24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. kom af alkunnum drengskap inn í umr. og var að kenna mér ráð sem auðvitað reyndur maður, en ég aftur unglingur. En það var eitt sem hann sagði, blessaður höfðinginn, að það hefði ekki nokkur maður talað við sig um að það væri óheimilt að veiða steinbít, eða setja kvaðir á hver steinbitsafli mætti vera í einstakri veiðiferð. Það stendur hér í reglugerð: „Þá skal óheimilt á tímabilinu 1. nóv. til 15. mars að landa steinbít sem nemur meira en 5% af afla skips í hverri veiðiferð.“ Undir þetta skrifa Lúðvík Jósepsson og Þórður Ásgeirsson eigin hendi. Það má hver þm. sjá það sem vill hér á eftir, hvort ég hafi ekki farið með rétt mál. Nei, það hefur enginn talað við hann, hann vissi ekkert um það. Hann veit þá ekki, fyrrv. sjútvrh. undir hvað hann var að skrifa á meðan hana var sjútvrh.

Þetta var skemmtilegt innlegg í málið, af því að hann var að reyna að ná sér niðri á mér, að ég ætti að stjórna Verðlagsráðinu á þann veg að það ætti ekki að hreyfa sig á einn eða annan hátt en eins og ráðh. vildi. Ég hef ekki lagt það í vana minn að vera á skrifstofu Verðlagsráðs fram á nætur. Ég hef rætt við oddamann, ég hef rætt við einstaka verðlagsráðsmenn um heildarniðurstöðu á fiskverði. Ég tel það miklu eðlilegri viðbrögð á allan hátt. Mín stefna var sú að hækka sem mest stærsta fiskinn og miðlungsfiskinn, ekki að verðlauna smáfiskinn, ekki að standa að því að auka smáfiskadrápið, eins og ég sagði áðan. Ég óskaði eftir því eindregið — og það veit ég að oddamaðurinn kannast við — og varaði hann eindregið við að fara eftir þessari reglugerð, sem sett var í þessum efnum, og hafa sama verð á vinnsluhæfum steinbít frá áramótum og út tímabilið. Hann var sjálfur inni á þessu og ég veit að hann er sá drengskaparmaður, að hann kemur til með að kannast við það hvenær sem er. Hins vegar setti ég það ekki á oddinn og sagði: Þú gerir engan hlut í Verðlagsráði nema þetta sé gert. Nú er nógu lengi búið að biða eftir fiskverðákvörðuninni.

Hæstv. fyrrv. sjútvrh. kemur svo með að það hafi verið lögbrot hvað seint var ákvarðað fiskverð. Fyrst 8. janúar var fiskverðið ákvarðað á s.l. ári. Það er líka lögbrot. En það er ekki lögbrot þegar Lúðvík Jósepsson er annars vegar. En hvaða erfiðleikar voru þá að afgr. fiskverð. Þá var hægt að koma með fiskverðið fyrir áramót. En það er ólíku saman að jafna þeim ástæðum sem nú hafa legið til grundvallar við fiskverðsákvörðun. Ég held að hann ætti að temja sér að tala af meiri drengskap en hann gerir, þessi hv. þm.

Kjartan Ólafsson sagði, að það breytti engu um eðli málsins þó að uppbætur á línufisk og þar með steinbít hafi verið hækkaðar, það breytti engu þó að ríkið hækki sitt framlag um 50%, þó að það sé ekki há upphæð. Vitaskuld breytir það eðli málsins, að fiskkaupendur hækka um 15% sitt framlag og ríkið um 50%. Fyrrv. sjútvrh. hélt þessum tölum niðri við uppbætur á línufisk meðan hann var sjútvrh. Var hann að sýna vestfirðingum og öðrum, sem stunda línuútgerð, sérstakan vináttuvott með því að hafa engan áhuga á því? Ég ræddi við hann einslega um það hvað eftir annað, en hann hafði engan áhuga á þeim efnum. Ég vona að áhugamaðurinn Kjartan Ólafsson fyrir línuútgerð reyni að hafa áhrif á áhugaleysi Lúðvíks Jósepssonar í þessum efnum.

Ég tek undir það, að ég sé ekki annað en að fiskverkunarstöðvar, sem taka við steinbít í febrúarmánuði, sem er vinnsluhæfur, geta borgað sama verðlag verður á steinbít 1. mars og út þessa vertíð. Hitt hef ég til athugunar, eins og ég sagði áðan, í sambandi við útflutningsgjaldið, að það er ekkert meira að breyta því hvað steinbít snertir heldur en því hefur þegar verið breytt hvað snertir karfa.