13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

146. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu frv. til l. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða urðu sjútvn. á smávegis mistök. Í n. hafði verið ákveðið að leggja fram brtt. við 4. gr. frv. Var það gert samkv. ábendingu sjútvrn. og raunar einnig Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Nú er 4. gr. orðuð þannig að skilja má að allar rannsóknir Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins skuli gerðar í samráði við Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Þarna er eingöngu átt við þær rannsóknir sem varða starfsemi þeirrar stofnunar, Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Sjútvn. þessarar d. hefur því orðið sammála um að bæta ráð sitt og hefur lagt hér fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 108 31. des. 1974, um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, og fjallar eingöngu um 4. gr., sem hún leggur til að verði orðuð þannig:

„Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins framkvæmir, í samráði við Framleiðslueftirlit sjávarafurða, þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru vegna þeirrar stofnunar.“

Það er því skýrt og tvímælalaust, að hér er eingöngu átt við rannsóknir sem varða Framleiðslueftirlit sjávarafurða.