25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl., er fyrst og fremst framlenging um eins árs skeið á l. nr. 5 frá 1974 og á l. nr. 47 frá 1974. Með hinum fyrri l., nr. 5 frá 1974, var heimiluð álagning sérstaks gjalds, eins söluskattsstigs, til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, en jafnframt var í þeim l. ákveðið, að um ráðstöfun þess skyldi síðan sérstaklega ákveðið í l., og það var svo gert með l. nr. 47/1974 og þar mælt fyrir um hvernig tekjum af gjaldinu skyldi varið. Því skyldi annars varið til að styrkja þá aðila, sem nota olíu til hitunar íbúða sinna, og hins vegar skyldi því varið til að styrkja rafveitur að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar íbúða á sölusvæði sínu. Á grundvelli laga nr. 47/1974 var svo sett reglugerð, nr. 174 frá 30. maí 1974, um úthlutun olíustyrks. Í þeirri reglugerð er kveðið nánar á um framkvæmd laganna.

Eins og tekið er fram í aths. við þetta lagafrv. mun vera nálægt því að 95 000 einstaklingar hafi notið olíustyrks og heildarfjárhæð til þeirra á tímabilinu 1. mars 1974 til 28. febr. 1975 hafi numið 650–700 millj. kr. Þetta er ekki hægt að segja alveg með nákvæmni vegna þess að uppgjör liggur enn ekki endanlega fyrir og það kemur nokkuð eftir á. Jafnframt hefur á sama tímabili verið varið um 50 millj., að ætla má, til greiðslu til rafveitna. Skv. þessari reglugerð og þeirri framkvæmd, sem á þessu hefur verið höfð, hefur olíustyrkurinn numið 1800 kr. á þriggja mánaða tímabili til hvers einstaklings eða 7 200 á ári. Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir því, að þessi skipan mála sé framlengd um eitt ár og olíustyrkurinn verði að krónutölu til sá sami á þessu tímabili og hann hefur verið, 7 200 kr., en þó þannig að ellilífeyrisþegar, sem njóta bóta skv. 19. gr. l. um almannatryggingar, og aðrir lífeyrisþegar, sem hafa svipaðar heildartekjur, fái greiddan styrk sem nemur einum og hálfum styrk hvers einstaklings, og er það líka í samræmi við þá lagasetningu sem verið hefur.

Ég býst ekki við því, að það verði ágreiningur um að nauðsyn sé á því að framlengja þessi ákvæði, vegna þess að þær ástæður, sem voru fyrir hendi í fyrravetur, þegar þessi lög voru sett, olíuverðshækkunin, eru enn fyrir hendi og raunar jafnvel í enn ríkara mæli, þar sem alkunnugt er að síðan hafa átt sér stað nokkrar og það reyndar verulegar hækkanir á olíu. En jafnframt því sem þannig er um að ræða framlengingu fyrri ákvæða er skotíð inn nýmæli í þetta frv. og það er að finna í e-lið 2. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að með því að binda olíustyrkinn við sömu krónutölu og gilt hefur á síðasta tímabil verði nokkur afgangur af tekjum þeim, sem hér er um að tefla og eitt söluskattsstig gefur. Var á sínum tíma áætlað að eitt söluskattsstig mundi gefa á tímabilinu 1. mars 1975 til 29. febr. 1976 960 millj. kr. Það er auðvitað áætlun, en ég geri naumast ráð fyrir því að það sé ástæða til að ætla að sú upphæð verði lægri. Þá má sjá að þarna getur verið um nokkurn afgang að ræða, sérstaklega þó vegna þess að það er gert ráð fyrir því, að á þessu tímabili tengist fjölmenn svæði hitaveitu. Þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða svæðið Kópavog, Hafnarfjörð, Garðahrepp, þó að um fleiri staði kunni að vera að tefla. Þá mun það hafa verið svo samkv. þeim l., sem giltu á því tímabili sem senn er á enda runnið, að um leið og hús var tengt hitaveitunni féll að sjálfsögðu niður olíustyrkur til þeirra íbúa, sem þar bjuggu, þannig að þótt haldið væri sömu reglu og áður mætti gera ráð fyrir því að þarna yrði nokkur afgangur. Auk þess er stigið þarna nokkru lengra skref, og það er breyt. frá því sem var í þeim l. sem giltu á s.l. tímabili, að styrkurinn skuli ekki greiddur til þeirra sem fá íbúðarhúsnæði sitt tengt við hitaveitu fyrir 29. febr. 1976, en gera má ráð fyrir að það verði a.m.k. mjög mikill hluti íbúa þess svæðis sem ég nefndi áðan.

Það er aðeins lausleg sundurliðun sem ég hef hér í höndum um olíustyrkinn eða greiðslu til þeirra sem búa á þessum svæðum sem ég nefndi, í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði. Greiðslur til þeirra á tímabilinu 1974–1975 má ætla að hafi numið í Kópavog 60 millj. kr., Garðahrepp 24 millj. kr. og Hafnarfjörð 72 millj. kr., eða samtals til þessa svæðis 156 millj. kr. Ef greiðslur yrðu óbreyttar í samræmi við þau lög sem giltu, má ætla að samsvarandi upphæðir yrðu til Kópavogs 24 millj., Garðahrepps 18 millj. og Hafnarfjarðar 58 millj., eða um 100 millj. alls, þannig að styrkur til þessa svæðis yrði þá 56 millj. kr. minni. Ef aftur á móti er miðað við þá reglu sem felst í þessu frv., er gert ráð fyrir því að styrkur til þessa svæðis yrði aðeins 40 millj. og mundi þá sparast 116 millj. við það að lögfesta þá reglu, sem í þessu frv. felst. Ákveðið er í þessum c-lið 2. gr. að þessum afgangi, hvort sem hann verður meiri eða minni, verði varið til Orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda. En eins og þm. er sjálfsagt kunnugt, þá er af eðlilegum ástæðum viða áhugi á rannsóknum, jarðborunum, til þess að kanna hvort möguleikar séu fyrir hendi til hitaveitu og einnig á mjög mörgum stöðum áhugi og farið að vinna beinlínis að því að setja hitaveituframkvæmdir af stað utan þessa svæðis, sem ég hef áður nefnt. En til þessara framkvæmda og þessara rannsókna er verulegur skortur á fé í Orkusjóðinn. Þeirri fjárhæð, sem með þessum hætti kynni að renna til Orkusjóðs, mundi því verða vel varið með þessum hætti og gæti flýtt fyrir því og stuðlað að því að æ fleiri gætu orðið aðnjótandi húsahitunar með hitaveitu og þannig fengið ódýrari hitun en þeir búa nú við og sparað mjög dýrmætan gjaldeyri sem fer í innflutning á olíu. Eins og orkusjóðslögin eru núna er raunar aðeins heimilt eftir þeim að veita úr Orkusjóði til jarðaborana. En til þess að taka af öll tvímæli er þarna sagt: til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda þannig að verksvið Orkusjóðsins er að þessu leyti til í raun og veru rýmkað með þessu ákvæði ef það verður að lögum.

Ég þarf ekki að taka það fram, það getur hver og einn sagt þér það sjálfur, að með því að láta sömu reglu gilda og áður hefur gilt, þá getur olíustyrkur til hvers einstaklings orðið nokkru hærri. Menn verða að gera það upp, hvort þeir vilja hverfa að því ráði að úthluta þannig því fé, sem til fellur með þessu skattgjaldi, með þeim hætti eða leggja nokkuð af því til hliðar í þessum tilgangi sem ég hef hér talað um. Ég mun auðvitað fallast á það sem meiri hl. þings vill um þetta ákveða. Það er vandi þingsins að ákveða það. En ég tel mjög skynsamlega aðferð að leggja þannig til hliðar nokkuð og tel að þeir aðilar, sem þarna er fyrst og fremst um að ræða og eiga von í hinum ódýrari hita á þessu tímabili, ættu að geta fellt sig við að leggja þannig nokkuð af mörkum til þess að greiða fyrir því að fleiri gætu komist í samband við jarðvarma og fengið hitun húsa sinna með þeim hætti. Ég þarf ekki að rekja það, hv. þm. er sjálfsagt kunnugt um að það eru staðir víðs vegar úti á landi sem eru einmitt að hyggja að þessum málum nú og eru með þau í undirbúningi. Og það er ekki nokkur vafi á því, að ef Orkusjóður gæti haft nokkra upphæð, sem gæti fengist með þessum hætti, þá gæti það hjálpað til við þær rannsóknir, sem þar þarf að gera, og við þær framkvæmdir, sem þar þarf að gera.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vona að það sé nokkuð skýrt, hvað hér er um að tefla, og ég geri sem sagt alls ekki ráð fyrir því, að það verði ágreiningur í sjálfu sér um framlengingu laganna þetta tímabil. Það getur þá hugsanlega aðeins orðið eitthvert umhugsunarefni, hvort á að hverfa að því nýmæli sem er að finna í lögunum, og í þeim búningi, sem það er í þar. Það veit ég að hv. n., sem málið fær til meðferðar, mun skoða. Þessi lög, sem hér er verið að framlengja, renna út n.k. föstudag, og þess vegna verðum við að fara fram á það við hv. d. að hún bregðist skjótt við og stuðli að því að frv. fái skjóta afgreiðslu. Ég vil mælast til þess, að n. haldi þannig á máli, að það verði hægt að afgr. málið úr þessari hv. d. á morgun. Og ég veit ekki betur en að það mál hafi verið rætt við forstöðumenn stjórnarandstöðunnar og að þeir hafi fallist á að greiða fyrir afgreiðslu málsins .

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. fjh: og viðskn.