25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur gert grein fyrir frv. Það kom fram, að efnislega væri þetta, eins og kemur fram í 1. gr., framlenging á ákvæði sem þegar væri í gildi um 1% söluskattsgjald til að jafna sárindi vegna olíuhækkunar, og út af fyrir sig er ég ekki andvígur þessari gr. Hins vegar er ég algjörlega á öndverðum meiði við ákvæði 2. gr. og mun nú nokkuð fjalla um það. En ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir, að hann drap á, að það væri þó ekki það ákveðið markmið eða sjónarmið, sem hún setti fram, að það mætti ekki ræða og velta vöngum yfir því, og svo yrði að ráðast hvort meiri hluti myndaðist um það sjónarmið eða eitthvað annað. Því ætla ég aðeins að fjalla um þetta.

Í fyrsta lagi kemur í ljós, að gert er ráð fyrir, að talan, sem greiða á til baka aftur, er sú sama og gilt hefur. Eins og hæstv. ráðh. drap á hefur olían hækkað mikið. Hún hefur hækkað vegna gengisfellingar og hún hefur hækkað einnig vegna erlendrar söluhækkunar til okkar. Það er því augljóst mál, að ef krónutalan á að vera sú sama, þá er hér um auknar byrðar að ræða fyrir þá sem ekki njóta hitaveltu í landinu. Það verður ekki komist hjá því. Og þá auðvitað kemur sú spurning upp: Eigum við að mæta í krónutölu með hækkun þeirri hlutfallslegu hækkun sem orðin er á olíunni ti1 neytandans? Nú mun hún vera komin nokkuð yfir 20 kr., jafnvel 23–24 kr. lítrinn, ég man það ekki alveg örugglega, úr um 16 km., sem hún var lengi á s.l. ári, svo að hér er ekki langt frá því um fjórðungshækkun að ræða eða jafnvel liðlega það, jafnvel yfir þriðjungshækkun, svo að það hlýtur að vera meira en vangavelta sem knýr okkur til að hugleiða alvarlega hvort ekki sé óhjákvæmilegt að hækka þessa tölu nokkuð. Ég lýsi því þeirri skoðun, að það sé óhjákvæmilegt að hækka hana. Það getur verið deiluatriði, hvort við eigum að skipta öllu upp algerlega eða ekki, en ég vil fara mjög nálægt þeirri hækkun í krónutölu sem hreyfingin á olíunni er og söluskattsstigið gefur okkur. Það þýðir það, að við höfum til ráðstöfunar fast að milljarði í staðinn fyrir 600–700 millj.

Svo er annað atriði sem mér þykir athyglisvert. Hæstv. ríkisstj. reiknar með því, miðað við það sem skeð hefur, að söluskattsstig gefi nú aðeins tæpan milljarð. Þetta kom mér mjög á óvart. Og þá er það undirstrikað, svo að ekki verður um villst, að reiknað er með að kaupgeta almennings í landinu snarversni á yfirstandandi ári, því að miklar verðbreytingar hafa átt sér stað vegna gengisbreytinga og velta mun aukast að þeim orsökum. Hún mun aðeins hafa þennan hemil með því einu móti að kaupgeta almennings sé verulega skert. Ég man ekki nákvæmlega upp á millj. hvað fjárlagafrv. gerði ráð fyrir að söluskattsstigið gæfi, en ég held að það sé ekki langt frá því að fjárlög hafi gengið út frá 930 millj. kr. á söluskattsstigi fyrir yfirstandandi ár. En hér er því slegið föstu þrátt fyrir gengisbreytingu, að þessi tala sé mjög svipuð, og það er að mínu mati undirstrikun á því, að hæstv. ríkisstj. tekur það fram að lífskjör almennings í landinu þrengist verulega og það er fyrirfram ákveðið. Þá auðvitað verður byrðin af olíunni fyrir þá, sem minna mega sín, enn sárari og enn meiri nauðsyn á því að komið sé á móti þessari miklu hækkun með hærri krónutölu til jöfnunar.

Svo er annar þáttur, sem er skotið hér inn ósköp meinleysislega í greinina og segir: „Styrkur þessi skal eigi greiddur til þeirra, sem fá íbúðarhúsnæði sitt tengt við hitaveitu fyrir 29. febr. 1976.“ Skemmtilega valinn dagur, hlaupársdagur 1976. Hér er nú boðið upp á nokkuð undarlega hluti. Sá maður, sem getur komið því svo fyrir, að húsið hans tengist nú 1. mars, á fullan rétt á uppbótum. Við megum ekki hafa svona löggjöf í gildi í landinu, sem býður mönnum upp á það að gera smátilfærslur. Ég lýsi algerri andstöðu gegn slíku. Efni þessa frv. er það að greiða mönnum hluta af kostnaði, sem olíuhækkunin hefur skapað, til baka aftur með jöfnunargjaldi sem ég efnislega er samþykkur. Ég held, að við séum að fara út á varhugaverða braut þarna og mér fannst á hæstv. ráðh. að hann væri ekki svo harður á þessu ákvæði, að hann geti ekki fallist á að þetta sé endurskoðað og jafnvel fellt í burtu. Hann leiðréttir mig þá, ef hann er mjög harður á þessu ákvæði. Það sparast ákveðin upphæð í þessu skyni, en ég hefði óskað eftir því, a.m.k. persónulega, að ég fengi ljósrit af þeirri skýrslu sem hann las upp hér áðan, a.m.k. að hún yrði lögð fram á nefndarfundi. Ég held að við séum að skapa hér ákvæði, sem geti dregið leiðindadilk á eftir sér og er ekki æskilegt að setja inn í löggjöf, jafnvel þó að viss rök, eina og hæstv. ráðh. drap á, væru fyrir því að þetta væri sett fram. En það hefur slíka agnúa í för með sér, að ég lýsi algerri andstöðu við þetta ákvæði og mun leggja til í n., að það verði fellt út, — vil lýsa algerri andstöðu við það.

Svo hefur það komið upp, sem hæstv. ráðh. er manna fróðastur um, að fyrir liggur beiðni hjá Hitaveitu Reykjavíkur — ég held að ég fari rétt með það — um 30% hækkun, svo að eðlilegur framkvæmdahraði geti átt sér stað í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði og þeim áætlunum, sem gerðar voru, yrði lokið í árslok 1976 um hitaveituframkvæmdir á þessu svæði. Hér er mikið vandamál á ferðinni. Hitaveita Reykjavíkur telur sig þurfa á þessari hækkun að halda og rökstyður það, sjálfsagt á margvíslegan hátt og með góðum rökum. En á það er að líta að þessi hækkun hefur í för með sér um 2.7 stiga hækkun á framfærsluvísitölu og um 1 stigs hækkun á launavísitölu, svo að hin pólitíska ákvörðun varðandi að samþykkja þessa hækkun er ekki létt fyrir hæstv, ríkisstj. Það virðast því ekki miklar líkur fyrir því, að eðlilegur framkvæmdahraði geti átt sér stað á þessu mjög svo þýðingarmikla svæði, sem er þó óhjákvæmilegt að eigi sér stað, því að það er eins og við fyndum olíu sjálfir að geta tekið heita vatnið í notkun. Við höfum rætt þetta vandamál, þm. Reykn., við hæstv. iðnrh. og hann lýsti fullri samstöðu með okkar um að reyna að finna lausn á þessu máli. Þó að samningar um framkvæmd séu innbyrðis við Hitaveitu Reykjavikur gagnvart bæjarfélögunum hverju um sig, þá er þetta það stórt mál að það kemur inn í Alþ. óhjákvæmilega, vegna þess að hér er um lánsútvegun að ræða og vissa fjármögnun sem er stór í sniðum og það skiptir miklu máli, bæði fyrir hæstv. ríkisstj. og verðlagsþróun í landinu, hvernig þetta mál verður leyst.

Ég lýsi þeirri skoðun yfir eftir þeim upplýsingum sem ég hef, að það sé eðlilegt að fara hér blandaða leið. Það er óhjákvæmilegt að hækka nokkuð. Það má sjálfsagt velta vöngum yfir því, hve mikið það verður, en einnig þarf að útvega lán samtímis. Og það þarf að vera með góðum kjörum fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, því að ef ég man rétt lýsti forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur yfir því hér í haust, að það mætti ganga út frá því, að reykvíkingar gætu fengið um 11% lægra heitt vatn þegar þessi stóri notendahópur, sem væri í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði, væri kominn með, svo að hér er um geysilegt hagsmunamál að ræða og stórar upphæðir að ræða í olíueyðslu.

Svo er hitt atriðið, að c-liður í 2. gr.: „Til orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda,“ segir þar seinast. Þetta er afgangsfé, sem á að nota þegar frv. gerir ráð fyrir því að óbreytt tala verði greidd til jöfnunar á hitunarkostnaði, þá á að leggja afganginn í Orkusjóð. Hæstv. ráðh. sagði að Orkusjóð skorti verulega fjármagn. Þessum peningum er vel varið, ég dreg það ekki í efa, en eðlileg framkvæmd þessa máls hlýtur að vera að við fjöllum um vandamál Orkusjóðs í sérfrv. Fyrst við erum að fjalla um vandamál hans, á það ekki að vera sérstakur angi í öðru frv., sem er aðeins tímabundið til eins árs og leysir þess vegna þörf hans engan veginn, ekki með nokkru móti. Vanti Orkusjóð 100–200 millj. eigum við að fá endurskoðaða áætlum hans um jarðhitarannsóknir og framkvæmdir, vegna þess að við gengum frá því í sambandi við fjárlög að hann fengi allgóða hækkun til framkvæmda og rannsókna, og sé það of smátt skorið vegna ýmissa annarra atvika, þá vil ég sjá nýja áætlun frá Orkusjóði um þessi mál. Við getum afgreitt þau lög á stuttum tíma hér á Alþ., alveg eins. og við erum að afgreiða þessi lög, og það á að liggja ljóst fyrir hvar á að rannsaka, Ég man eftir beiðni fyrir Hitaveitu Akureyrar, væntanlega um 20 millj., sem ég studdi eindregið að kæmist í gegn og allir vilja að komist í gegn. Akureyrarbær og það hérað er það stórt, að það er geysilegt atriði að sá áfangi náist eða a.m.k .vitneskja um að hægt sé að fá nægilegt vatn frá Hveravöllum í Reykjahverfi. Það kostar auðvitað stórfé að rannsaka það. Á mörgum fleiri svæðum þarf að koma rannsókn við á sem skemmstum tíma. Nú kostar það verulega aukið fé frá því sem áætlað var fyrir jól, og þá vil ég sjá nýja starfsáætlun hjá Orkusjóði í því skyni, en ekki bæta við einhverju, sem við vitum ekkert hvað þýðir, bókstaflega ekkert hvað þýðir. Við eigum að fá hér 100 millj., 200, 300 eða 400 millj. Ég tel, að það sé ekki hægt að bjóða svona lausn — alls ekki. Og mér finnst þetta bera allt of mikinn keim af einhverju stjórnleysi, sem er ekki geðfellt. Þess vegna vænti ég þess, að menn gefi sér nægan tíma. Þó að ég fallist á að afgreiða frv. með skjótum hætti gegnum d. og gegnum n., finnst mér þetta alls ekki rétt vinnubrögð.

Það eru allir sammála um að það er fundið fé fyrir íslendinga að geta notað heitt vatn, og ég held, að það sé loforð nr. 1 eða því sem næst hjá hæstv. ríkisstj. að auka nýtingu innlendra orkugjafa. Það er enginn ágreiningur um það, hvorki á hv. Alþ. né meðal þjóðarinnar, að taka á sig vissar kvaðir og jafnvel stórlán í því skyni, vegna þess að enn eru blikur þar á lofti, að olían muni ekki lækka, jafnvel spáð hækkun enn þá, þannig að við sitjum í úlfakreppunni og verðum að mæta þeim vanda með sérstöku átaki. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé alveg réttlætanlegt, eins og ástrandið er í þjóðfélaginu í dag, að draga úr vegaframkvæmdum á yfirstandandi ári og færa ákveðið fjármagn þar á milli í orkurannsóknir og orkuvirkjum, vegna þess að þjóðin verður að lífa hér við sómasamlegan kostnað í lífsframfærslu og sætta .sig þá við það að vera eilítið lengur til Akureyrar eða hringveginn en ella í 1–2 ár, en gera sérstakt átak til að beisla innlenda orku og mæta þeim aukna kostnaði sem olían veldur okkur.

Það má segja að þetta sé ekki í samræmi við það sem þetta frv. boðar. En ég vil þá að það liggi alveg á hreinu frá minni hálfu hvaða afstöðu ég hef í því máli og minn flokkur. Við erum tilbúnir að fallast á millifærslu í því skyni. Þó að það komi misjafnlegra niður á kjördæmi, þá trúi ég ekki að það megi ekki velta vöngum yfir millifærslu frá vegakerfinu eða þeim fjármunum, sem í vegina fara, og ráðstafa því í orkuvinnslu. Hér er verið að leggja gjald á almenning í landinu til að skapa möguleika fyrir aukna innlenda orku, og ég veit ekki annað en almenningur taki á sig mikils gjöld í gegnum bílinn, í gegnum bensínið, sem fer með mismunandi hætti í gegnum kerfið, ríkissjóð og í vegaframkvæmdir. Og ég held að almenningur í landinu mundi sætta sig við það þótt eitthvert fjármagn yrði fært til til þess að mæta kostnaðarlið, sem hefur aukist verulega varðandi olíukyndingu húsa. Ég get þess vegna ekki sætt mig við að hafa þessa tölu óbreytta.

Ég get ekki sætt mig við að ákvæðið um dagsetningu varðandi tengingu á hitaveitu í hús sé í frv., því að ég óttast að það bjóði upp á misnotkun og jafnvel leiðindi, og við eigum ekki að afgreiða slík lög frá hv. Alþ. Einnig tel ég að sé vandamál Orkusjóðs svo mikið sem hér var gefið í skyn, þá eigi það að koma í sérstöku frv. inn á Alþ. og fjallað um það sem slíkt, og ég trúi ekki öðru en það fengi stuðning allra hv. þm., þar sem landsmenn allir eru sammála um, eins og hæstv. ríkisstj, hefur efst á sínum lista að aukning innlendrar orku eigi að hafa forgang um fjármagn og framkvæmdir í landinu.