13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

7. mál, Framkvæmdasjóður Suðurnesja

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gera að umræðuefni raunveruleg efnisatriði þessa máls, þar sem afstaða mín til þess kemur fram í nál. sem hv. frsm. fjh.- og viðskn. var að lýsa hér áðan, en ég stend að því nál. ásamt öðrum nm. En það, sem ég vildi vekja athygli á í sambandi við þetta mál er, að okkar sjóðakerfi eða okkar lánakerfi er orðið býsna flókið og umsvifamikið. Ég hef hér í höndum skrá yfir fjárfestingarlánasjóði og helstu sjóði sem lána til atvinnuveganna og það er býsna löng upptalning að telja þá alla upp. En ég ætla samt að gera það.

Það er í fyrsta lagi Byggðasjóður, það er Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna, Ferðamálasjóður, Fiskimálasjóður, Fiskveiðasjóður Íslands, Framkvæmdasjóður Íslands, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Iðnlánasjóður, Iðnrekstrarsjóður, Iðnþróunarsjóður, Lánasjóður sveitarfélaga, Stofnlánadeild landbúnaðar, Stofnlánadeild samvinnufélaga, Veðdeild Búnaðarbankans, Veðdeild Iðnaðarbankans, Veðdeild Landsbankans, Verslunarlánasjóður, Atvinnuleysistryggingasjóður, Bjargráðasjóður, Fiskræktarsjóður, Hafnabótasjóður, Orkusjóður og Útflutningslánasjóður. Þetta eru samtals 24 sjóðir. Einn er sá sjóður til viðbótar sem stofnaður var með sérstökum l. í tilefni af náttúruhamförunum í Vestmannaeyjum, Viðlagasjóður, sem mundi verða sá 25. Auk þessa koma svo um 100 lífeyrissjóðir sem allir stunda lánastarfsemi, þannig að hér er um að ræða 125 aðila sem lána með ýmsum hætti til ýmiss konar framkvæmda og starfsemi í landinu. Til viðbótar við þessa 125 aðila kemur svo bankakerfið, allir bankarnir og útibú þeirra sem ég hef nú ekki tölu yfir, svo og sparisjóðir.

Það er hverjum manni ljóst af þessari upptalningu að lánakerfið í heild fyrir 215 þús. manna þjóð, þar sem um er að ræða 125 sjóði, banka og sparisjóði og allt sem þeim fylgir, er býsna margbrotið. Það er dýrt fyrir þjóðina og það er að mörgu leyti óhagkvæmt. Ég er ekki með till. um að gera á þessu breytingar. Ég vildi aðeins nefna þetta í tilefni af því að hér er flutt frv. um að stofna nýjan sjóð fyrir ákveðið svæði í landinu, sem mundi eflaust þýða það ef það væri samþ. að fram kæmu kröfur um aðra sjóði fyrir önnur svæði landsins.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessum staðreyndum og þær mega gjarnan koma inn í þingtíðindi í sambandi við þetta málefni. Og ég er þeirrar skoðunar að þegar af þeirri ástæðu, hversu okkar lánakerfi er margbrotið og yfirbyggingin geysilega dýr fyrir fámenna þjóð, að stofnun nýs sjóðs sé óþörf. Þegar af þeirri ástæðu leggst ég á móti stofnun nýrra sjóða af því tagi sem hér er um að ræða.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál sérstaklega.