13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

7. mál, Framkvæmdasjóður Suðurnesja

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég var sammála meðnm. mínum um það að rétt væri að afgreiða þetta mál til ríkisstj., m.a. af þeirri ástæðu sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að þegar er orðið helst til mikið af fjárfestingarsjóðum og því eðlilegra að vinna að sameiningu þeirra heldur en fjölga þeim. En ég kaus hins vegar að þessari till. n. um að vísa málinu til ríkisstj. hefði fylgt jákvæð afstaða að því leyti, að hún teldi rétt að málefni Suðurnesja væru tekin til sérstakrar athugunar í samræmi við þær hugleiðingar sem komu fram í grg. þessa frv.

Aðstaða suðurnesjamanna er að ýmsu leyti sérstæð t.d. vegna herstöðvarinnar sem þar er og kannske verður lögð niður þá og þegar, enginn getur sagt um það, hvenær það verður. Það getur vel farið svo að það verði fyrr en varir vegna breyttra aðstæðna í alþjóðamálum. Þá er ljóst að á Suðurnesjum mun skapast alveg sérstakt ástand. Til þess verður að sjálfsögðu að taka nokkurt tillit. — Ég sé að hv. 5. þm. Vesturl. brosir að þessum hugleiðingum mínum í sambandi við Keflavíkurvöllinn eða herstöðina. Ég vona að það sé nú ekki af því að honum líki sú hugmynd illa, að svo gæti farið að herstöðin þar yrði lögð niður fyrr en seinna, m.a. vegna breyttra aðstæðna í alþjóðamálum. Ég held að allir landsmenn mundu fagna slíkum breytingum, jafnvel líka þeir sem misstu nöldrið sitt ef slík breyting yrði. Ég a.m.k. trúi ekki öðru en að það yrði fagnaðarefni fyrir hv. 5. þm. Vesturl. eins og aðra. Ég er líka viss um að það yrði fagnaðarefni fyrir sjálfstæðismenn ef slík breyting yrði í alþjóðamálum, þó að þeir hafi nú aðra afstöðu en hv. 5. þm. Vesturl. í þessum efnum. En þetta var nú innskot sem ekki heyrir þeim hugleiðingum til sem ég ætlaði að flytja hér.

Ég tel að vegna þessa viðhorfs þurfi að gefa málefnum Suðurnesja sérstakan gaum, það þurfi að vera til áætlanir eða viðbúnaður í sambandi við það, hvað eigi að gera til að tryggja atvinnuástandið þar ef þróun yrði slík í alþjóðamálum eins og ég er að minnast hér á.

En annað atriði er nærtækara í þessum efnum sem ég tel ástæðu til að ríkisvaldið gefi sérstakan gaum. Aðstaða útgerðarinnar á Suðurnesjum er um þessar mundir á ýmsan hátt erfiðari en víða annars staðar á landinn. Það hefur verið aflabrestur þar í ýmsum verstöðvum á undanförnum vertíðum og afkoma útgerðar þar því tiltölulega lakari en víða annars staðar. Að auki er þess að gæta að bátaflotinn þar mun vera tiltölulega eldri en viða annars staðar og þarfnast því sérstakrar fyrirgreiðslu. En samkv. ákvörðun stjórnar Byggðasjóðs, sem ég er ekki að deila á hér, er ákveðið að veita ekki sérstök framlög úr honum til svæðisins frá Akranesi til Þorlákshafnar. Þess vegna er þetta svæði út undan hvað þetta snertir. Í verstöðvunum við Faxaflóa á Suðurnesjum er nú orðið meira aðkallandi að endurnýja skipin heldur en viða annar staðar og því máli tel ég að þurfi að gefa sérstakan gaum.

Það er af þessum ástæðum sem ég hef rakið, að ég hefði kosið að till. n. um að vísa þessu máli til ríkisstj. hefði fylgt ábending um að hún teldi rétt að gefa málefnum Suðurnesja sérstakan gaum, þó að n. álíti ekki fært að afgreiða þetta frv. í því formi sem það er.