25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og hæstv, ráðh. sagði áðan, munu ekki vera deilur um það út af fyrir sig að framlengja þetta eina söluskattsstig eða öllu fremur vil ég segja: það munu ekki vera deilur um að halda áfram niðurgreiðslu á upphitun með olíu og ná þannig nokkrum jöfnuði með þeim, sem búa við olíuhitun, og hinum, sem búa við jarðhita. Þetta held ég að allir séu sammála um, enda gera menn sér grein fyrir þeim gífurlega ójöfnuði sem ríkir. Nefndar hafa verið tölur. Ekki mun vera fjarri lagi með einbýlishús að olíuupphitunarkostnaður, miðað við verð sem var um síðustu áramót, sé hátt upp í 200 þús. kr. á ári. Birt hefur verið að upphitunarkostnaður í Reykjavík um áramótin hafi verið um 27% af upphitunarkostnaði í sambærilegu húsnæði með olíu. Þetta er svo gífurlega mikil byrði, að við erum allir sammála um að þessa byrði beri að jafna á einhvern máta. Sérstaklega er þessi ójöfnuður mikill fyrir þá sem búa úti á landi, því að staðreyndin er sú, að þrátt fyrir góðan vilja, sem ég efast ekki um, og mörg fögur orð hefur ójöfnuður vaxið, Við höfum t.d. hækkað söluskattinn hvað eftir annað, hann leggst á vöruflutninga, og mismunur á vöruverði hefur stórlega aukist. Það er ekki undarlegt þótt almenningur úti á landsbyggðinni furði sig á því, hvernig hann á að mæta þeim mikla mismun á lífskjörum og bera byrði þá, sem þarna er orðin, ekki síst með rýrnandi kjörum sem eru staðreynd. Nóg um það. Um þetta held ég að menn séu út af fyrir sig sammála.

Deilan í þessu sambandi stendur um það, eins og komið hefur fram hjá hv. ræðumönnum hvernig eigi að ráðstafa þessu söluskattsstigi. Í frv. er brugðið verulega frá því sem lagt var til og er í lögum sem samþ. voru 28. febr. á s.l. ári. Þegar þau lög voru samþ. var olíuverð á dísilolíu kr. 7.50 lítrinn. Það var það 8. 12. 1973, en hækkaði hins vegar 1. 3. 1974 upp í 11.50 kr. lítrinn. Yfirleitt mun hafa verið miðað við það verð, sem varð rétt eftir að frv. var samþ., þ.e.a.s. kr. 11.50 lítrinn. 19. 2. 1975 er sama olía seld á kr. 20.20 lítrinn. Þarna er því orðin gífurleg hækkun, þó að það sé eingöngu miðað við verðið kr. 11.60 1. 3. 1974. Ljóst er, að upphitunarkostnaður hefur hækkað að sama skapi, og ég leyfi mér að fullyrða að ójöfnuður milli þeirra, sem við þessi tvö kerfi búa, hafi aukist mjög verulega. Að vísu er ég ekki með tölurnar yfir hækkun á upphitunarkostnaði í Reykjavík, en eins og ég sagði áðan, þá er fullyrt að hann sé nú um 27% af upphitunarkostnaði í sambærilegu húsnæði með olíuhitun. Ef ég man þessa tölu rétt, þá var mismunurinn ekki svo mikill fyrir ári. Mig minnir að þá hafi hlutfallið verið eitthvað um 33%.

Þegar lögin voru afgr. í fyrra lágu fyrir ítarlegar tölur um þetta og vandlegur samanburður, m.a. frá forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar. Hér liggur ekki slíkur samanburður fyrir um ástandið eins og það er í dag. Og ég vil beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að slíkur samanburður verður að liggja fyrir áður en við getum ákveðið ráðstöfun á þessu eina söluskattsstigi. Ég vil að það komi greinlega fram, að ég get ekki tekið afstöðu með slíkri ráðstöfun sem hér er lögð til áður en ég sé slíkan samanburð og sannfærist um að sá ójöfnuður, sem orðið hefur, hafi ekki aukist.

Ég tel út af fyrir sig að það sé verðugt markmið að reyna að hraða hitaveituframkvæmdum. Og ég get vel hugsað mér að eitthvað af þessum tekjum renni smám saman til slíkra framkvæmda, t.d. ef það sýnir sig að með þessum 7 200 kr. náist svipaður jöfnuður og var þegar lögin síðustu voru samþ. Þá út af fyrir sig gæti ég samþykkt þetta, þó að ég telji það ákaflega ólíklegt og raunar sé víss um að það sé langt frá því að svo sé. En ef svo væri, þá gæti ég hugsað mér það. Ég get einnig hugsað mér að hlut þeirra sem fá hitaveitu, verði ráðstafað til þess að hraða framkvæmdum.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hér hefur komið fram, að mér sýnist það ákvæði að hætta að greiða styrk til þeirra, sem eiga von á hitaveitu á þessu tímabili, ákaflega erfitt í framkvæmd. Hvernig verður það hjá einu sveitarfélagi að ákveða að þetta hverfi skuli fá hitaveitu fyrir 29. febr. 1976, en hitt ekki? Það getur munað nokkrum dögum. Og það liggja núna fyrir áætlanir um það frá Hitaveitu Reykjavíkur, sem við hefur verið samið, að koma hita í nágrannahverfin — Kópavog, Garðahrepp og Hafnarfjörð — á ákveðnum tíma. En mér sýnist ekki betur en að þær áætlanir séu allar að riðlast. Á að byggja þessa greiðslu á þessum áætlunum, eða ætlar hæstv. ríkisstj. um leið að ábyrgjast að hitaveita fáist á þessum tíma sem greiðslan er á byggð? Þetta er önnur veigamikil spurning. Ég fyrir mitt leyti væri stórum fúsari að fylgja þessari till. ef fyrir lægi slík ábyrgð, að ríkisstj. muni koma inn í málið og sjá til þess að framkvæmdum verði hraðað ef einhver dráttur verður á þeim, eins og nú hefur mjög legið í loftinu frá hendi Hitaveitu Reykjavíkur, því miður. Og ég vil taka fram, að ég er algjörlega ósammála þeim staðhæfingum sem komið hafa fram frá því fyrirtæki, en ætla ekki að fara út í það hér. Ég tel að það sé verið að blanda saman tveimur málum, sem alls ekki mega blandast saman.

Ég ætla ekki að segja um þetta mörg fleiri orð. Ég vildi á þessu stigi aðeins í fyrsta lagi lýsa eindregnum stuðningi mínum við áframhaldandi tilraun til jöfnunar á þessu sviði, en hins vegar miklum efasemdum mínum um þá skiptingu, sem hér kemur fram, og eindreginni kröfu minni um að fyrir liggi hér í d. ítarlegar upplýsingar um hvernig þessi samanburður er í dag áður en d. tekur endanlega afstöðu til málsins.