13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

150. mál, útvarpslög

Flm:

(Helgi F. Seljan): Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 276 frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, svo hljóðandi, að við 15. gr. 1., sem er að nokkru heimildargr. varðandi innheimtu afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps, bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Einnig skal ráðh. heimilt að ákveða, að tekið skuli tillit til þess við innheimtu afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps, ef útsendingar til einstakra landshluta eða byggðarlaga eru ófullkomnar eða gæði þeirra ekki sambærileg við það sem eðlilegt má teljast.“

Frv. þarfnast ekki langra skýringa umfram grg. Ég tel sem sagt rétt að fá ótvíræða lagaheimild til handa ráðh., því að þótt ég viti góðan vilja hans til þess að rétta hag okkar austfirðinga, sem hér um ræðir sérstaklega, í hvívetna, þá vil ég að hér séu tekin af öll tvímæli um rétt hans til að gripa inn á verksvið undirmanna sinna ef allt réttlæti mælir með því. Hingað til hafa svör þeirrar ágætu stofnunar, sem hér um ræðir, verið lítt skiljanleg venjulegu fólki á Austurlandi, sem nú hefur loksins — ég endurtek: loksins — misst alla þolinmæði. Það er látið sem svo að hér sé að einhverju leyti nýtt vandamál á ferðinni þrátt fyrir óviðunandi sjónvarpsskilyrði austfirðinga frá byrjun. Fjármálasérfræðingur Ríkisútvarpsins sagði í blaðaviðtali eitthvað á þá leið, að menn gætu nánast sjálfum sér um kennt að hafa farið að kaupa sér sjónvarpstæki, eigandi allt á hættu um not þeirra og gæði þess efnis sem sjónvarpið flytti, því að aldrei hefði nein ábyrgð fylgt frá hálfu þeirra sem þó rukka inn afnotagjöld, jafnt af austfirðingum sem öðrum þeim er við nær algjört öryggi búa í þessum efnum. Gagnvart svona fullyrðingum og öðrum svipuðum og þessum hug sem þarna býr á bak við þarf svo sannarlega á því að halda að ráðh., sem á þessu máli hefur fullan og ótvíræðan skilning, geti lögum samkv. sett reglur ofar allri svona röksemdafærslu sem minnir á margfræga röksemdafærslu ýmissa alvitringa í kerfinu okkar, sbr. viðtal í sjónvarpinu við yfirverkfræðing Landssímans, þar sem hann kvaðst, nokkurn veginn orðrétt, ekki vita hvernig í ósköpunum austfirðingar gætu vitað um veðurfar á Austurlandi og þannig um það dæmt hvernig aðstæður væru til viðgerða á Gagnheiðarstöðinni hverju sinni.

Þessi viðbrögð öll og viðbrögð áður í garð austfirðinga, sem möglunarlaust hafa fullu verði greitt þjónustu sem oft hefur veríð fyrir neðan allar hellur, þessi viðbrögð brjótast nú út í undirskriftasöfnun hátt í 400 sjónvarpseigenda á þrem stöðum austanlands, þar sem þeir tilkynna að þeir muni ekki greiða afnotagjöld sjónvarps á næsta gjalddaga. Norðfirðingar krefjast endurskoðunar á afnotagjöldunum einnig og þegar hafa flestallir sjónvarpsnotendur á Norðfirði gert þá kröfu og skrifað undir þá kröfu um endurskoðun.

Ég horfi á sjónvarp hér syðra og eystra einnig, og ég get vel um það dæmt hve ósambærilegt það er á flestan veg. Víða eru sjónvarpsskilyrði það léleg, að ég get vart ímyndað mér annað en sjón fólks sé í stórhættu. Einkum eru það börn sem sitja gjarnan of lengi og rýna í snjókófið á skerminum, og ég get vart ímyndað mér annað en þau bíði tjón á sjón sinni af þessum sökum.

Ég skal ekkert um það fullyrða, að eitthvað hafi frá upphafi verið gert til þess að bæta skilyrðin á Gagnheiðarstöðinni frá því að hún kom upp. En okkur hefur sannarlega reynst erfitt að sjá þess merki í reynd. Fullyrðingar um truflanir af völdum rafbilana hafa verið gerhraktar og bilanir hafa síður en svo verið við illviðri ein bundin, þó að þá hafi þær verið nær óbrigðular, þrátt fyrir það að mér tjá fróðir menn að illviðri eigi hér sáralítið að segja í flestum tilfellum. Sannleikurinn, sem ekki má segja, mun nefnilega sá að sendirinn á Gagnheiði og allt í tengslum við hann mun vera af vanefnum gert, mikið af því gamalt og óhæft til notkunar.

Óþarft er að rekja sögu þessara mála nánar, en fyrr í vetur spurðist ég fyrir um þær smærri endurvarpsstöðvar sem enn eru í umsjá heimamanna á Austurlandi, þó að þær hafi fyrir löngu átt að vera komnar í fulla umsjá sjónvarpsins. Ég tek mína heimastöð, Reyðarfjarðarstöðina, sem dæmi. Hún er ein þeirra. Hún er í lélegu kofaskrifli sem einhvers staðar var fengið í upphafi. Því miður fauk þessi kofi ekki burt í vetur, eins og nærri lá. Þá hefði e.t.v. eitthvað fengist raunhæft gert þar. En algert ófremdarástand er þar, vægast sagt, varahlutir t.d. aldrei neinir til. Reyðfirðingar höfðu því ríka ástæðu til þess að ríða á vaðið með undirskriftasöfnun af þessu tagi, og ég ritaði þar nafn mitt heils hugar undir.

Nú allt í einu, þegar svona er komið, fara forráðamenn sjónvarpsins að tala um ósamræmið, ekki sé hægt að krefjast lagfæringa á sama tíma og verið sé að neita um tekjur. En reynsla liðinna ára, aðgerðarleysi og trassaskapur varðandi úrbætur allar þrátt fyrir fulla greiðslu óhæfrar þjónustu sanna okkur austfirðingum ótvírætt, að við höfum ekki gert rétt í því að bíða þolinmóðir og treysta á lagfæringar þessara aðila. Málið er í sjálfu sér svona einfalt. Austfirðingar þeir, sem nú hafa neitað, munu án alls efa endurskoða afstöðu sína ef þeir sjá það í verki að til móts við þá verður komið og betri þjónusta tryggð eftirleiðis. Til þess er líka þessi mótleikur þeirra, sá einn sem ég tel þá hafa völ á. Verði honum á engan hátt svarað, þá hlýtur viðkomandi ráðh. að láta málið til sin taka og það því fremur sem hann er þm. þessa kjördæmis. Ég vil aðeins veita honum til þess skýra lagaheimild nú og ráðh. menntamála eftirleiðis að grípa hér beint inn í, þótt ég viti ágætan vilja hæstv. núv. menntmrh. og hug í þessum efnum.

Ég tek það fram, að þótt kastast hafi um sinn í kekki milli okkar hæstv. ráðh. út af útvarpsráðsmáli og ég sé honum e.t.v. eitthvað sár og gramur fyrir allt það mál, þá breytir það engu um fullkomið traust mitt á hæstv. ráðh. sem einörðum málsvara okkar austfirðinga og einlægum stuðningsmanni góðra réttlætismála af flestu tagi. Alveg sérstaklega þess vegna vil ég að heimild hans nú í lögum heimild til handa ráðh. nú sé ótvíræð og skýr til þess að ákveða afslátt afnotagjalda, þar sem það telst réttlætismál að hans mati, og því er frv. þetta flutt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.