13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

151. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er um að ræða, er hið árlega og venjulega frv. um veitingu ríkisborgararéttar. Að þessu sinni er um að ræða að veittur skuli 20 mönnum íslenskur ríkisborgararéttur samkv. frv., og hafa verið teknir upp í þetta frv. þeir sem fullnægja þeim skilyrðum sem fylgt hefur verið áður um það efni og á sínum tíma voru sett af hæstv. Alþingi. Jafnframt er svo gert ráð fyrir því, að fylgt verði venjulegum reglum um að þeir, sem kunna að sækja um ríkisborgararétt til viðbótar meðan þetta frv. er til meðferðar hér á Alþ. og fullnægja kunna skilyrðunum fyrir því að mega öðlast íslenskan ríkisborgararétt, verði teknir upp í frv. Að öðru leyti er þetta frv. með sama hætti og önnur slík hafa verið, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það, en leyfi mér að æskja þess, að frv. verði vísað til 2, umr. og hv. allshn. og geng út frá því, að fylgt verði þeim hætti sem jafnan fyrr, að allsherjarnefndir starfi saman á sínum tíma að athugun frv.