24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

155. mál, Ríkisforlag

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Tilgangurinn með flutningi frv. á þskj. 284 er, eins og ég tel það beri með sér, tvíþættur. Annars vegar miðar frv. að því, að það fjármagn — það mikla fjármagn vil ég segja, sem ríki og ríkisstofnanir verja til útgáfustarfsemi, nýtist sem best og þar sé allrar hagsýni gætt. Hins vegar og ekki siður er ætlunin með flutningi þessa frv. að stuðla að því, að sú fjölþætta upplýsingastarfsemi, sem ríki og ríkisstofnanir hljóta að reka með útgáfu hvers kyns rita sem þau standa að sé sem tiltækust öllum almenningi sem á þessum upplýsingum þarf að halda.

Eins og í grg. kemur fram er það æði-almenn reynsla þeirra, sem einhverra hluta vegna þurfa að afla sér upplýsinga úr opinberum plöggum, að það er bæði tafsamt og torvelt að tina slík upplýsingarit saman, oft á mjög mismunandi stöðum. Á það við um slík höfuðgögn í starfsemi ríkisins sem til að mynda lög, sem sett hafa verið, og reglugerðir svo og hvers konar skýrslugerð sem ríkisstofnanir hafa með höndum.

Nú er sá háttur á, að hver ríkisstofnun eða rn. sér um sig, um útgáfu er varðar þau mál, sem þar er um fjallað. Ég er ekki í neinum vafa um að til þess er varið miklu fé og miklum starfskröftum þegar allt er talið, en heildarupplýsingar um það er hvergi að fá. Það er því að mínum dómi og meðflutningsmanns míns tvímælalaust mikil vinnuhagræðing fyrir ríkið að komið yrði á einni stofnun, sem hefði yfirsýn yfir þessa útgáfustarfsemi í heild og annaðist enn fremur sjálf útgáfustarfsemi eftir því sem hagkvæmt þætti að fela slíkri miðstöð. Ég held að ekki þurfi að lýsa fyrir hv. þm. vinnusparnaði og hagræði fyrir þá, sem upplýsinga þurfa að afla, að geta gengið að þeim á einum stað frekar en þurfa að leita milli margra rn., stofnana og skrifstofa til þess að afla sér þeirra gagna sem þörf er á hverju sinni.

Í 1. gr. er kveðið á um nafn þessarar fyrirhuguðu stofnunar, hún skuli heita Ríkisforlag, og er slíkt auðvitað ekkert höfuðatriði. En höfuðatriði frv. felst í 2. gr. um að ríkisforlag þetta skuli hafa annars vegar yfirsýn yfir útgáfu allra rita, gagna, bóka, blaða og bæklinga ort annars prentaðs máls, er fram fer í upplýsingaskyni á vegum ríkisins og stofnana þess, og hafa jafnan þetta efni til sölu og dreifingar á einum stað. Hins vegar er gert ráð fyrir að forlag þetta annist sjálft útgáfu rita á vegum rn. og ríkisstofnana, eftir því sem starfssvið og starfshættir stofnunarinnar verða nánar ákvarðaðir í reglugerð. Okkur flm. þykir það allt of viðurhlutamikið að ganga út frá því sem gefnu, að það sé sjálfsagt að fela einni stofnun alla þessa útgáfustarfsemi á ríkisins vegum. Það teljum við að verði best ákvarðað með reglugerð eftir nánari athugun. Þá er einnig í 2. gr. gert ráð fyrir því, að Ríkisforlagið leiti samráðs við landssamtök, sem helst eiga hlut að máli, um upplagsstærð þeirra rita, svo sem laga og reglugerða, sem sérstaklega varða málefni meðlima þeirra. Þetta teljum við að sé nauðsynlegt að taka fram, því að það mun allalgeng reynsla, að þegar leitað er eftir tilteknum gögnum, meira að segja lögum og reglugerðum, þá reynist upplag þrotið og þessi nauðsynlegu gögn jafnvel ekki fáanleg langtímum saman. En ég vek sérstaklega athygli á orðalaginu í 2. gr., að það, sem lagt er til að Ríkisforlagið sjái um, varðar þau rit ein sem ríki og ríkisstofnanir gefa út í upplýsingaskyni.

Í grg. er tekið fram, að ekki sé ætlast til að þessi nýja stofnun seilist inn á verksvið þeirra ríkisforlaga sem fyrir eru og hafa með höndum afmarkaða útgáfu, annaðhvort til skólanota eða fyrir almennan markað, eða hin sérhæfða fræðiritaútgáfa sem t.d. fer fram í Stofnun Árna Magnússonar.

Í 3. gr. er ákvæði um að við stofnun þessa Ríkisforlags skuli hagnýta starfskrafta þeirra er þegar vinna við útgáfustörf á ríkisins vegum, þannig að sparnaður og vinnuhagræðing náist.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að Ríkisforlag heyri undir félmrn. Þessi till. byggist á því, að sú upplýsingaskylda og sú upplýsingamiðlun, sem fram fer á vegum ríkisins, beinist líklega ekki að neinum stærra hópi en til sveitarstjórnarmanna og þeirra sem fjalla um margvísleg sveitarstjórnarmál. Því er ákvæðið um að félmrn. skuli hafa yfirstjórn Ríkisforlags. Ég skal viðurkenna, að þetta er ekki sjálfgefið. T.a.m. kunna menn að benda á, að dómsmrn. sér um útgáfu Stjórnartíðinda, Lagasafns og Lögbirtingablaðs. Vissulega mætti því færa rök að því, að Ríkisforlag ætti þar e.t.v. heima. En þetta er atriði sem ég tel eðlilegt að athugað verði í n.

Ákvæðin í 5. gr. eiga að dómi okkar flm. að tryggja það, að stofnun Ríkisforlags verði a.m.k. ekki til þess að auka ríkisútgjöld og jafnvel til þess að draga úr þeim. Við teljum að útgáfan og útgáfuþörfin verði nokkuð jöfn, hvort sem þetta Ríkisforlag starfar eða ekki, hvort sem það verður stofnað eða hver ríkisstofnun og rn. baukar í sínu horni við útgáfu og dreifingu rita og ritlinga.

Það mun hafa verið nokkuð almenn regla og vera enn, að ríkisstofnanir útbýti ókeypis þeim ritum sem þær gefa út beinlínis í upplýsingaskyni. Okkur flm. finnst rétt, að Ríkisforlag taki eðlilegt og hæfilegt gjald fyrir þessa þjónustu, sem nægi til þess að mæta kostnaði bæði við útgáfu og við þá dreifingu sem ætti sér stað á vegum Ríkisforlags. Þó er í 2. málsl. þessarar gr. gert ráð fyrir því, að áfram geti haldið ókeypis dreifing þeirra gagna, sem þykja varða hagsmuni svo mikils fjölda þegnanna eða svo samfellds hóps að viðkomandi ráðh. þyki sjálfgefið að dreifa þeim ókeypis.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta frv., herra forseti, en leyfi mér að leggja til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2 umr. og hv. félmn.