12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls við þessa 1. umr., en ástæðan til þess að ég er kominn hér er sú, að ég hef verið að bíða í kvöld eftir sérstakri ræðu. Ég hef verið að bíða eftir því að hæstv. viðskrh. talaði við 1. umr. þessa frv. Þetta er frv. sem snertir hann alveg sérstaklega. Hæstv. ráðh. fer með viðskiptamál, hann fer einnig með yfirstjórn bankamála, yfirstjórn þess banka sem lagði til í dag að gengið yrði lækkað um 20%. Hann fer einnig með yfirstjórn gjaldeyrissjóðsins. Mér finnst að þessi hæstv. ráðh. geti ekki undan því komist að koma hér í ræðustól við 1. umr, þessa máls og gera grein fyrir ástæðunum fyrir því að hann stendur að þeim aðgerðum sem ákveðnar hafa verið hér í dag, og það er raunar enn þá meiri ástæða til að hann geri það vegna þess að hann er form. Framsfl., annars flokksins sem stendur að þessari ríkisstj., og það er á vitorði allrar þjóðarinnar, að um það hefur orðið mjög hörð deila milli þessara tveggja stjórnarflokka hvernig ætti að leysa þau vandamál sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það liggur fyrir í dag að Framsfl. hefur verið svínbeygður undir stefnu Sjálfstfl. í þessu máli. Þess vegna finnst mér að bæði við alþm. og þjóðin öll eigi heimtingu á því að heyra hæstv. viðskrh., form. Framsfl., gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls og til þeirrar þróunar sem leitt hefur til þessara málaloka núna.

Hæstv. viðskrh. hefur sannarlega átt hlut að þessu máli alla tíð síðan núv. ríkisstj var mynduð. Það voru gerðar ráðstafanir í sept. sem áttu að hafa heillavænleg áhrif á þróunina, bæði koma í veg fyrir verðbólgu og koma í veg fyrir að gjaldeyrissjóður okkar hyrfi að fullu og öllu, eins og spáð hafði verið. Það var á ábyrgð þessa hæstv. ráðh., form. Framsfl., að reyna að sjá til þess að gjaldeyriseign okkar yrði ekki sólundað. Þetta gerðist samt mánuð eftir mánuð eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Það gerðist í sept., okt., nóv. og des. Þessa tvo síðustu mánuði ársins var hér meira kaupæði en nokkru sinni hefur verið á Íslandi vegna þess að þjóðin var öll í óvissu um framtíðina og menn töldu að þeir yrðu að koma fjármunum sínum í eitthvert verðmæti sem hefði varanlegt gildi. Og það gerðist á þessum tíma að heildsalarnir óðu í gjaldeyrissjóðinn og fluttu inn langt umfram þessa gífurlegu eftirspurn. Þeir fluttu inn 2000 bila umfram það sem þjóðin óskaði eftir á síðasta ári, og voru óskir hennar þó ekkert smáræði. Það voru fylltar allar birgðaskemmur í landinu af vörum, og þær hrukku ekki til, vörurnar hrúguðust upp fyrir utan vöruskemmurnar og hafa legið þar undir skemmdum. Á þessum mánuðum var sólundað milljónum kr., einum 4 milljörðum kr. umfram það sem ríkisstj. spáði í sept. að mundi gerast á árinu. Með þessu hlýtur hæstv. viðskrh. að hafa fylgst. En hann greip ekki til neinna ráðstafana, og ég vænti þess að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því hér, hvers vegna hann lét þessa þróun gerast án þess að taka til sinna ráða til þess að stöðva þessa óhóflegu og óhemjulega gjaldeyrissóun? Það var skylda hans sem ráðh. að bregðast þarna við. Og þessi hæstv. ráðh. er þá orðinn dálitið ólíkur því, sem ég þekkti hann meðan við unnum saman í ríkisstj., ef hann hefur ekki haft vilja til að gera þetta. En hvers vegna var ekkert gert? Ég spyr að því.

Hæstv. viðskrh. hélt síðan ræðu í janúarmánuði þegar búið var að eyða gjaldeyrissjóðnum, og þá dró hann upp dökka mynd af ástandinu. Það hefur áður verið minnst á þessa ræðu hér og menn hafa sagt að hæstv. ráðh. hafi sagt satt frá. Hæstv. ráðh. kom hér upp í ræðustól til að svara gagnrýni á þessa ræðu með einfaldri spurningu: Hvenær eiga ráðh. að segja satt og hvenær ekki? spurði hæstv. ráðh. Ráðh. eiga alltaf að segja satt. En það nægir ekki að ráðh. segi satt. Ráðh. sitja í ráðherrastólum til að framkvæma stefnu, og þegar hæstv. ráðh. lét orðin nægja í janúarmánuði var hann í raun og veru að vara við alla þá sem gátu búið sig undir að verða fyrir áföllum af völdum gengislækkunar eða einhverrar annarrar slíkrar ákvörðunar.

Þetta er það, sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur. Við vitum það ákaflega vel. Eignamenn hafa staðið í alls konar fjárplógsstarfsemi til þess að styrkja aðstöðu sína gagnvart gengislækkun eða einhverjum öðrum slíkum ráðstöfunum, vegna þess að þessi ræða hæstv. ráðh., þessi sanna ræða, varð eins og aðvörun, vegna þess að það var ekki gert neitt í margar víkur þar á eftir. Þess vegna tæmdist gjaldeyrissjóðurinn gjörsamlega, þannig að við höfum núna síðustu vikurnar lifað á einum saman neyslulánum.

Mér finnst það vera skylda hæstv. viðskrh. að skýra það einnig út hvers vegna hann stóð þannig að málum. Ég held líka að það væri ráð fyrir hæstv. viðskrh. að vera dálítið hreinskilinn núna. Ég held að allir, sem hafa fylgst með hans málflutningi að undanförnu, viti, að þessi hæstv. ráðh. vildi fara aðrar leiðir en gengislækkun. Hann hefur margsinnis að undanförnu rifjað upp frv. sem lagt var fram hér á þingi fyrir tæpu ári og við stóðum báðir að. Hæstv. ráðh. hefur talað um þær ráðstafanir, sem þar voru lagðar til, eins og þær ráðstafanir sem sjálfsagt hafi verið að gera, og það var ekki gengislækkun í þeim till.

En hvernig stendur þá á því að hæstv. viðskrh. hleypur brott frá þessum till. sem kjósendur kusu hann til þess að fylgja fast eftir í kosningunum í fyrra? Hvernig stendur á því að hann beygir sig og gerir allt annað en hann þóttist vilja gera? Ég vænti þess, að menn hafi tekið eftir því að umskiptin urðu þegar hæstv. forsrh. kom úr utanlandsferð sinni. Þá var það fyrsta verk blaðamanna að spyrja um efnahagsvandann á Íslandi og svar hans var afskaplega einfalt: Hér má ekki hefta á neinn hátt frelsi kaupsýslumanna. Það er heilög regla, það má ekki gera neitt til þess að hefta þetta skefjalausa frelsi. Og eftir að hæstv. forsrh. var kominn heim hefur hæstv. viðskrh. verið að hverfa frá þeim meginreglum, sem hann hefur haldið fram að hann vildi framfylgja með störfum sínum í ríkisstj. Ég held að það væri ærin ástæða til þess að hæstv. ráðh. gerði hreinskilningslega grein fyrir ágreiningnum, sem verið hefur milli Sjálfstfl. og Framsfl. um þessi mál. Ég held að það væri líka mjög þarflegt fyrir hann og forustu Framsfl. Ég get sannfært hæstv. ráðh. um það að allur þorrinn af kjósendum Framsóknar er agndofa yfir þeirri þróun sem nú hefur orðið.

En fyrst ég er farinn að spyrja hæstv. ráðh. og ég geri mér vonir um að hann muni koma hér og gera grein fyrir þeim hlutum sem ég bið hann að gera grein fyrir, þá er best að ég spyrji hann um dálítið meira.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar einvörðungu um tæknileg atriði í sambandi við gengislækkunina. En það hefur tíðkast að það hafi verið lögð fram frv. með miklu víðtækari atriðum í. Þar af er eitt atriðið, sem snertir þennan hæstv. ráðh. alveg sérstaklega, og það er atriðið með verslunarálagningu. Gengislækkun gerir það að verkum að innflutningsverð á öllum vörum hækkar um 25%. Innflytjendur hafa álagningu sína í prósentum af innkaupsverði, þannig að ef sú prósenta héldist óbreytt mundu tekjur þeirra hækka um 25% í krónutölu á sama tíma og verið er að skerða kjör alls launafólks og á þungbærastan hátt kjör þess fólks sem hefur bágust kjör fyrir. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um hvort ekki komi ákvæði í frv. um að taka á þessu viðfangsefni, og í því sambandi held ég að væri ástæða til þess að taka á fleiru. Við vitum allir að við höfum orðið fyrir mjög miklum búsifjum vegna erlendra verðhækkana, og þetta eru búsifjar sem menn segja að verði að leggjast á þjóðina alla, eins og vissulega er verið að gera, á næsta óréttlátan hátt að vísu. En það er hópur manna sem ekki hefur orðið fyrir búsifjum af þessum sökum, og það eru einmitt innflytjendurnir. Þeir fá álagningu sína í prósentum, eins og ég sagði, þ.e.a.s. þegar varan hækkar erlendis, þá hækkar ágóði þeirra, og þarna hefur ekki verið um að ræða neinar smáræðishækkanir. Ég skal taka dæmi af sykri. Sykur hefur núna á síðustu árum sexfaldast í verði. Ársneysla íslendinga af sykri kostaði 1972 milli 200 og 300 millj. Miðað við sykurverðið eins og það er núna kostar ársneysla íslendinga 1 600–1 800 millj. Á árinu 1972 var álagning á sykri í heildsölu og smásölu 80 millj. kr. Árið 1974 var álagning í smásölu og heildsölu á ársgrundvelli 250 millj. kr., hafði hækkað úr 80 millj. í 250 millj. Og ef við miðum við verðið eins og það er núna, — við vitum ekkert um hvort það helst svona hátt allt árið, — en ef við reiknum með því að það héldist allt árið, þá yrði þessi álagning í heildsölu og smásölu hvorki meira né minna en 600 millj. kr., hún hefði hækkað um 520 millj. kr. frá árinn 1972 og þessu ættu innflytjendur að stinga í eigin vasa á sama tíma og sagt er við þjóðina að hún verði að taka á sig byrðarnar af erlendri verðbólgu. Það eru æðimargar matarholur af þessu tagi sem ég hygg að hæstv. viðskrh. gæti skyggnst í, ef hann hefði áhuga á, og þar væri hægt að leysa æðimargan vanda sem nú er reynt að velta yfir á þá sem minnsta hafa burðina í þjóðfélaginu.

Og fyrst ég er farinn að spyrja hæstv. ráðh., þá kemst ég ekki hjá því að spyrja hann um eitt atriði í viðbót, sem raunar hefur verið vikið að áður í þessum umr., og það er grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag eftir einn af helstu forustumönnum Framsfl., Gunnar Guðbjartsson, form. Stéttarsambands bænda. Þetta er einhver, — ja, ég veit ekki hvaða lýsingu ég á að nota um slíka grein, hún er svo furðuleg, hún kemur upp um svo annarlegt hugarfar að manni hrýs hugur við að lesa ritsmið af þessu tagi. En þarna er um að ræða mann sem hefur slíka stöðu innan Framsfl. og í stéttarsamtökum bænda að við eigum heimtingu á að vita hvort nánustu samverkamenn hans eru sömu skoðunar og kemur fram í greininni hjá honum. Þar er um að ræða skoðanir sem vissulega hafa verið túlkaðar af fleiri aðilum.

Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það var talað um það mjög digurbarkalega í forustugrein Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum að það þyrfti að höggva í spað og skera þau félagslegu réttindi sem verkafólk hefur áunnið sér í sambandi við kaupgjaldssamninga sína, þ.e.a.s. svokölluð launatengd gjöld, sem renna m.a. til orlofs, til atvinnuleysistryggingasjóðs, til slysatrygginga og sjúkratrygginga, til sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna, til orlofsheimila og til annarra hliðstæðra félagslegra verkefna.

Morgunblaðið sagði: Þetta á að höggva í spað, þetta á að skera, — og þetta er einmitt fyrsti liðurinn í grein Gunnars Guðbjartssonar. Hann segir, ef hann hefði völd:

„Fyrst ákvæði ég að fella niður þau 15 launatengdu gjöld sem nú hvíla á atvinnuvegunum og eru 45–50% álag á launin. Síðan mundi ég ákveða hækkun kauptryggingar til sjómanna og hækkun launa til launþega í landi u.þ.b. 16–20%. Hver einstaklingur yrði sjálfur að kaupa sér tryggingar.“ Það á að fella niður hið félagslega tryggingakerfi, en það á að taka upp það ameríska kerfi, að hver einstaklingur geti keypt sér tryggingu, þ.e.a.s. ef hann hefur efni á því. Og áfram: „Hætt verði að greiða hærra kaup fyrir svokallaða eftirvinnu.“

Og annar liður: „Vinnulöggjöfinni yrði breytt“ Og síðar: „Þegar sérstakir erfiðleikar sækja á þjóðarbúskapinn eins og nú er, þá yrðu verkföll bönnuð 1–2 ár í senn og allir skyldir að hlíta gerðardómi, eins og bændur og opinberir starfsmenn gera og hafa gert lengi. Þeir launþegar, sem ekki vildu hlíta þessu, yrðu sendir til dvalar í Rússlandi eða Kína.“

Þetta er formaður Stéttarsambands bænda, sem er að lýsa skoðunum sínum í Morgunblaðinu, einn nánasti samverkamaður hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) Ja, ég hef ekki hugmynd um það hvaðan Gunnar Guðbjartsson hefur heimild til að koma hér fram sem einhver agent fyrir Rússa og Kínverja til þess að ráðstafa til þeirra vinnuafli. Það er ekki það sem ég er að hugsa um. Ég er að hugsa um viðhorfið sem í þessu er, mannfyrirlitninguna og fyrirlitninguna á verkalýðsfélögunum og rétti þeirra. Þetta er eitthvert mesta siðleysi sem ég hef nokkurn tíma séð í íslenskum skrifum.

Og enn stendur hér: „Þjóðin þarf að auka sparnað. Ríkið og sveitarfélögin verða líka að spara. Stærstu útgjöld ríkisins eru til tryggingamála og menntamála. Þar verður því að ráðast á garðinn svo að sparnaði verði við komið.“ Það á að skera niður framkvæmdir í tryggingamálum og í menntamálum samkv. þessari kröfu.

Svo kemur áfram: „Lengja verður vinnuvikuna í um það bil 50 klukkustundir og fækka fólki í þessum stofnunum og ríkiskerfinu yfirleitt.“ Þessar stofnanir eru þær stofnanir, sem heyra undir heilbr.- og trmrn. og menntmrn. Það á að fækka læknum, það á að fækka hjúkrunarkonum, það á að fækka öðru starfsfólki á sjúkrahúsum og það á að fækka kennurum. Þannig á að framkvæma sparnað.

Og áfram: „Vinnusiðgæði verður að batna. Þeir, sem mæta illa í vinnu, eiga að tapa réttindum, svo sem rétti til tryggingabóta og lífeyris.“ Það er eins og maðurinn sé að tala um eitthvert þrælahaldaraþjóðfélag, en ekki þjóðfélag frjálsra manna. En þetta er einn af leiðtogum Framsfl., æðsti maðurinn í Stéttarsambandi bænda.

Hætt verði að gefa með börnum á dagheimilum og hætt verði að veita skattfríðindi vegna vinnu giftra kvenna utan heimila. Þjóðfélagið á ekki að þurfa að bera útgjöld af slíku. Barnaheimili á helst að leggja niður nema fyrir þá sem hafa svo mikil efni að þeir geti greitt þar fullt gjald. Það á að koma í veg fyrir að lágtekjukonur, sem þurfa lífsnauðsynlega að vinna utan heimila, geti vistað börn sin á slíkum stofnunum.

Ég ætla ekki að vitna lengur í þetta, en mér finnst þessi grein vera til marks um ákaflega ískyggileg viðhorf sem hafa verið að magnast eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Það eru viðhorf hins svartasta afturhalds, ekki aðeins á sviði kaupgjaldsmála, heldur einnig á sviði félagsmála og menntamála. Þessi viðhorf eru nú látin í ljós á miklu ósvífnari hátt en nokkurn tíma fyrr, og ég er ákaflega hræddur um að þessi viðhorf geti orðið ríkjandi ef skynsamari menn í báðum stjórnarflokkunum halda ekki aftur af ofstækismönnum af þessu tagi. Ég held, að það þurfi að hreinsa andrúmsloftið hvað þetta snertir gersamlega. Mér finnst að við eigum heimtingu á því að fá um það vitneskju sama dag og þessi grein birtist; hvort form. Framsfl., flokksbróðir Gunnars Guðbjartssonar og samverkamaður hans, er sömu skoðunar og hann eða hvort hann fordæmir ásamt mér skrif af þessu tagi.