25.02.1975
Sameinað þing: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

98. mál, kostnaðarhlutur sveitarfélaga varðandi stofnun og starfrækslu fræðsluskrifstofanna

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég vil aðeins vekja athygli þm. á því, sem fram kom í máli hans, að enda þótt menntmrn. hafi óskað mjög eindregið eftir því við fjórðungssamböndin að þau lykju ákvörðunartöku í sumar um hvar ætti að staðsetja fræðsluskrifstofurnar, gengju jafnvel frá samþykktum um það hvernig þau ættu að skattleggja sina aðila, þ.e.a.s. sveitarfélögin, í sambandi við kostnaðarhluta sveitarfélaganna í skrifstofuhaldinu, þá liggur ekki fyrir fyrr en nú um áramótin áætlun frá menntmrn. um kostnað við þessa starfsemi.

Það ber ekki mikið á milli í þeim áætlunum sem menntmrn. hefur gert um rekstrarkostnað og stofnkostnað þessara skrifstofa, og þeirri áætlun sem Fjórðungssamband vestfirðinga gerði um skrifstofu sína. Það ber ekkert á milli varðandi stofnkostnað, það er sama upphæðin, en töluvert sem ber á milli í sambandi við almennan rekstrarkostnað. Ég vil taka það sérstaklega fram, að um þetta var gerð mjög nákvæm áætlun af Fjórðungssambandi vestfirðinga, sem ég hef hér undir höndum, og þar er miðað við verðlagið í nóv. 1974. Hvort sem möguleiki er að reka þetta með jafnódýrum hætti eins og menntmrn. gerir ráð fyrir eða hin áætlunin reynist réttari, um það vil ég ekki dæma, en þá er það engu að síður staðreynd að þarna þarf t.d. þetta fjórðungssamband — og sama máli gegnir um Norðurl. v. og Vesturland — að leggja fram til stofnkostnaðar og rekstrar nokkuð á þriðju millj. kr. Fjórðungssamböndin á þessum stöðum hafa ekki yfir þessu fé að ráða. Ég veit um að Fjórðungssamband vestfirðinga gerði ekki ráð fyrir því á fjórðungsþingi sínu í haust, að svo mikið fjárframlag þyrfti frá sveitarfélögunum til greiðslu rekstrarkostnaðar og stofnkostnaðar við þessa fræðsluskrifstofu. Ég vil eindregið óska eftir því við hæstv, menntmrh. að hann láti verða af því að tryggja þessum sveitarfélögum sérstaka tekjustofn til að geta staðið undir sínum kostnaðarhluta.