13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

84. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Það er búið að segja ærið margt um það frv. sem hér er til umr., en ég tel mig enn hafa ýmsu við að bæta.

Ég vil fyrst víkja lítillega máli mínu að því sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. sem hér var að ljúka máli sínu. Ég átti satt að segja síst von á því að hæstv. ráðh. gripi til svo ómerkilegra áróðursbragða að tala um það hér, að hann hafi verið að heyra í ræðu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar hér áðan lýsingu á sinnaskiptum sem hv. þm. Magnús Kjartansson átti að hafa tekið að dómi ráðh. Og þessi sinnaskipti Magnúsar Kjartanssonar, sem fram komu í ræðu hans nú hér í hv. d. að dómi hæstv. menntmrh., áttu að vera fólgin í því að hv. þm. Magnús Kjartansson fór hér nokkrum orðum um stjórnarfar í ýmsum ríkjum Austur-Evrópu og lýsti skoðunum sínum á því og varaði jafnframt við því, að það, sem fram hefði komið í máli einstakra talsmanna ríkisstj. áður við þessar umr. bæri um of keim af málflutningi valdhafa í slíkum ríkjum. Í þessu áttu að hafa komið fram einhver sinnaskipti að dómi hæstv. menntmrh. Ja, maður skilur fyrr en skellur í tönnum. Hæstv. ráðh. leyfir sér að gefa í skyn að sá þm., sem um ræðir og fyrir skömmu var samstarfsmaður ráðh. Framsfl. í fyrrv. ríkisstj., hafi áður, á þeim tíma, haft einhverjar aðrar skoðanir í þessum efnum og þess vegna hafi verið að birtast sinnaskipti hans allt í einu nú.

Ég vil leyfa mér að minna rækilega á það og undirstrika hér, að það er ekki heppilegt, hvorki fyrir hæstv. menntmrh. né aðra, að ætla að hafa ummæli og sleggjudóma Morgunblaðsins að biblíu í þessum efnum frekar en öðrum. Það vita allir, sem eitthvað hafa fylgst með íslenskum stjórnmálum, að það hefur í fyrsta lagi frá upphafi verið skýr og afdráttarlaus stefna Alþb., frá því að það tók til starfa í íslenskum stjórnmálum, að ekki kæmi annað til greina heldur en hér skyldi haldið uppi því þjóðfélagi þar sem störfuðu allir þeir stjórnmálaflokkar sem um það kærðu sig og sem menn fengju að tala og skrifa það sem þeim best líkaði hverjum og einum. Og ekki aðeins hefur þetta verið svo þau ár sem Alþb. hefur starfað, heldur var þetta einnig stefna þess stjórnmálaflokks sem hv. þm. Magnús Kjartansson starfaði áður í. Það ætti hæstv. menntmrh. að vita fullvel, og ég tel að það sé honum síst af öllu sæmandi að hafa frammi dylgjur af þessu tagi hér á hv. Alþ.

Það er alkunna að hv. þm. Magnús Kjartansson, sem hæstv. ráðh. beindi að þessum orðum, hefur um mjög langan tíma verið einn allra skeleggasti gagnrýnandi sovéskra stjórnarhátta og stjórnarhátta sem bera keim af aðferðum sem valdhafar þar í landi beita, hvort sem sá selshaus skýtur upp kolli hér á Ísandi eða annars staðar.

Hæstv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, vildi láta svo varðandi dæmi sem hv. þm. Magnús Kjartansson minntist hér á um einræðistilhneigingar gagnvart listamönnum, rithöfundum og myndlistarmönnum sérstaklega, sem hv. þm. Magnús Kjartansson rakti hér dæmi um, að þar hefði svo sem ekki verið um neitt sérstakt að ræða. Menn greindi jú alltaf á um úthlutun listamannalauna og þetta væri í rauninni ekki til að nefna, það sem hv. þm. Magnús Kjartansson talaði hér um í þessum efnum. Látum svo vera að hæstv. ráðh. þyki þau dæmi úr liðnum tíma hér í okkar landi e.t.v. ekki umtalsverð. En við skulum vona að það þýði ekki það að við eigum í vændum fjölgun slíkra dæma hér í okkar landi.

Hæstv. ráðh. kvaðst vilja vísa því algerlega á bug, að fyrirætlunin með þessu frv. ríkisstj. væri sú að dreginn yrði taumur eins eða annars stjórnmálaflokks í Ríkisútvarpinu. Og ég leyfi mér að segja, að þrátt fyrir allt hef ég þá trú að hæstv. ráðh. mæli þetta af heilum hug, og ég vil út af fyrir sig treysta því hvað hann snertir. En ég lýsi enn og aftur furðu minni á því, miðað við allt sem fram hefur komið í umr. um þessi mál, ef hæstv. ráðh. er ekki uggandi um það að ýmsir hans samstarfsaðilar séu þarna í allt öðrum og verri hug. Ég vil leyfa mér að minna hæstv. menntmrh. á það að tveir af hv. þm. Framsfl. í þessari d. hafa lýst eindreginni andstöðu sinni við þetta frv. og annar þeirra a.m.k., hv. þm. Jón Skaftason, færði m.a. þau rök fyrir sinni andstöðu, að hann teldi að frv. miðaði í einræðis- eða alræðisátt, það drægi úr lýðræðislegu yfirbragði þessara mála og færði okkur nær einræðislegum vinnubrögðum.

Ég hygg að það, sem hv. þm. Jón Skaftason sagði um þessi efni, sé alveg laukrétt og ætti að vera mjög auðskilið. Ef menn líta svo á að meginatriðið í þessum efnum skuli vera eindregið það að útvarpsráð skuli skipa í samræmi við meiri hl. Alþ., þar megi alls ekkert út af bregða undir neinum kringumstæðum, ekki í fáeinar vikur eða fáeina mánuði, þá hlýtur að vera eðlilegt að það hvarfli a.m.k. að mönnum að svona vilji menn hafa þetta vegna þess að útvarpsráðið eigi með einum eða öðrum hætti að vera verkfæri í höndum stjórnvalda.

Ég vil leyfa mér að vekja á því athygli líka, að enda þótt hæstv. ráðh. beri af sér sakir varðandi það að hann hafi verið að reka eitthvað sérstaklega á eftir þessu máli, þá virðist áhuginn vera svo mikill einmitt varðandi þetta, að staðreynd er það, að á þessu þingi, sem hér hefur setið síðan í okt., með jólaleyfi að vísu, — þá mun ekkert frv. hafa komið fram frá hæstv. menntmrh. sem ekki var búið nokkurn veginn að fullvinna í tíð hans fyrirrennara, ekkert frv. á vegum menntmrn., menntmrh. nema þetta eitt. Þetta mun vera það eina sem eftir hann liggur í menntamálum, þótt hann sé búinn að sitja á þeim stóli í nær hálft ár. Og það er vissulega hugleiðingarefni.

Það eru tvö atriði í þessu ákveðna frv. ríkisstj., það má segja tvö efnisatriði. Hv. þm. Magnús T. Ólafsson undirstrikaði sérstaklega í sinni ræðu við 2. umr., — og ég vil ítreka það — að ef taka ætti mark á málflutningi hæstv. menntmrh., ef taka ætti hann alvarlega, þá hlyti að vera nægilegt að setja í lög aðeins fyrra atriðið af þessum tveimur, þ.e.a.s. að útvarpsráð skuli kosið að loknum hverjum alþingiskosningum, en þetta er ekki látið duga í frv. eins og það er, heldur er bætt við og hnykkt á að það útvarpsráð, sem nú starfar, skuli hætta þegar í stað, það skuli ekki fá að sitja þá fáu mánuði sem eftir eru af þeim starfstíma sem það var kjörið til samkv. þágildandi lögum árið 1971. Út frá málflutningi hv. þm. Sjálfstfl. er þetta mjög skiljanlegt og í fullu samræmi við þeirra málflutning. En hæstv. menntmrh., sem ég hygg að sé eini talsmaður Framsfl. á hv. Alþ. sem mælt hefur með þessu ákveðna frv., hefur ekki gefið neina skýringu á því, hvers vegna hann telur líka nauðsynlegt að reka þetta ákveðna útvarpsráð frá strax. Hann er enn að halda uppi málflutningi sem er ætlaður til þess að menn líti væntanlega svo á að hann hafi út af fyrir sig ekkert við störf þess útvarpsráðs, sem nú situr, að athuga. En samt vill hann reka það.

Það er auðvitað engin ástæða til að reka þetta útvarpsráð frá nema því aðeins að menn líti svo á að það hafi misfarið með sitt vald, og það hefur borið hér á góma áður í þessum umr., hvaða dæmi væru um það að útvarpsráð hefði misfarið með vald eða meiri hl. þess. Það hafa verið nefnd ýmis dæmi um að það hafi leyft þessum og þessum aðila að tala. Ég ætla ekki að fara að rekja þau hér eða það sem um það hefur verið sagt, en ég hef lýst eftir því, hvaða dæmi menn hefðu um hitt, að hv. útvarpsráð eða meiri hl. þess hafi bannað aðilum að koma fram í Ríkisútvarpinu, sjónvarpi eða hljóðvarpi. Eru þessi dæmi til? Einn hv. þm. tæpti á því hér við 1. umr., það var hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að þessi dæmi væru vissulega til, jafnvel fjölmörg. Hann hefði þau að vísu ekki við höndina, en skyldi gefa mér kost á að sjá þau síðar. Þau hafa ekki komið enn. Nú er komin hér 3. umr., ekkert dæmi. Það væri ágætt að fá þau á borðið fyrir síðustu atkvgr.

Ég hef hins vegar nefnt hér eitt dæmi um þetta, ég gerði það hér við 2. umr., og það var dæmið um það, að ákveðnum sjónvarpsþætti, sem búið var að taka upp, sem starfsmaður sjónvarpsins var búinn að fullvinna, honum var hafnað, honum var fleygt í ruslakörfuna, neitað að sýna hann í sjónvarpinu þótt hann lægi fyrir fullunninn. Þessi ákvörðun var ekki tekin af þeim hópi manna sem venjulega er talað um sem meiri hl. í því útvarpsráði sem hér hefur setið að störfum. Hún var tekin af fulltrúum Sjálfstfl. og fáum öðrum. En flestir þeirra manna, sem þennan umrædda „fasta“ meiri hl. — fasta segi ég nú innan gæsalappa — skipa, þeir voru andvígir þessu eina dæmi um ritskoðun. Þetta var ritskoðun sem var í samræmi við kröfur Morgunblaðsins og Sjálfstfl. Hin dæmin hef ég hvorki séð né heyrt, og ég hygg að þau séu vart finnanleg. Það væri ákaflega fróðlegt að heyra hver þau væru, ef þau eru til. Ég þekki þau ekki.

En það er út af fyrir sig skoðun, að það sé vitavert að hleypa fram í fjölmiðlum, Ríkisútvarpinu, skoðunum eða viðhorfum sem menn telja hættuleg. Mér kemur út af fyrir sig ekki á óvart þó að menn finnist með slík viðhorf. En menn skulu gæta sín á slíkum viðhorfum. Þau geta mjög fljótlega leitt menn út í hreina ófæru, — ófæru sem menn hafa kannske ekki ætlað sér að lenda í, þannig að menn verða að gera svo vel að mínu viti, bæði hv. alþm. og aðrir, að hafa uppi nokkra sjálfsgagnrýni, vil ég segja, í þessum efnum, skoða hug sinn vandlega á hvaða leið þeir yfirleitt séu, áður en þeir stíga skref í slíka átt. En það skref liggur ekki fram á við, það liggur niður. Og það er þeim mun athyglisverðara að slíkt skuli geta átt sér stað, að hv. alþm. telji, nokkrir þeirra a.m.k., að útvarpsráð hafi misfarið með sitt vald á þann hátt, með því að leyfa þessum og þessum að komast að í Ríkisútvarpinu. Og það er athyglisvert, að þetta skuli í allmörgum tilvikum vera sömu mennirnir, sömu einstaklingarnir sem vart hafa mátt vatni halda yfir því að fyrrv. ríkisstj. leyfði sér að loka hér fyrir útsendingar sjónvarps frá erlendri herstöð hér í landinu. Þá átti að leyfa öllum að tala — eða var það ekki? Sjónvarpsstöð á vegum erlends herveldis sem hér hefur herbækistöð um takmarkaðan tíma — hún átti aldeilis að fá að vera í friði og ala þessa þjóð upp. Það að vilja hafa þar einhverjar hömlur á, það hét á máli þeirra sem þar gengu harðast fram, að menn væru að ráðast á hið eðlilega tjáningarfrelsi sem allir aðilar ættu að hafa og eðlilegt væri að hér væri til staðar. En þegar að því kemur að íslensk stofnun, stofnun þessa þjóðríkis sem við búum í, ríkisstofnun, ríkisfjölmiðill fái stjórn sem ætlar að fara eftir þeirri almennu reglu að þar skuli sem allra fæstir okkar samlanda útilokaðir, þá er hlaupið upp til handa og fóta og menn þola ekki lengur við.

Ég vil aðeins segja við hv. þm.: Er ekki ástæða til að vera a.m.k. svolítið hugsandi varðandi þann samanburð sem ég hef hér dregið fram hvað þetta snertir? Við skulum varast það öll í þessari stofnun, hv. Alþ., sem annars staðar að halda okkur hvert og eitt sitja inni með allan sannleikann. Við þurfum öll á því að halda að hugsa, að taka kannske fyrri viðhorf til endurskoðunar, og ég held að við ættum að skoða vel í hug okkar, hvort ekki sé ástæða til að draga nokkurn lærdóm af þeim samanburði sem ég hef hér sett fram.

Hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, sagði hér við 2. umr. málsins á kvöldfundi að það blað, sem hann hefur lengi starfað við, Morgunblaðið, vildi gjarnan gæta hlutlægni í fréttaflutningi og leyfa sjónarmiðum að komast að. Ég vil út af fyrir sig ekki vefengja það, að innan ákveðins ramma sé nokkur vilji fyrir hendi í þessa átt — innan ákveðins ramma. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hrósaði yfirstjórn blaðsins á liðnum árum — þar með væntanlega sjálfum sér jafnframt — af því í næstu setningum, sem hann mælti þar á eftir, að það væri þó föst regla við þetta blað að þegar menn væru þar ráðnir til starfa, þá væru þeir spurðir að því, hvort þeir væru anarkistar, og hvort þeir væru kommúnistar, og að sjálfsögðu væri enginn ráðinn nema hann sverði þetta af sér. Hann talaði að vísu ekki um svardaga, en sagði að slíkir menn kæmu auðvitað ekki til greina. Honum fannst þetta algerlega eðlilegt og sjálfsagt mál, sem væntanlega ætti að gilda hvar sem er og væntanlega líka við Ríkisútvarpið — eða hvað?

Það hefur verið ákveðin stofnun hér á Íslandi önnur en Morgunblaðið sem líka hefur haft þessa reglu. Ég veit ekki með vissu nema um þessar tvær. Hvaða stofnun er það? Ég tala þá um hlutina eins og þeir voru a.m.k. fyrir fáeinum árum. Það er hugsanlegt að þeir hafi breyst nú. Þessi stofnun er sendiráð Bandaríkja Norður-Ameríku á Íslandi. Það hefur líka uppi þennan sama spurningalista eða hafði a.m.k. fyrir ekki ýkjalöngu. Ef menn vildu fá vegabréf til Bandaríkjanna, þá urðu þeir að gera svo vel að skrifa undir svipaða pappíra um að þeir væru ekki kommúnistar eins og hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson hældist yfir að Morgunblaðið rétti að mönnum sem hygðust ráða sig þar í vinnu. Við skulum vona það, hv. alþm., að þessar tvær stofnanir lendi ekki í því að rugla saman sínum pappírum, þannig að þeir viti ekki hvað er blað annars og hvað er blað hins. Þá er illa komið.

Á sama tíma og það þykir rétt og skylt af ýmsum mætum mönnum hér á hv. Alþ. að setja sérstök lög til að hnekkja einu útvarpsráði nokkrum mánuðum áður en kjörtímabil þess rennur út, og þetta er gert vegna þess af flestra hálfu, sem að því standa, að þetta útvarpsráð er talið hafa misfarið með sitt vald og misfarið með sitt vald fyrst og fremst varðandi það að hafa ekki gætt nægilega grundvallarreglu Ríkisútvarpsins um óhlutdrægni, þá virðast menn á sama tíma ekki eiga neitt erfitt með að fella brtt. sem hér var borin fram af okkur í minni hl. menntmn., — brtt. og þá sérstaklega ákveðinn málsl. hennar, þann málsl. sem kvað á um að starfsmenn erlendra ríkja eða erlendra fjölþjóðastofnana, sem njóta sérstakra fríðinda gagnvart íslenskum lögum, gætu ekki verið kjörgengir í útvarpsráð. Um þetta var okkar till., sá málsl. sem hér voru greidd atkv. um með nafnakalli, og sú brtt, var felld. Það er sem sagt niðurstaðan hér á hv. Alþ., að þetta sé allt í lagi, við það sé ekkert að athuga þótt starfsmenn erlendra ríkja eða erlendra fjölþjóðasamtaka, eins og um var að ræða í því ákveðna dæmi sem var tilefni þessarar till., skipi æðstu stjórn íslenska Ríkisútvarpsins og það þrátt fyrir það þótt slíkur aðili njóti hér sambærilegra réttinda að mörgu leyti við erlenda sendimenn annarra ríkja, skattfríðinda, friðhelgi gagnvart málssókn o.s.frv.

Ég held að þegar þessi brtt. okkar var felld, þá hafi gerst hér á hv. Alþ. atburður sem mundi vekja mjög mikla athygli í flestum þeim ríkjum heims hér í nágrenni við okkur, sem við teljum okkur skyldust um stjórnarfar, ekki aðeins hjá stjórnmálamönnum, heldur einnig hjá almenningi, svo fremi sem þeim væri um það kunnugt að annað eins gæti gerst í þessari stofnun. Ég vil biðja hvern einstakan hv. þm. að hugleiða það, áður en hér kemur að lokaatkvgr., hvort hann geti látið það hvarfla að sér að annað eins og þetta, — og ég á þá fyrst og fremst við veru viðkomandi einstaklings í útvarpsráði, hvort annað eins og þetta gæti gerst í nokkru ríki sem við teljum standa okkur nálægt um stjórnarfar. Ég leyfi mér að fullyrða að það er gersamlega útilokað og þætti fjarri öllu lagi, t.d. á Norðurlöndum.

Hér er nú að hefjast Norðurlandaþing. Kannski hv. þm. vildu spyrja þm., sem hingað koma frá öðrum Norðurlandaríkjum, ef þeir eru í vafa: Gæti þetta átt sér stað í einhverju þeirra? Það er út af fyrir sig hægt að segja að við eigum ekkert að vera að apa neitt eftir öðrum þjóðum, við eigum að hafa hlutina eftir okkar eigin höfði. Víst er mikið til í því og það er rétt, við eigum að hafa þá eftir okkar eigin höfði. En er samt ástæða til að skera sig úr hvað þetta snertir? Það hefði ég a.m.k. viljað vona að meiri hl. Alþ. teldi ekki vera.