12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur af eðlilegum ástæðum áhuga á því að koma þessu frv., sem hér liggur fyrir, sem fyrst til n., og þess vegna hafði ég ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. sem hér fara fram. Ég ætla nú að reyna að spara mér það að taka mjög almennan þátt í þeim. En þar sem hv. þm. Magnús Kjartansson langar nú svo mikið til þess að heyra í mér, þá get ég nú ekki verið að valda honum vonbrigðum. Ég skal nú reyna að svara þessum spurningum hans nokkurn veginn útúrdúralaust, þó að ég gæti talað dálítið lengra mál um þau efni sem hann hreyfði. Og þá ætla ég að byrja á niðurlaginu og svara þeirri spurningu sem hann beindi til mín varðandi afstöðu mína til greinar Gunnars Guðbjartssonar í Morgunblaðinu.

Í þessari grein Gunnars Guðbjartssonar tekur hann alveg skýrt fram að þarna sé um sínar persónulegu skoðanir að ræða, hann skrifi þar ekki í nafni neinna samtaka, hvorki þeirra stéttarsamtaka, sem hann er form. fyrir, og ekki heldur í nafni Framsfl. Og ég get svarað þeirri spurningu afdráttarlaust hvort ég sé sammála þeim skoðunum, sem settar eru fram í grein Gunnars Guðbjartssonar, á þá lund að það er ég ekki, og það eru ekki skoðanir Framsfl. Og nú vona ég að hv. þm. Magnús Kjartansson sofi betur í nótt en ella.

Hitt er svo annað mál, sem er alvarlegra og okkur kannske greinir á um. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það eigi hver maður rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar, hverjar svo sem þær eru, hvort sem þær eru skynsamlegar eða óskynsamlegar, hvort sem þær eru fjarstæðukenndar eða ekki. Þannig er það í okkar þjóðfélagi og hefur verið, og það er eitt mesta aðalsmerkið á okkar þjóðfélagi. Þannig er það því miður ekki í öllum þjóðfélögum. En ég veit af eigin reynslu og játningu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar að þessi regla um skoðanafrelsi hefur verið í heiðri höfð í Þjóðviljanum. Þar birtust æ ofan í æ á vinstristjórnarárunum greinar, sem Magnús Kjartansson vildi hvítþvo sig af og hefði nánast getað sagt eins og einn góður maður sagði áður, að byssurnar færu stundum að skjóta sjálfar.

Gunnar Guðbjartsson á vissulega rétt á því að láta í ljós sínar persónulegu skoðanir, hverjar svo sem þær eru, eins og hver einasti íslendingur. Og ég verð að segja það, að það verða daprir dagar á Íslandi þegar og ef svo færi einhvern tíma að hver maður ætti ekki þennan rétt, já, jafnvel rétt til þess að standa uppi á strætum og gatnamótum og prédika eins og honum list. En nóg um það.

Hins vegar fólst nokkuð hörð ádeila í ræðu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar á mig fyrir mína stjórn á innflutnings- og gjaldeyrismálum þá mánuði sem ég hef farið með stjórn þeirra mála. Ég skal ekki biðjast undan neinni gagnrýni í því sambandi, og það má sjálfsagt gagnrýna ýmislegt í stjórn þessara mála. En hins vegar vil ég leiðrétta það sem hann sagði, að það hefði haldið áfram meira hófleysi í innflutningi eftir að ég tók við stjórn þessara mála en áður. Þetta er ekki rétt. Þetta er hægt að sanna með tölum þó að ég hafi þær ekki í höndunum hér. Það dró og hefur dregið, sem betur fer, aðeins úr innflutningi á síðustu mánuðum ársins og á því sem af er þessu ári. Og það voru líka gerðar vissar ráðstafanir til þess á síðustu mánuðum ársins að hafa áhrif í þá átt. Það var lagt á sérstakt innborgunargjald sem að vísu fór minnkandi á hverjum mánuði. En það er haldgóð skoðun þeirra manna, sem gerst þekkja, að þessi gjaldtaka hafi haft nokkur áhrif í þá átt að draga úr innflutningi, en ekki nægilega mikið miðað við þær aðstæður sem voru fyrir hendi. En ástæðan til þess að gjaldeyrisástandið hefur samt sem áður versnað á þessum tíma og versnað mjög er fyrst og fremst sú staðreynd, að sala og útflutningur á afurðum okkar hefur gengið miklu tregar þessa mánuði en áður. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því, að þetta hefur breyst á þessa dapurlegu lund sem raun ber vitni. Enn fremur hefur það átt sinn þátt í þessu, að það eru mjög margar vörur sem við höfum flutt inn á þessum tíma sem hafa farið stöðugt hækkandi á þessu tímabili. En þó að það megi gagnrýna mig fyrir að hafa ekki tekið nógu skjótt hér í taumana, þá er þetta staðreyndin sem er fyrir hendi, að það er útflutningurinn sem brestur fremur en hitt að innflutningurinn hafi farið vaxandi þessa síðustu mánuði.

Þegar það var sýnt að svo búið mátti ekki lengur standa og gjaldeyrissjóður var að kalla mátti uppurinn, þá tók ég í taumana með því ákvörðunarvaldi sem ég hef, sem ég veit að t.d. hv. þm. Lúðvík Jósepsson, fyrrv. viðskrh., veit að er nokkuð takmarkað. Þá ákvað ég að það skyldi tekið upp nýtt fyrirkomulag í afgreiðslu á gjaldeyrisyfirfærslum. Og síðan hefur því verið fylgt eða var fylgt á meðan gjaldeyrisdeildirnar voru opnar. Það var aðeins yfirfært fyrir skuldbindingum sem voru gjaldfallnar fyrir nauðsynlegum rekstrarvörum til útgerðar, fyrir nauðsynlegum hráefnum til iðnaðar og svo að vísu ferðamannagjaldeyri samkv. þeim reglum sem þar um gilda, en þó hert á því þannig að hann var ekki afhentur fyrr en farseðill var sýndur og þremur dögum fyrir brottför. Þetta hafði nokkrar afleiðingar. Þetta hafði nokkur áhrif í þá átt að takmarka gjaldeyriseyðsluna, þannig að á þeim dögum, sem þetta hefur gilt, hefur það þó ekki verið nema sem svarar 150 millj. á dag að meðaltali. Þar af voru 87 millj. vegna skuldbindinga og allra nauðsynlegustu rekstrarvara. En sem sagt, ég er ekkert að biðjast undan ábyrgð á þessu og það má gjarnan deila á mig í þessu sambandi. Ég álít að það hafi ekki mátt dragast lengur en raun ber vitni að skerast hér í leikinn og taka ákvarðanir og ef nokkuð er, þá sé það heldur of seint en of snemma.

Hann beindi til mín spurningu, hvernig stæði á því að það væri ekki ákvæði í þessu frv. varðandi verslunarálagningu. Það er rétt, það er ekki í lögum en ég er búinn að gefa verðlagsstjóra og verðlagsnefnd fyrirmæli um hvernig þessu skuli hagað. Þessu verður hagað alveg nákvæmlega á sömu lund og við fyrri gengisfellingar, og ég veit að hv. þm. þekkir þá reglu varðandi álagningu sem þar um hefur gilt.

Svo verð ég nú því miður tímans vegna að spara mér að ræða við hv. þm. meira að þessu sinni, þó að gaman væri að eiga við hann orðastað síðar þegar við höfum betri tíma. Ég ætla ekki heldur að fara út í ræður þær sem hér hafa verið fluttar, nema ég get ekki alveg virt að vettugi þau arð, sem hæstv. þm. Karvel Pálmason lét falla, úr því að ég er kominn hér í stólinn. Það er verst að hann er nú ekki viðstaddur. Sennilega hefur honum láðst að lesa ræðu þá sem hv. þm., staðgengill hans, Jón Baldvin Hannibalsson, hélt hér fyrir nokkrum dögum. En ég veit að hann mun gera það á næstunni og efa ekki að hann muni hafa gott af því. En það er nú oft þannig í sögum, að það er sagt frá einhverjum manni, þekktum í þorpinu sem náungarnir hafa gaman af og segja honum hitt og þetta. Þá er það segin saga að hann er hlaupinn með þetta út um borg og bý og farinn að þylja það upp. Þetta eru skemmtilegir menn, en trúgjarnir. Og þannig stendur á þessari sögu sem hann var að segja um að framsóknarþm. hefðu ekkert vitað um það í gær hvað yrði gert. Það hefur vafalaust einhver gamansamur framsóknarþm. skotið þessu að honum og hann hefur trúað því og hlaupið svo með það. En ég get sagt honum það, að Framsfl. tók ákvörðun í þessu máli á mánudag. Það liggur bókað í gerðabók og hann getur gengið úr skugga um það.

Þetta er iðrunartíð og menn syngja gjarnan iðrunarsálma á þessum tíma, og það var ekki laust við það að mér fyndist ræða hv. þm. bera þess nokkur merki að hann væri í iðrunarhug og iðraðist sinna fyrri verka, af því að það er einhver skuggi á samviskunni hjá honum af að hafa fellt vinstri stjórnina. Hann ræddi þó ekki svo mjög um þann viðskilnað og ekki heldur það frv., sem við stóðum þá að, við hv. þm. Magnús Kjartansson og fleiri góðir menn, en Karvel ekki, heldur notaði það sem tylliástæðu til þess að flytja vantraust á ríkisstj. Nei, hann vék að stjórnarmyndunarviðræðum í sumar og rakti þá m.a. hvaða úrræði hans flokkur hefði bent á. Það var reyndar svo að þá var gengislækkun ekkert bannorð. Þá voru allir þeir, sem þátt tóku í vinstristjórnarviðræðum, sammála um að gengislækkun hlyti að koma til greina þó að það væri ágreiningur um það og gæti verið skiptar skoðanir um hversu langt ætti að ganga. En hann sagðist vilja benda á þau úrræði sem þeir hefðu bent á í sumar. Þeir hefðu í fyrsta lagi bent á niðurfærsluleið, gengisfellingu hefðu þeir ekki viljað. Úttekt vildu þeir láta gera. Það var gerð allrækileg úttekt 1972. Þá voru valinkunnir menn settir í n. og skrifuðu mikla postillu og settu þar fram þrjá valkosti, og einn af þeim valkostum var svokölluð niðurfærsluleið. Og því er ekki að neita að það voru margir innan stjórnarflokkanna, sem að þeirri stjórn stóðu, sem höfðu augastað á þeirri leið. Þetta skeði, ef ég man rétt, skömmu fyrir áramótin 1972–1973. En þá var það einn flokkur sem skarst úr leik, einn flokkur sem heimtaði að gengið yrði fellt. Það var ekki krafa um niðurfærsluleið þá, það var krafa um gengisfellingu. Kannski var hún fyrst og fremst runnin undan rótum eins manns í þeim flokki, en hann var a.m.k. svo sterkur í þeim samtakahópi að raddir Samtakanna hljómuðu þá eftir það — aldrei þessu vant — í kór. Og þá var gengisfelling góð. Þetta er nú sagan um niðurfærsluna og gengisfellinguna.

En niðurfærslu vildu þeir í sumar. En hvað var það, sem var eitt meginatriði í frv. fyrrv. stjórnar, ef það var ekki niðurfærsluleið? Það var einmitt um það, sem hv. þm. Karvel Pálmason var að tæpa á hér áðan, að jafna laun, en eitt ákvæði í því frv. var að taka af þá launahækkun fram yfir 20%, sem samið hafði veríð um, af launum sem fóru fram úr ákveðinni upphæð. En á vordögum s.l. gat hv. þm. ekki fallist á þetta, heldur flutti vantraust eða var þátttakandi í því að flytja vantraust á fyrrv. stjórn, þannig að það var ósköp lítið nýjabragð af þessu hjá honum. Þetta var gömul lumma frá fyrrv. stjórn, — gömul lumma sem hann vildi ekki renna niður þegar hún var ný.

Og svo var það annað atriði sem þeir bentu á í þessum vinstristjórnarmyndunarviðræðum, þetta nýja, sem þeir vildu gera að skilyrði. Það var skyldusparnaður. Jahá, það var skyldusparnaður. En hvað var í frv. frá í vor? Þar var eitt ákvæði um skyldusparnað á hærri tekjur. Ég held að hann hafi farið niður fyrir þessa 1 millj. sem hv. þm. var að tala um. Svo skal ég ekki eyða fleiri orðum að honum.

En ég skal í framhaldi af því, sem hefur komið fram almennt hjá stjórnarandstöðuræðumönnum, gera grein fyrir því, hvers vegna ég er með því að gera þá ráðstöfun sem nú hefur verið gerð, gengisfellingu, sem ég veit, að í raun og veru gerir aldrei neinn með glöðu geði, því að aldrei er gengisfelling ein út af fyrir sig neitt fagnaðarefni neinum manni. En ég held, að það hafi komið fram í þessum umr. að um eitt eru allir sammála, og það er þetta höfuðatriði að það sé meginmarkmiðið nú að reyna að stefna að fullri atvinnu og halda öllum framleiðslutækjum þjóðarinnar í gangi. Þegar ég geri það upp til hvaða úrræða á að grípa, þá met ég það hvaða úrræði er líklegast til þess að ná þessu markmiði. Og ég hef eftir vandlega skoðun metið það svo, að sú leið, sem hefur verið skoðuð, millifærsluleið mætti kalla hana, að leggja á álögur, afla tekna til þess að mæta þeirri fjárvöntun sem um er að tefla og jafnframt draga þá úr kaupgetu og takmarka með þeim hætti eftirspurn eftir gjaldeyri og svo jafnframt að fara leiðina að spara, að spara, draga úr, — ég hef sannfærst um að þessi leið, slík millifærsluleið, er um þær stærðir að hún er ekki fær, hún er ekki framkvæmanleg. Það mundi hver sem væri gefast upp á henni áður en komið væri á leiðarenda. Hitt er þó verra, að ég álít að ef hún væri farin, þá mundi hún leiða til samdráttar í atvinnulífi alveg óhjákvæmilega. Og þá kýs ég heldur að grípa til þessarar leiðar, gengisfellingarinnar, þó að henni fylgi stórir skuggar, af því að ég hef þó þá trú á henni samkv. líka fyrri reynslu, að hún muni verða viss innspýting í atvinnulífið þrátt fyrir allt og stuðla betur að því höfuðmarkmiði sem allir eru sammála um, að eigi að keppa að.

Hitt er svo öllum jafnljóst, að gengislækkunin ein út af fyrir sig nægir ekki. Hún nægir ekki til þess t.d. að jafna viðskiptahalla á þessu ári. Ég álít líka að það sé í rauninni óframkvæmanlegt að gera það að fullu og öllu og við eigum ekki að ætla okkur það. Mér eru líka ljósir vissir agnúar á henni í sambandi við það að leysa úr vandræðum útgerðarinnar. En því hefur verið lýst yfir og það hefur verið samþykkt af stjórnarflokkunum að þessari ráðstöfun eigi að fylgja vissar hliðarráðstafanir. Það er auðvitað afsakanlegt og hægt að taka það gott og gilt hjá hv. þm. að þeir geti út af fyrir sig ekki og vilji ekki í stjórnarandstöðu taka afstöðu til þessarar gengisfellingar eða samþykkja hana, fyrr en þeir hafa séð og fengið að sjá hverjar hliðarráðstafanirnar eru. Hæstv. forsrh. hefur í sinni framsöguræðu nokkuð gert grein fyrir þeim, að vísu með almennum orðum, en það er í raun og veru ekki hægt að gera það á annan veg á þessu stigi. En hv. þm. Karvel Pálmason get ég huggað með því að ég er enn við sama heygarðshornið hvað skyldusparnað snertir. Það getur vel verið að hann eigi eftir að taka afstöðu til þess. Enginn veit það fyrr en á dynur. Við skulum sjá til. En það eru einmitt slíkar ráðstafanir sem þurfa að koma til viðbótar við þá gengisákvörðun sem hefur verið ákveðin, en þó auðvitað fyrst og fremst, eins og hæstv. forsrh. gerði alveg fullkomlega grein fyrir, að í sambandi við hana verður auðvitað fyrst og fremst — og það er meginatriðið — litið til þeirra sem versta hafa aðstöðuna, þeirra sem hafa notið jafnlaunabótanna, elli- og örorkulífeyrisþeganna, og þeirra hagur réttur eftir því sem unnt er, þannig að þeir bíði ekki skarðan hlut vegna þessarar ráðstöfunar.