafa til að framfleyta sér þarf sú fjölskylda að hafa 75 þús. kr. Og ég spyr hæstv. ríkisstj.: Hvar á verkafólkið, sem nú er verið að segja upp í Keflavík, að ná þessum 40 þús. sem það vantar til þess að lifa mannsæmandi lífi? Hvar á fátækt iðnverkafólk í Reykjavik að ná þessum 40 þús., sem það vantar til að lifa mannsæmandi lifi? Ég spurði um þetta í sjónvarpsþætti fyrir viku. Þá spurði ég hæstv. sjútvrh.: „Það hefur verið tilkynnt af atvinnurekendum í Keflavík að nú stæðu yfir uppsagnir á öllu láglaunafólki sem starfaði við fiskiðjuver í Keflavík. Hvað ætlar þú að gera? Hverju ætlar þú að svara þessu fólki?“ spurði ég hæstv. sjútvrh. Og hvert er svarið? 20% gengislækkun. Það er svarið, sem fiskverkafólkið í Keflavík fær frá hæstv. sjútvrh. og hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. Það var svarið sem hæstv. ríkisstj. gaf. Það var svarið sem hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson,fékk áðan og gerði það að verkum að hann er hlaupinn úr þingsalnum. Það er svarið sem þessi hv. þm. gat ekki lengur undir setið og flýði því af þingi.

Okkur hefur verið sagt að afkoma sjávarútvegsins væri slöpp, fyrirtækin, forstjórarnir í sjávarútvegi væru að leggja upp laupana. Það hafa verið gerðir meðaltalsútreikningar á þessu sem eiga að sýna að allt sé í kaldakoli í sjávarútveginum, einasta leiðin sé sú að taka enn nýjan skatt af launþegum þessa lands og flytja hann yfir til fyrirtækja og forstjóra í sjávarútvegi.

Ég og Alþfl. neitum að viðurkenna þessar niðurstöður. Við neitum að fallast á að þær séu réttar. Hvers vegna neitum við því? Vegna þess einfaldlega að við vitum það, eins og almenningur í landinu veit það, að þetta eru ekki réttar tölur. Það má vel vera að út af fyrir sig sé þetta rétt niðurstaða þegar reiknað er út frá þeim forsendum, sem gefnar eru. En við vitum það, t.d. vestfirðingar, að afkoma útgerðarfyrirtækja og fiskvinnslustöðva á Vestfjörðum er ekki svona. Vestfirðingar kunna að reka útgerðarfyrirtæki. Þeir sýna ekki svona afkomu. Og við neitum að trúa því, við neitum að samþykkja það og við neitum að styðja það að alþýða landsins sé skattlögð fyrir forstjóra og framkvæmdastjóra sem ekki kunna að reka sín fyrirtæki. Ég neita því að það sé lagður skattur á launþega til þess að tryggja hallalausan rekstur útgerðarfyrirtækis, sem rekur bíl og bifreið útgerðareigandans. Ég neita því að alþýða Íslands og launþegar á Íslandi séu skattlagðir til þess að mæta hallarekstri útgerðar sem rekur eiginkonu forstjórans. Ég neita því að almenningur á Íslandi sé skattlagður til þess að mæta halla útgerðarfyrirtækis sem rekur börn forstjórans. Ég neita því að almenningur á Íslandi sé skattlagður til að mæta halla útgerðarfyrirtækis sem rekur heimili útgerðarforstjórans. Ég neita þessu. Þetta er spilling. Þarna þarf að skera upp.

Hæstv. ríkisstj. hefur hvesst sinn bíld. Hún hefur brýnt sinn kuta. Hún ætlar að leggja almenning í landinu á höggstokkinn. En ég segi við hæstv. ríkisstj.! „Legg þú þessi útgerðarfyrirtæki á þitt skurðarbretti. Skerðu burt þessa meinsemd, skerðu burt þetta krabbameinsæxli. Íslenskir launþegar ætla ekki að borga rekstrarkostnað af bifreið útgerðarforstjórans. Þeir ætla ekki að borga rekstrarkostnað af eiginkonu útgerðarforstjórans. Þeir ætla ekki að borga rekstrarkostnað af börnum útgerðarforstjórans. Og þeir ætla ekki heldur að borga rekstrarkostnað af því sem útgerðarforstjórinn og hans famelía borðar. (SvH: En útfararkostnaðinn?) Ekki heldur útfararkostnaðinn, Sverrir Hermannsson. Ef hv. þm. bregður við þetta og er farinn að hugsa til sinnar eigin útfarar ef ríkisstj. gerði slíka skurðaðgerð, þá skal ég taka það sérstaklega fram að ég ætlast ekki heldur til þess að alþýðan í landinu borgi útfararkostnaðinn.

Á fyrstu sjö dögum þessarar hæstv. ríkisstj. færði hún 7 þús. millj. kr. frá launþegum á Íslandi yfir til atvinnufyrirtækjanna, yfir til forstjóranna, yfir til forréttindastéttanna í þessu landi. Drottinn allsherjar, þegar hann skapaði heiminn, tók sér frí á 7. degi. En hæstv. ríkisstj. lét sér ekki nægja að starfa 6 daga að slíku verkefni, hún starfaði 7. daginn líka til þess að ná 1000 millj. kr. í viðbót af almenningi og flytja þær til forstjóranna. Nú eru nýir 7 dagar að renna upp. Nú á enn á ný að skera, gera uppskurð á alþýðu þessa lands. Nú á enn á ný að flytja stórfjármuni frá almenningi, frá almennum launþegum, yfir til fyrirtækjanna, yfir til forstjóranna sem þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð utan um. Þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð á atkvæðum fólksins um hagsmuni forstjóranna, og um þá ætlar hún að standa vörð nú, eins og fram hefur komið.

Það er oft sagt að þessi hæstv. ríkisstj. sé sterk stjórn. Það er sagt að hún eigi marga þm. Það er rétt. Hún á marga þm. Hún á t.d. þm. eins og hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sem hljóp út úr þessari hv.d. fyrir skömmu. Betra væri ef hún ætti fleiri slíka þm. En þó að hæstv. ríkisstj. eigi marga þm., þó að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að vera hrædd um meiri hl. sinn hér á Alþ., þá þarf hún kannske að vera hrædd um annað. Þá þarf hún kannske að vera hrædd við það, hvernig íslenskir sjómenn svara, íslensk verkalýðshreyfing, hvernig íslensk launþegasamtök svara því hnefahöggi, sem þau hafa fengíð í dag frá þessari hæstv. ríkisstj.

Það hefur engin heildarstefna enn verið mótuð í efnahagsmálunum af þeirri ríkisstj. sem enn situr. Óráðsían og sukkið er enn þá jafngegndarlaust og á tímum hæstv. síðustu ríkisstj. Það er enn sama sukkið, enn sama stjórnleysið. Ef ríkisstj. kann ekki að stjórna landinu, ef ríkisstj. hlustar ekki á rödd fólksins, þá ber alþm. skylda til að hlusta eftir þeim röddum. Fólkið krefst þess að landinu sé stjórnað í samráði við Alþ., en ekki látið reka á reiðanum, eins og gert hefur verið undanfarna mánuði og allur almenningur hefur undrast. Það krefst þess að ríkisstj., sem telur sig sterka stjórn, sýni það með því að stjórna landinu, en ekki halda áfram sömu óráðsíunni og sama sukkinu og fyrrv. stjórn hefur gert sig seka um.

Hvar ætti að byrja? Það er talað um það að nú þurfi að fara að skera niður. Í kjölfar þess að skera niður kaup, í kjölfar þess að skera niður kjör almennings í landinu, sjómanna, verkamanna, aldraðra, öryrkja og annars láglaunafólks, hyggst ríkisstj, nú skera niður þau fjárlög sem hún var að samþ. fyrir nokkrum vikum á hæstv. Alþ. Hún ber það á borð fyrir þingheim og þjóðina að þegar hún samþ. þessi fjárl. hafi hún ekki vitað hvað í vændum var. Hver trúir því? Hver trúir því, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki vitað það í lok desembermánaðar hvaða ástand mundi koma upp í þjóðarbúskapnum í byrjun janúarmánaðar eða í lok janúarmánaðar? Ég trúi því ekki, þm. trúa því ekki og þjóðin trúir því ekki. Það sem ríkisstj. var að gera í des. var að svindla fjárl. í gegnum Alþ. gegn betri vitund, og nú tilkynnir hún að nú eigi að skera fjárl. niður. Nú er hún þegar byrjuð á niðurskurðinum. Um leið og búið er að taka almenning af höggstokknum og niðurskurðarbrettinu á að leggja fjárl. þar á. Og hvað á að skera niður? Að sjálfsögðu aðeins eitt. Það á að skera niður þær framkvæmdir sem gagnast landsmönnum. Það á að draga áfram úr framkvæmdum sem eitthvað skilja eftir sig fyrir landsfólkið, eins og gert var við afgreiðslu fjárl. síðast. En það á ekki að skera það niður sem ríkisstj. skar ekki niður í fjárlagaafgreiðslunni í lok desembermánaðar, það á ekki að skera niður eyðsluútgjöld ríkissjóðs sem ekkert skilja eftir sig fyrir almenning í landinu. Það á ekki að skera niður sukkið og óráðsíuna. Það á ekki að koma í veg fyrir að 3 hv. þm, hlaupi burt af Alþ. á ríkisins kostnað til að sækja ómerkilega ráðstefnu úti í heimi, eins og gert hefur verið nú undanfarnar vikur. Það á ekki að koma í veg fyrir svona sukk. Nei, það á að ráðast að framkvæmdunum sem eitthvað skilja eftir sig fyrir fólkið í landinu og þar á að skera niður.

Ég segi, og ég held að margir taki undir það með mér: Nú er nóg komið. Hafi ríkisstj. ekki þroska til að ganga á undan og gera eins og form. Alþfl. lýsti yfir: spara, spara og aftur spara, ekki í framkvæmdum, heldur í sukki og óhófi, þá ber Alþ. að taka frumkvæðið úr höndum hennar, þá ber okkur þm. að sjá svo til að almenningur í landinu hafi okkur ekki að skotspæni fyrir okkar eigin eyðslu, fyrir okkar eigin útgjöld af almannafé. Þá eigum við að taka frumkvæðið, ganga til móts við fólkið sem við erum að biðja um að spari, og sýna í verki vilja okkar til þess með því að spara sjálfir.